— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 1/11/05
Fábjánafabríkan við Suðurgötu

Sú er þetta ritar er með gagnfræðapróf, verslunarpróf, stúdentspróf, sveinspróf, meistarapróf og eitthvað af háskólaprófum. Auk þess hefur hún sótt námskeið í fatasaum. Hefur hún því mestalla ævi notið góðs af striti skattgreiðenda. Fyrir það er hún þakklát.

Djöfull er ég orðin andskoti leið á þessu helvítis menntasnobbi. Maður opnar ekki orðið fyrir útvarp eða sjónvarp án þess að heyra einhvern greindarskerta BA-prófspunginn röfla um gildi menntunar og hvað það sé mikilvægt að styðja við háskólasamfélagið.

Ja, fussumsvei. Það er offramboð á flestum tegundum háskólamenntaðra. Þetta er bara frumskógur og einungis þeir feitustu lifa af. Einungis nördarnir með bestu einkunnirnar og flestu stafina BAMAGPHD o.s.frv. koma til með að fá störf við hæfi. Hinir munu vinna í bakaríum.

Eftir tuttugu ár verða ekkert hér nema viðskipta- og lögfræðingar. Svo stíflast klósettið hjá einhverjum þeirra og þeir neyðast til að flytja! Það eru nefnilega engir píparar til því það hefur enginn áhuga á að styðja við iðnmenntun. Hún er einhvern veginn ekki jafnlekker og sæt og blessað háskólasamfélagið.

Maður er alltaf að heyra sögur af unglingum sem langar í bifvélavirkjun eða húsasmíði, vissulega praktísk störf sem bjóða upp á mun betri tekjur en viðskiptafræðingur sem vinnur sem bakaríistelpa á kost á. En nei, foreldrarnir segja nei. Ef barnið er stautlæst þá í háskólann með það! Það er fyrir öllu að geta hengt upp myndir af bólugröfnum, vansælum börnum með svartar strætóbílstjórahúfur. Ef þú ert ekki BSBA þá ertu bara lúser.

Það eru varla nema um 20% háskólaborgara sem eiga erindi þangað. Þó að þú ljúkir prumpuprófi í bókmenntafræði eða félagsfræði - sem er þriggja ára nám (og treystið mér, á þremur árum lærir maður ekki neitt) á átta árum eða svo, þá gerir það þig hvorki að menntaðri né merkilegri manneskju.

Ég hef unnið með gömlum sjóurum sem eru mun menntaðri og víðsýnni en helmingur þess háskólagengna fólks sem ég umgengst.

Og hvað? Svo sýna þjónustukannanir að fólk með svokölluð háskólapróf - semsagt fólk sem hefur dundað sér árum saman á kostnað ríkisins og mömmu og pabba - með dapurlega rýrum árangri -og ýmist mælir göturnar á bótum eða vinnur við einföld afgreiðslustörf - er óánægðara en aðrir með þá þjónustu sem það fær.

Þetta pakk heldur nefnilega að með BAprumpuprófin sín sé það svo andskoti menntað og merkilegt að heimurinn skuli sitja, standa og skríða því til heiðurs. Það er engin virðing borin fyrir störfum annarra og þú skalt þjóna mér hálfvitinn þinn! ÉG VILL ÉG VILL. Ég er búin að vera blóðsuga á ríkinu árum saman og í stað þess að skila til baka - a.m.k. í formi lágmarkskurteisi þá vil ég MEIRA MEIRA MEIRA.

Hættið svo þessu andskotans jarmi um hvað námsmenn hafi það skítt. Í öllum þjóðfélagshópum er vissulega fólk sem er blankt og hefur það skítt. Ég þekki hins vegar slatta að fátækum nemum sem fara til útlanda 4-5 sinnum á ári, keyra um á jeppum, og fara til Köben í þeim tilgangi einum að fá þar ódýrari BOSSföt. Þið hafið það ekkert öll svo skítt.
Munurinn á ykkur og þeim sem vinna alla ævi á búðarkassa - og uppskera vanþakklæti ykkar og fyrirlitningu - því þeir eru ekki með stafi upp á að þeir hafi slefað í gegnum einhver hálfvitapróf - er hins vegar sá að hjá ykkur kemur betri tíð með blóm í haga.

