— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Skabbi skrumari
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skáldjöfur.
Pistlingur - 3/11/06
Saga Sannleikans II

Hér verður áfram rakin Saga Sannleikans, um vefsvæðið Baggalút og Gestapó. Vísað er í heimildir í gegnum tengla. Oft á tíðum vantar einhverjar myndir á þær heimasíður sem vísað er í, auk þess sem það kemur fyrir að tenglarnir verði óvirkir, vonandi verður það ekki algengt vandamál.<br />

Frumburður
(október 2001 - júní 2002)

Í október 2001 varð bylting í fjölmiðlun er hið stórglæsilega vefsvæði Baggalúts birtist almenningi í fyrsta sinn opinberlega. Aldrei áður hafði almenningur séð annað eins. Smekklegt útlit, skeleggur og réttur fréttaflutningur, frábærir pistlingar og sálmar sem snertu alla. Frosnar sálir hitnuðu og doði fábreytileikans gufaði upp sem nýfallið snjókorn í eyðimörk. Hér var greinilega á ferðinni eitthvað nýtt, eitthvað sem komið var til að vera.

Því miður fannst ekki heimild um það hvernig vefsvæðið leit út fyrstu mánuðina, en samkvæmt áreiðanlegum heimildum var það í upphafi svipað og það var í janúar seinna um veturinn. Eins og sést á þessu útliti þá var það nokkuð frábrugðið því sem nú er. Aðalsíðurnar voru:

FRÉTTIR – þar sem sannarlega sannar fréttir birtust (það efni geturðu nálgast á núverandi Fréttasíðu).
GESTAPÓ – þar sem gestir Baggalúts gátu sent inn sínar hugleiðingar, en ekki svarað öðrum hugleiðingum eins og síðar átti eftir að verða, nema þá með því að senda inn nýja hugleiðingu, Ritstjórn gat þó svarað einstökum innleggjum (lítið er til í heimildum um Gestapó, hér má þó sjá þá elstu sem ég fann).
PISTLINGAR – þar sem Ritstjórn sendi inn pistlinga sem voru upplífgandi eða niðurdrepandi eftir því hvernig lá á Ritstjórn (það efni geturðu nálgast í núverandi Lesbók).
FYRIRSPURNIR – þar sem gestir Baggalúts gátu sent inn fyrirspurnir um allt milli himins og jarðar, þá eins og nú svaraði Ritstjórn einungis því sem skipti máli (mjög lítið er til um heimildir um Fyrirspurnir og hættu skyndilega að virka þeir tenglar sem ég fann).
LJÓÐ (síðar SÁLMAR) – þar sem Ritstjórn sendi inn hugljúfa sálma og ljóð (það efni geturðu nálgast í núverandi Lesbók).
ÚTGÁFA – þar sem finna mátti upplýsingar um skáldverk, fræðibækur, ljóðasöfn og aðra útgáfu Ritstjórnar (það efni geturðu nálgast í núverandi Menjasafni).
UM BAGGALÚT (á sumum síðum STARFSMENN og sumstaðar RITSTJÓRN)– þar sem Ritstjórnin er kynnt, helstu afrek þeirra tíunduð og fleira.

Ýmiskonar aukaefni má sjá á forsíðunni, eins og upplýsingar um íslensk ofurmenni, samkeppnina um ungfrú islam.is og þrífarana sígildu sem flestir kannast við, það allt geturðu nálgast í núverandi Menjasafni.

Eftir áramót bætist síðan við liður sem heitir DAGBÆKUR en svo ég taki orðrétt það sem stendur um dagbækur:

<center> Hér má lesa dagbókarfærslur baggalútsmanna. Þetta eru gjarnan stuttar hugleiðingar um lífið og jafnvel tilveruna. Það er þó rétt að athuga að skoðanir einstakra starfsmanna þurfa ekki að endurspegla skoðanir Baggalúts. </center>

Þess ber að geta að nálgast má dagbókarskrif Ritstjórnar í núverandi Menjasafni. Þar fengum við almúginn í fyrsta skipti að kynnast persónunum á bakvið Sannleikann og hvernig lífið gekk fyrir sig á ritstjórnarheimilinu.

