— GESTAPÓ —
Mosa frænka
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 1/12/04
Smá hösl

Mosa hefur gaman af íslenskunni, enn og aftur

Ég er nýbúin að taka eftir þessum frasa að hös(t)la sér völl. Ég þakka Hundingjanum fyrir að nota hann þegar hann skrifaði um daginn, og ég skal nota textann hans sem fyrsta dœmi:

http://www.baggalutur.is/profile.php?mode=viewprofile&u=894&n=2015 [tengill] 1. [/tengill] South Greenland Touring AsP er nýtt ferðaþjónustufyrirtæki sem er að höstla sjer völl á suður Grænlandi og er að leita sjer að Umsjónarmanni sem á að sjá um að coordinera túra af ýmsum gerðum um þetta magnaða ferðasvæði.

Ég varð forvitin og leitaði víðar á netinu. Eins og Sundlaugur Vatne tók fram, er þessi frasi ekki allgóðkenndur, en á ýmsum bloggum er hann samt að finna, í misgóðum kringumstœðum, málfarslega séð, og stafsettur bæði með og án T-sins. T.d.:

http://model.lazycomet.com/archives/000023.html [tengill] 2. [/tengill] Ég gruna fastlega að þarna hafi verið á ferð erlend vændiskona sem hafi verið að höstla sér völl á Íslandi ...

Og:

http://www.upsaid.com/ylfa/index.php?action=viewcom&id=301 [tengill] 3. [/tengill] Síðasta sem ég ætla að tjá mig um er að það fer rosalega í taugarnar á mér þegar fokríkt og frægt fólk reynir að höstla sér völl á einhverju öðru sviði, líklegast bara með það að markmiði að verða enn ríkara og mögulega frægara en það er orðið.

Og einnig:

4. Eitt þektasta fyrirtæki á símamarkaði,vodafone, virðist ætla að hösla sér völl á Íslandi ...

(N.B. Þessi síða er reyndar nýhorfin.)

Dœmi nr. 4 eins og nr. 1 hjá Hundingjanum gefur ekki í skyn sams konar óœskilega þróun og nr. 2 og 3 gefa. Nr. 1 og 4 fjalla jú um fyrirtœki og opinberlega viðurkennd viðskipti, meðan nr. 2 og 3 snúast meira um eins konar hösl.

Það er einmitt málið. Hösl og að hösla virðast farnar vera að hafa áhrif á þann góða og forna frasa að hasla sér völl, bæði hvað varðar stafsetningu og merkingarsvið.

Vellir eru haslaðir ef ekki víða í fornsögum þá a.m.k. af og til. Frægustu dœmin eru úr Gísla sögu Súrssonar og Kormáks sögu, og hvorttveggja fjalla um að afmarka svæði fyrir hólmgang.

Gísla saga Súrssonar (http://www.snerpa.is/net/isl/gisl.htm [tengill] K. 2 [/tengill]):

Nú fer Gísli við tólfta mann í eyna Söxu. Skeggi kom til hólmsins og segir upp hólmgöngulög og haslar völl Kolbirni og sér eigi hann þar kominn né þann er gangi á hólminn fyrir hann.

Óljóst er nákvæmlega hvernig Skeggi fer að þessu, en hvað um það.

Enn frægari er atriðið í Kormáks sögu (http://www.snerpa.is/net/isl/kormaks.htm [tengill] K. 10 [/tengill]), þar sem hólmgöngulögin meintuðu eru gefin upp í heild. Lýsingin er í senn nákvæmari og meira ruglandi en í Gísla sögu:

Það voru hólmgöngulög að feldur skal vera fimm alna í skaut og lykkjur í hornum. Skyldi þar setja niður hæla þá er höfuð var á öðrum enda. Það hétu tjösnur. Sá er um bjó skyldi ganga að tjösnunum svo að sæi himin milli fóta sér og héldi í eyrasnepla með þeim formála sem síðan er eftir hafður í blóti því að kallað er tjösnublót. Þrír reitar skulu umhverfis feldinn, fets breiðir. Út frá reitum skulu vera strengir fjórir og heita það höslur. Það er völlur haslaður er svo er gert. Maður skal hafa þrjá skjöldu en er þeir eru farnir þá skal ganga á feld þó að áður hafi af hörfað. Þá skal hlífast með vopnum þaðan frá. Sá skal höggva er á er skorað. Ef annar verður sár svo að blóð komi á feld er eigi skylt að berjast lengur. Ef maður stígur öðrum fæti út um höslur fer hann á hæl en rennur ef báðum stígur. Sinn maður skal halda skildi fyrir hvorum þeim er berst. Sá skal gjalda hólmlausn er meir verður sár, þrjár merkur silfurs í hólmlausn.

Óljóst er hvað tjösnur hefðu merkt upprunalega. Höslur, sem ég hefði ímyndað mér væru tréstaut eins og nafnið gefur í skyn (sbr. enska ‘hazel’), virðast hér vera reipi eða strengir. Samt sem áður er merking frasans mjög svipuð og merkingu þess í dag, nefnilega, að afmarka svæði til sérbrúks.

En nýtt í dœminu eru orðin hösl og hösla og áhrif þeirra. Yngri kynslóðir vita nákvæmlega hvar hösl er (meðan jafnvel eldri karlar á 13. öld með fjaðurpenna í hendi virðist hafa átt í vandræðum með að fatta höslur), þannig að að hös(t)la sér völl gengur í sumra eyrum betur upp heldur en að hasla sér völl, þó að merkingin sé að mestu óbreytt. Kannski eru áhrif einnig sýnileg í merkingu þess frasa, ef marka má dœmi nr. 2 og 3 að ofan. Lesbrigðið höstla hlýtur að skýrast annaðhvort sem hljóðritun eða herming eftir ensku hustle.

