— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Pistlingur - 2/11/04
Skyndinámskeið í hagfræði! Ósýnilega (bláa) höndin.

Er að fara í próf á morgun (í dag). Er ákaflega illa lesin - að vanda - en þeir sem ekki geta þeir kenna - þess vegna langar mig að draga saman aðalatriðin úr námsefninu svo að þið getið nú líka grætt! Ef einhver telur sig greina fordóma gagnvart hinni merku vísindagrein hagfræðinni þá er það ekki ætlun mín að hafa þá, þetta er einfaldlega lýsing á faginu eins og það kemur mér fyrir sjónir. (Hef auk þess sofið í 8 tíma samtals frá því á föstudaginn).

Í ónefndu stúdentsprófi í ónefndu fagi í ónefndum skóla var almenn sátt um það að Karl Marx hefði verið faðir hagfræðinnar og fundið upp hugtakið um ,,ósýnilegu höndina." Marx kallinn mundi nú sennilega snúa sér við í gröfinni - eða þaðan af verra - ef hann frétti þetta. Til að forðast endurkomu hans vil ég segja ykkur oggupínulítið frá hinni alltumlykjandi ósýnilegu hönd.

Adam Smith var lítill Skoti - rétt eins og Jóakim frændi - og bjó hjá mömmu sinni - í fæðingarbæ sínum alla sína hunds- og kattartíð. Eitt sinn (á áttunda áratug átjándu aldar) brá hann sér þó af bæ til að heimsækja Maríu vinkonu sína (sem þá bjó í Frans og hélt ennþá haus).

Þegar hann var þar komst hann að því að María átti alltaf nóg brauð (reyndar voru það kökur - að hennar sögn - en svona eru Skotar nú kröfuharðir). Þetta fannst honum óskaplega sniðugt og komst að þeirri niðurstöðu að allir ættu nóg af brauði. Og af hverju áttu allir nóg af brauði? Jú, af því að allir vildu kaupa brauð þá var bakarinn ofsaduglegur að baka (reyndar var þarna um að ræða hirðbakara Maríu sjálfrar sem óttaðist að lenda í Bastillunni hefði hún ekki nóg af kökum).

Adam fór svo að sjá fyrir sér ósýnilega hönd (sennilega bláa, þó að það komi nú ekki fram). Þessi hönd var allt umlykjandi (ætli kökurnar hennar Maríu hafi verið brúnar?) og stýrði gerðum fólks. Hún vakti bakarann með léttum hristingi og ýtti fólki í París (en eins og allir vita var almenningur í París á þessum tíma með endemum fjáður) inn í bakarí með alla peningana sína að kaupa brauð. Ó, hvað allir voru glaðir!

Í kjölfarið komst Adam svo að því að markaðurinn sæi um sig sjálfur og ekki ætti að hafa neinar áhyggjur, því að allir ættu nóg af brauði!

Þessi saga er meira til skemmtunar (og af því dómgreind mín og rökhugsun sofnuðu fyrir margt löngu síðan) og til að benda á skoplegu hlið kenningarinnar um THE HAND. Þessi kenning getur vissulega gengið upp - í fullkomnum heimi - en uppruni hennar hlýtur að teljast í hæpnara lagi.

Á þessum tíma svalt nefnilega almenningur í París (sennilega bara hvítt hveiti í öllu brauðinu), eða nærðist á sorpi og sjálfdauðum rottum.

Vil ég því mælast til þess - við ykkur - og aðra aðdáendur Smith - að þið ÞEGIÐ yfir uppruna kenningarinnar um ósýnilegu höndina. Það þarf nefnilega ekkert yfirgengilegt magn af gagnrýnni hugsun til að véfengja kenningu sem er sprottin af þeirri hugmynd að Parísarbúar á 18. öld hafi átt nóg brauð!

Lifið heil!

   (61 af 114)  
2/11/04 13:00

Hildisþorsti

Gangi þér vel með prófið.

2/11/04 13:00

krumpa

Oo, það er víst ekki mikil hætta á því, en ég er nú að taka þetta fag sem algert aukafag og mér til ánægju og yndisauka svo það er ekki hundrað í hættunni. Kærar þakkir samt.

2/11/04 13:00

Hildisþorsti

Hefurðu heyrt um kartöflupoka kenninguna?

2/11/04 13:00

krumpa

Nei, reyndar ekki?

2/11/04 13:00

Hildisþorsti

Hún gengur út á það að hagvöxtur sé fölsk eining.

Þ.e. Ef kartöflubóndi úr Borgarfirðinum hittir kartöflubónda úr Flóanum og þeir skiptast á kartöflupokum verður enginn hagvöxtur. En ef þeir selja hvor öðrum pokann þá er orðinn til hagvöxtur.

Þessi kenning (The potatosack theory) er eignuð Eyvindi Erlendssyni leikstjóra.

2/11/04 13:00

Þarfagreinir

Skemmtilegt. Ég sem er einmitt í Skotlandi núna, og hér er nóg af brauði og öðru matarkyns. Ég þarf ekki annað en að bregða mér niður í matsal, og þá sér höndin góða um að færa mér alls konar kræsingar. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að herra Smith vissi hvað hann söng.

