— GESTAPÓ —
Félagsrit:
krumpa
Fastagestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 2/11/03
Barnaklám eða .... ?

Leyfum börnum að vera börn á meðan þau geta - það er skömminni skárra en það sem bíður þeirra.

Ég á barn. Það vita allir sem eiga slík fyrirbæri að þau eru nokkuð dýr í rekstri. Það þarf meðal annars alltaf að eiga nægilegt magn fatalarfa utan um skrokkinn á þessum greyum. En þá vandast málið, í það minnsta ef maður á barn af betra kyninu, þ.e. stúlkubarn.

Það sem ég er nú að fara að lýsa þykir mér reyndar með ólíkindum, ekki síst nú á tímum jafnréttis og aukinnar vitundar kvenna um það að tilveruréttur þeirra er ekki eingöngu byggður á kynþokkanum.

Ég hugðist semsagt kaupa nærföt á stelpubarnið mitt. Þá var nú úr nógu að velja. Ég gat til að mynda keypt nærboli með lítilli, sætri kanínu á. Við nánari athugun var þetta reyndar Playboy-kanínan og hefði væntanlega gefið það í skyn að barnið langaði að vera ,,leikfélagi ársins." Hvaða barn vill það sosum ekki ? Þá gat ég keypt afskaplega hagkvæmt nærbuxnasett með áletrunum á buxunum. Þessar áletranir voru ,,little devil" og ,,naughty girl." Af hverju ekki bara ,,viltu ríða"? Og þessi ósköp voru til allt niður í stærð fjögur.

Ég játa nú að Heittelskaður yrði ákaflega kátur ef ég kæmi í rúmið íklædd slíkum flíkum og þá yrði sennilega kátt í höllinni. En ég hef aldur til að stunda kynlíf. Ég er fullorðin kona, á rétt á að vera kynþokkafull ef ég vil - ég hef eitthvað til að bakka upp glyðrulegan klæðaburð !

Fyrir nokkrum árum ætlaði ég svo að kaupa páskakjól á stúlkutetrið. Ég sá fyrir mér síðan, víðan kjól, með löngum ermum og kannski bleikum rósum. Ómeðvitaði tískusauðurinn ég ! Fór í það sem ég taldi vera síðasta vígi sakleysisins; Hagkaup. Þar bauðst mér að kaupa (til allt niður í stærð tvö) silfurlitaðan hlýrakjól með glimmeri. Öðru megin náði pilsið upp að rassi og hinum megin flaksaði það niður á mið læri. Svo voru BRJÓSTASAUMAR á kjólnum. Fyrir tveggja ára!

Í fimm ára afmælisgjöf fékk stúlkan svo FJÖGUR make-up kit en það er meira en vesalings tískuráðvillti garmurinn hún móðir hennar á.

Aukinheldur virðist ómögulegt að finna flatbotna spariskó í stærð 27.

Þegar dóttir mín getur(og vill) farið að stunda löglegt kynlíf má hún líta út eins glyðrulega og hún vill - þangað til vil ég hafa hana eins og litla stelpu!

Hvað er að ? Markaðurinn er ekkert eyland óháður kaupendunum. Hverjir eru að kaupa klámfengin nærföt á smábörnin sín ? Eiga litlar saklausar stelpur að líta út eins og hafnarmellur ? Hvernig getum við svo talað um barnaníðinga af þeirri fyrirlitningu sem við gerum ef við klæðum börnin okkar upp eins og þau eigi að fara á hornið að vinna fyrir salti í grautinn ? Ef við gefum í skyn að þau séu kynverur ?

Gefið ykkur fram - þið sem eruð að kaupa þennan viðbjóð ! Það er í það minnsta alveg á hreinu að tveggja-þriggja ára börn kaupa ekki nærfötin sín sjálf.
Og skammisti ykkar svo!

   (93 af 114)  
2/11/03 03:01

Mosa frænka

Úff. Slæm þróun, þessi. Krumpa, þú hefur alla mína samúð.

