— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 3/12/05
Böl eignarinnar

Eins og áður hefur komið fram er tölvan mín ónýt. Nú stend ég frammi fyrir erfiðustu ákvörðun lífs míns - að kaupa eða kaupa ekki - nýja tölvu.

Síðan tölvan mín dó hef ég unnið á borðtölvu sem helst á heima á minjasafni og þess á milli á vinnutölvu Heittelskaðs, þegar svo undarlega ber við að hann er heima.

Heittelskuðum, og hinum virðulega aldna zar, keisaraynjuföðurnum, finnst þetta ófært ástand og hafa nú sín á milli efnt til samskota svo að ný tölva verði keypt.

Þá kemur inn í þetta krísa Daníels. Ef þið þekkið ekki Daníel þá var hann aðalsöguhetjan í bók Jón Steinbekks, Tortilla Flat, eða Kátir voru karlar. Þessa bók las ég í frumbernsku og hefur hún haft áhrif á allt mitt líf. Daníel þessi var svo óheppinn að fá í arf tvö hús. Svo fór ábyrgðin að þrúga hann. Það er margt slæmt sem fylgir því að eiga hús. Það þarf að tryggja það, það getur hrunið, maður þarf að sjá um viðhald og svo eru endalausu áhyggjurnar af innbrotsþjófum og eldsvoðum. Daníel var ,,free spirit" og flækingur og gat ekki tekið gleði sína á ný fyrr en vinir hans höfðu verið svo elskulegir að kveikja í húsunum hans.

Svona líður mér. Það var alfarið mín sök að tölvan mín dó. Segjum að þið eigið barn - þið elskið auðvitað barnið og svona. Svo eruð þið einn daginn að sjóða graut og verðið fyrir því óláni að barnið dettur ofan í pottinn og deyr. (Hvort sem þið trúið eða ekki þá var íslenskt barn myrt með þessum hætti fyrir um 300 árum). Alla vega - þá er barnið dáið vegna hugsunarleysis ykkar - drífið þið þá í því að framleiða nýtt barn? Af því að það gekk nú svo vel með hitt.....??

Ef ég kaupi tölvu þá þarf ég að tryggja hana, ég má ekki skilja hana eftir eftirlitslausa á víðavangi, ég þarf að eldveggja hana og vírusverja, ég þarf að hlaða inn á hana Word og Excel.... er þetta þess virði?

Eignum fylgja alls konar kvaðir, það þarf að meta hvort eignin er virði kvaðarinnar. Heittelskaður er til dæmis æstur í að kaupa flatskjásjónvarp - svo að hann sjái jafnvel á sjónvarpið sama hvar hann situr í stofunni! Ég kem ekki auga á tilganginn, ætlar maðurinn þá að vera hoppandi um stofuna eins og kanína á spítti meðan hann horfir? Hann liggur hvort eð er alltaf eins og klessa í sömu stellingunni.... Svo er ekkert að gamla sjánvarpinu....

Bottom læn - er að hugsa um að kaupa bara alls ekki tölvu. Eignir binda mann og kvelja. Er auk þess ábyrgðarfælin og frídomm´s just anoþer wörd for nothíng left tú lús.

Verum frjáls ! Burt með ok eignarinnar!

   (54 af 114)  
3/12/05 14:01

Krókur

Ef þú vilt get ég komið og kveikt í gömlu tölvunni fyrir þig.

3/12/05 14:01

Heiðglyrnir

Krumpa mín, leyfðu nú manninum einu sinni að ráða. Flatsjónvarp það er málið. Svona gripur þarf að vera til í betri stofunni á hverju heimili. Kostar lítið sem ekkert miðað við þær ánægjustundir sem þú átt eftir að hafa af því, þegar þinn heittelskaði þarf að finna nýjan stað á hverju kvöldi til að sanna mál sitt. Já og tölvu líka, maður lifandi. Sko á raðgreiðslum og svoleiðið, er þetta bara ekkert mál. Muna bara að tryggja hana, ef að vinir þínir taka nú upp á því að kveikja í henni. (svona vinir)

3/12/05 14:01

krumpa

Þakka góða ráð - þið þekkið greinilega ekki Daníelskrísuna - lukkí bastards!
Finnst samt glitta í smávægilega kaldhæðni hjá riddaranum...en gæti skjátlast...
Held bara að við séum að gnaga fram af okkur á hlaupum eftir kaupum - ef það er til þá hlýtur mann að vanta það! Það tilkynnist hér með að ofanrituð á hvorki gaffallyftara né logsuðutæki...skítt það!

