— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 5/12/09
Keisaraynja á ferð og flugi

Í gær þurfti ég að bregða mér af bæ og aka hinni keisaralegu sjálfrennireið - með keisaralega afkvæmis og nýjasta þegn heimsveldisins, sem raunar er ferfætlingur, innanborðs - í gegnum gossvæðið ógurlega. Þetta er sagan af því.

Þar er Heittelskuðum hugnaðist ekki að aka með mér þessa fimm hundruð kílómetra fram og tilbaka ákvað ég að gera bara gott úr því og hlakkaði jafnvel til að vera ein í bílnum á bakaleiðinni. Ég gæti þá hlustað á gamla eðaltóna Pearl Jam, Guns n´Roses, Live, og fleiri snillinga sem hinn menningarsnauði Heittelskaður leyfir ekki að sé hlustað á í höllinni.

Þá var mér einnig tjáð að aska væri afbragð fyrir húðina svo ég tók með mér allar krukkur og ílát sem ég kom höndum yfir í þeim tilgangi að ná í sem mest af þessu náttúrulega hrukkulyfi. Sér í lagi þar sem það er kreppa og svona...

Segir nú fátt af ferðinni austur eftir. Nema kannski það að hinn nýi, lægst setti, fjórfætti þegn, áttar sig ekki alveg á stöðu sinni innan heimsveldisins og vill helst hafa hausinn í kjöltu minni meðan ég er að keyra og hið keisaralega afkvæmi vill fremur horfa á i-podinn sinn og er alsendis ómeðvitað um ábyrgð sína gagnvart ómerkari þegnum. Ég var því fremur útsleikt og búin að öskra mín viðkvæmu eðalbornu raddbönd nokkuð hás þegar komið var á leiðarenda.

Losaði mig við barn og hund á tilsettum stað og tíma og hugði mér nú gott til glóðarinnar að hlusta á eðaltóna og syngja með á bakaleiðinni. Sannleikurinn er nú samt að á mínum aldri hugnast mér best að hlusta á Johnny Cash og revíutónlist. Í stað þess að hafa Pearl Jam í botni þoldi ég nú bara lítinn hljóðstyrk, söng ekkert með, og fékk fljótlega hausverk af öllu saman. Skildi svo ekkert í hvað ég sá við þessi dauðadags öskur og ólæti. Ég er sumsé orðin pabbi minn.

Þegar nær dró gosstöðvum tók þó að vænkast nokkuð hagur strympu, og ég safnaði saman kirnum þeim af alls kyns ílátum sem voru með í för og hugðist yfirgefa sjálfrennireiðina til að safna ösku. Ekki tókst þó betur til en svo að hin keisaralega purpuraskikkja klemmdist milli stafs og hurðar á bifreiðinni svo hvorki var hægt að opna eða loka bílhurðinni. Við tók örvænting mikil þar sem ég stóð út í kanti þjóðvegarins fest við bifreiðina, án síma, lykla og annars sem að gagni mætti koma og sá fyrir mér skelfilegan dauðdaga þar sem sléttuúlfar komu við sögu. Eins og önnur örvæntingarfull dýr sem festast í gildru ákvað ég að lokum að naga af mér fótinn - þ.e, rífa skikkjuna úr sjálfheldu sinni svo að opna mætti bifreiðina. (Það var ekki fyrr en í morgun að mér datt í hug að e.t.v. hefði verið gáfulegra að fara úr peysunni, fara inn í bílinn farþegamegin og opna innan frá.) Eftir heljarinnar reipitog við skikkjuna losnaði hún loks, gauðrifin vitaskuld og loks var hægt að opna bílinn.

Tók þá við öskuleitin. Þrátt fyrir að vera vel að mér um margt er jarðfræði ekki eitt af því og er mér raunar hulin ráðgáta hvernig mér tókst á sínum tíma að ná prófi í þeirri grein. Eftir töluverða leit að því sem ég taldi vera ösku tókst mér þó að fylla öll ílátin mín af þessu dýrmæta efni og hélt áfram ferð minni heim í tætlunum af keisarabúningnum.

Átti ég heldur tíðindalitla ferð heim til mín við hlustun ómfagurra revíusöngva og komst að lokum heim stóráfallalaust. Ég ætla hins vegar ekki að lýsa því í smáatriðum hversu kátt var í höllinni er hennar hátign birtist með u.þ.b. 20 kíló af....ósköp venjulegum sandi.

Lifið heil.

   (6 af 114)  
5/12/09 13:01

Upprifinn

Mín bara að viða að sér efni í sandkassa.<ljómar upp>

5/12/09 13:01

Billi bilaði

Er ekki sandur orðinn munaðarvara hér í borg óttans?

5/12/09 13:02

Dula

Snilldar rit ,alveg frábært einsog flest annað sem frá hennar hátign kemur.

5/12/09 13:02

Golíat

Gaman að sjá þig Krumpa, þó ég hafi ekki einbeitingu í svona langan lestur nú þegar líða tekur að leikslokum hjá mér.

5/12/09 13:02

Golíat

Annars lýg ég þessu, skemmtileg færsla.

5/12/09 14:01

krossgata

Er Heittelskaður betur að sér í jarðfræðinni? Ef svo á hann að sjálfsögðu að brenna austur undir gos og ná í eðalösku fyrir keisaraynjuna.

Finnst mér.

5/12/09 14:01

Regína

Er sandur nokkuð annað en gömul eldfjallaaska?

5/12/09 14:01

Nermal

Áttu ekki kött? Þarna er kominn kattarsandur.

5/12/09 15:00

Jarmi

Stórgott rit.

En í guðana bænum ekki taka það í mál að samþykkja að askan þín sé sandur. Þetta er askan ÞÍN og stórgóð sem slík.

5/12/09 15:01

krumpa

Takk fyrir það - ég er satt að segja alveg óviss um það hvað hægt er að gera við þennan sand - og upprunalegur uppruni sands er mér hulin ráðgáta. En við þurfum að fara aftur á morgun og taka á móti þegnunum svo Heittelskaður, sem er ákaflega vel að sér um alls svona miður spennandi, verður sko sendur út að sækja ,,rétta" ösku.

5/12/09 16:01

Anna Panna

Sandur hlýtur að vera nothæfur í einhvers konar skrúbb-krem fyrir húðina, þannig væri hægt að hafa fötu af sandi í baðherbergi hennar hátignar og nudda með honum hina keisaralegu húð undir morgunsturtunni.

Annars er ánægjulegt að sjá að þú kemur við í Baggalútíu á ferðum þínum, endilega gerðu það sem oftast!

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.