— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 1/12/04
Karítas heldur að heiman

Veit nú ekki hvað þið hafið fjallað um þetta hér - er enn haldin lestrartregðu eftir prófin. Veit líka að ég er ekki að finna upp hjólið svo að þið verðið bara að afsaka ef þetta er margtuggin og spýtt tugga. Fannst bara svo gaman að hafa loksins eitthvað til að rjúfa ritteppumúrinn með! Gleðilegt ár annars Bagglýtingar nær og fjær!

Ég er bara fátæk námsmær en þegar barnið mitt vantar skó þá má auðvitað ekki við svo búið standa. Held ég þá að sjálfsögðu rakleiðis niður í bæ, finn fátæklega útlítandi og tötralegt barn og kaupi á það dýrustu og fínustu skóna sem ég finn. Barnið mitt er að vísu jafnkalt og blautt í fæturna þrátt fyrir þessar aðgerðir mínar en mér líður betur á sálinni og einhver á nýja og fína skó! Mér líður vel því að í stað þess að taka til í eigin ranni þá horfðist ég í augu við sammannlega ábyrgð mína og gerði góðverk! Keypti mér - nokkuð billega - sálarró fyrir að minnsta kosti næstu vikurnar og get nú syndgað að lyst. Skilaði mínu til heimsins og þarf ekki að hugsa meira. Ahhhh...

Á Íslandi er fólk á götunni, það eru hundruðir fjölskyldna sem ekki eiga fyrir jólamat. Persónulega get ég ímyndað mér fátt sorglegra en barn sem fær engan jólapakka. Og í guðanna bænum, ekki koma með þetta kjaftæði um að fólk sé að spara sér útgjöld með því að leita til hjálparstofnana yfir jólin. Auðvitað leynist misjafn sauður í mörgu fé en ég get ekki ímyndað mér að fólk standi daglangt í biðröðum og hætti á að koma í jólaklámpakka sjónvarpsins sér til skemmtunar! Ég einfaldlega kaupi ekki þá trúarsetningu þjóðhagfræðinnar og frjálshyggjunnar að fátækt sé fólk að gamni sínu og að atvinnuleysi orsakist af því að atvinnuleysisbætur séu of háar! Sumir draga einfaldlega styttra stráið og fátækt er viðurstyggilegasti glæpur sem til er, svo að vitnað sé til mér merkari penna. Er haldin sjónvarpshátíð til styrktar þessu fólki?

Og það eru fleiri sem eiga bágt á Íslandi. Fyrir stystu var allt í uppnámi innan samfélags geðsjúkra þar sem óvíst var um fjárveitingu vegna náms þeirra. Og hvaða ofurupphæð var hér verið að tala um? 40 miljónir. Það voru nú öll ósköpin - ekki jafnmikið og kostar að stofna til stjórnmálasambands við Sómalíu! Ég á skyldmenni sem þjást af geðveiki og veit því hve regla og öryggi er geðsjúkum mikilvæg, svona framferði er því varla til að auka líkurnar á því að þeir verði einhvern tíma "gildir" þjóðfélagsþegnar. Þá komast geðsjúk börn ekki að á BUGL nema þau hafi helst áður framið sjálfsmorð eða drepið a.m.k. annað foreldra sinna. Þetta leiðir auðvitaðá endanum til stórtaps fyrir þjóðfélagið því að ekkert er gert í málum þeirra barna sem hægt hefði verið að lækna, þau enda svo á örorkubótum í stað þess að skila sköttum og gjöldum í ríkiskassann. Hefur verið haldin sjónvarpshátíð til styrktar þessu fólki?

Það eru reyndar ekki bara geðsjúkir sem eiga erfitt uppdráttar, því miður. Það sést nú orðið á tannheilsu og sjón barna hvernig fjárhagsstöðu foreldranna er háttað. Áður sást það bara á klæðaburðinum! Og enn er reikningsdæmið nokkuð skrýtið; barnið mitt þarf á gleraugum að halda, annars missir það sjón a.m.k. á öðru auganu. Missi það sjón endar það á örorkubótum, og skilar engum fúlgum í ríkiskassann o.s.frv. Væri því ekki skynsamlegt að börn fengju ókeypis gleraugu? Gleraugu á mitt barn kosta um 40-50 þúsund, þar af er Tryggingarstofnun svo elskuleg að styrkja okkur um 5000 kr. ! Hef nú hingað til verið svo elskuleg að endursenda þá fúlgu, með þeim orðum að fyrst þeir megi ekki sjá af meiru þá þurfi þeir nú greinilega meira á þessu að halda en ég. Er að vona að peningarnir fari í eitthvað skynsamlegt og uppbyggilegt, eins og til að mynda starfslokasamninga... Ég er heppin, ég hef hingað til átt fyrir gleraugum og tannlæknisþjónustu fyrir barnið mitt. En það eru ekki allir svo heppnir. Getið þið öll dregið upp úr vasanum 50 þúsund án þess að blikna? Hefur verið haldin sjónvarpshátíð til að standa vörð um heilbrigði barnanna okkar?