3/12/05 14:01

Nornin

Ég skil þig ákaflega vel Krumpa. Ég er sjálf með valkvíða, verslunarfælni og frestunaráráttu þannig að þessi Daníelskrísa er mér ekki óþekkt.
Ég myndi samt ráðleggja þér að líta framhjá okinu og kaupa nýja tölvu. Það er ekki hægt að bera saman hús og tölvu. Meðallíftími húsa er sennilega 50 sinnum lengri en tölvunnar. Meðal tölvan lifir ekki einu sinni fram á grunnskólaaldur, svo ekki er heldur hægt að bera hana saman við barn (engin 18 ára ábyrgð og svona).
Fáðu þér Acer, notaðu firefox og ekki skoða mikið klám. Þá þarftu ekki vírusvörn. Eldveggurinn er innbyggður í windows.
Tryggðu hana í gegnum bankann þinn, það ætti að vera ódýrt. Og svo færðu sjóræningja útgáfur af öllum forritum og þú ert í góðum málum.
Svona Krumpa, sigrastu á þínum innri Daníel!

3/12/05 14:01

krumpa

Æi, veit ekki sko...er enn á báðum áttum...

3/12/05 14:01

Haraldur Austmann

Var að tala við hann Daníel og hann segir þú megir alveg kaupa þér tölvu. Segist dauðsjá eftir að hafa kveikt í húsnum því fasteignaverð rauk upp skömmu síðar. Því er þessi krísa marklaus.

3/12/05 14:02

Don De Vito

Fáðu þér bara Mac, ekkert víruskjaftæði í þeim. Annars á ég bara skitna PC- tölvu frá fornöld. [Dæsir mæðulega og lítur út um gluggan]

3/12/05 14:02

feministi

Ekkert mál Krumpa mín sendu bara félagsritin þín til mín, handskrifuð á pappír og ég skal snara þeim inn fyrir þig.

3/12/05 14:02

Húmbaba

Ég var mjög sáttur þegar tölvan mín brotnaði. Ég keypti að sjálfsögðu ekki nýja tölvu, heldur nota nú tölvu góðvinar míns. Þá nýt ég gæða hennar og hann sér um áhyggjurnar.

3/12/05 15:02

krumpa

Hjartans þakkir feministi, aldrei að vita nema ég taki þig á orðinu. Og Húmbaba, þetta hljómar bara nokkuð vel! Er einmitt að hugsa um að taka þetta upp!

3/12/05 15:02

krumpa

Ps. Haraldur, þú hefur verið að tala við einhvern fals-Daníel. Daníel minn drakk sig í hel um miðja síðustu öld, allsæll og án allra áhyggna um það hver mundi erfa hann...

3/12/05 16:01

U K Kekkonen

Fáðu þér Ubnutu Linux í gömlu tölvuna, virkar betur en öll windows og office pakki og myndvinsla koma frí með. Þes má einnig geta að Ubuutu sem slíkt er frítt svo að kostnaðurin eru uþb. einn tómur geisladiskur... http://www.ubuntu.com/

3/12/05 16:01

Gaz

Að fá rétta manneskju til að laga gömlu tölfuna er kannski betra ráð?
Eldveggir eru ofmetnir en hinsvegar eru ágætis ókeypis varnir á netinu. Avanti gegn vírusum og AdAware gegn öðru rusli. bara að keyra scan af hvoru einusinni í mánuði og defrag hvern 4. mánuð og það vandamálin láta ekki sjá sig. Allavega ekki oft.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.