— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Billi bilaði
Heiðursgestur og  sagnaþulur.
Sálmur - 5/12/08
Svörtuloft

Sonnettusveigur eftir eigin forskrift.<br /> <br /> Tekið skal fram að þetta er skáldskapur byggður á því sem höfundur hefur upplifað og meðtekið undanfarið.

1
Í svörtu húsi hefndin var svo ofin,
hefndin sem að keypt var dýru verði,
því ekki gekk að ganga fram með sverði,
gömul var ei ófreskjan, né dofin.

Samt stríðið þeirra staðið hafði lengi,
og stundum virtist öðrum ganga betur,
en húsráðandinn horfði fram á vetur
því heldur reyndist falla á hans gengi.

Hann bruggaði vélráð sem virtust ansi klók
og vættinum myndu örugglega granda
og sorgunum lyfta sem sest nú höfðu að.

En sígandi lukka fæst víst ei úr bók
og vönduðust ráðin þau vilja einnig stranda.
Víst er að hérna fór allt á kaf í tað.

2
Svo hátt var ætlun höggsins til að reiða
að hrynja myndu óvinarins stoðir.
En heiftin sem að hefndina við loðir
hafði aðeins sýn á veginn breiða.

Og því var enginn gaumur að því gefinn
hvort gæti höggið öðrum tjóni valdið
og lítið spáð hvort greiða þyrfti gjaldið
sem grimmdin krefðist þegar lenti hnefinn.

Samt eru dæmin sérstaklega mörg,
og sorglegt hve fáir skuli að þeim hyggja,
um það hvernig hefndin hittir fyrir sig.

Hættan er mikil að ganga fyrir björg
og sjálfur í stórgrýti lamaður að liggja,
ef lætur þú ofsann ríða þér á slig.

3
Að óvininum oft var reynt að sverfa,
með ýmsu því sem komist hafði á snoðir,
svo upp hann mætti sínar værðarvoðir,
vættar blóði, taka, burt svo hverfa.

En árinn reyndist alltaf hafa fléttu
og undan tangarsóknum ná að víkja,
og brátt hann virtist yfir öllu ríkja
sem áður taldist húsbóndans með réttu.

Og þetta að lokum lét hann á sig fá,
lúinn og móður höfðingi í felum,
allt skyldi því nú undir vera lagt.

Agni hann réði sem bölvun hvíldi á,
hagar svo til að dágott var það delum
sem drottna hér vilja með þrælapísksins magt.

4
Sá vargur sem að vakinn stóð og sofinn
að verja það sem upp hann náði að sötra
sig vildi síst í varanlega fjötra
vefja, og rýma stolnu glæsihofin.

Og því hann hafði húsbóndann í taumi
sem haganlega fyrir tókst að koma
og yfir kappans viti fór að voma,
hann vildi þannig tryggja sig í laumi.

En tvíbentur reyndist taumurinn og því
tekið var agnið sem banvænt skyldi vera.
Húsbóndinn glotti og hljóður áfram beið.

Hamslaus var græðgin þó agnið væri blý.
Það fannst bara einn sem á færið mátti skera,
já, foringjans vegur var nú hin eina leið.

5
Fólið varð nú furðanlega hissa
er fann sinn verk, já, alveg niður í maga,
hann óðar reyndi sjálfan sig að laga,
en sá að bragði að það væri skyssa.

Svo að því kom að aðstoðar hann beiddist,
og innan skamms til höfðingjans sér sneri,
í tauminn greip og að því öllum reri
árum að þannig úr slæmum vanda greiddist.

Víst er illt að vera hjálparlaus
á valdi þess sem óvinur skal teljast
og auðsveipur þar krjúpa á bæði kné.

Kappa mörgum sinni við því hraus
og heldur valdi að hrasa við og kveljast
og hanga af stolti á krossins þunga tré.

6
Agnið reyndist illþýðisins fjötur,
eitur dreifðist hratt til flestra lima.
Fljótlega þá fór honum að svima,
og fótur rann þó breiðar væru götur.

Hann út af beygði, út í kargann villtist,
já, óvinurinn hrasaði í þýfi,
í hræðslu við að ljúka myndi lífi
lá við að hann gersamlega trylltist.

En eitrið sem að um hans limi fór
er með góðum vilja hægt að skola
ef fljótt þú nærð að finna þann sem kann.

Vor Fáfnir þekkti hver hér var við stjór
en vildi heldur háðsglósurnar þola
og halda önd, því strax til fundar rann.