Menntun felst ekki í því að vera afæta á ríkinu og mömmu og pabba í fleiri fleiri ár meðan unnið er að því að ná einhverjum skítaprófum. Menntun er umburðarlyndi, víðsýni, skilningur og umfram allt oggupínulítil auðmýkt. Það gerir ekki annað en að sanna fávisku að þykjast vita allt. Þó að margir séu svo heppnir að eiga þess kost að leika sér í námi og gera það sem þeir vilja þá eru þeir ekki þarmeð merkilegri en aðrir - bara heppnari.

Bætta stöðu iðnnáms á Íslandi!
Og reyniði svo að haga ykkur þarna fíflin ykkar!

(höfundur er m.a. með BA-próf og krónískan pirring).
LIFIÐ HEIL!

   (33 af 114)  
1/11/05 18:02

Limbri

Amen.

-

1/11/05 18:02

Hvæsi

Skál fyrir þessu !
Þegar Hvæsi lærði kokkinn var sko ekki boðið uppá námslán eða þessháttar aumingjaskap.

Þarsem ég átti þess kost að vinna á kvöldin með skólanum, í stað þess að vinna heimavinnu, þá átti ég að vera fullfær um að borga 50þúsund króna leigu, borða og klæða mig, með mín 70 þúsund króna nemalaun.
Og það var ekkert mál.

1/11/05 18:02

Offari

Það er semsagt allt í lagi með mig þó ég sé bara iðnmentaður.

1/11/05 18:02

krumpa

Neinei, Trölli minn, ég sagði aldrei að það væri allt í lagi með þig. Hverja manneskju á hins vegar að meta út frá mannkostum sínum, en ekki skólamenntun eða skólamenntunarleysi. Raunveruleg menntun - sem vissulega er góðra gjalda verð - er svo eitthvað sem ekki fæst í skólum eða bókstöfum aftan við nafnið sitt.

1/11/05 18:02

Loddfáfnir

Ég held að fíflaskapur renni ekkert af fólki þó svo það hafi lesið mikið og stualast gegnum próf. Ég tel mig verða alveg sama asnan þegar ég hef fengið mínar tuttugu nafnbætur eftir þúsöld eða svo.

1/11/05 18:02

Nermal

Mar er nú með sjókokkapróf..... Gallinn er bara að ég verð sjóveikur á því að sjá skip í sjónvarpinu.....

1/11/05 18:02

Galdrameistarinn

Ég hef svo sem reynt að mennta mig en ekki gengið neitt í þeim efnum.
Ég hef starfað við flest til sjós og lands og tel það ekkert síðra starf að hreinsa klóaklagnir heldur en að sitja á kontor og bora í nefið, en það hef ég líka gert.
Ég hef sótt námskeið í hinu og þessu mér til ánægju og það hefur skilað mér því að ég get gert meira á því sviði en áður og þekki betur inn á það sem ég er að gera.

Því verður samt aldrei neitað að það er sama hvað einhver einstaklingur hefur margar háskólagráður í einhverju fagi, þá er reynslan alltaf besti kennarinn.

1/11/05 18:02

krumpa

Æi, skólamenntun er svosem ágæt til síns brúks - en það er þessi menntahroki og einblíning á bóknám sem pirrar mig. Það að þú sért með einhverja gráðu þýðir að þú hefur náð einhverjum prófum - kannski ekkert með svo glæstum árangri. Það þýðir hins vegar ekki að þú sért klárari og merkilegri en aðrir... eða að þú hafir einhvern rétt á að fyrirlíta þá sem ekki voru jafnheppnir. Það að kunna að hreinsa klóaklagnir tel ég svo að verði verðmætari kunnátta með hverjum deginum...þið eruð ekki margir eftir sem kunnið það!

1/11/05 18:02

Hvæsi

Já, og biddu einhvern af þessum horgemlingum um að bera þvottavélina upp stigana... og jafnvel tengja hana líka.

1/11/05 18:02

Billi bilaði

Keisaraynjan hún Krumpa nú blæs
á kasúldin snobbbörn úr skóla.
Koma þau út þaðan löglega læs,
í leti svo reykja þau njóla.

