— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 1/11/06
Nostalgía gamalmennis

Að verða þrítugur er ekkert mál - að verða 31 er hins vegar sársaukafullt. Ég er kannski ekki á grafarbakkanum en það eru samt ákveðnir hlutir sem ég sakna...

Hér um árið þegar Heittelskaður var 33 var sú tala einmitt miðgildisaldur þjóðarinnar. Miðgildið fer væntanlega bara lækkandi svo að ég er nokkurn veginn miðaldra...

Ég hef verið að hugsa ákaflega mikið um ABM (anno bono musica) 1995. Það var í alla staði gott ár.

Ég hlustaði á háværa, reiða rokktónlist og grunge. Nú hlusta ég helst á gömlu dansana (með heyrnartól til að ónáða ekki grannana) og fæ höfuðverk af því einu að horfa á gömlu diskana mína.

Ég gat vakað alla nóttina og mætt í vinnu morguninn eftir og haldið svo áfram. Nú er ég yfirleitt í rúminu um 11 og drattast samt varla framúr...

Ég dansaði á borðum á Gauknum meðan Lipstick Lovers spiluðu. Nú er Gaukurinn hættur (eða hvað, ég fer aldrei í bæinn...) og LL á elliheimili. Auk þess svimar mig af því að standa á tám - hvað þá að dansa uppi á borði.

Ég var opin fyrir nýjum hlutum, nýju fólki, fór í teygjustökk og hræddist ekki þó ókunnugir karlmenn byðust til að labba áleiðis heim með mér. Nú míg ég í mig af skelfingu ef einhver spyr mig til vegar og finnst ógnvekjandi að fara í sturtu án þess að hafa mottu í sturtubotninum...

Ég lifði á nikótíni, koffíni og pizzum. Í dag fæ ég niðurgang af kaffi, uppgang af kóki og þoli ekki pizzur nema taka magatöflur fyrst. Pepperóní, hvieti og ger fer bara ekki vel í magann...

Ég var með hár niðrá rass og talsvert undir kjörþyngd. Nú er ég með settlega frúargreiðslu og...

Ég lá í disknum í Laugardagslauginni í bikiníi í þeim tilgangi einum að sjá hvort einhver væri flottari. Nú á ég sundbol með háu hálsmáli...

Ég var ung og reið og það var töff - það var tíðarandinn. Nú er ég bara reið vegna fyrirtíðaspennu eða vöðvabólgu - það er ekki töff.

Ég drakk Kaftein, Sambúcca og Tekíla - nú fæ ég mér í mesta lagi sérríglas eða lætbjór - og þoli það varla.

Ég keyrði hratt, á óskoðuðum, bremsulitlum bílum og ekki með belti. Nú fer ég varla yfir fimmtíu og sef ekki ef tíminn milli smurninga fer yfir 5000 km.

Ég hafði gaman af fatapóker og kynlífsleikjum. Nú spila ég bara Ólsen við smábörn og villt kynlíf felst aðallega í því að vera ekki í nærfötum innanundir náttfötunum.

Ég gekk í afar þröngum - og jafnvel gegnsæjum - fötum. Nú á ég aðallega jogginggalla og hef miklar áhyggjur af því að þröngir buxnastrengir trufli blóðrásina.

Ég gekk á fimmtán sentimetra pinnahælum, í skólanum, vinnunni, djamminu, alls staðar. Í dag heita uppáhaldsskórnir adidas auk þess sem ég á loðna inniskó með dúskum.

Ég þurfti ekki að mála mig áður en farið var út úr húsi og átti ekkert andlitskrem. Nú á ég andlitskrem fyrir kulda, hita, nótt, dag, hádegi, kvöld, djamm, þurrk, raka og þreytu. Og dugir ekki til.

Ég er farin að taka á mig sveig ef ég sé unglingahóp á sveimi...

Ég átti OL-ÞE-TÆM-IN-ÞE-WÖRLD og gat gert hvað sem ég vildi - lífið var endalaust. Nú er ég að átta mig á því að það er kannski ekki alveg þannig...

Ég hlusta á tuð um ,,unga fólkið í dag" og átta mig á því mér til hryllings og skelfingar að það er ekki átt við mig.

Á maður ekki bara að gifta sig, kaupa taujótu og safna viðbótarlífeyri? Er þetta hvort eð er ekki allt búið?

