— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 1/11/03
Af aumu laugardagskvöldi í lífi keisaraynju - fyrirvinna óskast !

Jafnvel þeir tignustu eiga slæma daga !

Þar sem Hákon skaffar hreinlega ekki nógu vel, tjah, og kannski líka af því að hann er aldrei heima (er að flakka um landið og taka þátt í æstum ástarleikjum með svissneskum mjaltastúlkum) neyðist hennar hátign stundum til að taka að sér aukavinnu.

Á laugardagskvöldum leggur hún því leið sína í húsbákn eitt sem er í nágrenni Sódómu sjálfrar, þ.e. nálægt svæði 101. Þar eru Bakkus og Mammon (að ógleymdum Amori) tignaðir fram eftir morgni, og stundum lengur. Þarna leggst hennar hátign svo lágt að ganga um beina, að þjóna sauðsvörtum almúganum sem hefur ekki einu sinni nægilegt vit í kollinum til að rísa á fætur er hún gengur í salinn eða sýna henni tilhlýðilega virðingu (er hér átt við sjálfsagðar etíkettur eins og að lúta höfði, þegja þegar keisaraynjan talar o.s.frv.).

Gærkvöldið var semsagt engin undantekning frá þessari reglu. Þrátt fyrir hausverk og almenna leti og slappleika ákvað hennar hátign að drífa sig til starfa. Hún var jákvæð og bjartsýn og reiknaði nú með að allt færi vel. Hún byrjaði því á að kalla á þernur sínar til að færa sig í vinnuföt og gera sig sæta(ri) í framan. Þegar því var lokið hugðist hún fara í vinnuskó. En ó sú mæða ! Þeir voru gauðslitnir, eiginlega bara ónýtir. Í bræði sinni sparkaði keisarynjan í köttinn, sem hún kennir yfirleitt um ófarir sínar, fór að því búnu í einstaklega ópraktíska og óþægilega skó og hélt svo af stað, aftur orðin glöð í bragði.

Keisarynjan lagði svo af stað í sjálfrennireið sinni. Það er ekki ofsögum sagt að sá bíll vekur athygli (sem og hennar hátign sjálf) hvar sem hann kemur. Ekki nóg með að hljóðkúturinn og pústið séu löngu dáin drottni sínum heldur sýður óspart á kagganum, svo að á hverjum ljósum er hennar hátign eins og lokaatriði á rokktónleikum frá níunda áratugnum.

Þegar keisaraynjan hafði lagt að baki dágóðan spöl uppgötvaði hún sér til skelfingar að hún hafði eigi neina líkkistunagla meðferðis. Ákvað hún í snarhasti að bjarga því og stöðvaði því sjálfrennunginn við svokallaða lúgusjoppu á óræðum stað í höfuðborginni. Það voru mistök ! Hennar hátign, sem hélt hún sparaði tíma með þessari ráðstöfun, þurfti að gera svo vel að bíða í óratíma við lúguna ! Hvað er svo að hreyfilimum ungdómsins í dag ? Hennar æruverðugheit hefði nú skilið þetta ef mikil ös hefði verið hjá viðkomandi fyrirtæki en það var nú aldeilis ekki. Hins vegar virðist ungdómurinn í dag (a.m.k. ef hann er á tímakaupi) hreyfa sig eins og afgamlar húsmæður, þjakaðar af gikt og Parkinsons. Hennar hátign, sem ekki er þekkt fyrir þolinmæði, og er auk þess með of háan blóðþrýsting, varð að bíða við lúguna í fjórtán mínútur áður en hún gat haldið áfram að stuðla að hægum og kvalarfullum dauðdaga sínum.

En áfram hélt ferðin, glöð í bragði og smjattandi á nikótínstautum hélt hún áfram ferð sinni um götur bæjarins, með opinn bílgluggann. Önnur mistök ! Ekki hafði hún lengi ekið er lítill maður, væntanlega einnig neðanmittisminnimáttar, á ógnarstóru jeppaferlíki (þ.e. ögn stærra en fararskjóti hennar hátignar) ók framhjá á ofsahraða, ofan í hjólförunum, með þeim afleiðingum að hennar hátign rennblotnaði. Málningin, hárgreiðslan, fíni vinnugallinn - allt til fjandans !

Þreytt, blaut og hvekkt lagði keisaraynjan loks bifreið sinni fyrir utan mammonshöllina, þar vildi ekki betur til en svo að hún steig ofan í drullupoll, þannig að þessir tveir þurru þræðir á líkama hennar sem eftir voru rennblotnuðu. Nú reiknar hún með að fá lungnabólgu, blöðrubólgu, tannrótarbólgu eða þaðan af verra.

Þegar hennar hátign kom loks í vinnuna, fashionably late (hátískulega seint ? ), tók sko ekki betra við. Hún átti að vinna ! Hún átti að þjóna lágkúrulegu, forheimskuðu pakki sem tróð mat af áfergju í öll vit sér auk þess sem það glutraði í sig ódýru, lélegu glundri. Hún átti að þrífa sóðaskapinn eftir þetta fólk ! Og hvað er þetta svo með Íslendinga og hlaðborð ? Ekki troða svona á diskana ! Það er troðið og troðið og svo er megninu leyft í ólystugri sósuhrúgu, minnir helst á aðfarir hjá börnum sem eru að borða í fyrsta sinn sjálf. Það er hægt að fara aftur og fylla á diskinn !!

Keisaraynjan fékk ekkert að borða sjálf og þarna voru engir til að þjóna henni. En þar sem hún er hörkutól þefaði hún nokkrum sinnum af ilmsöltum sínum, reyrði lífstykkið og tók til óspilltra málanna við að vinna.

