— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 4/12/06
Jón, séra Jón og þessi sem ég man ekki hvað heitir.

Í stjórnarskránni okkar segir að allir séu jafnir. Í einhverjum öðrum ágætislögum segir svo að allir skuli eiga kost á fullkomnustu og bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á (semsagt - ef þú á annað borð hefur efni á að fara til tannsa þá á hann ekki að vera með próf úr bréfaskóla).

Ég er nú svo mikill kjáni að ég hélt að í heilbrigðisþjónustunni hér gilti í það minnsta ákveðið jafnrétti.

En í dag álpaðist ég til að lesa dagbókarfærslu ónefnds félagsmálaráðherra (hann er ekki ónefndur af einhverri kurteisi heldur man ég bara aldrei hvað mannauminginn heitir).

Þessi ágæti maður fékk um daginn kvefskít og kiknaði eitthvað í hnjánum. Fékk semsagt það sem hjá okkur hinum kallast skítapest. Í kjölfarið talaði hann við hjúkrunarfólk OG lækna (ég læt duga að snýta mér og taka íbúfen). Þetta ágæta fólk ráðlagði honum að fara á bráðamóttökuna. Þar var honum sagt að fara heim og leggja sig. Daginn eftir fór hann aftur enda enn slappur og var nú settur í ítarlegar hjarta- og lungnarannsóknir. Fannst ekki neitt að. Ég samgleðst nú manngreyinu með það, en úrskurður lækna var víst sá að hann hefði ofkeyrt sig jafnframt því sem hann væri með skítapest. Mikið fannst mér nú gaman að lesa þetta, að fólk gæti bara droppað inn í hjarta og lungnarannsókn við minnsta hiksta.

En svo fór ég að hugsa...
Einhver hér fengið kvefskít? HÆTTA AÐ REYKJA! Þetta er að ganga! Gefðu þessu mánuð og ef þú ert enn á lífi skulum við skoða þetta!

Fengið verk fyrir brjóstið? Farið með þig í myndatöku? Blóðprufu? NEI! MILLIRIFJAGIGT! Vöðvabólga! Taktu vöðvaslakandi og FARÐU Í BAÐ!!

Fengið svima? Sortnað fyrir augum? Farið að skjálfa? Innlögn? NEI! HÆTTA AÐ REYKJA! Hætta á pillunni! Hreyfa sig! Sleppa kaffinu!

Fengið í magann? Ofsafengna krampa? Langvarandi harðlífi eða niðurgang? Ristilspeglun? NEI! BORÐA TREFJAR! Hreyfa sig!

Fengið hastarleg og sár höfuðverkjaköst? Leitað að blóðtappa? Heilaskönnun? NEI! FARÐU Í BAÐ! Hreyfðu þig! Hættu að reykja! Gerðu hálsæfingar!

En ekki meir! Næst þegar ég fer til læknis þá bendi ég á stjórnarskrána og þessi ágætislög og heimta myndatökur, vefjasýni, blóðprufur, þrýstingsmælingar, vigtun og tilbehör.

Er annars ekkert loðið við það að maður sem situr á þingi í 72!daga á ári nái að ofkeyra sig? Ég vinn 300 tíma á mánuði minnst og enginn læknir hefur verið svo elskulegur að ráðleggja hvíld eða vara mig við ofkeyrslu...

Steypum valdstjórninni!
Lifi jafnréttið!
Lifið heil.

   (21 af 114)  
4/12/06 08:01

krumpa

ps. þess skal getið að ég er hvorki skítug né illa lyktandi. Heimilislæknirinn minn telur bara að gott bað geti leyst allan heimsins vanda...

4/12/06 08:01

Hakuchi

Það er nú lágmarks kurteisi að vita hver félagsmálaráðherra er. Félagsmálaráðherra er enginn annar en maðurinn sem var þarna í hljómsveitinni sem gerði lagið þarna, Traustur vinur getur gert kraftaverk, eða hvað það nú hét.

4/12/06 08:01

Billi bilaði

„Ha, fékk hún áfall? Hún verður örugglega komin heim fyrir kvöldið....“

„Nú, komst hún aldrei heim eftir þetta. Æ, æ.“

(Þeir passa sig á að láta sem fæsta vera yfir nótt, því að þá er ekki hægt að rukka eins mikið.)

4/12/06 08:01

krossgata

Heyr, heyr! Það lítur stundum út fyrir að fólk sé ekki rannsakað fyrr en það er dautt, þá fer fram krufning.

4/12/06 08:01

krumpa

Ehh- manst þú hvað hann heitir? Hér er um að ræða mann sem hefur setið 12 ár á þingi og innan við 2% þjóðarinnar veit nafnið á. Segir eitthvað - eða hvað?
Annars veit ég hvað hann heitir (sá það á blogginu hans) en verð örugglega búin að gleyma því fyrir kvöldið. Drullugott lag engu að síður!

4/12/06 08:01

Hakuchi

Fínt lag.

4/12/06 08:01

Hvæsi

Kórrétt !

Ég ætla líka að heimta fulla skoðun með klamidíutjékkinu næst.