Við breytingar þær eins og að bæta við dagbókum þá heldur Baggalútur áfram að þróast, en engar stórvægilegar breytingar eru gerðar á útlitinu.

Það er þá kannske ekki úr vegi að kynna Ritstjórnina. Hverjir eru eiginlega mennirnir á bak við Sannleikann?

Ritstjórn hefur verið eins frá upphafi og lagt er til að allir leggi nöfn þeirra á minnið, því fátt er neyðarlegra en að gleyma því hverjir standa að baki Baggalút. Dr. Herbert H. Fritzherbert, Enter, Kaktuz, Myglar, Númi Fannsker og Spesi (ekki fundust tenglar sem kynntu Herbert, Enter og Kaktuz og þeir verða því kynntir betur í næsta félagsrit sem fjallar um veturinn 2002-2003).

Snemma bar á öfund annarra fjölmiðla eins og sjá má í frétt frá því í október 2001 og greinilegt að ekki hafa allir fjölmiðlar tekið samkeppninni með opnum huga. Dylgjur koma fram víða, þar sem fréttir Baggalúts eru dregnar niður í svaðið. Því var að sjálfssögðu ávallt svarað af hörku eins og sést í frétt sem birtist í nóvember 2001.

Eitt elsta efnið sem ég fann við heimildarleit mína (og ég hef ekki rekist á á núverandi heimasíðu) virðist frá því í desember 2001, en þar er minnst á Aquatic Film Festival (vatnskvikmyndaveisluna), þar sem tilkynnt er hverjir eru tilnefndir til Golden Trout verðlaunanna. Fróðlegt væri að frétta hver hlaut Golden Trout verðlaunin (hinn gullna silung) í mars 2002.

Jólalag Baggalúts 2001 kom út fyrir jól 2001 og æ síðar hefur Baggalútur staðið fremstur meðal jafningja í útgáfu jólalaga og annarra hátíðarlaga. Það er hægt að nálgast það lag ásamt öðrum lögum í menjasafninu.

Baggalútur hefur ávallt verið framarlega í að þefa upp bréf sem hafa sögulega þýðingu, sem dæmi er hér bréf eftir Halldór Laxnes. Það er hægt að nálgast það bréf ásamt öðrum bréfum í menjasafninu.

Samhverfur hafa ætíð tengst Baggalúti órjúfanlegum böndum og ætíð bætast við fleiri og fleiri samhverfur, hægt er að nálgast þær í núverandi menjasafni.


Nú er kannske rétt að minnast á Gestapó, en ætlunin var að fjalla um það samfélag lítillega samhliða sögu Baggalúts.

Þess skal getið að sá er þetta skrifar las vissulega Gestapó þennan fyrsta vetur, en sökum óttablandinnar virðingar við Baggalút hafði hann ekki kjark í sér til að skrásetja orð sín fyrr en um haustið 2002 þ.e. eftir fyrsta sumarfríið og þegar nýtt útlit er komið á Baggalútinn, þá í formi fyrirspurnar sem eins og kemur fram hér á eftir var ekki hluti af Gestapó.

Mikill munur er á uppsetningu Gestapó fyrstu misserin miðað við það sem þekkist nú. Þá voru tvö svæði þar sem maður gat tjáð sig á, annað hét Gestapó en hitt hét Fyrirspurnir. Eins og allir vita þá er Fyrirspurnarsvæðið orðið að undirsvæði Gestapó og þá eins og nú er það eingöngu Ritstjórn sem getur svarað Fyrirspurnum og því er það heiður nú eins og þá að fá svar við fyrirspurn. Til að senda inn innlegg í Fyrirspurnum, þá þurftirðu að fylla út eyðublað, glugginn fyrir Gestapó var svipaður útlits.

Samkvæmt munnlegum heimildum var annað innleggið (og ekki frá Ritstjórn) í Gestapó frá president og var einfaldlega „znilld“.