1/11/05 18:02

Heiðglyrnir

Það er margt til i því sem krumpa ritar hér, skemmtilegu ýkjurnar og pirringurinn sem er að sjálfsögðu vörumerki okkar heittelskuðu krumpu, fær ekki breytt þeirri staðreynd að þetta mennta-snobb er að verða eitt og sér vandamál. Alls ekki menntunin heldur snobbið.
.
Foreldrar „þar á meðal Riddarinn" falla í þá gryfju að ekkert verði úr blessuðum börnunum nema þau fái svo og svo margar háskólagráður. Þessar væntingar foreldra eru oft á tíðum meiri en svo að nokkur unglingur fái höndlað þær; og oft í himinhrópandi ósamræmi við getu og hæfileika viðkomandi unglings. Síðan verða allir fyrir vonbrigðum og höndla það misvel.
.
Þetta er ein af hættum mennta-snobbs.
.
Flottur pistill krumpa mín.

1/11/05 18:02

krumpa

Passaðu þig á þessari gryfju, riddari. Það hlýtur að vera helsta ósk allra foreldra að börnin njóti sín, séu hamingjsöm og geri sitt besta í lífinu - hvað sem líður prumpuprófum. Persónulega vil ég frekar að barnið mitt verði hamingjusamur og vel launaður bifvélavirki eða múrarameistari heldur en óhamingjusamur, lélegur (því ef maður fer í eitthvað nám fyrir pabba en ekki af eigin áhuga getur maður aldrei orðið annað en lélegur) atvinnulaus stjórnmála- eða viðskiptafræðingur. Ef ég er svo með einhverja námskomplexa get ég bara drullast í frekara nám sjálf.
Hvurn andskotann meinarðu svo með því að ég sé alltaf pirruð? %&#####()(%&!!!!!

1/11/05 18:02

Heiðglyrnir

Jamm krumpa mín, féll sko aldeilis í hana, svona óvart með annan fótinn. Haskaði mér með flýti úr þeirri skrambans eigingjörnu og þrönsýnu rottuholu. Grínlaust þá getur þetta orðið mikið vandamál sem ber að vara alla foreldra við.

1/11/05 18:02

krumpa

Engin spurning - við viljum nú helst að börnin okkar hati okkur ekki. Ef foreldrar vilja menntun inn í fjölskylduna geta þeir bara sótt sér hana sjálfir - frekar en að neyða börnin! Fábjánafabríkan tekur við fólki á öllum aldri! Ef börn vilja sjálf og á eigin forsendum fara í langtímanám er svo ekki nema gott um það að segja - þ.e. ef þau halda ekki í kjölfarið að þau séu AÐAL...

1/11/05 18:02

Isak Dinesen

Frábært rit. Orð í tíma töluð.

(Höfundur innleggs er sjálfur með B.Sc. veikina.)

1/11/05 18:02

Rattati

Vel mælt.

1/11/05 18:02

Heiðglyrnir

Hvað varðar snobbið í hina áttina. þ.e. digurbarkalegt....„thja ég lærði nú aldrei neitt og hef lesið eina og hálfa bók um æfina.. Sjáið mig ég get allt" Þá er Riddarinn svo-sem ekkert voðalega spenntur fyrir því snobbi heldur hmmm.
.
[vinsamlegast athugið að þetta er sagt svona almennt og er ekki beint gegn neinum]

1/11/05 18:02

Regína

Ég þekki reyndar dæmi um alveg öfugt, barnið vildi í langskólanám, en það hafði enginn í fjölskyldunni gert áður. Það getur verið alveg eins erfitt að hafa fjölskyldu sem er skilur ekkert í þessu brambolti, eins og fjölskyldu sem segir "þetta er allt í lagi góða mín, þú mátt alveg læra snyrtifræði/vélvirkjun/pípulagnir" en virðist ekki meina það.

1/11/05 18:02

krumpa

Neinei - auðvitað viðurkennir enginn - nema kannski frú Beckham - með stolti að hann hafi aldrei tekið upp bók. En það er málið - það er hægt að læra helling sjálfur af bókum og með því að horfa opnum augum á heiminn. Það er ekki sjálfgefið að stafakallarnir (BABSMAGPHD) séu endilega betur lesnir en aðrir. En það hlýtur að vera hægt að meta fólk á öðrum forsendum en hvað það veit eða hvað það hefur lesið...
Ég er ekki að predika það að það eigi að líta niður á fólk með háskólagráður - en það fólk á heldur ekki að líta niður á aðra!
Takk kæri Ísak og Rattati...