Hér hef ég bara verið að tala um litlu málin, ég kýs að hugsa ekki mikið um þau stærri og sorglegri; eins og hvað verður um fjárhag fjölskyldu þar sem eitt barnið veikist. Hafa allir hér efni á að taka sér ársfrí frá vinnu til að vera við dánarbeð barnsins síns? Hugsa líka aldrei um ellílífeyrisþega sem nappa sér kattamat til að eiga nú eitthvað að borða. Þeir eru til og það margir! Þeir eru bara ekki alveg nógu gott sjónvarpsefni.

Auðvitað búum við í hinum stóra heimi en ekki bara hér á skerinu. Þó að það sé álitamál hvort Karítas hafi tekið nógu vel til í herberginu sínu þá ferður stundum að leyfa henni að fara út til að taka þátt í standpínukeppni alheimsfjölskyldunnar.
(Reyndar er Colin Powell endanlega búinn að sigra í þeirri keppni, það fer litlum sögum af því hve mörgum hann bjargaði þarna fyrir austan en honum tókst í það minnsta að fá nógu marga til að snúast í kringum sig og teppa alla þyrluflota þannig að særðir fengu enga hjálp).

En hvað þá með litlu málin? Málin sem ekki eru alveg jafn sjónvarpsvæn? Er ekki hægt að keppa í þeim líka? Er alls ekki að gera lítið úr hörmungunum yfir hátíðarnar, þeir sem fyrir þeim urðu eiga alla mína samúð en það eiga fleiri bágt. Hvað með þessi 40000 börn sem deyja daglega úr hungri og niðurgangi? Úr sjúkdómum sem auðveldlega má ráða við? Hvað með malaríu? Hún er kannski ekki mjög fjölmiðlavæn - ekki þannig að við brestum í grát við sjónvarpið og þrífum í símana - en hún er auðlæknanleg. Það má koma í veg fyrir hana með örlitlum peningum. Og hvað með baráttuna gegn alnæmi? Það fást engir peningar í hana. Það þýðir lítið að fjasa um hórur, eiturlyfjaneytendur og homma heldur er nær að hugsa ðer butt for ðe greis of god. Allir sem einhvern tíma hafa haft mök við einhvern án gúmmíhólks eru í áhættu! Það er óþægileg tilhugsun og við bægjum henni frá okkur en sannleikurinn er samt sá að við getum ekki einu sinni verið viss um hvað maki okkar er að gera...

Semsagt, til að slá nú botninn í þessa langloku. Karítas má fara að heiman, en þarf hún endilega að elta stóra fólkið í standpínukeppninni? Er það nægilegt til að öðlast sálarró að gefa bara í eitt málefni? Getum við þá stungið höfðinu í sandinn og hugsað " skítt með hina, ég hef skilað mínu?"

Lifið heil.

   (92 af 114)  
1/12/04 17:00

Smábaggi

Gaman að sjá þig. Hvar hefurðu haldið þig?

1/12/04 17:00

krumpa

Fussumsvei - fyrst var prófaeinangrun (var ekki einu sinni nálægt tölvu), svo jólastress, svo þessi skelfilega inflúensa - er bara búin að vera fjarri góðu gamni.

En takk fyrir það og gaman að sjá þig líka!

1/12/04 17:01

Skabbi skrumari

Velkomin til baka Krumpa mín, flottur pistill... salút

1/12/04 17:01

Omegaone

Ef maturinn er nógu góður fyrir Kötinn er hann nógu góður fyrir aldraða ömmu þína eða mína.

1/12/04 17:01

Heiðglyrnir

Já blessuð veröldin er ekki upp yfir það hafin að selja syndaaflausnir í stórum stíl, aflausnarbréfin eru í formi kvittana fyrir þáttöku í hjálparstarfi, kvittun slík í bókhaldi fyrirtækja er síðan ávísun á skatta -ívinglanir.
Þetta er í sjálfu sér allt ágætis mál, en þegar peningar eru gefnir til hjálparstarfs erlendis, er bitið af báðum meginn hér á íslandi.
Get ekki annað en fallist á rök Krumpu um að hverri þjóð er hollast að taka til í eigin ranni, það eru bara rétt um 220 ár síðan þessi litla þjóð var hætt komin vegna náttúruhamfara og pesta, ca. fjórar kynslóðir. Ekki man ég eftir að mikið hafi verið um hjálp þá, mynnir þó að Danir hafi sent á stað skip með hjápargögnum en það lenti í hafvillu, svo að engu bjargaði það.
Þó er Riddarinn ekki að segja að það sé til eftirbreytni að láta sitt eftir liggja, í svona málum, en hugsum okkur nær.

1/12/04 17:01

Ívar Sívertsen

Orð sem hefðu þurft að koma fyrir svo löngu! Ég á tvö börn, annað þarf gleraugu og hitt er með bráðaofnæmi fyrir eggjum, með astma og er það sem kallað er á fagmáli „kraftmikið barn“. Samfélagið hefur voðalega lítið gert fyrir mig og það hefur enginn sjónvarpsþáttur verið gerður til styrktar börnum mínum. Ég á við offituvandamál að stríða og konan mín er með sjón upp á -12. Ekki hefur verið safnað fyrir okkur til að takast á við okkar mál. Ef við pælum aðeins í því þá eru þessir styrktarþættir ekkert nema risastór auglýsingatími fyrir fyrirtæki! Í þættinum síðasta laugardag vil ég þó nefna undantekningar á þessum auglýsingum og eru það Ellen Kristjánsdóttir og Mugison. Annað var bara Public Relations leikur og auglýsingar.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.