Svo nefndir séu einhverjir nafntogaðir Gestapóar sem skráðu sín orð á Gestapó þennan fyrsta vetur má nefna Tony Clifton (sem var þó ekki til vandræða þann vetur eftir því sem ég best veit, síðar átti hann eftir að mála Gestapó með ófögrum litum). Hann kunni að vísu ekki íslensku í fyrstu og má sjá hér elsta innlegg hans sem Enter varðveitti og veitti mér aðgang að:

Tony Clifton 30/11 2001:
Huhhh, what a bunch of wannabee's

But you guys might be brilliant!

Possible to write up a couple of cronicles and submit to you folks?

tc

Spesi svaraði:
[Vi snakker slet ikke italiensk, mister Clifton. Venligt skriv islansk eller dansk. Við skiljum eigi ítölsku, mister Clifton. Vinsamlegast skrifið á íslensku ellegar dønsku. SPS]

Ívar Sívertsen birtist líka (undir dulnefni að vísu), þá mættu bæði Blástakkur og Hakuchi og má því með réttu segja að þennan vetur hafi nokkrir af máttarstólpum Gestapó verið mættir. Fleiri gætu hafa skáð inn innlegg og þá hugsanlega undir dulnefnum. Hvort Haraldur sá er skrifar hér er Haraldur Austmann veit enginn (nema Haraldur sjálfur kannske).

Upphaflega var Gestapó eins og hver önnur gestabók, í praktís allavega. Þó var blæbrigðamunur á strax í upphafi. Aðalmunurinn fólst að sjálfsögðu í því að þeir sem lesa Baggalút eru vitaskuld sannleiksleitandi fólk og fyrir vikið eru þau sem skrifa í Gestapó almennt skynsamara en annað fólk. Vissulega koma fram svartir sauðir annað slagið og má sem dæmi nefna það að í febrúar 2002, var Gestapó lokað sökum svívirðinga er fóru að birtast á Gestapó (samkvæmt sögusögnum var um að ræða fyrsta gelgjuinnrásina og líklegt að einstaklingar frá H***.is hafi verið þar á ferð).

Hér má sjá harðort svar Núma við innleggi nokkru frá því í febrúar 2002:

[Ég vil biðja gesti okkar að sýna aðstandendum og öðrum gestum Baggalúts þá kurteisi að menga ekki vefinn með klámi á borð við það sem hér hafði verið komið fyrir og minni á að Baggalútur nýtur vinsælda hjá öllum aldurshópum. Vissulega voru hér myndir af stæltum og huggulegum karlmönnum, býsna vel teknar margar hverjar, en viðfangsefnið var sannarlega glímubrögð holdsins og slíkt sómir sér ekki hér. Ég ítreka því við samkynhneigða gesti okkar eins og þann sem hér kallar sig "sf" að þeir noti ekki vef Baggalúts til að dreifa sínum fagnaðarboðskap, til eru betri og áhrifaríkari leiðir til þess. - NF]

Einnig höfðu aðrir gestir áhyggjur af þessu eins og sjá má á eftirfarandi færslu:

Ívar Sívertsen (reyndar undir dulnafni) 6/2 2002:
Ágætu Baggalútar. Ég er verulega miður mín yfir þeirri staðreynd Gestapó og Fyrirspurnum skuli hafa verið lokað sökum hryðjuverka. Ég vona að þessir hlutar Baggalúts komist sem fyrst í gagnið á ný því að það gerðist oft margt skemmtilegt á þeim bæ. Bestu baráttukveðjur.

Eins og komið hefur fram, þá eru litlar heimildir til um Gestapó, en þó má geta þess að með lestri áðurnefndrar Gestapófærslu, þá má sjá að Baggalútur hefur verið kosinn vefur vikunnar (sjá neðst á síðu), Núma þótti ekki mikið til þess koma.

Elsta Gestapófærslan sem heimildir fundust um var frá því í janúar 2002, misgáfulegt vissulega eins og jafnan er á Gestapó enn þann dag í dag.

