— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 31/10/05
Erfinginn

Æi, sko, þetta á ekki alveg heima hér en ég er bara svo aldeilis rasandi bit....

Þegar fréttir bárust af fjöldabrotthvarfi af vernduðum vinnustað við Austurvöll var ekki laust við að maður hefði áhyggjur. Bæði var óvissa með það hvað öll þessi tetur ætluðu a hafa fyrir stafni í framtíðinni, enda varla hæf í byggingarvinnu, stíflugerðir eða slíkt. Jafnframt óttaðist maður að fáir sætu eftir utan heiðarlegir, litlausir, heilaþvegnir, flokkshollir, staðfastir sakleysingjar.Þetta voru samt óþarfa áhyggjur. Á þessum vinnustað er nefnilega hópur manna sem virðist ekki hafa neinar fastmótaðar skoðanir. Þessir villuráfandi sauðir sveiflast eins og lauf í vindi - segja eitt í dag og annað á morgun - og treysta því (sennilegast með réttu) að umbjóðendur þeirra og atvinnuveitendur (reyndar við) séu svo gleymnir og annars hugar að þeir átti sig ekki á stefnubreytingum, kúvendingu og bara alls kyns froðu sem frá þeim vellur. Hvað varðar forystusauðinn þá er oftar en ekki erfitt að sjá hvaða sauði hann er að leiða, enda á hópurinn til með að tvístrast um víðan völl. Þess vegna þarf manni ekkert að leiðast þó að Bubbi kóngur og aðrir slíkir hafi hætt í körfugerðinni og farið yfir í hellugerðina. Það er nóg eftir af skondnum kjánaprikum til að fylgjast með...

Vil skjóta því hér inn - ekki að það skipti máli - að ég er á móti þessu brölti þarna fyrir austan - ekki út af grasi, hólum eða gæsum - heldur vegna þess hve þetta er allt hroðvirknislega unnið og ekkert liggur fyrir um hvort eða hverju þetta muni skila í kassann. Þa er allt í læ að drekkja nokkrum gæsum og hreindýrum - en er ekki lágmarkið að græða eitthvað á því?

En, semsagt, á þessum verndaða vinnustað stigu ýmsir á stokk í gær, þar á meðal Bogga Solla, sem er nr. 1 í ltilum danshóp sem kallar sig ,,Tvö skref til hægri og þrjú skref til vinstri og snúa svo í hring" (fyrst ætlaði hópurinn bara að dansa jæv og charleston en það fílar víst enginn svoleiðis svo að nú sýnir hann mest hiphop og línudans). Bogga Solla talaði illa um Nínu og Geira en þau eru aðalparið á staðnum. Bogga Solla vill losna við Nínu og Geira því að hún er skotin í Munda og vill að þau verði aðal. Hún sagði að Nína væri alltaf að reykja á klósettunum og að Geiri dreifði drasli um allt og svo væri líka fýla af honum. Það er gott að Bogga Solla vinnur á vernduðum vinnustað því að annars staðar fær fólk að fjúka fyrir svona hringlandahátt. Nína bað nefnilega fyrir eitthverjum árum um að fá að reykja á klósettinu og Geiri spurði hvort hann þyrfti nokkuð að skipta um sokka - nema bara svona á jólunum. Danshópurinn hennar Boggu Sollu var mjög ánægður með þessar hugmyndir og samdi lítinn Jíbbíjei-dans í tilefni þeirra. Bogga Solla fór meira að segja oft með Nínu inn á klósett að reykja og hjálpaði Geira að dreifa rusli um vinnustaðinn - sagði líka að hann þyrfti ekkert að taka til. En svo fór Bogga Solla að hugsa..... það kom nefnilega í ljós að þeir sem keyptu körfur og bursta af verndaða vinnustaðnum vildu ekki að fólkið þar væri að reykja inni á klósetti. Svo er allt svo skítugt og ógeðslegt þarna inni að það eru eiginlega allir hættir að kaupa handprjónaðar tuskur - þær eru bara of ojjjj eitthvað. Og hvað gerði Bogga Solla? Í staðinn fyrir að segja: ,,danshópurinn minn klúðraði, við gerðum vitleysu, við áttum ekkert að semja Jíbbíjei-dansinn. Við skulum hjálpa Geira að taka til og kaupa nikótíntyggjó handa Nínu," þá segir hún bara: ,,við leyfðum ykkur aldrei að reykja - það er ógeðslegt að reykja! Þið eruð ljót, þið eruð asnaleg og við viljum ekki hafa ykkur með á vinnustaðnum, það vill enginn leika við ykkur og við vorum aldrei vinir ykkar í alvöru. Allt í plati, rassagati...táfýlu-Geiri ljóti og feiti..." Og fólkið sem kaupir bursta, körfur og tuskur er svo dæmalaust vitlaust að það hugsar um það hvað Bogga Solla sé góð og snyrtileg eitthvað og hún hafi nú aldrei viljað að neinn reykti inn á klósetti.....

Jahérnahér!
Er þessi hópur virkilega búinn að gleyma hvernig hann greiddi atkvæði - með virkjanabrölti. Það var ekki fyrr en eitthvað hippahyski fór að velta um götur og torg að þessir pólitísku málaliðar fóru að snúa við blaðinu - því að það er ekki víst að það sem henti í dag henti á morgun. Það má hafa hvaða skoðanir sem maður vill - en að afneita skoðunum sínum og kannast ekkert við þær daginn eftir, tjah, það er í besta falli kjánalegt.
Kýs ég þá fremur Bændaklíkuna - hún er í það minnsta staðföst í vitleysunni og ruglinu. Annars er þetta allt sama tóbakið.

   (44 af 114)  
31/10/05 04:01

Ísafold

Sammála. Þetta á ekki heima hér. Bloggbull. Henda þessu út.

31/10/05 04:01

Heiðglyrnir

Já hún Bogga Solla er „dáltið" svög fyrir fyrir almannaróm svona hvurju sinni. Það er ekki laust við að maður hafi bara áhyggjur af Öbba litla, þetta er svo góður kall, þó ekki sé hann eins skarpur og hann vill vera láta.

31/10/05 04:01

Tigra

Mér finnst þetta alveg dæmalaust góð dæmisaga.
[Flissar]

31/10/05 04:01

Ísdrottningin

Bændaklíkan? Þú meinar fimmti speni sjálfstæðissauðanna...

31/10/05 04:02

Isak Dinesen

Skemmtilegt rit.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.