— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 2/12/04
Játningar þjúklings - á alvarlegri nótunum.

Þetta er skrifað fyrir hönd 33% þjóðarinnar. Ef þið eruð ekki þjúklingar sjálf þá er í það minnsta bókað að þið eigið einn slíkan heima eða í nánustu fjölskyldu ykkar.

Þriðji hver maður þjáist af einhvers konar geðrænum vandamálum - eða er gjúklingur (geðsjúklingur - svo að ekki sé verið að tala neitt undir rós) - stærstur hluti þessara gjúklinga á við einhvers konar þunglyndi að stríða. Sjálf er ég þunglyndissjúklingur - eða þjúklingur. Þetta er ekkert sem maður játar fyrir fólki úti í bæ - eða jafnvel sínum nánustu - en þar sem ekkert ykkar þekkir mig með nafni ákvað ég að láta vaða. Þetta þýðir þó ekki að ég sé eitthvað óeðlileg, skrýtin eða eigi eitthvað voða bágt yfirleitt. Svona er ég bara og vonandi hef ég marga góða kosti sem vega upp á móti.

Hjá ykkur, þessum 67% sem ekki eru gjúklingar, eru sumir dagar svartir og aðrir gulir. Svörtu dagarnir eru svosem slæmir en hjá okkur þjúklingum eru flestir dagar gráir. Gráir dagar eru verri en svartir dagar. Ef maður á svartan dag þá er oftast hægt að benda á orsök hans, gráta svolítið og leysa svo málin. Gráir dagar eru ekki þannig. Þá er í sjálfu sér ekkert að en allt er grátt, lífið tilgangslaust og allt óheyrilega erfitt - maður sjálfur óhæfur til allra verka og engum þykir vænt um mann.

Ég á oft gula daga; þá er ég dugleg, fer í langa göngutúra, kíki á kaffihús, elda mat, tek til og læri jafnvel (bara pínkupons samt). Í kjölfar þessara skærgulu daga koma svo oftar en ekki gráir dagar. Þá verður allt mjög flókið. Að fara út eftir sígarettum (og reykja þær) er þá oftar en ekki dagsstarfið. Það eru miklar og þungar vangaveltur um það í hvaða sjoppu eigi að fara og með hvaða korti eigi að borga. Oftar en ekki guggna ég svo á þessum bollaleggingum og bið einhvern góðhjartaðan vin minn um að renna við með pakka. Í dag er grár dagur. Ég get ekki neitt. Ég setti í þvottavél áðan og er bara helvíti stolt af því þrekvirki. Reikna ekki með að tæma hana fyrr en á morgun...Ég segi engum frá þessu ástandi mínu og það sér það enginn utan á mér. Ég er alveg eins og ég á að mér (eða eins og fólk heldur að ég eigi að mér) að vera - segi brandara og hvaðeina. Það er bara allt grátt.

En þessi pistill er ekki um mig - eða á ekki að vera það. Heldur var meiningin að koma með ráðleggingar til þeirra sem ekki eru þjúklingar um það hvernig er best að umgangast þjúklinginn sinn.

Ekki - og ég get ekki lagt nægilega ríka áherslu á þetta atriði - ekki og ALDREI spyrja þjúklinginn HVAÐ sé að! Það er yfirleitt EKKERT að - í það minnsta ekkert sem hönd er á festandi. Maður vaknar bara og dagurinn er grár. Þjúklingnum finnst hann eiga nógu erfitt með þessa daga þó að ekki sé verið að pirra hann með svona yfirmáta erfiðum og kjánalegum spurningum.

Hrósið þjúklingnum ykkar fyrir það litla sem hann gerir - ef hann hefur það af sjálfur að klæða sig og jafnvel fara í sturtu þá er það ofurmannlegt þrekvirki fyrir hann.

Ekki þusa yfir draslinu eða því sem þjúklingurinn ykkar ætti að vera búinn að gera eða lofaði að gera. Flestir þjúklingar gera sér grein fyrir ástandinu fyrr eða síðar (sér í lagi ef tekið er mið af notkun landans á þjúklingslyfjum). Flestir þjúklingar upplifa sig í köstunum sem mislukkaða starfsmenn, maka, foreldra, nemendur eða vini. Finnst þeir vera að bregðast. Ekki auka á þá tilfinningu.

Ekki fara með þjúklinginn ykkar eins og brothætt ungbarn. Ekki tala niður til hans eða sýna honum vorkunnsemi. Hann er sjálfstæð manneskja sem gerir sér grein fyrir skyldum sínum - og fúnkerar í samfélaginu (á milli kasta) - þó hann sé kannski ekki að fúnkera í augnablikinu.

Ekki - ALDREI - segja þjúklingi að "hressa sig við" og "hrista þetta af sér" - gráminn er svo djúpur og framtíðin svo tilgangslaus að svona hugmyndir eru fráleitar í eyrum þjúklingsis. Sýnið honum að ykkur þyki vænt um hann, bjóðið honum með ykkur í göngutúra eða bíó - en ekki leggja of hart að honum. Haldið ykkur frekar í bakgrunninum og þjúklingurinn leitar til ykkar þegar hann er tilbúinn.

Þunglyndi er raunverulegur sjúkdómur en ekki eitthvað sem fólk hristir af sér einn, tveir og þrír - sama hvað það langar til þess. Oft er gott fyrir þjúkling að draga sig til hlés (ef það er ekki alger einangrun) í einhverja daga meðan hann er að vinna úr málunum og safna orku. Að hitta vinina eða fara í partí er einfaldlega of erfitt.

