— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 8/12/04
Vinir og vandamenn

Nenni ekki að koma með rullu um það hvað lífið sé búið að vera erfitt án ykkar og hvað þetta hafi verið skelfilegur tími....þið eigið eftir að fá nóg af slíku - svo ég ætla bara að vinda mér beint að sama gamla tuðinu mínu!

Ó, hvað þessar fyrstu vikur (eða mánuðir) í sambandi eru stórfenglegar. Þið eruð bara tvö ein í heiminum, engir uppáþrengjandi ættingja eða tengdamömmur sem hata þig (það er staðreynd að tengdamömmuillskan gengur í báðar áttir) eða vinir sem eru ekki alveg að fíla þig og sjá engan veginn hvað vinurinn eiginlega sér við þig.. Ef þið eruð sextán eða þar um bil er þetta sosum ekkert mál - þið bara kynnist öll í einu heljarinnar fylleríi og mamman bakar pönsur fyrir þig í morgunmat fyrstu nóttina sem þú gistir... Ef þið eruð aðeins eldri, vinahóparnir fastmótaðri og allir fluttir frá hótel mömmu er þetta svo kannski aðeins flóknara..

Eftir þennan yndislega tíma í félagslegri einangrun og ástarbríma kemur nebbilega að því að þið þurfið að kynna ykkur fyrir alls kyns pakki...

Best er að kynna sig fyrir fjölskyldu meðreiðarsveins í einhvers konar fjölskylduveislu - þá fá allir að sjá þig í einu og slúðrið og forvitnin er minni... Og hvernig ganga svo svoleiðis partí fyrir sig? Jú, þú stendur kannski í anddyrinu og kreistir hendina á hinum eina sanna þegar tengdamömmufyrirbærið kemur svífandi á ykkur... ,,ÖHHH GVÖÖÖÐ, hvað ég er GLÖÖÖÐ að þú þorðir að koma, GVÖÐ, HALLÓ ALLIR, sjáiði bara nýju tengdadótturina, er hún ekki LEKKER? GVÖÖÖÐ... Heyrðu, ljúfan snúðu þér nú aðeins í hring svo ég geti skoðað þig, þú verður svo að kynna hana fyrir afa og ömmu og Lóló frænku og..." Og svona gengur þetta; menn sem þú hefur aldrei séð áður svífa á þig og kyssa þig og knúsa, að minnsta kosti tvær ömmur bjóða þig velkomna í hópinn (og þú bíður, árangurslaust, eftir að þér sé boðið í eitthvað sérstakt ritúal hjá þessum hópi...hvort þær hittist á þriðjudögum og fórni hænsnum eða hvað...) og alla vega fjórar frænkur spurja þig hvernig þér lítist á liðið... ( Æ, mér finnst þið nú öll hálfyfirdrifin og tilgerðarleg, er dæmi um svar sem hentar ekki á þeirri stundu). Nokkrir eldri frændur klípa þig í rassinn og svona... En svo , eftir tvo þrjá tíma, er þetta allt búið. Ekki svo mikið mál eftir allt saman og þú ferð að reikna út (með smávægilegum hryllingi) hvenær næsta fermingarveisla eða stórafmæli sé hjá þessu liði....

En þetta er ekki það versta... eftir er nefnilega versta þolraun hverrar nýrrar kærustu; VINIRNIR! Þú situr eins og ræfill í tilgangslausu ,,kynningarheimboði" þar sem öllu liðinu var smalað saman til að skoða þig. Þeir kurteisustu kannski kynna sig fyrir þér og koma með einhverjar almennar athugasemdir um veðrið eða svoleiðis... Flestir samt bara góna á þig og þegja... Þeir verstu eru svo síblaðrandi, koma með persónulegar athugasemdir og inn á milli leynast skot og móðganir (og eins og venjulega detta þér í hug fjöldamörg eitursnjöll tilsvör og kombökk - daginn eftir!).
Það er þess vegna nokkuð öruggt að þér finnst vinir hans yfirborðskennt, snobbað gervifólk og jafnöruggt er að honum finnst þínir vinir heimskulegir, grunnhyggnir og tilgerðarlegir (það er samt skárra en valkosturinn; ef hann fílar vinkonur þínar í tætlur er ekkert líklegra en að hann langi til að prufukeyra...). Á þessu þarf maður að passa sig. Ef vinahópurinn er gamall og gróinn er nebbilega ekkert víst að þú verðir tekin fram yfir hann. Þess vegna er betra að segja ,,Ósköp er hann vinur þinn einstakur karakter" heldur en það sem þig langar til að segja: ,,er hann vinur þinn þarna bara snobbaður, slefandi vanviti eða er hann líka illgjarn, óuppdreginn dóni?" Athugasemdir eins og ,,Mikið er ég glöð að hafa fengið að vera viðstödd þegar þessu liði var í fyrsta sinn hleypt úr búrunum til að hitta annað fólk ..." eru heldur ekki líklegar til að vekja lukku.

