— GESTAPÓ —
Mosa frænka
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 3/11/03
Jólablanda kóbaltbœtt

Nokkrar vangaveltur um kóbalt, nýyrði, nikul og jólin

Eins og áður hefur komið fram í http://www.baggalutur.is/viewtopic.php?t=2289 [tengill] örritgerð Rauðbjörns [/tengill] dregur kóbalt sitt nafn af þýska orðinu kobald, sem þýðir illur andi, drýsill eða púki. Hér ætla ég að varpa orðsifjafræðilegra ljósi á orðið en hefur sést á Baggalút hingað til.

Kóbalt var lengi kunnugt námumönnum sem unnu í þýskum silfurnámum, þeim til pirrunar. Þessi málmur fannst í silfurnámum og leit út eins og silfur, en þegar maður var loksins kominn upp á yfirborðið eftir langan vinnudag neðanjarðar, reyndist grjótið ekki silfur vera. Silfrið virtist breytast í ónýtt efni á leið úr náminu (þetta var fyrir daga forsetan vors og annarra manna sem kunna að nota kóbalt). Ein skýring á þessum síendurtekna atburði var sú, að illur andi einn sem hélt til í nánum skemmti sér með því að skipta á silfri fyrir silfurlitaðan málm ónýtan, rétt eins og huldufólk tekur stundum mennsk börn og skilur eftir í þeirra stað eigin börn. Með öðrum orðum sagt var kóbalt þekkt sem umskiptingur steinríkisins, og þegar kóbalt var loksins greint vísindalega frá svipuðum efnum var það kennt við námapúkann stríðna: kobald.

Það hvarflar að manni að hægt yrði að skíra kóbalt íslensku nafni og kalla það púkamálm eða áramálm. Höfundurinn er ekki froðufellandi málhreinsunarmanneskja, en sem áhugahagyrðingur veit hún að fleiri heiti auðga kveðskap.

Einnig vill svo skemmtilega til að orðið Nikull (Ni 28) hefur svipaðan uppruna í silfurnámum í Þýskalandi. Nikull er líka silfurlitað og fannst oft með silfri, kóbalti og fleira efnum. Námumenn lentu í svipuðum erfiðleikum með nikul og með kóbalt, og málmurinn var kallaður Kupfernickel, þ.e.a.s. „kopar árans.“ Auðvelt er að ímynda sér námumann þegar hann áttar sig á því að grjótið níðþunga sem hann er búinn að grafa upp sé ekki silfur eftir allt saman, rífa hár sitt og bölva þessum fjandans kopar. En snúum aftur að orðsifjafræðum.

Nickel er gamalt púkaheiti. Eða réttara sagt er nick- gamalt púkaheiti; -el er viðskeyti, sbr. ísl. -lingur. Skyld orð finnast víða í germönskum málum. Á þýsku er http://www.sungaya.de/schwarz/allmende/kobold/nixe.htm [tengill] der Nix [/tengill] vættur sem heldur til í tjörnum og vötnum (sjá t.d. sagnir skráðar af Jacob og Wilhelm Grimm eins og http://www.sagen.at/texte/sagen/grimm/nixanderkelle.html [tengill] þessa [/tengill].) rétt eins og Nøkken á norsku og Nykur á íslensku. Einnig á engelsaxnesku er fjandinn kallaður „Old Nick.“

Það er sérlega skemmtilegt í núverandi jólalegu samhengi. Erlendur jólasveinn ber oft nafnið „St. Nicholas“ eða jafnvel bara „St. Nick,“ nafn sem er sláandi líkt þessum púkaheitum. Auðvitað var Nikolas biskup sögulegur maður og helgur, en tengsl hans við jólin sem slíkur eru nokkuð óljós. Hinsvegar eru tengsl ýmissa grimmri púka og anda við jólin vel þekkt og það víða. Krampus í Austurríki, Zwarte Piet í Hollandi og jólasveinarnir hér heima eru ódælir allir, hvað þá Grýla og Jólakötturinn. Það er rétt hugsanlegt að St. Nick og Old Nick séu, að einhverju leiti, ein og sama vætturin.

Gleðileg jól öllsömul. Skálum í púkamálmsbættu ákavíti og jólaglögg!

   (7 af 28)  
3/11/03 03:01

Eyminginn

Þetta var stórkostlegt að lesa, mikið fróðleiksgildi. Hafðu hjartans þökk.

Ég er að vísu huxi út af Erlendi jólasveini sem þú nefnir, hef ekki heyrt um hann fyrr.

3/11/03 03:01

Nafni

Gleðileg jól og skál!

3/11/03 03:01

Vladimir Fuckov

Stórfróðlegt. Það má semsagt kenna bæði kóbalt og nikul við púka og/eða ára (púkamálmur og nykurmálmur ?)
[Man skyndilega eftir fróðleik um hlaupabólu, 'pokker', 'kopper' o.fl. og finnst það minna á púka, kopar, kóbalt o.s.frv. Sér að þetta tengist allt og verður hugsi]

Því má svo bæta við að fyrir utan að vera báðir kenndir við púka sést ef lotukerfið er skoðað að málmar þessi eru 'skyldir' ef svo má segja.