Ekki er úr vegi að sýna ykkur innlegg sem Enter sendi mér frá því um veturinn 2001-2002, konungurinn sjálfur mættur:

Hakuchi 7/5 2002
Ég vil beina gagnrýni minni að slælegum vinnubrögðum kvikmyndarýnis ykkar. Sá heitir Indriði Greipsson. Í umfjöllun hans um köngulóarkallinn (ég gef umfjölluninni **1/2)verður honum illilega á í messunni þegar hann leitast við að afvegaleiða lesendur sína með því að reyna að sannfæra þá um að sá dygðumprýddi hæfileikamaður Sam Raimi hafi leikstýrt skólpsdramanu Flintstones. Það eru lygar og óverjandi ærumeiðingar af hans hálfu. Hr. Raimi hefur aldrei leikstýrt öðru eins á glæstum, en mistækum, ferli sínum. Vil ég að Indriða verði refsað grimmilega fyrir slíkar dylgjur ásamt því sem hann biðji þjóð sína afsökunar á því að hafa reynt að leiða yfir hana annan eins kommúnisma. Iðrastu, flón, iðrastu!

Spesi svarar:
[ Kæri Hakuchi. Slæmt er það þegar rangt er vitnað í mann og orð lögð manni í munn. Hvergi nokkurs staðar í grein Indriða kom fram að listamaðurinn Sam Raimi hafi leikstýrt verkinu Tindursteinar. Orðrétt segir í gagnrýninni: "... Sam Raimi sem á að baki uppfærslur á borð við [...] hina ógleymanlegu 'Tindursteina' (the Flintstones)".
Vil ég því biðja yður að kynna yður verk téðs listamanns hér, éta ofan í yður þennan misskilning yðar og, í framhaldi af þessu, athuga mál yðar betur áður en þér geysist næst fram á ritvöllinn. - SPS ]

Númi tekur undir:
[Heyr, heyr!
Það má segja margt misjafnt um Indriða, hann er t.d. mannhatari, andfélagslegur uxi og drykkjurútur, en hann þekkir sína leikstjóra; það verður ekki af honum skafið! -NF]

Svaraði þá Hakuchi um hæl:
Ég biðst forláts á svo til óafsakanlegu framferði mínu gagnvart Indriða Greipssyni. Ljóst er að ég ef, af hvatvísi og flónsku, mistúlkað skrif hans all illilega. Vissulega á hr. Raimi á bak við sig uppfærslur eins og Darkman og Flintstones. Munurinn er hins vegar sá að hann var víst leikari í þeirri síðarnefndu en leikstjóri þeirrar fyrstnefndu. Að vísu kemur það fram í upphafi setningarinnar, þar sem vísað er í téðar uppfærslur, að hann vilji minnast á leikstjóra sýningarinnar. Hef ég í flónsku minni talið að hann hafi verið að minnast á leikstjóraafrek viðkomandi þegar hann minntist á Flintstones. En að sjálfsögðu er aldrei tekið beint fram að hann hafi leikstýrt þeim óleik. Að svo skrifuðu er ljóst að Indriði er fullkomlega saklaus af fyrrnefndum ásökunum mínum. Hins vegar er því ekki að neita að orðalagið er misvísandi og má ætla að margur sauðurinn hafi látið glepjast í að halda að hr. Raimi hafi leikstýrt áðurnefndum viðbjóði. Með von um fyrirgefningu, Hakuchi san.

Enter svaraði því:
[ Ég hef nú sjálfur aldrei fengið neina lógík út úr skrifum þessarar fyllibyttu, þannig að vertu ekkert að afsaka þig - maðurinn er náttúrulega óskrifandi - ETR ]

Í júlí 2002 fer Baggalútur í langþráð sumarfrí.

Margir hvá sjálfssagt við að heyra nafnið Indriði hér fyrir ofan, hver var Indriði eiginlega? Það mun koma í ljós í næsta félagsriti. Þá verður einnig komið nýtt útlit á Baggalút og nýr kafli í sögu sannleikans með auknum heimildum og meira stuði.