   (16 af 114)  
1/11/06 20:01

Billi bilaði

Gifta sig!!! Hvað segir Herbjörn við því?
(Tuskaðu fósturdóttur ykkar aðeins til og þá líður þér betur.)

1/11/06 20:01

Galdrameistarinn

Hvað ertu að væla unglingurinn rétt orðin þrítug.

1/11/06 20:01

Dula

Elllslkan , ég hlýt að vera mjög seinþroska , eldri enþú og hef eiginlega bara gaman af þessu öllu ennþá, sef að vísu í náttfötum en það er bara af því að ég er einhleyp.

1/11/06 20:01

Skabbi skrumari

Lífið er rétt að byrja hjá þér Krumpa... Skál...

P.S. þrælskemmtilegt félagsrit að venju hjá þér...

1/11/06 20:01

Regína

Ósköp eldistu hratt. Fegin er ég að vera ekki eins og þú.
Það er greinilega betra að taka þetta jafnara, drekka og djamma meira þegar árunum fjölgar...

1/11/06 20:01

Leiri

Ég er að hugleiða hvort þú sért búsett á Grund? Þetta var bara skemmtilegasta félagsrit og maður gæti þegið framhald, satt best að segja.

1/11/06 20:01

krossgata

Ég kannast við sumt þarna, en tónlistarsmekkurinn hefur bara harðnað með árunum. Er þetta ekki bara skammdegið annars.... það er oft ekkert bara.

1/11/06 20:01

Kargur

Takk kærlega. Ég kemst akkúrat á þennan ógnaraldur um næstu helgi. Enda þorði ég ekki að smakka það á árshátíðinni. Það hefði einhvurn tíman verið öðruvísi.

1/11/06 20:01

Heiðglyrnir

Úff krumpa mín úff...<veinar af hlátri> Kjarnyrt dagbókarfærsla; tekið djúpt í árinni og róið mikin, eins og þín var von og vísa....Riddarakveðja.

1/11/06 20:01

Garbo

Ég ætla nú að vona að það séu a.m.k. 30 ár þangað til mér fer að byrja að líða svona!

1/11/06 20:01

Sundlaugur Vatne

Finnst þér þú vera farin að eldast? Bíddu bara þar til þú ferð að missa þvag og ert þakklát fyrir hvern þann dag sem þú getur haft hægðir!

1/11/06 20:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Fyndið og flott Takk og skál

1/11/06 20:01

Jarmi

Jösss! Ég er ungur.

[Fær sér hamborgara í haus]

1/11/06 20:01

Isak Dinesen

Frábært rit.

1/11/06 20:01

blóðugt

Ég á nú nokkur ár eftir í þennan aldur og ég finn ekki fyrir þessari gífurlegu hrörnun. Gerist þetta kannski á einu eða tveimur árum? [Vonar ekki]
Ég hef einmitt meira gaman af því að djamma eftir því sem ég verð eldri, það verður allt mikið skemmtilegra einhvern veginn.

1/11/06 20:02

krumpa

Galdri : þetta er verra fyrir konur. Eða eins og pabbi aldursskiptir konum : 18-25=KONA og eftir það=kjellíng. Hann sagði mér þetta raunar þegar ég var 17 og þá fannst mér þetta flott enda sá ég ekki fram á að verða svona gööööömul.

Sundlaugur: það er einmitt eitthvað til að hlakka til - 75% dvalarfólks á vistheimilum á einmitt við þvagleka að stríða - mest konur.

blóðugt: Þetta gerist hægt - skuggalega hægt svo maður fattar það ekki fyrr en eftir á - þegar fjörið er búið.

Ísak, GEH, Heiðglyrnir og Skabbi: TAKK TAKK TAKK TAKK.

Kargur: samhryggist.

Og þið stelpur sem haldið að þið séuð ekkert að eldast - annaðhvort eruð þið stökkbreyttar, hrikalega heppnar eða í hroðalegri afneitun.

Held samt að aðalmálið sé að eftir því sem bíllinn verður eldri því meiri umhyggju, alúð og viðhald þarf hann. Sem er slæmt því eftir því sem hann eldist hefur maður alltaf minni og minni tíma.

1/11/06 20:02

Andþór

Þetta var skemmtileg lesning.

