— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 9/12/04
Dagbók SUSara II hluti.

Eitt sinn var vinkona ömmu gömlu í heimsókn hjá henni. Ein af þessum gömlu, góðu sem kaus alltaf íhaldið af því að ,,pabbi mundi snúa sér við í gröfinni ef hún kysi þá ekki." Þær voru að horfa á fréttirnar, þær gömlu, og sáu hörmungarmyndir af einhverju hamfarasvæðinu. Vinkonunni brá mjög við og lagði til við ömmu að þær stöllur brygðu sér strax af bæ til að hjúkra og hlynna að hinum slösuðu. Síðar í fréttinni kom svo reyndar fram að þessar hamfarir áttu sér stað í kommúnistaríki og þá kom nú fljótt annað hljóð í strokkinn. Fyrst þetta voru kommar áttu þeir nú fátt gott skilið og máttu vel deyja drottni sínum án þess að vinkonurnar hreyfðu legg né lið.

1. sept 2003. Jæja, þá er maður farinn að vinna. Orðinn deildarstjóri í stóru ráðuneyti. Það var reyndar eitthvað vesen með ritgerðina mína, fíflin héldu því fram að hún væri stolin! Pabbi átti nú nokkur vel valin orð við þessa gaura og hingað er ég kominn.

1. okt 2003. Helvíti tekur á að vinna svona. Er að hugsa um að splæsa á mig skíðaferð, maður verður nú líka að slappa af.

1. nóv 2003. Assgoti flott pía að vinna hérna. Hún er lögfræðingur eins og ég og fékk 8.63 í lokaeinkunn. Getur nú samt ekki verið mjög góður lögfræðingur því að hún er bara fulltrúi en ekki í feitu djobbi eins og ég... Hún heitir Beta og ég er að spá í að bjóða henni á rúntinn á nýja Bensanum við fyrsta tækifæri. Hlýtur að falla fyrir því.

1. des 2003. Er að fara á fund með strákunum. Erum með nýja hugsjón þessa dagana; að flytja bjór og léttvínssölu frá ríkinu og í búðirnar. Helvíti huggulegt þegar ungir, snyrtilegir menn eins og ég geta bara labbað út í búð að kaupa sér léttvín með ostunum. Er líka alveg viss um að það verður ekkert vesen eða áreiti í búðunum. Rónarnir halda bara áfram að versla sitt vodka og koníak í ríkinu.

3. des 2003. Bauð Betu út í dag. Hún var nú ekkert upprifin yfir Bensanum, sagði að bíll væri bara tæki til að komast frá A til B. Auðvitað mundi hún segja það; hún á bara gamla Toyotu. Var samt ágætisdeit. Hún var samt ekki hrifin af léttvínshugsjóninni minni. Sagði að ég byggi í fílabeinsturni ef ég héldi að rónar ættu almennt fyrir viskíi eða koníaki. Hún heldur því fram að þeim takist rétt að aura saman fyrir bjór í stykkjatali og að hún mundi sko ekki þora að senda börnin sín út í búð ef bjórsala yrði gefin frjáls. Ekki veit ég hvað hún er að hafa áhyggjur, hún á ekki einu sinni börn!

1. feb 2004. Allt fínt hjá okkur Betu. Varð samt svolítið hissa á henni í dag. Fórum að versla, ég þarf auðvitað að fata mig upp fyrir djobbið. Fórum að kaupa skyrtur og ég ætlaði að kaupa þessar venjulegu straufríu Bossskyrtur á tuttuguogtvöþúsund. Mér finnst það ferlega vel sloppið, ég meina þær eru straufríar! STRAUFRÍAR. Þarna var ég semsagt með sex skyrtur í fanginu og var að labba að kassanum þegar hún bara trompaðist. Sagði að þeir sem eyddu hundraðogfimmtíuþúsundkalli í skyrtur þyrftu á sálfræðimeðferð að halda. Hva, ég hef efni á því! Af hverju ekki að láta það eftir sér? Hún sagði mér að skammast mín, ég gæti keypt skyrtur í Hagkaup á tvöþúsundkall og gefið mismuninn í góðgerðarstarfsemi. Af hverju? Ekki bað ég þetta lið um að vera á Féló eða búa í Afríku. Svo strunsaði hún bara út! Kjellingar!! Verð víst að kaupa Boss dragt handa henni til að milda hana...

15. feb 2004. Ekki alveg að virka þetta með Bossdragtina. Hún endaði víst hjá mæðrastyrksnefnd. Skil ekki konur... En Beta féllst samt á að kíkja í kaffi með mér. Þá sagði hún mér að hún væri kannski bitur, í æsku hefði hún ekki einu sinni átt reiðhjól. Váá. Rosalega hlýtur hún að hafa verið óþekkt barn! Eða kannski foreldrar hennar bara ekki kært sig um hana...

20. feb 2004. Hef ákveðið að taka Betu með heim til gömlu og kynna hana. Er viss um að mamma á eftir að fíla hana í tætlur, þær eru svo líkar í vextinum og svona...

framhald síðar...

   (69 af 114)  
9/12/04 07:01

B. Ewing

Annar framhald? Ég var rétt að byrja. [Horfir angistaraugum á skjáinn] Verður þetta í Harry Potter formi kanski, allir fá að kaupa bókina í einu?
Ananrs gott að þurfa ekki að eyða gríðarlöngum tíma í þessa dagbók í einu. Það gæti veldið hugsanagangtruflunum

9/12/04 07:01

krumpa

Æi, þetta er bara svo gaman - fæ mig ekki til að drepa SUSvininn alveg strax...

9/12/04 07:01

Þarfagreinir

Magnaður lortur. Bíð spenntur eftir framhaldinu.

9/12/04 07:01

Hakuchi

Þetta er yndislega glórulaus karakter hjá þér. Bravó!

9/12/04 07:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Takk

9/12/04 07:01

Galdrameistarinn

Fílabeinspakkið í hnotskurn. Djöfull á þetta eftir að fara í taugarnar á SUS gerpunum.

9/12/04 07:01

Krókur

Þetta er bara að verað að hinum mesta spennutrylli. Ég bíð ... ja spenntur auðvitað.

9/12/04 07:02

feministi

það stangar ekki í hart hjá honum kunningja okkar frekar en fyrri daginn.

9/12/04 07:02

Skabbi skrumari

Hey... ég þekki hann... held ég... salút, flott félagsrit... af hverju eru öll félagsrit svona góð þessa dagana...

9/12/04 07:02

Ívar Sívertsen

Rosalegt! er þetta ekki bara skemmtilegur skáldskapur?

9/12/04 01:00

Rósin

Greyið Beta

9/12/04 01:01

Von Strandir

Ég er reyndar fylgjandi sölu léttvíns og bjórs í kjörbúðum. [Straujar hagkaupsskyrtuna]
Skemmtilegur pistill samt.

9/12/04 01:01

Limbri

Jæja, svo þið segið það. Merkileg heimsmynd.

-

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.