Lesendum þessa pistils, ef einhverjir eru, vil ég svo þakka lesturinn.
Gangi ykkur vel og munið að gráir dagar taka endi eins og aðrir dagar.

   (87 af 114)  
2/12/04 23:01

Frelsishetjan

Þunglyndi er lífstíll.

2/12/04 23:01

krumpa

Ég veit það elskan - eins og svört föt, svart kaffi og sígarettur. Svo er líka fínt að yrkja ljóð inn á milli...

2/12/04 23:01

Nornin

Elsku Krumpa, ég skil hvernig þér líður, verandi aðstandandi nokkurra þjúklinga, og á það jafnvel til að sökkva ofan í dýpið stundum sjálf.
Það er vont að vera ofan í holunni en það er oft erfiðara að komast upp úr henni en að láta sig bara hafa það að dúsa í henni.

Gleðjumst yfir öllum "gulum" dögum (mínir góðu dagar eru sko bleikir) og gerum sem mest úr þeim...

Þú færð plús frá mér að viðurkenna þetta, það að horfast í augu við eiginn vanmátt er erfiðasta skrefið.

2/12/04 23:01

krumpa

Takk fyrir það Norn, hef reyndar verið á lyfjum sko - en það er bara plástur og gervilækning - held að þau séu ofnotuð og oftar en ekki er þetta eitthvað sem hægt er að vinna úr. Svo hafa lyfin þann leiðinda fylgikvilla að maður missir áhuga á kynlífi! (Léttist reyndar líka um 20 kíló á þeim - sem var fínt framan af - en kannski fullmikið af því góða...)

2/12/04 23:01

Fíflagangur

2/12/04 23:01

Fíflagangur

Iss, þunglyndi er nú bara fyrir einhverja þunglyndissjúklinga.

2/12/04 23:01

Heiðglyrnir

Kæra Krumpa viltu koma í bíó eða gönguferð, bara svona við tækifæri.

2/12/04 23:01

krumpa

Já takk! Bara hvenær sem er. Sér í lagi gönguferðirnar sem eru góðar fyrir sálartetrið en það gengur ekki sem skyldi að drösla Heittelskuðum úr sófanum...Þannig að þú bara nefnir tímann og staðinn!

2/12/04 23:01

Jóakim Aðalönd

Ég kannast við margt af því sem þú talar um krumpa mín. Ég á sjálfur svona gráa daga, en þeir eru sem betur fer ekkert sérstaklega margir. En það er rétt sem þú segir; öll él birtir upp um síðir.

...Og fíflagangur er bara fyrir einhver fífl. (Hoho)

2/12/04 23:01

Fíflagangur

2/12/04 23:01

Fíflagangur

Guðminnalmáttugur hvað allir eru eitthvað á trúnó hérna.

2/12/04 23:01

Dr Zoidberg

Er smá kvöldganga nokkuð nóg í þessu tilfelli eigum við ekki frekar að koma í alvöru fjallgöngu? Hvað segirðu um Hvannadalshnjúk?

2/12/04 23:01

krumpa

Hljómar stórkostlega - bara að það sé samt ekki mikið um þverhnípta hamra sem auðvelt er að fleygja sér niður af...

2/12/04 23:01

Dr Zoidberg

Ó, kannski bara einhver flatari fjöll...

2/12/04 23:01

St. Plastik

Þetta er góður pistlingur. Alltaf gaman að reyna skilja aðra. En ég verð nú að segja að ef þú skrifar svona langan og góðan pistil á gráum degi, væri fróðlegt að sjá hvað þú gerðir á gulum degi! Ekki nenni ég að skrifa svona mikið á gráum degi og þó er ég ekki þjúklingur, þó það breyti kannski ekki miklu. Gráir dagar eru gráir, hvort sem maður sé þjúklingur eða ekki. Eða hvað?

2/12/04 23:01

Lómagnúpur

Hefur einhver séð pípuna mína?

2/12/04 23:02

Skabbi skrumari

Já þakkir fyrir innsýn í heim þjúklinga... vonandi bætir Gestapó smá lit í gráa litinn þegar hann er sem gráastur...

2/12/04 23:02

Vladimir Fuckov

En væri þá ekki betra að hafa bakgrunnslitinn á Gestapó skærgulan ? Hann er nefnilega grár (reyndar í mjög ljósum gráum lit en samt grár).

3/12/04 00:01

Glúmur

Ákaflega gott félagsrit Krumpa. Þunglyndi er hlutur sem snertir alla, beint eða óbeint. Sjálfur á ég mína gráu, svörtu og kóbaltbláu daga en er þó fjarri því að telja mig þjást af þunglyndi.
Ég hef hinsvegar náin kynni af raunverulegu þunglyndi og ég get ekki brýnt það nógu mikið fyrir ykkur öllum að ef þið þekkið einhvern sem á aðallega gráa daga, þá gerið eitthvað með viðkomandi, og gerið það reglulega. ALDREI segja við ykkur "æ, ég er búinn að reyna en hann/hún vill bara aldrei gera neitt".
Reynið betur!

3/12/04 04:01

james dee

Þú kallar þig þjúkling,ert ekki að meina kjúkling ,ha ha ha ha ha ha

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.