1/11/06 20:02

Huxi

Mikið var þetta sorglegt félagsrit. Ég hélt að þú værir u.þ.b. helminmgi yngri en ég og ég skil ekki hvernig aldurinn hefur náð þér svona heiftarlega. Mér finnst mun betra að líta á aldur sem hugarástand, en ekki árafjölda. Það er kannski satt sem einhver sagði við mig einu sinni. Karlmenn eldast en konur verða gamlar.
Pissustopp.
Mér finnst samt, þrátt fyrir sorglegt efni, þetta félagsrit frábærlega hnyttið og vel skrifað

1/11/06 20:02

Tigra

Ha? Er líf eftir þrítugt?!
[Hrökklast aftur á bak og hrasar við]

1/11/06 21:00

kolfinnur Kvaran

Hvað er miðgildisaldur?

1/11/06 21:00

Upprifinn

Þegar ég var þrjátíu og eins fannst mér ég vera í blóma lífsins og mér finnst það eiginlega bara enn. ég get ekki fundið að það sé farið að halla undan og ég horfi á mína nánustu. sumir komnir á níræðisaldurinn og alltaf hressir.
líflgleðinn dofnar ekki og alltaf hægt að lauma inn kaldhæðinni athugasemd um heimsku æskunnar eða eitthvða annað og svo hlæja allir með. þú Krumpa mín ert í blóma lífsins og ef að þér finnst þú of þung eða þreitt, drullastu þá bara til að gera eitthvað í málinu og hættu þessu væli. Þú ert vel menntuð kona á íslandi í dag og átt framtíðina fyrir þér.. SKÁL

1/11/06 21:00

B. Ewing

Ég get allt. Skil allt. fíla allt miklu betur en fúll á móti !

Ég skal vera hress þegar ég verð 10 árum eldri en ég er í dag, enn hressari þegar ég er 20 árum eldri en ég er i dag og últrakóbalthress þegar ég kemst á elliheimili.

1/11/06 21:01

Regína

Þetta með að vera gamall er tilfinning sem kemur og fer. Ég hef líklega verið 26 þegar ég tók fyrst eftir því að ég væri gömul. Þá sá ég hóp af ca 24-25 ára mönnum og þetta voru smákrakkar!

1/11/06 21:02

Hakuchi

Þú ert dæsandi góður penni krumpa og er pistill þessi í hæsta gæðaflokki.

Nú er hins vegar tími kominn til að hætta að syrgja æskuna og skella sér í ég-er-svo-gömul-að-mér-er-skítsama gírinn. Þá ættir þú að geta skemmt þér kostulega á kostnað þessa bjánalega unga fólks.

[Keyrir á 30 á Miklubraut]

1/11/06 21:02

krumpa

Hjartans þakkir minn kæri - þú yljar mér um fúnar hjartarætur.

1/11/06 22:01

feministi

Krumpa, Krumpa, Krumpa.

Þú er frábær og þetta félagsrit óborganlegt. Vita máttu að þetta fer batnandi. Ég er komin einum 10 árum fram úr þér og gott betur. Það er gott að eldast og finna hvernig hið innra fer að skipta meira máli en hið ytra. Hvað svo sem tíðarandinn segir.

1/11/06 22:02

Garbo

Mér finnst þetta frábært félagsrit, gleymdi að taka það fram. Ég er því annars frekar mótfallin að flokka fólk eftir aldri og mér leiðast fordómar sem miðaldra húsmæður verða fyrir. En þetta með 30 árin kom nú til af því að hann faðir minn sem er sjötugur vill ekki sjá þessar svokölluðu eldriborgarasamkomur, segir þær vera fyrir gamalt fólk og hann hafi ekkert þangað að sækja. Hann vill frekar mæta á fundi hjá félögum sem heita t.d. Nýtt afl, Framfarafélagið og Atvinnuþróunarfélagið. Það er möguleiki að við séum bæði í dálítilli afneitun. Ég þoli t.d. voða illa pizzur núorðið!

1/11/06 23:00

krossgata

Ég man eftir þegar það rann upp fyrir mér að sennilega eltist ég. Þá var ég að ganga heim með 4 ára dóttur mína og einhverjir unglingar svona 14-15 sem ég mætti spurðu: Heyrðu kelling veistu hvar... ég man ekki hvað. Þá uppgötvaði ég að ég 24 ára unglambið væri farlama gamalmenni í augum fólks sem var bara 10 árum yngra.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.