Skál
Skabbi

p.s. birt með fyrirvara um staðreyndavillur og annað slíkt...

   (118 af 201)  
4/12/04 05:01

Nornin

Meistaraverk... eins og allt sem frá þér kemur. Gaman fyrir okkur sem nýrri erum að lesa þetta sögulega yfirlit.

4/12/04 05:01

Vamban

Þú verður marg aðlaður, baðaður og skýrður í Ákavíti Skabbi minn. Stök schnilld! Skál og margfalt húrra! Bravó Bravissímó!

4/12/04 05:01

Heiðglyrnir

Skabbi minn, vinnan sem að þú leggur í þetta, maður lifandi. Ótrúlega mögnuð samantekt, glæsileg vinnubrögð.
Riddarinn með vinsemd og virðingu þakkar þér Skabbi minn fyrir sig. SKÁL...

4/12/04 05:01

Órækja

Glæsilegt, ný bók í jólabókaflóð 2005 er að fæðast.

4/12/04 05:01

Vladimir Fuckov

Vá... þjer verðskuldið risasundlaug fyllta af ákavíti fyrir þetta (og það sem á undan er komið), svo og eitthvað samsvarandi bókmenntaverðlaunum Nóbels en í þessu tilviki þá á sviði baggalútískra fræða. Og nú er maður farinn að muna óljóst eftir sumu er þarna er minnst á. Skál ! [Sýpur á fagurbláum drykk en verður hugsað til þess að venjuleg skál er of lítil til að rúma heila sundlaug af ákavíti]

4/12/04 05:01

Hakuchi

Gaman að sjá margra ára skrif eftir sjálfan sig. Mér hefur farið aftur.

4/12/04 05:01

Mjákvikindi

Sammála öllum ofangreindum. SKÁL.

4/12/04 05:01

Enter

Unaðsleg skrif Skabbi minn kær. Þú verður tvímælalaust fyrsti Gestapóinn til að vera stoppaður upp. Skál!

4/12/04 05:01

Vladimir Fuckov

Og svo skemmtilega hittir á að einhver Íslendingur varð nýlega heimsmeistari í uppstoppun [Starir þegjandi út í loftið]

4/12/04 05:01

kolfinnur Kvaran

Enn og aftur sýnir Skabbi hversu vænt honum þykir um lútinn í verki. Mikið afrek, þína skál.

4/12/04 05:01

Númi

Frábært. Húrra fyrir Skabba!

4/12/04 05:01

Limbri

Muniði eftir Spur ?

-

4/12/04 05:01

Skabbi skrumari

Ég þakka allt oflofið hér fyrir ofan... en hvað segja þeir sem muna þetta vel... eru einhverjar staðreyndavillur á ferðinni hjá mér...

4/12/04 05:01

Limbri

Ég segi að það vanti að árétta hvursu mikill séntill var á ferðinni hér á árum áður. Má vel merkja dæmi þess í gömlum skrifum Hakuchi (og fleiri ef gætt er að).

Annars er þetta alveg hreint ágætt, vekur smá fortíðarþrá... líkt og Spur.

-

4/12/04 05:01

Skabbi skrumari

Kannske maður bæti við smá umfjöllun um það í næsta félagsriti... takk Limbri...

4/12/04 05:01

Vladimir Fuckov

Oss finnst sjentill hjer ennþá, a.m.k. miðað við annarsstaðar. Hann hefur að vísu kannski eitthvað minnkað eða að gestir eru svo 'samdauna' honum að þeir taka eigi eftir honum. En oss finnst hann a.m.k. meiri nú en fyrir fáeinum mánuðum og er það vel [Ljómar upp]

4/12/04 05:01

Hakuchi

Já. Sjéntíll er á uppleið. En betur má ef duga skal. Maður sér að séntíllinn var nokkuð ríkari í skrifum þá til dags. Amk. er ég löngu hættur að nenna að vera svona kurteis og ég var í þessu kommenti. Best að reyna að gera betur.