1/11/05 18:02

krumpa

Það er rétt Regína - maður á að styðja við þessa grísi - hvað sem þeir vilja gera - svo framarlega sem þeir vilja það sjálfir -
Síðasta dæmið sem ég veit um sem er eins og þú nefnir er reyndar síðan í fyrra stríði þannig að ég er nú að vona að það sé ekki algengt. Um hitt heyri ég dæmi á hverjum degi...

1/11/05 18:02

Gimlé

Margur er minnst menntaður sem lengst hefur gengið í skóla - og öfugt. Þó er þetta ekki einhlítt.

1/11/05 18:02

Heiðglyrnir

Bæði rétt og satt krumpa mín...Enda engin slík ásökun í orðum Riddarans. Þú að predika, fyrr frysi í neðra... hahahahaahaaa. Þatta var grin, er hjartanlega sammála um hættur mennta-snobbs og hvað það getur verið með eindæmum leiðigjarnt.

1/11/05 18:02

Offari

Ég viður kenni hér með að ég hef aldrei getað lesið bók.

1/11/05 19:00

Blástakkur

Ég er stafakall og stoltur af því. Múahahahaha!

1/11/05 19:00

Blástakkur

Annars virðist mér þessi pistill vera enn eitt dæmið um þessa póstmódernísku and-intelleksjúal bylgju sem öllu virðist tröllríða núna. <Setur upp vandlætingarsvip> Já, hættum að mennta okkur og gerumst öll bændur og iðnaðarmenn. Þetta er hvort eð er einski virði.

1/11/05 19:00

krumpa

ha? þú ert greinilega að lesa/hlusta/horfa á aðrar fréttir en ég...
Ekki rugla svo stafabrengli aftan við nöfn saman við intellektúalisma - hann er ágætur - en að halda að maður verði itellektúal, fölur og intressant við það eitt að fá sér stafi er bara hroki - það þarf meira - eða minna til.
Pointið er þetta: háskólamenntun er ágæt - en hún gerir mann ekki merkilegri en aðra. Það er ekki endilega samasem merki milli gráða og menntunar. Og af hverju þurfa allir að vera með háskólapróf? Og af hverju þurfa þeir sem ekki hafa slíkt próf að vera með minnimáttarkennd? Ehhhhehe,....ég er nú BARA smiður/pípari/málari...

1/11/05 19:00

Blástakkur

Það er nú alveg rétt svosem. Ég hef bara orðið svo mikið var við þessa hugsun sem ég var að lýsa undanfarið að ég fæ alltaf viðvörunarbjöllurnar í gang í hvert skipti sem menn ráðasts að vísindaiðkun hverskonar.

1/11/05 19:00

krumpa

Vísindaiðkun er auðvitað góð og nauðsynleg - hún þarf þó ekki endilega að felast í BAMAGPHDPHD og eingöngu því...

1/11/05 19:00

Hvæsi

Ég er sko kokkur !

[Stendur upp]

Skál fyrir því !

En ég er samt pínu minna snjall og væri því alveg til í að fá útlistun á því hvað BAMAGPHDPHD þýðir.

1/11/05 19:00

Jóakim Aðalönd

Ég er sjálfur með nafnbótina ,,B.Sc.", en mér finnst það í raun ekkert merkilegt. Ég er mikið að pæla í að fara í einhvers konar iðnnám, t.d. eldsmíði eða raf/rafeindavirkjun. Nú, svo er alltaf bezt að stofna fyrirtæki og vera eigin herra. Mér dettur í hug að reka hótel/gistiheimili og bar á einhverri Karíbahafseyju. Það væri sko notalegt.

[Fær nostalgíukast]

1/11/05 19:00

krumpa

BA- bachelor of arts
BS - eða BSc - bachelor of science
- þetta eru svona pungapróf og ekki tilvitnis um neina yfirmátakunnáttu - fást fremur billega eftir þriggja ára nám.
Mag og Cand ( Mag.jur., Cand. jur., Cand. phil, Cand. mag., Cand. Oecon...alls konar svona ruglumbull - þetta eru embættispróf og fást eftir 4-5 ár)
Ph.d. eitthvað fag - er svo doktorsgráða í viðkomandi fagi. - 7-8 ára nám í það heila...

1/11/05 19:00

Jóakim Aðalönd

[Besserwisserast, enda líka með B.W. gráðu]

Upphafleg merking er úr latínu og þýðir: Baccalaureus Artium og Baccalaureus Scientiæ. Hohoho.

