— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 31/10/03
Hinir verstu tímar.

Tilgerðarleg gagnrýni á eigið sjálf – skrifuð í miklu uppnámi eftir að hafa litið á dagatalið.

Prófin nálgast. Lokaprófin. Krumpu líður illa. Henni líður svo illa að hún verður að skilja sig frá vandamálinu og tala um sig í þriðju persónu. Krumpa hefur eytt öllum september og lunganum úr október (hér ýkir viðkomandi, það er bara 11.) í hégóma, húmbúkk og eftirsókn eftir vindi. Hún er um það bil fjögurþúnd blaðsíður eftir á í námi. En nú ætlar hún að taka sig á.

Krumpan verður reyndar alltaf semi-geðveik í prófum. Hún skilur sig frá samfélagi mannanna og verður hluti af samfélagi hinna lifandi dauðu; próftakaranna. Hún hættir að fylgjast með líðandi stundu og almennu gáfnafari hennar hrakar mjög. Hún veður um í vonleysi, talar við köttinn milli þess sem hún hlær óstjórnlega að ákaflega lélegum bröndurum sem eru ekki einu sinni kímilegir á milli próftarna. Hún nærist á hamborgurum, pylsum og öðru ómeti, keðjureykir eins og marlboromaðurinn og drekkur svo mikið af kofffíndrykkjum að innyflin verða svört. Hún hirðir hvorki um útlit sitt né heilsu og er vikum saman í sama sveitta íþróttagallanum (þ.e.a.s. þá daga sem hún hefur sig yfirhöfuð úr náttfötunum). Hún verður óhæf til búsetu í samfélagi hinna lifandi og hugsandi. Hún ergir sig yfir smáatriðum og hvæsir á ástvini sína að tilefnislausu.

Kynlífsfíkn (þið afsakið óheflað orðbragðið en þetta þekkja allir sem hafa verið í strembnum próf- eða vinnutörnum) hennar vex úr öllu valdi sem er sorglegt því áhugi mótspilarans minnkar að sama skapi. Hver hefur enda áhuga á líkamlegu samneyti við aðila sem hirðir ekki um þrifnað, er svo fölur af inniveru að hann minnir helst á skyldmenni Drakúla nokkurs, nærist á majónesi nokkurn veginn einvörðungu og lyktar eins og öskubakki sem hefur aldrei verið þrifinn? Einhverjir frambjóðendur? Huh ?

Krumpan biður ykkur vel að lifa.
Hún er farin að læra.

   (112 af 114)  
31/10/03 11:01

Hakuchi

Bara farin? Þú varst rétt að byrja.

31/10/03 11:01

krumpa

nei nei
Ekki farin þannig - spurning kannski samt að gera eitthvað á milli þess sem ég gleð ykkur með ritsnilld minni...

31/10/03 11:01

Órækja

Furðulegur tími til að standa í próflestri. Annaðhvort ert þú gríðarlega samviskusöm eða föst í einhverskonar "jarðsvíns degi".

31/10/03 11:01

Hakuchi

Já og hvaða áhyggjur eru þetta á þessum tíma. Best er að huga að námi í lok nóvember.

31/10/03 11:01

krumpa

Próflesturinn stendur alla önnina - líf mitt er einn langur próflestur - auk þess eru alltaf próf...

31/10/03 11:01

Hakuchi

Hvers lags fag er þetta eiginlega? Próf eru hvimleið.

31/10/03 11:01

krumpa

Þetta er alveg skelfilegt hryllingsfag sem ekki nokkur manneskja ætti að falla í þá gryfju að nema...

31/10/03 11:01

Hakuchi

Nema þú þá væntanlega. Nær væri að fara í hvaða nám sem er í heimspekideildinni. Þar þarf maður ekki að læra neitt. Mér skilst að það sé nóg að kunna stafrófið til að ná prófi þar.

31/10/03 11:01

krumpa

hmm - hef ekki spáð í það. Geri það næst. Reikna samt með að ég væri jafnklikkuð í lestörnunum, sama hvað ég væri að læra.

31/10/03 11:01

Órækja

Reyndar er stafrófskunnátta ekki lágmarkskrafan í sögu (sem er partur af heimspekideildinni), þar þarf víst að kunna allt lesefnið utanbókar og það efni er ekki mælt í blaðsíðum heldur kílógrömmum.

31/10/03 11:01

Hakuchi

Hahahahahahahaha...nú hefur einhver verið að skrökva að þér Órækja mín. Ég þekki þó nokkra sagnfræðinema ansi vel og þeir eru pissfullir allan tímann og mér er til efs að þeir kunni að lesa. Þeim gengur ágætlega.

31/10/03 11:01

Órækja

Ég þekki líka nokkra sagnfræðinema og þeir sitja sveittir yfir bókum allan ársins hring. Máske hefur verið logið að mér til að forða því að ég myndi skrá mig í þessa deild, því eins og þú lýsir náminu virðist það fara vel saman við minn akademíska áhuga.

31/10/03 11:02

Limbri

Ég flutti nú bara til Danmerkur til að fá bjórinn ódýrari. Enda er ég annálaður drykkjumaður og námsleysir.

-

31/10/03 12:00

hundinginn

Ég hef unnið í idjóta vinnu, með lögfræðingum og allt. Gættu þín kæra krumpa að læra ekki yfir þig.

31/10/03 12:01

Nafni

Gefðu þér tíma til að fara í laugarnar, slakaðu á í pottinum og gufunni.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.