7
Húsið svarta heimsókn fékk að lokum.
Húsbóndinn bauð gestinum til stofu.
Skrímslið sem nú virtist líkjast vofu
vitið ekki lengur reiddi í pokum.

Er bónin kom var sem að jörðin syngi.
Hann sá nú hversu dregið var af lífi,
og þá var strax að hálsi brugðið hnífi,
„Hafðu þetta“ mælti kappinn slyngi.

Kutinn brýndi kubbaði í tvennt
hverja æð sem fyrir stóð í vegi.
Blóðið fossar; blæða skal nú út.

En bölvaldur gat um manninn klærnar spennt,
og blóð og hold sem brynja dugir eigi.
Báðir féllu þar við mikla sút.

8
Valdastólar vilja mörgum spilla.
Vont er það að sitja allt of lengi.
Það eyðileggur allra bestu drengi
sem eitt sinn vildu réttlætinu dilla.

Kappinn sem um svarta húsið skreiddist
setið hafði fast í langan tíma.
Hratt hann lagði hvern sem vildi glíma,
það húsbóndanum ekki nokkuð leiddist.

En óvinur sem aðrar leiðir fann
og óbeint vildi stólnum geta ráðið
ekki féll við fyrstu glímutök.

Flókið plott sem upp að lokum spann
röðull sá er reri fram í gráðið
reyndist verða beggja dauðasök.

9
Sníkjudýrin snjöll oft þykja vera
að sneiða framhjá vörnum sinna hýsla,
og oft þau við það ansi lengi sýsla
uns þau ná á sjálfstjórnina að skera.

Og húsið svarta hafði fáar veilur.
Það hrinti frá sér árásunum tíðum.
Sigur vannst í stórkostlegum stríðum,
styrkur þess var hafinn yfir deilur.

En sníkillinn hafði í húsráðandann krækt
og hugsaði sér að þannig mætti vinna,
er mótstaðan brysti og brautin yrði greið.

Bannsettur hafði hann kappann getað flækt
í vefinn sem lengi við hann sat að spinna.
Vongóður beið hann að merki kæmi um neyð.

10
Hefndin stundum höfðingjana blindar,
þeir hætta því sem aldrei skyldi fórna
og fólkinu sem fékk þá til að stjórna
feykja burtu styrjaldanna vindar.

Svo fór hér er sigur aldrei náðist
að sinnið brast og hefndin tók við völdum.
Að baki dyrum skreyttum skærum tjöldum
skugginn óx í huga sem að þjáðist.

Höfðingjans plön þau helst til urðu djörf
og hefndin varð eitruð, því líf úr báðum flæddi,
er stukku þeir saman og styrjöldinni lauk.

Það stuðaði fólkið sem hafði á því þörf
að áfram hann sæti og grillaði og græddi.
Grétu það allir er lukkan burtu fauk.

11
Þegar tröllin takast á í stríði
tjóar lítt af fólkinu að kvarta.
Í felur þá það flýr með ugg í hjarta
að flestum undan þessu lengi svíði.

Og risar þeir sem ráðin hér um börðust
reyndust báðir vera allt of harðir.
Með spörkum af sér sprengdu þéttar gjarðir.
Spöruð voru hvergi skotin hörðust.

Er runnu þeir saman, rosalegt varð at.
Risarnir særðu hvor annan banameini,
og fjörbrotin mögnuð felldu allt um kring.

Fátt mátti telja sem eftir þetta sat.
Enginn gat séð að steinn þar yfir steini
stæði. Nú verður ráð að finna slyng.

12
Drekar hafa dálæti á gulli
og dýrum gripum öllum vilja safna
og kröfum þeirra hart er mjög að hafna,
þeir hugum spilla oft með klækjabulli.

En kappinn sem hér klókur stýrði búi
krafta hafði mikla til að verjast.
Hann fyrr en varði bráður fór að berjast
gegn böli því sem ógnar hverju hjúi.

En drekinn var slyngur, hvert ráð sem til var tækt
hann tætti í sundur sem vopn hjá ungum snáðum.
Foringinn kvaldi því flétti plönin grá,

og fólkið á bænum sem landsins sinnti rækt
á húsbóndann trúði, og treysti fyrir ráðum,
því tjónið sem þruma kom heiðu lofti frá.

13
Á ögurstundu öllu varð svo lokið.
Óðir gengu berserkirnir saman.
Þeir lyftu vopnum ljótir mjög í framan
og ljóst var nú í skjólin öll var fokið.