2/11/03 03:01

Hakuchi

Já ég vildi gjarnan hitta foreldra sem kaupa svona viðbjóð á börnin sín. Ég myndi flengja þá.

2/11/03 03:01

Amon

Hvimleg þróun, það er ljóst. Hverjum er um að kenna? Ekki gott að segja, en eitt er víst; á meðan eftirspurn ef fyrir þessu, verður henni annað.

2/11/03 03:01

Hakuchi

Tja það er erfitt að sjá hvar orsökin liggur og afleiðingarnar byrja. Einhverjum vitfirrtum siðleysingjum hefur dottið í hug að pranga kynveruheiminum upp á litlar stelpur í von um gróða. Þeim hefur tekist að magna upp eftirspurn hjá telpum eftir þessu ógeði. Hins vegar er síðasta vörnin til staðar hjá foreldrum. Foreldrar EIGA að hafa vit fyrir börnum sínum og segja nei. Jafnvel þótt þau væli af frekju. Hvaða foreldri lætur undan barni og kaupir svona vibba? Ég bara spyr.

2/11/03 03:01

Heiðglyrnir

Mér varð það á að skellihlæja við lestur á þessum frábæru skrifum, enda hér kímni látin leiða mjög alvarlegt mál, og vel er skrifað. Síðan renna á mann tvær grímur eða fleiri. Byrjar þetta ekki hjá hönnuðum, keypt inn af innkaupastjórum og síðan kaupir fólk eins og þú orðar það svo vel þennan viðbjóð, Sammála Krumpu, skammist ykkar öll.

2/11/03 03:01

Nafni

Sammála þér Krumpa í einu og öllu. Það ætti að flengja þá sem eru ábyrgir fyrir innkaupum á ósómanum.

2/11/03 03:01

SlipknotFan13

Slíkir foreldrar myndu áreiðanlega ekki kvarta undan slíkri meðferð Hakuchi enda augljóslega með einhverjar undarlegar kenndir í kollinum.

2/11/03 03:01

Mosa frænka

Eiginlega finnst mér 'little devil' ekki svona slæmt í sjálfu sér. Það var ekki gaman, minnir mig, að vera stelpa þegar stelpuímyndin var einfaldlega englaímynd. En í breiðari samhengi klámfengnu varanna er einnig þessi frasi orðinn að áhyggjuefni.

2/11/03 03:01

krumpa

,,Little Devil" á húfu eða peysu er kannski ekki svo slæmt...en þegar það er sett framan á nærbuxur lítilla stelpna þá finnst manni merkingin vera orðin ansi tvíræð - eða kannski augljós í tvíræðninni...

En mergurinn málsins er að foreldrar eiga að hafa stjórnina. Og er þetta það sem við viljum ? Það eru ekki nægileg rök að segja að greinilega sé markaður fyrir þetta. Það er líka markaður fyrir áfengi, fíkniefni og vændi - við látum það samt ekki afskiptalaust að börnin okkar versli á þeim markaði. Eða hvað ?

2/11/03 03:01

Galdrameistarinn

Þetta hefur einnig farið í mínar fínustu taugar. Það að klæða smástelpur í gliðruklæðnað með áletrunum sem vísa í kynlíf sýnir að það er eitthvað verulega sjúkt heilabúið í þessu liði sem hannar þetta, framleiðir og markaðssetur. Verst er þó, að það er eitthvað illa skemmt heilabúið í þeim foreldrum sem láta sér detta það í hug að verzla þessar flíkur á börnin sín. Við þá foreldra segi ég bara:
Skammist ykkar að gefa það í skyn að dóttir þín sér hóra.

2/11/03 03:01

Finngálkn

Æ litlu greyin ættu ennþá að vera íklædd strigapokum svo þeim verði ekki kalt.

2/11/03 03:01

Konstantín

Sammála í einu og öllu. Góð grein.

