— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 1/11/05
Enn um lygar og skreytni...

Af því ég á að vera að vinna í fjórum vinnu auk heilmikils annars og er að kikna undan álagi, þá dunda ég mér mikið við að skoða fasteignaauglýsingar. Hér eru nokkrar vinsamlegar ábendingar til kjánanna sem þær skrifa - vona í það minnsta að viðkomandi séu kjánar, því annars eru þeir krimmar...

Sko, þó að einhverjum takist að troða IKEA-borði og tveimur kollum ásamt einum stól og bókahillu inn í örsmáa stofu þá þýðir það ekki að í íbúðinni séu TVÆR Stofur. Ein stofa er EIN stofa - óháð stærð og því sem troðið er inn í hana.

Stærð 200 fm. (þar af sameign 70fm að sögn eiganda, bílskúr 64 fm, og geymla 25fm, stæði í bílskýli 37 fm.) SKO, ég ætla ekki að búa í bílskýlinu! Hvað er andsk. íbúðin stór?

Gluggalaust lítið herbergi - þó að það sé innan íbúðar - er EKKI svefnherbergi! Það er geymsla!

Nýtanlegt rými í risi - hæð undir mæni 120cm. Halló! Nema maður sé hobbiti þá eru 120 cm EKKI nýtanlegt rými.

Stigapallur telst ekki HERBERGI!

SKO, ef í íbúð er ein stofa, tvö svefnherbergi, stigapallur, eldhús og hol þá er hún EKKI FIMM herbergja!

Hagstæð áhvílandi lán geta EKKI fylgt - bankarnir nota tækifærið og hækka vextina þegar nýr skuldari tekur við svo að það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum.

Það er EKKI nauðsynlegt að fasteignasali þinglýsi skjölum og taki fyrir 30 þúsund. Þinglýsing fer þannig fram að þú ferð til sýsla, talar við stelpu í afgreiðslunni og borgar 1300KRÓNUR!

Íbúð með tveimur litlum gluggum er EKKI björt og skemmtileg.

Góð upprunaleg innrétting er EKKI góð ef hún er frá 1940.

GRÆNN er EKKI skemmtilegur litur á salernum.

80 cm fataskápur í hjónaherbergi er EKKI GOTT SKÁPAPLÁSS!

Ef hús er að hruni komið að innan sem utan og allar lagnir farnar fjandans til þá þarfnast það EKKI aðhlynningar! Það þarfnast niðurrifs.

Tekið skal fram að þetta er allt byggt á raunverulegum - og óhóflegum - lestri undirritaðrar á fasteignaauglýsingum.
Lifið heil!

   (39 af 114)  
1/11/05 00:02

Kondensatorinn

Eitt sinn sá ég svohljóðandi í fasteignaauglýsingu:
Í eldhúsi er útsýni upp í bláfjöll og þar er tengi fyrir uppþvottavél.

1/11/05 00:02

Offari

Ég á þrjúhundruð fermetrar hús handa þér með aðgang að salerni.

1/11/05 00:02

Offari

ég meinti snyrtingu.

1/11/05 00:02

krumpa

Þetta er snilld - ekki langt að fara í Bláfjöllin að vaska upp! En þetta er svona rugl sem ég eiginlega hætt að taka eftir - er orðin svo sjóuð í lestri þessa rugls.
Offari hvar er snyrtingin? Hola í garðinum?

1/11/05 00:02

Gimlé

Úr orðabók fasteignasala:
Íbúð á jarðhæð: Kjallari
Lítið niðurgrafinn kjallari: Nær alveg niðurgrafinn kjallari. Gluggar mest 15 cm háir.
Íbúð sem býður upp á mikil tækifæri: Ónýtt hús sem þarf að verja milljónum í að lagfæra. Strax.
Bílskúrsréttindi = Vilyrði frá byggingafulltrúa ársins 1956 sem hefur ekkert að segja í dag.
Húsið hefur nýlega verið klætt að utan = Alkalískemmdir í steypu. Húsið er dottið í sundur.
Í þessu vinsæla hverfi = Fellahverfi.

1/11/05 01:00

Lopi

Til sölu glæsileg ósamþykt íbúð.

1/11/05 01:00

Billi bilaði

Ég hef ekki hlegið svona mikið síðan ég sá "Second hand Lions".