Af fullu afli beittu sínum bröndum
banamenn sem hvergi vildu eira.
Á lofti mátti líta fjölda geira
sem léku þar í reynslumiklum höndum.

Upp úr sér drekinn loks eitri miklu spjó
en örmagna kappinn hans hjarta á sverðið þræddi
og fjöllin þau hrundu er féllu báðir þar.

Fólkið sem nærri átökunum bjó
í hruninu lenti og lítið minna blæddi,
þó lífi það héldi, í rúst þess framtíð var.

14
Illskan virðist eigin lífi ráða
og auðveldlega þrælum til sín safnar.
Í myrkrinu hún magnast upp og dafnar
og manneskjurnar hvetur æ til dáða.

Þeir sem hennar þjónar gerast vilja
þurfa allir sálina að kveðja.
Þeir umbreytast og ekkert má þá seðja,
þeir eftir hérna sviðnar merkur skilja.

Með baugum dýrum bundnir voru þeir
sem barist höfðu um völdin allra mestu.
Illskan hafði eitrað veitt þeim þing.

Allir guldu er féllu báðir tveir,
nú lúkum um fólkið lokað var af festu
og líf þess var sogað í gullsins illa hring.

15
Í svörtu húsi hefndin var svo ofin
að hrynja myndu óvinarins stoðir
svo upp hann mætti sínar værðarvoðir
vefja, og rýma stolnu glæsihofin.

Svo að því kom að aðstoðar hann beiddist,
já, óvinurinn hrasaði í þýfi
og þá var strax að hálsi brugðið hnífi,
það húsbóndanum ekki nokkuð leiddist.

En sníkillinn hafði í húsráðandann krækt
og hefndin varð eitruð, því líf úr báðum flæddi,
og fjörbrotin mögnuð felldu allt um kring

og fólkið á bænum sem landsins sinnti rækt
í hruninu lenti og lítið minna blæddi
og líf þess var sogað í gullsins illa hring.

   (44 af 101)  
5/12/08 10:01

B. Ewing

Magnað. Las bara feitletraða hlutann í fyrstu umferð og hlakka til að heyra verkið flutt í heild sinni á Svörtu-mánudögum næstkomandi mánaðamót sepember/október í Hallgrímskirkju. Söngvarar verða þeir Garðar Thor Cortes og Dísella Lárusdóttir ásamt barnakórasambandi norðurlanda.

5/12/08 10:01

Þarfagreinir

Hvílík epík. Þetta á heima í sögubókum framtíðarinnar.

5/12/08 10:02

Skabbi skrumari

Algjör snilld - úrvalsrit.

5/12/08 11:00

hvurslags

Einn sá besti kvæðabálkur sem hingað hefur ratað inn.

5/12/08 11:00

Golíat

<Gapir orðlaus>
Skál!

5/12/08 15:01

Regína

Frábært, loksins þegar ég lagði í að lesa allan doðrantinn.

Hvílík elja í honum Billa!

5/12/08 23:00

Heimskautafroskur

það eru að verða tvær vikur og ég er bara hálfnaður. sem er ekki vegna þess að mér leiðist heldur af því að ég vil vanda mig og njóta. billi – ég er ekki frá því að þú sért bilaður. en helvíti er þetta flott!

5/12/08 23:00

Heimskautafroskur

má fara með þetta upphátt fyrir ókunnuga?

5/12/08 23:01

Billi bilaði

Já.

6/12/08 06:02

Z. Natan Ó. Jónatanz

Manni verður eiginlega barasta orða vant þegar svona stórvirki rekur hér á fjörur. Tek undir með hvurslags – þetta er sannarlega tignarlegur kveðskapur, & af áður óþekktri stærðargráðu hérumslóð.

8/12/08 04:01

Hvur andskotinn, þetta fór alveg framhjá mér í maí! En betra seint en aldrei - hlakka til að hefja lesturinn ... og e.t.v. ljúka honum.

Billi bilaði:
  • Fæðing hér: 19/9/06 13:06
  • Síðast á ferli: 7/3/24 12:25
  • Innlegg: 27978
Eðli:
Ég er Billi bilaði,
í bragfræði var slyngur.
En skáldgáfunni skilaði
og skipti fyrir glingur.
Fræðasvið:
Harmleikir.
Æviágrip:
Fæddur 10.12.2003 úr grjóni.
Eigandi og aðalleikari í Leikhúsi Billa bilaði (sem nú er komið úr Skrumgleypinum).