Og hvað gerirðu þá næst þegar þér er boðið í kvöldkaffi hjá þessu pakki? ,,Ó, vá elskan, sérðu bara hvernig tá númer tvö er miklu lengri en stóratáin hjá mér, þetta hefur alltaf pirrað mig svo að ég er að hugsa um að vera bara heima í kvöld og naga þær jafnar..." er kannski ekki vænlegt til árangurs. ,,ÆD RAÐER ÍT GLASS" vekur líka varla lukku. Á svona stundum er nauðsynlegt að eiga Bunbury (væntanlega við hæfi að vitna í frægasta homma allra tíma þessa vikuna) - Bunbury er alltaf pottþétt afsökun. Það er nauðsynlegt í þessari aðstöðu að eiga veikan ættingja, systur sem er að flytja eða vinkonu í ástarsorg þegar svona heimboð dúkka upp. Allir skilja fjarveru þína svo vel og eru líkast til bara fegnir henni... Gott er að koma sér upp nokkrum uppáhaldsafsökunum sem hægt er að grípa til til skiptis!

Semsagt - annaðhvort það eða vera aldrei lengur en þrjá mánuði í sama sambandinu!

Vil svo að lokum taka fram að fjölskylda (og vinir) Heittelskaðs er að sjálfsögðu fullkomin eins og flest annað í sambandi við þann ágæta mann.

Lifið heil!

   (73 af 114)  
8/12/04 05:01

Hakuchi

Hressandi pistill Krumpa. Gott að sjá þig aftur.

8/12/04 05:01

krumpa

Takk minn kæri og sömuleiðis...er samt að hugsa um að fara að uppfæra útlitið hvað úr hverju!

8/12/04 05:01

Heiðglyrnir

Allt við það sama Krumpa mín, var farin að sakna þín, fínn pistill.

8/12/04 05:01

krumpa

Já, kæri riddari - breytingar eru slæmar! En ég var líka búin að sakna ykkar allra svo mikið...snökt, snökt.

8/12/04 05:01

Smábaggi

Það tóku nú samt fáir eftir að þig vantaði.

8/12/04 05:02

Nornin

Vil benda þér á nýja gerð karlmanna Krumpa mín.
Þeir eru til einnota og þá er ekkert vesen með að hitta vinina eða fjölskylduna.
Svo getur þú líka fengið þá á rekstrarleigu og þá má fresta þessari 'greiðslu', í formi vina og ættingja, um nánast ófyrirsjáanlega framtíð.

8/12/04 07:00

Jóakim Aðalönd

Ja, ekki get ég sagt að ég skilji hvað þú ert að fara krumpa mín. Alveg er ég laus við svona bollaleggingar, en mun taka þær til athugunar ef svo ólíklega vill til að ég nái mér einhvern tímann í kollu. (Þá ekki bjórkollu)

8/12/04 07:01

Limbri

Afbragðs punktur. Vakti smá skelfingu hjá mér. Ef svo undarlega vill til að mér takist að krækja mér í danska yngismey, þá þarf ég að standa í þessu öllu á dönsku. Og eins og allir vita þá er danska tungumál satans og þarmeð yrði upplifunun líklega enn verri.

-

8/12/04 09:01

dordingull

Hef alltaf vitað að best væri að halda sig við nornir.
. Galdra bara smá og... Púff... Horfinn.
. Ekkert svona vesin.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.