1/11/05 01:00

Limbri

Frábær greining, snilldar framsetning og afbragðs efnistök.

Ég tel þó grænan vera mjög fínan á baðherbergi, það er gott að hægja aðeins á sér í 'náttúrunnar lit' ef svo má að orði komast.

-

1/11/05 01:00

Ívar Sívertsen

Enn fremur úr orðabók fasteignasala:
Björt og falleg íbúð = íbúð sem er ónýt, leitið áfallahjálpar
Nýlegar vatnslagnir = Búið að mála rörin, þarf að skipta um.
Nýlegar raflagnir = Taflan frá 1940 en dregið var í 1960 og því raflagnir nýrri en húsið.
Góð aðkoma = löng gangstétt að útidyrum frá bílastæði
Góð geymsla fylgir = hún er nánast jafn lítil og íbúðin en er talin með í fermetrafjöldanum
Viðurkennd fasteignasala = Láttu okkur um að setja þig á hausinn!

1/11/05 01:00

Þarfagreinir

Ég heyrði einu sinni sögu af manni á Vestfjörðum sem auglýsti hús til sögu með þeim orðum að þar væri 'Hátt til lofts og vítt til veggja'.

Þetta hús var síðan ekkert nema veggstoðirnar.

1/11/05 01:00

krumpa

Þetta er frábært strákar, hvar náðuð þið í orðabókina? Sá hana í einhverju blaði fyrir mörgum árum en hef ekkert fundið hana síðan...væri gaman að eiga hana . Það sorglega er samt að hún er ekki svo fyndin, af því að hún er sönn...

1/11/05 01:00

Ívar Sívertsen

Það sem ég sagði hef ég bara lært af fenginni reynslu.

1/11/05 01:00

krumpa

Æi, var nú ekki að saka þig um ritstuld...en þetta birtist einhvern tíma í einhverju blaði - (auðvitað er þetta allt satt og rétt og eitthvað sem margir hafa lent í) - og ég var að spá hvort þetta væri komið einhvers staðar á netið...

1/11/05 01:01

Heiðglyrnir

Heimili gerir hús að höll...Frábær pistill Krumpa mín og því miður eins og þúgefur í skyn, ekki aldeilis úr lausu lofti gripin.

1/11/05 01:01

Skabbi skrumari

Flott, fyndið og bráðskemmtilegt félagsrit... salútíó...

1/11/05 01:01

Gimlé

Sama hér, höfðum ekki séð þetta í neinu blaði. En þetta er svo yfirþyrmandi reynsla fasteignakaupandans að það væri ekki óeðlilegt að fleiri hafi sett þetta fram áður.

1/11/05 01:01

B. Ewing

Hvernig hús á ég þá að kaupa? [Fær heiftarlegt kvíðakast]

1/11/05 01:01

krumpa

Keyptu bjarta og skemmtilega íbúð á jarðhæð - með góðri eldri innréttingu - skemmtilegum hreinlætistækjum - og passaðu að hún þarfnist aðhlynningar!

1/11/05 01:01

Ríkisarfinn

Ég verð að segja í sambandi við eldhúinnréttingar, verandi smiður sjálfur, þá hefur aldur ekkert með gæði að gera. Nýleg innrétting sem er léleg getur allteins verið verri en góð innrétting frá 1940.

1/11/05 01:01

Hexia de Trix

Mig rámar í þennan lista líka, en man ekki fyrir mitt litla líf hvar eða hvenær ég gæti hafa rekið augun í hann.

Hins vegar hef ég oft heyrt því fleygt að lýsingin „í barnvænu hverfi“ þýði að þar sé hrikalega mikið af krökkum úti að garga hvert á annað, og „stutt í skóla/leikskóla“ þýðir að viðkomandi stofnun er alveg undir svölunum.

1/11/05 01:01

Ívar Sívertsen

Já og stutt í alla þjónustu þýðir að það sé ofboðsleg umferð akandi og gangandi vegfarenda um götuna, bílastæðið og jafnvel garðinn vegna téðrar þjónustu.

1/11/05 01:01

Jóakim Aðalönd

Snilldar samantekt. Skál!

1/11/05 01:01

Vladimir Fuckov

Eitt sinn heyrðum vjer af eftirfarandi orðum um svalir er sneru til norðurs:
Svalirnar snúa í suður eða svo til

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.