— GESTAPÓ —
Mosa frænka
Óbreyttur gestur.
Gagnrýni - 5/12/03
Á framandi slóðum

<i>På jakt etter det norske på Cafe Cultura</i>

Júlíulaus fórum við í hádegismat fjögur saman: Mús-Lí, Mosa frænka, Þöngull og skrifstofudaman okkar knáa (sú sem fór með okkur á Litla ljóta andarungann, en fékk því miður aldrei að borða). Í þetta skiptið var stefnan tekin á Alþjóðahúsið og Cafe Cultura á Hverfisgötu. Mús-Lí var í sérlega góðu skapi, þrátt fyrir fjarveru Júlíu, hafandi nýlega lokið góðum bílakaupum, og hún skutlaði okkur með bros á vör.

Cafe Cultura er ekki gríðarlega stór veitingastaður, en þar var fámennt og við lentum ekki í vandræðum með að skaffa okkur borð við gluggann. Matseðillinn var sannarlega fjölbreyttur og hópurinn var svolítið lengi að velja á milli möguleika úr ólíkum heimshornum. Þar eru í boði <i>pinxtos</i>, samlokur, ýsmir smáréttir og núðlur, eitthvað fyrir alla, og flest allt útskýrt á fleiru en einu tungumáli.

Ein undantekning meðal eftirréttanna vakti athygli okkar: “Norwegian Brownie” stóð þar án frekari skýringar. Þetta undarlega heiti kveikti lengri umræðu. Hvað gæti verið norskt við súkkulaðibakkelsi? Var til eitthvað sem hét “norskt ívaf” í matargerð? Var til eitthvað sem hét norsk matargerð yfirhöfuð? Eða var um bakkelsi að ræða? Var ekki “Brownie” líka enskur búálfur, og yrði þá ekki “Norwegian Brownie” einfaldlega <i>nisse</i>? Og ef svo væri, hvað myndi gerast ef við pöntuðum <i>nisse</i>?

Meðan þessar umræður stóðu pantaði skrifstofugellan lax (einn af réttum dagsins), Þöngull steikt hrísgrjón með kjúklingi og saffron, og Mús-Lí og Mosa <i>falafel</i>, þ.e. djúpsteiktar kjúklingabaunabollur með jógurtsósu og salati að miðausturlenskum hætti. Allir réttirnir brögðuðust vel og enginn í hópnum varð fyrir vonbrigðum. Kjúklingabaunabollurnar voru reyndar bragðmeiri heldur en Mosa hafði búist við.

Kaffi fannst sumum okkar vel við hæfi á eftir. Mús-Lí fékk sér kaffi mokka og kvað það mjög gott. Hin kaffiþurfandi báðu um espressó (tvöfaldan fyrir Þöngul og einfaldan fyrir Mosu), og sá var góður espressó. Þöngull var einnig hrifinn af espressóbollunum, sem, eins og hann benti okkur á, voru þannig í laginu að karlkyns kaffineytandi gæti haldið almennilega og ekki síst karlmannlega á þeim og hellt dýrmætu koffíninu í sig án þess að vifta til veðurs með litla putta.

Fyrir forvitnis sakir bað Mosa frænka um einn svoleiðis “Norwegian Brownie” og benti á orðin á matseðlinum þegar þjónustustúlkan virtist ekki hafa náð frasanum. Svo var beðið. Eftir dálitla stund (allir kaffibollarnir voru tæmdir) kom langumræddi eftirrétturinn í ljós.

Brúni norski reyndist lítil súkkulaðibollukaka borin fram í Leffe-glasi með vanilluískúlu, þeyttum rjóma og nokkrum kokteilberjum. Spennan fólst í því að miðja kökunnar var ekki gegnbökuð, heldur volg, rennandi, súkkulaðisúpa. Ljúffengur réttur. Um það voru Mosa og Mús-Lí (sem tók aðra skeið) sammála. En hvað var norskt við hann er okkur óskýrt enn. Leffe er belgískur bjór, “Brownie” er eins amerískt bakkelsi og hægt er að ímynda sér og vanilluís og þeyttur rjómi er frekar alþjóðalegt eftirréttameðlæti. Það að baka kökur ekki alveg í gegn tengist ekki neinni sérstakri menningu, svo við vitum, heldur annaðhvort kæruleysi eða óþolinmæði í eldhúsinu eða (eins og í þessu tilfelli) hugmyndarflugi.

En hvað um það. Það sakar ekki þó við köllum þennan eftirrétt “Norwegian Brownie.” Aðalatriðin eru að maturinn allur var góður, stólarnir þægilegrir, umhverfið huggulegt. Við eigum örugglega eftir að fara aftur á Cafe Cultura og prófa fleira.

   (18 af 28)  
Mosa frænka:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:13
  • Síðast á ferli: 18/11/10 19:12
  • Innlegg: 91
Eðli:
Af fixlensku bergi brotin. Hasarmálaráðherra og forsetafrú Baggalútíu.
Fræðasvið:
Drengskapur
Æviágrip:
Fædd á Fixlandi. Rænt að heiman 15 ára samkvæmt Annálum Fixlendensis. Birtist aftur í heimildum á Útröst í Norður-Noregi 2-3 árum seinna. Fær far með saltfisksskip suður og fer aftur á latínuskóla í Þrándheimi, verður stúdent og fer í nám í Köben. Skiptinemi í Estitotilandi í eitt ár. Lykur prófinu með lokaritgerð um viðtengingarhátt í basnesku og atlensku. Nú í útlegð. Starfar við fornleifafölsun. Hefur aldrei losnað við fixlenskan hreim.