4/12/06 08:01

Jóakim Aðalönd

Félaxmálaráðherrann heitir Magnús Stefánsson.

4/12/06 08:01

krumpa

Takk fyrir það frændi. Þori samt að veðja að þú gúglaðir það. Ég vissi það í dag en var einmitt búin að gleyma því aftur þegar þú minntir mig á það - svo takk!

4/12/06 08:01

Jarmi

Læknar eru fyrir uppgjafa hermenn og fólk sem vælir yfir vandamálum sínum. Ég nota vasahníf og/eða brennivín þegar eitthvað amar að mér.

4/12/06 08:01

Jóakim Aðalönd

Ég tek því veðmáli krumpa kær. Þetta eiga bara allir að vita...

4/12/06 08:01

Tina St.Sebastian

Ég man hverjir sátu í ríkisstjórn 1992, en bara vegna þess að þau tóku sig svo vel út sem leikbrúður í Spaugstofunni.
Auk þess sem þetta lið er í endalausum stólaleik, og ekki á færi eðlilegs fólks að muna hver er með hvaða titil þennan mánuðinn.

4/12/06 08:02

krumpa

Það er einmitt málið - þrír umhverfisráðherra (sem ég þekki raunar alla með nafni), þrír forsætisráðherrar, þrír utanríkisráðherrar o.s.frv. Málið er bara að þessi tiltekni ráðherra er sérdeilis auðgleymanlegur. Vonum að það sé von á meiri stöðugleika í stólamálum næstu stjórnar. Annars var nafnið, eða nafnleysið, á manngarminum ekkert aðalatriði.

4/12/06 09:00

Vímus

Ég hef það mikið um þetta að segja að ég segi ekki neitt. Ég skrifa sér pistil um það sem henti mig.

4/12/06 11:01

Golíat

Krumpa, Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra fékk aðsvif í ræðustól á Alþingi. Hann fékk eðlilega og góða læknisþjónustu. Eins og langflest okkar fá þegar við þurfum á að halda. Um það er ekkert meira að segja. Sú meinloka að þú getir ekki munað nafnið á manninum segir ekkert um hann, nema ef vera skyldi að hann hefur skandaliserað minna en margur í svipaðri stöðu, en bendir hins vegar til þess að reykingarnar og annar ólifnaður sé farinn að taka sinn toll af heilastarfsemi þinni...
Varðandi störf þingmanna og ráðherra, varla ertu svo einföld að halda að vinna þingmanna og hvað þá ráðherra einskorðist við þingfundi? Ég veit það eitt að þingfararkaup er skammarlega lágt fyrir þeirra vinnu. Ef flutningabílstjórar eða verkamenn í fiskimjölsverksmiðjum svo dæmi sé tekið eru með hærri laun en alþingismenn, getum við þá vænst þess að okkar bestu synir og dætur sækist eftir því að sitja á þingi?

4/12/06 11:01

Hóras

Sígarettur og áfengi lækna allt

4/12/06 12:00

Vímus

Ekki Golíat. Framsóknarsýki er ólæknandi.

4/12/06 12:00

Golíat

Ég er hræddur um að það hafi fundist einhver ,,lækning" Vímus, öðruvísi getum við ekki skýrt niðurstöður skoðanakannana.

4/12/06 12:02

krumpa

Og guði sé lof fyrir það!
Segir það annars ekkert um vinnuálag þingmanna þegar þeir geta samhliða þingstörfum stundað fulla vinnu á lögmannsstofum, setið í bæjar- eða borgarstjórnum og verið ráðherrar samhliða þingsetu? Annars var ég þeirra ánægju aðnjótandi að hlýða á ræðu hjá téðum ráðherra í morgun og ég verð að segja að ég hef ekki dæmt hann ranglega - í það minnsta man ég ekki mikið af ræðunni.
Ef læknisþjónustan sem hann fékk - með lungnamyndum og hjartalínuritum var eðlileg - þá verð ég því miður að segja að svoleiðis eðlilega læknisþjónustu hef ég aldrei fengið.

4/12/06 12:02

krumpa

Ps. Mér þætti vænt um að fá einhver konkretdæmi um verkamenn sem eru með hærri laun - að ekki sé minnst á eftirlaunakjörin og bitlingana - heldur en þingmennirnir okkar.
Auk þess eru margir kallaðir (amk f/framsókn) en fáir útvaldir (sama) til starfa á þingi svo að varla eru launin eða óhóflegt vinnuálagið að fæla menn frá (enda varla tilefni til - ekki nema almennilegir vinnudagar við þinlok). Þeir þingmenn sem ég hef þekkt persónulega - og treysta því að ég leki ekki í fjölmiðla - segja annars vinnuálag og umræður um það stórlega orðum aukið og ýkt...

4/12/06 13:00

Jóakim Aðalönd

Þetta er vafalaust fínasta vinna og mér finnst í raun alveg eðlilegt að þingmenn og ráðherrar séu á háum launum. Bitlingarnir og eftirlaunin eru svo annar handleggur.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.