1/11/05 19:00

Hakuchi

Þetta er mjög einfalt. Þegar einungis 10 píparar verða eftir munu þeir vera með milljón á tímann og 5 ára biðlista. Slík kjör munu fyrr eða síðar freista jafnvel heimskustu bókmenntafræðinema og hégómafulla foreldra hans.

1/11/05 19:00

Hakuchi

Já og bráðskemmtilegur pistill krumpa mín.

1/11/05 19:00

Blástakkur

Sem námsmaður hafði ég það náttúrulega bara fínt! En ég er ekki viss um að barnafólkið hafi haft það alveg jafn frábærlega fínt og ég.

1/11/05 19:00

U K Kekkonen

Maður féll svosem sjálfur í þessa gryfju, en ég sá að mér og fór í Iðnskólann.

1/11/05 19:01

Hexia de Trix

Jamm og já. Ég er alveg sammála þér í grundvallaratriðum Krumpa mín. Ég er með BA próf sem þar að auki veitir mér starfsréttindi í faginu. Hins vegar er reynslan besti kennarinn, eins og Galdri segir. Fólk getur nefnilega verið mjög vel menntað, bæði af reynslu og bókum, þó það hafi aldrei staðist nein próf. Ég veit þess mörg dæmi. Einnig veit ég þess dæmi að fólk með margföld háskólapróf virðist vera ósamræðuhæft um einföldustu hluti og býr jafnvel ekki yfir almennri skynsemi. Þetta er bara einstaklingsbundið.
Að lokum vil ég geta þess að ég tók þriggja ára námið mitt út á 4 árum, en eignaðist tvö börn á sama tíma. Geri aðrir betur!

1/11/05 19:01

hundinginn

Að þessu fjelagsriti lesnu, án orðabelgja, verð jeg að segja; Krumpa, þjer hafið hlotnast heiðurshorn á Kaffi Blút. Þetta er hverju orði sannara og ef eitthvað er, ekki nógu kjarnyrt. Öldungis brilliant. HÚRRA!

1/11/05 19:01

Vímus

Ég snéri dæminu við. Í stað þess að þjást af námsskorti
og velta mér upp úr klúðruðu lífi mínu sá ég að mín menntun var einmitt fólgin í 20 ára rugli mínu. Ég hef í raun meiri menntun en flestir aðrir. Ég hef getað nýtt mér þetta á margan hátt. Ég hef verið ráðgjafi í sænsku fangelsi. Þar sagði ég föngunum hvað þeir ættu ekki að gera. Ég gaf út bók í fyrra og er að skrifa aðra núna. Ég las viðtal við Einhverja stelpu sem er að skrifa sína aðra glæpasöguu. Hún sagðist eiga auðvelt með það vegna þess hvað hún hefði lesið margar slíkar. Vímus þarf ekki að lesa neitt eða læra neitt. Hann heldur bara dagbók. Betri glæpasögu er ekki hægt að skrifa. Annars er ég sammála þér. T.d. þykir mér sá maður sem getur gengið í öll störf um borð í togara vera með meiri menntun en læknir

1/11/05 19:01

Kondensatorinn

Lifi sannleikurinn !

1/11/05 19:01

Þarfagreinir

Skemmtileg umræða.

Ég er með B.Sc. en nenni ekki að taka neitt meira. Ég lærði sitthvað nytsamlegt í háskólanum, en hvort ég menntaðist þar er annað mál. Mér þykir það góður og réttur punktur að iðnmenntun þykir ómerkileg hér á landi - synd og skömm að því. Hvaða leiðir eru færar til að taka á því er svo annað mál.

1/11/05 19:01

Finngálkn

Þessi pistill er svo djöfullega vel skrifaður og beittur að ég fékk kökk af því að lesa hann... snökt, snökt... Þetta er hverju orði sannara!
Helvíti góð meðfylgjandi umræða líka og sérstaklega punktur Vímusar.
Sjálfur er ég að brjótast áfram í námi og finnst stundum þetta BA vesen vera til einskis og finnst eimmitt allt snobb sem viðkemur menntun fyrirlitlegt. Ég þekki fjölmörg dæmi um dúxa á háskólastigi sem voru og eru ekki færir um að skeina sér sjálfir...
Ég hef aftur á móti unnið við allan andskotann með og án skóla og er til dæmis núna atvinnuskeinari á stofnun þar sem meginþorri sjúklinganna liggur og bíður eftir því að drepast. Það er ekkert að fá af nýu vinnuafli nema útlendingum sem flestir tala ekki íslensku sem er ansi sorglegt þar sem að flestir sjúklingarnir eiga í erfiðleikum með að tjá sig yfir höfuð.
Þetta er ansi sorgleg þróun!

