— GESTAPÓ —
Nornin
Heiðursgestur.
Dagbók - 1/12/08
Talnaspá ársins

Leggðu saman fæðingardag þinn og ár. Leggðu þversummuna saman þar til þú stendur uppi með einn tölustaf (nema ef þú færð út 11 á einhverjum tímapunkti). Dæmi: 17.06 1944 = 5

Ásinn:
Eins og venjulega mun árið snúast um þig. Þú álítur þig upphaf, miðju og endi alls, aðrir eru yfirleitt ósammála.
Þú ert samt uppfinningamaður og einstakur karakter... ekkert hjarðeðli er í þér að finna, enda hefur þú hingað til hvorki átt flatskjá né jeppa.
Í upphafi árs sérðu hinsvegar þetta fína tilboð og skellir þér á jeppa þar sem engin annar á svoleiðis hvort eð er lengur.

Tvisturinn:
Þú ert viðkvæm sál, þolir ekki hávaða og læti, hvað þá ósætti. Mótmæli ársins munu fara verulega í taugarnar á þér og gæti febrúar hafist á innlögn á Klepp.
Ekki örvænta, þjóðin er gleymin og mótmælin verða búin í apríl.
Á sama tíma og stað muntu kynnast ástinni sem verður, ef stjörnurnar lofa, líka tvistur.

Þristurinn:
Þú ert eins og lítill krakki, hefur gaman af að leika þér og ærslast. Þú ert fullur af innblæstri í upphafi árs, en þegar Nýlistasafnið neitar að taka við verkum frá þér, sleppir þú listagyðjunni lausri og ferð að krota á opinberar byggingar.
Þú verður í fangelsi frá 28. júlí til ágústloka og missir þar af leiðandi af verslunarmannahelginni, aftur.

Fjarkinn:
Hagsýnin er gjörsamlega að drepa þig, svo þú flytur alla fjölskylduna með þér á eyðibýli í Rangárvallasýslu. Hænur, kindur, kýr og hestar fá gott heimili hjá ykkur. Sjálfsþurftarbúskapurinn gengur vel þar til nágranninn fattar að þú ert að stela rafmagni af honum og klippir á línuna til ykkar.
Engin á heimilinu þolir internetleysið og í maí flytur þú í Kópavoginn.

Fimman:
Þú ert frábær sölumaður og nýtir þér "ástandið" til að pranga hræódýrum Íslandsferðum inn á fólk í útlöndum.
Þú græðir á tá og fingri, með þeim afleiðingum að engin þolir þig lengur og Landcruiserinn þinn er ítrekað lyklaður.
Í byrjun júní gefstu upp, segist hafa farið á hausinn og kaupir þér Yaris.

Sexan:
Þú ert sexí sem endranær. Þú elskar alla og allir elska þig.
Verst að það skilar sér í kynsjúkdómi á vormánuðum og þér er skipað að lifa skírlífi fram í ágúst.
Þú brotnar niður eftir 3 vikur og táldregur lækninn þinn sem reynist vera í óhamingjusömu hjónabandi.
Þið nýtið ykkur þetta óvænta tækifæri og opnið sameiginlega ráðgjafaþjónustu sem býður upp á lækningu á kynsjúkdómum og kynlífsþerapíu.

Sjöan:
Þú ert andlega týpan og það verður eins á þessu ári.
Þú er heppnin uppmáluð í byrjun árs og spáir fyrir hálfgjaldþrota útrásarvíkingum sem aldrei fyrr.
Allir vilja vita hvað árið ber í skauti sér.
Eftir 6 mánuði ertu búin á því og segir bara öllum það sama.
Það kemst upp um þig og þú eyðir ágústmánuði í steininum með þristinum.

Áttan:
Þú vilt niðurstöður og þú vilt þær strax!
Í upphafi árs bankar Litháískur nágranni þinn upp á og segist vera að flytja aftur heim. Hann biður þig fyrir Rottweiler hundinn sinn og byssusafnið.
Þú tekur við hundinum og byssunum með það í huga að ráða forsætisráðherran og seðlabankastjóran af dögum.
En þar sem þú þrífst á peningum ákveðurðu að það sé hagkvæmra að selja byssurnar og láta einhvern annan um að sitja af sér dóm fyrir tvöfalt morð.

Nían:
Þú ert með of gott hjartalag.
Venjulega er komið fram í mars áður en einhver hefur notfært sér góðmennsku þína, en í ár verður það gert níunda febrúar.
Hættu að gefa fólki far, föt og mat. Það hefur ekkert upp á sig. Karma er kjaftæði og þú ferð hvort eð er til vítis fyrir hugsanir þínar um Brad Pitt og Angelinu Jolie.

Ellefan:
Þú hefur enga rökhugsun, ert feimna, stressaða týpan og skilur ekki heiminn, hvað þá landið.
Þú ert uppfull/ur af góðum fyrirheitum en gerir andskotan aldrei neitt.
Þetta ár verður alveg eins og síðustu fimm.

   (1 af 13)  
1/12/08 01:00

Garbo

Níunda febrúar já. Takk fyrir viðvörunina.

1/12/08 01:00

Regína

Ég skil ekki. Á að leggja saman (eins og í dæminu) 17+6+1944 =1967 með þversummuna 5;
eða 1+7+6+1+9+4+4 ( sem gefur sömu þversummu) ?

Skrýtið, þetta er eins með fæðingardaginn minn! Sama tala hvora aðferðina sem ég nota!

1/12/08 01:00

Upprifinn

Það er þá á hreinu ég er feimna stressaða týpan og geri aldrei neitt.