2/11/04 13:00

krumpa

Sé ekki annað en að hún gangi upp!
Fín kenning annars - og ekki verri en margar aðrar í hagfræðinni - enda virðist hún oftar en ekki ganga út á það að gefa sér forsendur - sem svo kannski eru bara alls ekki fyrir hendi...

2/11/04 13:00

krumpa

Ath. þar sem ég nenni ekki að fara að munnhöggvast við sprenglærða hagfræðinga - sem vafalaust eru nokkrir hér - vil ég taka fram að vissulega er þessi saga færð í stílinn. En hafa skal það er skoplegra reynist og kenning Smith um hina ósýnilegu hönd varð vissulega til í París á 18.öld sem út af fyrir sig er nokkuð merkilegt - ekki veit ég samt hvort María blessunin kom þar við sögu í raun og veru eða hvort hún var of upptekin við kökuát.

2/11/04 13:00

Günther Zimmermann

En ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum (fjarlægru hliðinni) að María hafi líka boðið ís, ekki bara kökur?

2/11/04 13:00

Nafni

Jón seðlabankastjóri sagði alltaf, " Það er aðeins tvennt öruggt í hagfræðinni: Geta einstaklinga til að stinga fé í eigin vasa og það kemur aftur heimskreppa", tilvitnun lýkur. Frekar dapurleg staðreynd það.

2/11/04 13:01

Offari

Business is busness.

2/11/04 13:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Takk fyrir skemtilegt rit krumpa. Ég les þó heldur Das kapital en Wealth of nations.

2/11/04 13:01

fagri

Alheimurinn er að þenjast út þrátt fyrir aðdráttarafl allra hluta, það myndi kallast frádráttarafl í hagfræðinni er það ekki?
Þarna getur þú lætt nýrri kenningu inn í prófið þitt
og hver veit nema þú verðir verðlaunuð sérstaklega fyrir það, nú eða úthrópuð.
Gangi þér allt í haginn.

2/11/04 13:01

Steinríkur

Hildisþorsti: Kenningin gengur fullkomlega upp ef salan er lögleg. Ef þeir selja hvor öðrum pokann svart er enginn hagvöxtur, en ef þeir telja fram söluna, skrifa nótu, borga vask o.s.frv. er augljóslega kominn hagvöxtur.

2/11/04 13:01

Isak Dinesen

Það er ekki óalgengt að menn misskilji hagfræðilegar kenningar og ég er ansi hræddur um að þú sért að leiða menn í villigötur hér. Adam hélt því *ekki* fram að allir væru með nóg af brauði út af ósýnilegu höndinni (ekki veit ég hver hefur ýtt þeirri þvælu að þér). Hins vegar hélt hann því fram að með því að hugsa aðeins um eigin hag myndu menn sömuleiðis vinna að bættum hag annarra. Þú túlkar það hinsvegar svo að Adam hafi haldið því fram að þannig myndu allir hafa það gott. Það er annað mál og hefur e.t.v. aðallega með "ranga" upphafsskiptingu auðæfanna að gera. Grunnkenningin er að þó kerfið sé þannig að enginn einn maður sitji við stjórnvölinn mun kerfið samt færast í átt að einhvers konar jafnvægi (sem er nánar skilgreint í kenningunni). Lesa má nánar um þetta hér:
http://www.search.eb.com/eb/article-24189?query=invisible%20hand&ct=

En takk fyrir að koma þessu í umræðuna. Fólk hefur virkilega gott af því að læra meira um þetta misskilda efni.

2/11/04 13:01

krumpa

Elsku Isak. Ég vissi það! Ég vissi það! Vissi að einhver hagfræðidúddinn mundi taka mig alvarlega - þetta er mjög einfölduð útgáfa af kenningunni - ég man samt að návæmlega svona - að nægt magn brauðs sýndi fram á tilvist ósýnilegrar handar - var þessi kenning sett fram á mínum menntaskóladögum. Ég setti hana hins vegar meira í gríni fram á þennan hátt...en ekki til að gera lítið úr kenningum Smith - hins vegar, eins og þær eru kynntar menntaskólakrökkum, er kannski fullt tilefni til...

2/11/04 13:02

Isak Dinesen

Ahh, ég skil. Ástæða þess að ég tek svona "nærri mér", ef svo má segja, er að misskilningur af þessu tagi *er* algengur og hef ég lent í alvarlegum deilum um slíkt. Meira seinna, eða ekki.

2/11/04 14:00

Limbri

Yndislegt félagsrit. Ég hef rosalega gaman af þessari tegund af einföldun. Minnir á margt um söguna af honum Newton og eplatréð. Einnig skemtileg saga.

Takk fyrir að hafa kætt mig, það er vel þegið.

-

2/11/04 14:01

dordingull

Ég skeini mig á kenningum. Mörg þúsund blaðsíður af góðum pappír.
Í frumskóginum éta þeir stóru þá smáu.
Þeir smáu éta svo hræin af þeim stóru.
Það lifa því hvorir á öðrum. Eða allir á öllum, sama er mér.

2/11/04 14:02

Jóakim Aðalönd

Er þetta ekki alltaf spurning um hlutfallið milli framboðs og eftirspurnar? Alla vega huxa ég ávallt um eigin hag.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.