1/11/05 19:01

Upprifinn

ég hef nú alltaf séð svolítið eftir því að hafa hætt í menntaskóla og orðið bara iðnaðarmaður.

1/11/05 19:01

krumpa

Upprifinn - þá er bara að drífa sig aftur í skóla - bara ekki halda að þú verðir merkilegri en aðrir fyrir vikið!
Finngálkn - takkatakkatakka - og Hundingi - DITTÓ

1/11/05 19:01

Hakuchi

Nú á dögum er BS/BA gráða það sama og stúdentspróf fyrir 30 árum. Ég held að háskólapróf í bulli (læknir, verkfræði t.d. er ekki bull en bókmenntafræði er það) er einungis vitnisburður um að þú hafir úthald og endingu til að sitja við eitthvað í þrjú ár (eða meira) og fylgja því til enda. Þetta gefur einungis viðbótarvísbendingu um að viðkomandi gæti enst eitthvað í djobbinu. Eða viðbótarfordóm sem ráðningarstjórar ('mannauðsstjórnendur') geta miðað við til að auðvelda sér vinnuna með því að þrengja umsækendahópinn fyrir einhverja vinnu sem verið er að ráða í.

1/11/05 19:01

krumpa

Jájá - auðvitað er þetta notað svona. En...ég þekki nokkra/r sem eru á sínu sjötta ári í BA-námi án þess að námslok séu fyrirhuguð. Sumir þeirra taka sér svo frí á sumrin -af því þeir voru svo duglegir um veturinn! Tákn um úthald og seiglu? Held ekki. Bara of latir til að fara að gera eitthvað annað. En mikil ósköp, það er gagnlegt vegna atvinnuviðtala í Bónus eða bakaríinu að vera með BA í bulli...

1/11/05 19:01

krumpa

Set svo ákveðið spurningarmerki við að Læknir sé ekki bull - eða hafið þið einhvern tíma farið í gagnlega læknisheimsókn? Minn læknir í það minnsta veit aldrei neitt - yfirleitt þarf ég að segja honum hvað er að og hvaða lyf komi til með að virka...nokkuð gott eftir tólf ára háskólanám!

1/11/05 19:01

B. Ewing

Ég er iðnmenntaður rafeindavirki og ætla ekkert að hætta því að vera praktískur.

1/11/05 19:02

Tigra

Reynsla er nú yfirleitt mikilvægari en nokkur menntun, enda er menntun sköpuð af reynslu annarra.
Annars, því meira sem maður lærir, því meira kemst maður að því hvað maður veit lítið.

1/11/05 19:02

Upprifinn

Ég held bara að að mörgu leiti væri ég sáttari við sjálfan mig ef ég hefði háskólamenntun í t.d. íslensku eða heimspeki, ég er hinsvegar úr iðnaðarmanna og bændafjölskyldu og sé sem slíkur ekki hvernig ég ætti að vinna fyrir mér með öðru en höndunum.

1/11/05 20:00

feministi

Þarna hittir þú naglann á höfuðið ágæta Krumpa. Sem betur fer sá ég að mér og ber því með sóma tiltilinn BSd. Mér finnst ég þó óttalega klár og veit iðulega betur en aðrir hvernig á að gera hlutina. Því miður er heimurinn enn of óþroskaður til að taka tilsögn minni, en ég bíð róleg. Minn tími mun koma.

1/11/05 20:01

krumpa

Það sem pirrar mig einna mest er það að ef maður ætlar að lýsa því yfir hvað hinn eða þessi sé mikill sauður þá er svarið iðulega:...nei, hann er með master í prumpi....það getur ekki verið....hann getur ekki verið vitlaus, hann er með þetta fína BA í bulli"...eða e-ð álíka. Eins og þetta tvennt - að vera sauður og með prumpupróf - geti ómögulega farið saman...

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.