Sjö tímum síðar losnaði hún úr þessum hremmingum, þreytt á sál og líkama, með bólgnar tær (eftir skófjandana) og þreytta fætur. En ólýsanlega glöð að hafa sloppið lifandi frá þessu dónalegu sveitadurgum.

ALDREI AFTUR !
Hákon, annaðhvort ferð þú að sjá fyrir mér eða ég er farin!

   (101 af 114)  
1/11/03 07:01

Haraldur Austmann

Þetta er bara helvíti fyndið.

1/11/03 07:01

Limbri

Lífið í hnotskurn.

-

1/11/03 07:01

Tigra

AHAHAHA neðanmittisminnimáttar... djöfull verð ég að fara að nota þetta.
Og ég er sammála Krumpu.,. Hákon verður að fara að sjá fyrir henni.. jú og konunglega kettinum líka.

1/11/03 07:01

hundinginn

Hákon! Hákon! ...

1/11/03 07:01

Hakuchi

Bráðskemmtilegur pistill. Ég biðst þó afsökunar að hafa glaðst yfir lýsingum á hrakförum þínum.

1/11/03 07:01

Urmull_Ergis

...þetta er bara ekki hægt.

1/11/03 07:01

Vladimir Fuckov

Skemmtilegur pistlingur um óskemmtilega atburðarás. Það er ljótt að hlæja að óförum annarra en það gerðum vér að þessu sinni. Hljótum vér því hér með vera orðnir gjaldgengir í ljótukallafélagið (ef það er til).

1/11/03 07:01

Finngálkn

Krumpa þú ættir að gefa sjálfa þig út (ekki vændi). Þetta minnir á Auði Haralds! Stórskemmtilegt!!!

1/11/03 07:01

Finngálkn

Annars veit ég ekki hvað álit krakka-afstyrmis hefur að segja.

1/11/03 07:01

krumpa

Þakka hrósið Finngálkn - Auður er nú reyndar í uppáhaldi hjá mér, þótt ég mundi nú ekki dirfast að líkja mér við hana, en sjálfsagt hefur það einhver áhrif sem maður hefur lesið. Annars ert þú nú kannski ekkert svo óttalegt afstyrmi og getur nú átt góða spretti sjálfur. (Af hverju kunna Íslendingar annars ekki að taka hrósi - mér finnst ég alltaf eins og vindbelgur og hálfviti þegar ég svara svona kommentum - og svo er ókurteist að svara ekki... ERFITT !)

1/11/03 07:01

Mikill Hákon

Fyrirgefðu mér elskan, þú veist að þú ert sú eina.

1/11/03 07:01

krumpa

OG HVAR ERT ÞÚ BÚINN AÐ VERA ?? Sniff, sniff og hvar eru peningarnir ? Æi, ræðum þetta bara í rólegheitum yfir ostrum í höllinni ...

1/11/03 07:01

Mikill Hákon

Svona svona, ég skal láta þig fá ríkisstjórnarkreditkort, þá geturðu kannski farið með Mosu og Júlíu að versla.

1/11/03 07:01

krumpa

Má ég frekar fara með frú Órækju - er sagt að hún kunni sko að versla !! ??

1/11/03 07:01

Mikill Hákon

jájá, farðu bara með þeim sem þú vilt - nema Vamban.

1/11/03 07:01

Tannsi

Komdu bara með mér. Ég skal kaupa handa þér brjóstastækkun ef þú vilt.

1/11/03 07:01

krumpa

Þú ert nú meira fíflið - brjóst keisaraynjunnar eru af fullkominni stærð og brjóstastækkun var hér aldrei til umræðu !

1/11/03 07:01

Tannsi

Ég sagði: "ef þú vilt."

1/11/03 07:01

krumpa

Og af hverju ætti einhver að vilja láta skera í sig og misþyrma sér og fylla sig af hættulegum gerfiefnum og eyðileggja það sem náttúran gaf ? Til að leika í klámmynd kannski ?

1/11/03 07:01

Tannsi

Það veit ég ekki. Ég var bara að reyna að vera almennilegur og bjóðast til að kaupa eitthvað fallegt handa þér. Brjóst eru falleg og þá sérstaklega vel stinn og góð.

1/11/03 07:01

krumpa

Er ekki hægt að þagga niður í þessari krlrembu - efast auk þess um að hann hafi nokkurn tímann séð brjóst hvað þá meira...

1/11/03 07:01

Tannsi

Hvaða hvaða, er einhver viðkvæmni. Ég hef þó ekki hitt á einhverja viðkvæmar taugar. Ég biðst afsökunar ef ég er að særa þig.

1/11/03 07:02

hundinginn

Bölvaður dónaskapur er þetta! Ég legg til að Tannsi verði sendur á einka...is og lokaður þar inni með hinum perrunum.

1/11/03 07:02

krumpa

Takk fyrir hundinginn minn - vissi að vinir mínir mundu standa með mér !

1/11/03 07:02

Skabbi skrumari

Þetta var ansi hreint skemmtilegur dagbókarfærsla hjá þér Krumpa mín... Salút...

1/11/03 07:02

Órækja

Það tilkynnist hér með að fjármál frú Órækju hafa verið tekin úr hennar höndum og þar með allt það plast sem hún notar til að greiða fyrir vörur og þjónustu. Vinsamlegast ekki koma nálægt henni, hún er eilítið uppstök vegna þessa tiltækis fyrirvinnunnar og þeim sem vitið og buxurnar hefur á heimilinu.

1/11/03 07:02

krumpa

Má hún þá ekki fara með mér í smáleiðangur á kostnað ríkisins ?

1/11/03 07:02

Órækja

Að sjálfsöguð, fylgstu bara með því að hún láti ekki skrifa neitt á sig eða reyni að slá lán.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.