4/12/04 05:01

Bismark XI

HAHAHA. Þetta var gaman að lesa og fræðandi á maran hátt. Ef mér skjátlast ekki þeim mun meir þá sá ég þarna einhvers staðar fornt innleg eftir mig undir leyninefni. HEHEHE.
Gamlar og góðar minningar. Sönn nostralgía.
ÞAKKA ÞÉR FYRIR SKABBI. SKÁL!

4/12/04 05:02

Vímus

Magnaður fróðleikur. Þú varpar alveg nýju ljósi á þennan furðulega vef sem gripið hefur mig þessum heljartökum. Hafðu bestu þakkir fyrir og að sjálfsögðu:- Salute!

4/12/04 06:00

Glúmur

Sæll vertu Skabbi, sagnaþulur Gestapó, þína skál!

4/12/04 06:01

Júlía

Stórvirki, Skabbi minn.

4/12/04 06:01

Smábaggi

Ég held ég hafi notað um það bil 15-20 dulnefni á þessum tíma eftir að ég rakst á Baggalút (2002-2003, ekki viss).

4/12/04 07:00

Heiðglyrnir

Var að velta fyrir mér Skabbi minn, hvað er komin mikill tími í þetta verk hjá þér. ? Það eru örugglega ófáir klukkutímarnir.?

4/12/04 07:01

Skabbi skrumari

Ef ég myndi gefa það upp, þá yrði ég umsvifalaust stimplaður geðveikur... og ég vil ekki að það komist upp strax... jú þeir eru ófáir

4/12/04 07:02

Heiðglyrnir

Síst viljum við það, ekki orð um það meira.

4/12/04 08:00

Skabbi skrumari

Næsti skammtur ætti að koma fljótlega... ef ekki í kvöld þá í fyrramálið...

2/11/04 17:02

Fáfróði Jobbi

ég skil.

Skabbi skrumari:
  • Fæðing hér: 11/8/03 13:32
  • Síðast á ferli: 29/8/22 11:54
  • Innlegg: 6959
Eðli:
Forstjóri ÁTVB (Áfengis og TóbaksVerslunar Baggalíu). Skabbi er hér skrítinn fír skálar hann í flýti karpar mikið drykkjudýr drekkur Ákavíti Með friðargæslu gerir hann grikk þá ljótukalla hákarla að kæsa kann og kasta upp á hjalla
Fræðasvið:
Er smáfróður um allt, en stórfróður um fátt. Þykist hafa vit á öllu, en veit ósköp lítið um allt...
Æviágrip:
Alinn upp á Baggalút, fékk kaplakóbaltmjólk í stað brjóstamjólkur, auk þess sem hann drakk kúmenaldinsafa í frumbernsku. Þótti frekar lítill og óárennilegur í æsku og á harðindatímum seinustu aldar lá við að Skabbi myndi ekki hafa það af... Fyrir algjöra glópaheppni var hann eitt sinn að laumast í hákarlalýsistunnuna út við verkfæraskúrinn og hafði Vargur Vésteins skilið eftir opna Ákavítisflösku ofan við tunnuna og hafði hún lekið í heilu lagi niðrí tunnuna... Fyrir vikið smakkaði hann Lýsisblandað Ákavíti í fyrsta skipti... Jókst honum kraftur, auk þess sem það fór að renna upp úr honum ýmiskonar klámvísur og níðvísur og hefur hann ekki horft til baka eftir það... Hefur löngum þótt ódæll og erfiður viðureignar en fékk þó sökum klækja og mútubragða Friðargæslustól hér á Gestapó og notar hann öll tækifæri til að misnota þá aðstöðu. Hann Skabbi er einnig þekktur fyrir að misnota kvæði sín á ýmsan hátt... sumir kalla hann kvæðaníðing hinn versta... auk þess sem það er fáheyrt að annað eins skrípi geti ort kvæði sem getur ekki komið frá sér óbrenglaðri setningu... Húmor takmarkaður, en húmorast þó. Æviágripið er í sífelldri endurnýjun...