2/11/03 03:02

Vladimir Fuckov

Sammála félagsriti þessu. En það að svona vörur eru orðnar algengar þýðir að nokkuð margir hljóta að vilja (?) svona hver sem ástæðan fyrir því er. Og hver sú ástæða er væri fróðlegt rannsóknarefni.

2/11/03 04:00

plebbin

Ég er mjög ósammála...
segi svona, sammála þér krumpa.

2/11/03 04:00

Wonko the Sane

Þetta er mjögm markverð umræða en þetta er líka umræða sem hefur verið gegnumganganndi lengi. Að mínu mati er þetta þróun sem verður að stoppa. Gott hjá þér Krumpa ap skrifa um þetta mál. Þekki þetta.

2/11/03 04:00

Skabbi skrumari

Þetta er óskiljanlegt út frá hagfræðilegri úttekt minni... ef foreldrar vilja þetta ekki, þá kaupa þeir þetta ekki...ergo kaupmenn græða ekki neitt... en ef foreldrar vilja þetta...

2/11/03 04:01

Sprellikarlinn

Ég held bara að allt of mörgum foreldrum sé sama, og kaupi þar af leiðandi þau föt sem eru langmest áberandi í verlunum. Og með þeirri þróun hefur verið hægt að bola siðsamlegum stúlkuklæðnaði næstumþví af markaðnum. Þeir foreldrar sem eru með einhverja rétthugsun þurfa svo að leita í sérstakar vrslanir fyrir bleik undirföt með blúndum eða eitthvað álíka saklaust og sætt.

2/11/03 04:01

krumpa

Sprellikarl - þarna held ég nebbilega að þú hafir hitt naglann... Fpreldrar þurfa að vakna - það er stór hluti af foreldrahlutverkinu að vera PC. Það er ekki nægilegt merki um foreldraást að kaupa bara það dýrasta í búðunum - við verðum líka að hafa vit fyrir börnunum - amk í sumum málum.

3/12/04 17:01

Barbie

Mín börn klæðast ekki kynferðislegum klæðnaði. Brjóstasaumar fyrir 2 ára stúlku er nú í hæsta máta viðbjóðslegt, jafnvel þó hún væri 4-6 eða 8! Hef nú mest fengið gefins af nærbolum barnanna og lítið þurft að kaupa sjálf. Finnst samt alltaf jafnkjánalegt að sjá toppa á litlar stelpur. Þetta er alveg tilgangslaus pynting fyrir elskurnar okkar. Og við eigum að hafa vit fyrir börnunum alltaf, í það minnsta tryggja að þeirra vit sé í takt við almenna skynsemi. Góður pistill hjá þér Krumpa.

krumpa:
  • Fæðing hér: 6/10/04 16:54
  • Síðast á ferli: 13/4/16 19:39
  • Innlegg: 328
Eðli:
Er ósköp ljúf og góð undir venjulegum kringumstæðum - þ.e. sé ekki mánudagur, fullt tungl, nýtt tungl eða óheppilegur tími mánaðarins ... Hefur leikið í fjölda Bond-mynda...
Fræðasvið:
Hefur yfirgripsmikla þekkingu á írskum drykkjuslögurum og breskum gamanþáttum frá áttunda og níunda áratugnum. Hefur aldrei horft á heila Bond-mynd....I was christened david anthony but yet inspite of that to my father i was william to my mother i was pat...
Æviágrip:
Ánetjaðist snemma ýmiss konar ósóma, eins og reykingum, kaffidrykkju, goggolíu og stóðlífi. Hefur nú séð ljósið á baggalúti og látið af illu líferni. Enda sæmir ekki annað virðingarstöðu hennar sem keisaraynju Baggalútíska heimsveldisins. Sést reyndar nokkuð í spilavítum (enda nokkurn veginn atvinnumanneskja í póker) og oftar en ekki með huggulegan, smókingklæddan mann sér við hlið.