1/12/08 01:00

Herbjörn Hafralóns

Ég segi eins og Regína, ég botna ekkert í þessu.

1/12/08 01:00

Wayne Gretzky

1+7+6+1+9+4+4 = 32

3 +2 = 5

Einhvern veginn svona?

1/12/08 01:00

Vladimir Fuckov

[Kannar með fyrirvara um rjetta samlagningu hvort Litháar sjeu einhversstaðar í nágrenninu]

1/12/08 01:00

Villimey Kalebsdóttir

Nei.. neineinei.. þetta passsar engan veginn!

1/12/08 01:01

Nornin

Rétt krakkar mínir.
Held að það skipti ekki máli hvort þið leggið saman 1944+17+6 sem eru 1967 og svo 1+9+6+7 = 23 sem eru svo 2+3 = 5 eða hvort þið leggið saman 1+7+6+1+9+4+4 sem gefa 32 sem gefa svo 5.

Bæði ætti að skila þinni réttu tölu.

1/12/08 01:01

Hexia de Trix

Ég vissi nú alltaf að ég væri sjöa. Þannig að árið fer í að spá fyrir fólki? Nú, fyrst þú ert búin að spá fyrir mér þá get ég passað mig á þessu með að segja öllum það sama og þannig sloppið við fangelsið. [Ljómar upp]

En segðu mér Norna... sástu nokkuð hvað ég komst upp með að rukka mikið? [Glottir]

1/12/08 01:01

Regína

Þetta passar ekki, ég á ekki neinn Krúser! Og aldrei skal ég á Jaris.

1/12/08 01:01

albin

Ég spái því að all margar tölur verði negatívar á árinu.

1/12/08 01:01

Tigra

Merkilegt þá er líka hægt að reikna þetta: 1944+17+6 sem eru 1967, og leggja svo saman 19+67 sem eru 86 og leggja svo saman 8+6 sem eru 14, og fá svo 1+4 = 5.

Þetta virkar líka á minn afmælisdag.

1/12/08 01:01

Litla Laufblaðið

Víííí mér líst vel á mína. [Leikur sér og ærslast]

1/12/08 01:01

Fergesji

En litaspáin? Er hægt að fá húsbóndann til að varpa henni fram?

1/12/08 01:02

Kiddi Finni

Hexia, eigum við að stofna spástofu? Og stinga af svona fyrir Jónsmessu?

1/12/08 01:02

Villimey Kalebsdóttir

ÁTTA... ég er átta.. það passar ekki. Mér er ekkert vel við peninga. Ég vil sjá litaspánna..

1/12/08 01:02

Hexia de Trix

Kiddi mér líst vel á það. Hvernig væri að starfrækja spástofuna á Íslandi fram að Jónsmessu og flytja svo með starfsemina til Finnlands seinni helming ársins? Þá þyrfti ég reyndar að læra finnsku en það hefur hvorteðer verið á stefnuskránni lengi... [Glottir]

1/12/08 01:02

Ríkisarfinn

Það er rétt, ég hvorki átt jeppa né pönnukökuskjá.

1/12/08 02:00

Nornin

Ég, Vlad og Villimey... undarlegur félagsskapur það [glottir]

1/12/08 02:01

Þarfagreinir

Ég er sjöan. Allt í lagi að fara í steininn - ókeypis matur og húsnæði. Það munar um minna á þessum síðustu og verstu sko.

1/12/08 02:01

Ívar Sívertsen

ÉG er nía og mér gæti ekki staðið meira á sama um Brad og Angelínu!

1/12/08 02:01

Vladimir Fuckov

Farið þjer þá ekki einmitt til vítis fyrir að hugsa um þau og komast að þeirri niðurstöðu að yður sje sama um þau ? Það er nefnilega ekkert mál að hugsa um það sem manni er sama um [Glottir eins og fífl].

1/12/08 02:02

Grágrímur

4... kópavoginn... aldrei!

1/12/08 02:02

Offari

Ég fékk summuna 11 og það smell passar við mig. Ég þarf semsagt ekkert að gera þetta árið frekar en önnur ár.

1/12/08 03:00

B. Ewing

Ég er átta. Þetta stenst engan vegin elskan mín, ég færi sjálfur á skytteríð...

1/12/08 03:00

B. Ewing

Ætli ég reyni ekki að koma fram með litaspá fyrir árið, verst að ég hef mikið af efni í þetta ár og yrði væntnanlega að skera niður textann... [Sér fram á nær óyfirstíganlega skriftörn]

1/12/08 03:00

Einstein

Ég er víst ellefa, sem passar mjög illa við mig.

Þið eruð illa að ykkur í stærðfræði ef þið haldið að það skipti máli hvort reiknað er með degi + mánuði + ári eða hverri tölu fyrir sig.

Auk þess má henda út öllum níum við útreikninga þversummu.

1/12/08 03:01

Nornin

Guðum sé lof að þú ert þá hér til að leiðrétta okkur og benda á stórkostlega galla okkar í samlagningu.

1/12/08 03:01

Lokka Lokbrá

Ég er þristur og mig langar ekki í steininn nema í góðum félagsskap.

Nornin:
  • Fæðing hér: 3/11/04 22:45
  • Síðast á ferli: 6/9/13 18:44
  • Innlegg: 1651
Eðli:
Nornin er daðurdrós og duflar við allt karlkyns.
Fræðasvið:
Galdur og seiður.
Æviágrip:
Hún fæddist á fullu tungli og það hefur haft áhrif á hegðun hennar alla æfi.