Mikið er tungumálaþróun skemmtilegt fyrirbæri.

   (4 af 28)  
1/12/04 20:00

Barbapabbi

Góður pistill.
En kannast einhverjir hlustendur ekki við orðatiltækið: "Að hös(t)la sér böll".
Dæmi: Hún Gunna graða hugðist hösla sér böll í bænum í gærkveldi.

1/12/04 20:00

Vladimir Fuckov

Frumlegt sjónarhorn á þetta, aldrei hefur oss dottið í hug annað en að þetta væri enskusletta, þ.e. höstla (með t). En eftir þennan lestur hljómar hösla eins og röng mynd af sögninni hasla, e.t.v. undir áhrifum frá 'höslur' (þar með myndi hösla þýða annað en höstla). En 'höslur' þekkja trúlega fáir, vér vorum e.t.v. að sjá það hér í fyrsta sinn þannig að varla er það skýringin. A/ö ruglingur kemur hinsvegar stundum fyrir, vér minnumst deilna um hvort væri réttara, Axarfjörður eða Öxarfjörður. Hið síðarnefnda varð ofan á en oss grunar að hið fyrrnefnda hafi verið algengara áður fyrr. En aldrei höfum vér heyrt talað um Axará...

Dæmi 3 og 4 að ofan hafa í vorum huga nokkuð svipaða merkingu nema hvað í 3 er reynt að hafa tóninn neikvæðan. Dæmi 2 er í huga vorum annars eðlis.

[Veltir fyrir sér hvort fyrirtæki er höstlar sér völl myndi ekki strax sameinast öðru fyrirtæki en þó að líkindum bara í mjög skamman tíma]

1/12/04 20:00

Galdrameistarinn

Skemmtilegur útúrsnúningur á orðinu "hazla" sjer völl í ákvðenu máli. En að hössla sér böll er náttúrulega eitthvað fyrir konurnar, hvað við karlarnir gerum svo er vafamál.

1/12/04 20:00

Jóakim Aðalönd

Bráðskemmtilegur pistill Mosa mín. Þú ert andands kona hin mesta og hafðu þökk fyrir.

1/12/04 20:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Það er gott að enn er til fólk einsog Mosa, sem nennir hvorutveggja;
að hugsa, svo & að skrifa vandaðan texta þar sem umþenkingunni eru gerð góð skil.
Stórfínt félagsrit - í sérflokki, leyfi ég mér að segja.

1/12/04 20:00

Heiðglyrnir

Já hún er ótrúleg hún Mosa frænka, heimilda safnari í sérflokki og leyfir okkur síðan að njóta með sér, þakka þér fyrir mig Mosa mín.

1/12/04 20:00

Mosa frænka

Ah, gott að bagglýtingar hafa gaman af þessu í mér ...

1/12/04 20:00

Limbri

Svo er bara að sjá hvort Baugsfeðgar "höstli" ekki eitthvað meira í Bretlandi. (Mikið skelfing er þetta ljótt orð.)

-

1/12/04 20:00

Skabbi skrumari

Mosa er langbest... Salút

1/12/04 20:01

Nafni

Takk kærlega fyrir þetta Mosa.

1/12/04 20:01

Sundlaugur Vatne

Það er gaman að því að fræðimenn Baggalútsins skuli stunda jafn vandaða rannsóknarvinnu í jafn göfugri fræðigrein. Heill þér, frænka.

1/12/04 20:01

Bon Jonham

Þetta er hin skemmtilegasta lesning og fræðandi í mera lagi, skál.

1/12/04 20:01

Nykur

Ætli Larry Flint viti af þessu?

1/12/04 20:01

Klobbi

Mosa ég verð að segja að þú ert óvenju fögur af vel gefinni konu að vera. Það eru samt fáir menn sem vilja eiga konu sem er þeim gáfaðri.

1/12/04 20:01

Klobbi

Mosa ég verð að segja að þú ert óvenju fögur af vel gefinni konu að vera. Það eru samt fáir menn sem vilja eiga konu sem er þeim gáfaðri.

1/12/04 21:00

Mosa frænka

Ég þakka hrósið, Klobbi. Enda eru allar gáfuðar konur fagrar; sumir karlmenn eru bara blindir.

1/12/04 21:00

Mosa frænka

(bölvar) Gáfaðar. Mikið er ergjandi að geta ekki leiðrétt eigin texta hér.

Mosa frænka:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:13
  • Síðast á ferli: 18/11/10 19:12
  • Innlegg: 91
Eðli:
Af fixlensku bergi brotin. Hasarmálaráðherra og forsetafrú Baggalútíu.
Fræðasvið:
Drengskapur
Æviágrip:
Fædd á Fixlandi. Rænt að heiman 15 ára samkvæmt Annálum Fixlendensis. Birtist aftur í heimildum á Útröst í Norður-Noregi 2-3 árum seinna. Fær far með saltfisksskip suður og fer aftur á latínuskóla í Þrándheimi, verður stúdent og fer í nám í Köben. Skiptinemi í Estitotilandi í eitt ár. Lykur prófinu með lokaritgerð um viðtengingarhátt í basnesku og atlensku. Nú í útlegð. Starfar við fornleifafölsun. Hefur aldrei losnað við fixlenskan hreim.