Annars kæmi oss á óvart ef eigi væri nú þegar til íslenskt nafn á málmum þessum en sé svo þekkjum vér það eigi.

Gleðileg jól og skál ! [Setur ný-últrakóbaltsduft út í ákavíti. Prófar að setja nikulduft út í drykkinn líka. Sýpur á fagurbláum drykknum, grettir sig og hellir drykknum í nálægan blómapott svo lítið beri á]

PS Hugmyndaflugið er komið á flug, nú sjáum vér allt í einu að púkamálmur og kóbalt eru svipuð orð sé k og p víxlað og veltum fyrir oss hvort það sé tilviljun [Verður enn meira hugsi]

3/11/03 03:01

Mosa frænka

Og ný-últrakóbalt ætti að heita erkilaumapúkamálmur. Eða það finnst mér, alla vega. Skál.

3/11/03 03:01

Vladimir Fuckov

Það er frábært nafn. Og þá er laumupúki einhver er neytir kóbalts í laumi - skál ! [Sýpur á fagurbláum drykk]

3/11/03 03:02

Haraldur Austmann

Stórmerkilegt rit þykir mér.

3/11/03 04:00

Nornin

Mjög skemmtileg lesning. Takk frænka.

3/11/03 04:00

Golíat

Já vísindin eru söm við sig og koma manni sífellt í opna skjöldu. Takk Mosa.

3/11/03 04:01

Gvendur Skrítni

Þú ert frábær Mosa, kemur sífellt með áhugaverða hluti. Ef það á hinsvegar að kenna kóbalt við púka þá legg ég til að kenna það við laumupúka

3/11/03 04:01

Nykur

Við Nykrar stefnum að heimsyfirráðum.

1/12/04 03:00

Skabbi skrumari

Glæsilegt rit, nú þyrfti að vera til einhver íslenskur námupúki sem hægt væri að nefna málminn eftir, en námur hér á íslandi eru af skornum skammti... þó má nefna surtarbrandsnámur og "gull" nokkurt er finnst oft í grennd við þær, sem nefnt hefur verið glópagull, en líklega er umræða um þetta dautt og því kannske ekki vert að ræða það frekar... salút Mosa...

9/12/04 02:01

Vladimir Fuckov

Eða kannski frekar einhver baggalútískur laumupúki er hægt væri að nefna málminn eftir [Ljómar upp og breytir þessari umræðu í 'laumupúkaþráð' með þessu afar síbúna svari til að auka lýkur á vissu nafni fyrir málm þennan]

2/12/06 21:02

Offari

Jæja úr því að þú segir það. Hvað segirðu um Offál?

2/12/06 23:02

krossgata

Vladimirin er í sjálfu sér ágætt nafn, en ég sting upp á Krossium.
[Sýpur laumulega á kóbaltbættum drykk]

4/12/06 03:01

Carrie

Hvað með carrieum eða asnahanastél?

5/12/06 09:00

krossgata

Asnahanastél er mjög hlutlaust nafn og gott. Carrieum minnir mig á coloseum. Mjög mikil hátign yfir því, en Krossium á bara eitthvað svo vel við.
[Ljómar upp]

3/12/07 09:00

krossgata

Skál!
[Bætir krossium út í skálina]

5/12/07 01:00

Álfelgur

Skál og til hamingju með daginn! [Ljómar upp]
Annars sting ég upp á aluminum - það hljómar svo andskoti vel og gamaldags bragur yfir því.
Hef ég kannski heyrt það áður... [Klórar sé í höfðinu]

1/11/07 01:00

krossgata

Rammó í krossium!

3/12/13 09:02

Vladimir Fuckov

Þennan laumupúkaþráð höfðum vjer eigi uppgötvað fyrr en nú; er hann þó mjög við hæfi miðað við áhugavert efni pistlingsins. Skál fyrir öllu því er nefnt er að ofan þó eigi sje dagurinn rjettur nema til laumupúkunar.

3/12/14 09:02

Vladimir Fuckov

Vjer vorum að uppgötva að það vorum vjer sem gerðum þetta að laumupúkaþræði; var því það sem gerðist fyrir ári enduruppgötvun en eigi uppgötvun. Skál fyrir erkilaumupúkamálmi ! [Sýpur á erkilaumupúkamálmlituðum drykk]

Mosa frænka:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:13
  • Síðast á ferli: 18/11/10 19:12
  • Innlegg: 91
Eðli:
Af fixlensku bergi brotin. Hasarmálaráðherra og forsetafrú Baggalútíu.
Fræðasvið:
Drengskapur
Æviágrip:
Fædd á Fixlandi. Rænt að heiman 15 ára samkvæmt Annálum Fixlendensis. Birtist aftur í heimildum á Útröst í Norður-Noregi 2-3 árum seinna. Fær far með saltfisksskip suður og fer aftur á latínuskóla í Þrándheimi, verður stúdent og fer í nám í Köben. Skiptinemi í Estitotilandi í eitt ár. Lykur prófinu með lokaritgerð um viðtengingarhátt í basnesku og atlensku. Nú í útlegð. Starfar við fornleifafölsun. Hefur aldrei losnað við fixlenskan hreim.