— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 3/12/04
Stigskipting sambanda

Þar sem Vladimir hefur sakað mig um að hafa óhóflegan áhuga á samskiptum kynjanna hef ég ákveðið að standa undir nafni og hér kemur enn einn pistlingurinn í þá veru...

Fyrstu sex mánuðirnir í sambandi:
- Nærfataskipti eru það sem lífið snýst um; það er bráðnauðsynlegt að skipta um nærföt a.m.k. kvölds, morgna og miðjan dag. Og alltaf að vera í pínulitlum, gegnsæjum sexý nærfötum. Sexý, gegnsæ náttföt gera líka sitt gagn.
- Sturtur eru möst a.m.k. einu sinni eða tvisvar á dag. Krem með alls konar örvandi lykt eru líka mikilvæg og háreyðing af einhverri sort á ýmsum stöðum líkamans þarf helst að fara fram daglega.
- Þarf að passa mataræðið, svo að ekki komi óæskileg búkhljóð eða lykt frá manni. Að kúka (afsakið óheflað orðbragðið, en þetta er nú eitthvað sem við gerum öll) eða leysa vind er bara eitthvað sem maður neitar sér um þessa mánuði.
- Svefn???? Hann er fyrir aumingja og lík. Það er hægt að sofa eftir dauðann. Næturnar eru fyrir æsilega ástarleiki og ef þú vaknar ekki með blóðhlaupin augu á hverjum morgni þá ertu einfaldlega ekki að stunda nóg kynlíf. Kynlíf - á þessu stigi sambandsins - er líka óbrigðul lækning við höfuðverk.
- Sögur um inngrónar táneglur eða þegar kúplingin bilaði verða allt í einu endalaust skondnar og skemmtilegar. ,,Tíhíhíhí"-hláturinn er líka ómissandi í upphafi sambands.
- Sjálfstæðar skoðanir eru óæskilegar. ,,Æi, gullið mitt, mér er alveg sama hvað við borðum, þhúú bara ræður...Pizza? Jú, það væri dásamlegt...tíhíhíhí"

Næstu sex mánuðir :
- Fjárinn, það hlýtur nú að vera nóg að skipta um brjóstahaldara annan hvern dag. Nærfötin þurfa heldur ekkert endilega að vera samstæð eða sérlega sexý.
- Óhóflegar sturtuferðir fara illa með húð og hár og þessi helvítis krem kosta haus og hönd. Nota þau bara ef eitthvað sérstakt stendur til. Háreyðingarframkvæmdir eru sosem ágætar en ekki fyrr en broddarnir eru farnir að pirra mann eitthvað að ráði.
- Allt í lagi að láta eina og eina vindlosun bara flakka - maður roðnar kannski og skammast sín smá - en þetta er nú bara eðlilegur þáttur í líkamsstarfsemi.
- Svefn er góður. Hvað er líka að því að stunda kynlíf á laugardögum og kannski stundum á þriðjudögum? Svo er ég líka með hausverk...
- Æi, á enn einu sinni að fara að segja leiðindafrægðarsögur af kúplingum og bílaviðgerðarreddingum. ,,Tíhíhíhí"-hláturinn víkur óðum fyrir þreytulegu ,,Haha-i."
- Pizza - enn og aftur?!?!? Ég hef nú kannski líka einhverjar skoðanir sjálf, þakka þér!!!

Eftir árið:
- Hvað varð eiginlega um þægilegu, hvítu bómullarömmunærbuxurnar? Þessar með slitnu teygjunni? Flegnir toppar, sexý nærföt og stutt pils mjakast smám saman aftar í fataskápinn og víkja fyrir ömmufötum, treflum, loðnum inniskóm, lopapeysum og jogginggöllum.
- Sturtur? Ha,jú, jú - en bara ef það er komin lykt. Krem eru alger óþarfi og ilmvötn líka. Bara smásvitalyktareyðir og málinu reddað! Háreyðing ?? Rakstur?? Huh, hvað er eiginlega að því að vera bara eins og maður kom af trjánum??
- Ekki vera fyrir, karlugla, ég þarf að......
- Viltu kynlíf?? Aftur?? Gerðum við það ekki bara hérna um daginn sko? Þarna á laugardaginn fyrir tveimur vikum? Er líka svoldið þreytt, langar eiginlega að lesa bara og fara svo að sofa... Já, í bómullarflannelnáttfötunum mínum!
- Ó, á að fara að tala eitthvað? Heyrðu, ég er eiginlega að lesa og svo er þáttur á eftir í sjónvarpinu... Þekkirðu annars ekki einhvern ofsalega heimskan og minnislausan sem þú getur deilt kúplingarsögunni með???
- PIZZA!!!! Heyrðu, farð þú bara í pizzu með strákunum, ég fæ mér eitthvað annað.... við hittumst svo bara seinna í kvöld...kannski...

   (83 af 114)  
3/12/04 17:01

hundinginn

Alveg er það óþolandi, að þurfa að nauða í konunni til að rétta manni bjór úr ísskápnum.
Og ef fjarstýringin er tínd, verður maður sjálfur að standa upp til að skipta yfir á frjettirnar.
Svindl!

3/12/04 17:01

krumpa

Já, minn kæri, það er greinilegt að þessar uppblásnu eru ekki að virka sem skyldi.

3/12/04 17:01

Kuggz

Þannig að Dante hafði rangt fyrir sér.

3/12/04 17:01

Lómagnúpur

Hvaða analýtíska svartsýnisraus er þetta? Sambönd eru dásamleg og lifandi, og eins og allt sem lifir þá dafna þau, þroskast og breytast og allir brosa út að eyrum. Lífið snýst um annað og meira en að eðla sig endalaust.

3/12/04 17:01

krumpa

Sagði aldrei að þau væru ekki dásamleg - svona bara þróast þau... Kannski svolítið ýkt hjá mér en samt nokkuð satt!

3/12/04 17:01

Nafni

Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur: Þú ert að klikka á fleiru en bara smjörinu.

3/12/04 17:01

Bismark XI

Samkvæmt orða bók háskóla íslands þá kúka konur ekki. Orðið að kúka er einungis notað um karlmenn. Þannig að konur hljóta að skíta.

3/12/04 17:01

Kuggz

Úffff...

3/12/04 17:01

Barbie

Æææ. Held ef að eitthvað sé í sambandinu eins og lýst er eftir árið sé innilega kominn tími til að rækta hvort annað. Helst áður en í þessi óefni er komið. Góður pistill engu að síður, eins og vanalega. Þú ert snilldarpenni Krumpa.

3/12/04 17:01

Tina St.Sebastian

Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég stunda nær einvörðungu "einnar-nætur-gam...ön" Hver er fleirtalan af "gaman"?

3/12/04 17:01

Júlía

Afbragðs pistill, Krumpa, og sannarlega glögg greining á eðli sambanda.
Tek undir með Barbie, þú ert frábær penni!

3/12/04 17:01

Fíflagangur

Gömun

3/12/04 17:01

krumpa

Þakka hlýleg orð, dömur mínar! Skal svo fara í það að rækta kallinn á eftir...

3/12/04 17:02

Lómagnúpur

Mér hefur ávalt reynst vel að beita arfasköfu við garðrækt hverskonar.

3/12/04 18:00

Jóakim Aðalönd

Mikið er ég feginn að hafa aldrei átt í sambandi. Upp á engilsaxnesku: ,,What a waste of time". En... góður pistlingur engu að síður. Þú ert afbragðspenni krumpa mín.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.