— GESTAPÓ —
Mosa frænka
Óbreyttur gestur.
Gagnrýni - 5/12/06
Artúr konungur

Hvar eru Monty Python þegar maður þarf á þeim að halda?

Fyrir mörgum árum rákst ég á skáldsögu til sölu sem tók upp sögn Artúr enn eitt sinn með enn nýjum hætti, í þetta skipti með því að gera ráð fyrir því, að Artúr hafi verið af norrænum uppruna, rammheiðinn og legði sérlega trú á Þór. Nafnið ‘Arthur’ væri helsti vottur þessar staðreyndar, því það nafn var að sjálfsögðu Arn-Þórr, þ.e.a.s. Örninn Þórs. Strax og ég las þetta á kápunni varð mér óglatt. Ég haltraði út úr búðinni, stóð hálfringluð á götunni og tók nokkrar sagnbeygingar til að jafna mig eftir orðsifjakjaftæðissjokkið.

Artúr konungur hefur þolað margt í áranna rás. Þessi nýja mynd, sem ég fór á í gær, er ekki alveg eins slæmt dæmi um illa heppnaða gervifræðilega endurvinnslu þess sagnaefnis og bókin ofangreinda, en hún er ekki síður slöpp. Líkt og bókin er hún illa haldin þrá eftir því ekta, því upprunalega, því sannsögulega, en ekki á þann hátt sem gengur upp, hvorki á plani vísinda né á plani frásagnarlistar.

Myndin byrjar með því að halda því fram, að nýlegar rannsóknar í fornleifafræði hafi varpað ljósi um hverjir þessi Artúr og riddararnir hafi verið. Frá þessum rannsóknum er ekki sagt meira. Svo heldur myndin áfram og Artúr kemur í ljós sem hálfbreskur, hálfrómverskur þegn rómverska hersins. Riddararnir reynast kappar, þvingaðir í þjónustu Rómaveldis, sléttubúar frá Samaritíu, frægir fyrir reiðmennsku. Og þar að leiðandi (bíðið bara, bíðið ... ) sannir Miskunnsamir Samverjar (jæja). Ágæt kenning, en ekki þannig að manni, sem áhorfanda, finnist maður upplifa eitthvað Artúrslegt. Einnig er dálítið truflandi að þessir stæltu asíubúar gangi undir nöfnum úr frönskum riddarasögum: Lancelot, Dagonet, Gawain, o.fl..

Vondu karlarnir eru Saxar, með Stellan Skarsgaard sem Cedric foringja. Allt í lagi með það, enda er Stellan Skarsgaard góður leikari. En stundum talar þessi tröllvaxni Svíi með hallærislegum suðurríkjahreim, sem hann gerir hér. Hreimurinn og skeggið síða og ljósa á honum og ógurlega heimskan hjá liði hans gera það að verkum, að manni finnst heill her loðninna hjólhýsinga gera innrás í Bretland, eða illvígt bandalag aðdáanda ZZ Top og Lynyrd Skynyrd ... eða jafnvel sú drepleiðinlega sænska hljómsveit Freak Kitchen. (Af hverju tala Svíar bandarísku með suðurríkjahreim? Er ekki allt í lagi?)

Svo eru Woadarnir. Sem gera ansi lítið nema öskra af og til og virðist langa heim til Braveheart-myndarinnar. Hvers vegna þeir fengu nafnið Woada botna ég ekkert í. Það er eins og Jerry Bruckheimer dauðlangaði í sínum besserwisserleika að nefna það, að efnið sem Bretarnir hefði málað sig bláa með, heiti woad, en fyndi aldrei rétta plássið í handritinu, og því ákveðið að umskíra þjóðflokkinn Woada frekar en að missa þetta ágæta fróðleikskorn förðunarfræðinga alveg úr myndinni.

Ýmislegt í myndinni gengur ekki upp (—og það fyrir utan tímaskekkjuatriðið sem fór mest á taugarnar á mínum innri miðaldanörd: lásbógar AD 400). Söguþráðurinn í heild hefði verið ágætur, þó frekar venjulegur, væri maður ekki sífellt að reyna að fatta dæmið út frá annaðhvort Artúr-sögnum eða sögu Bretlands og Rómaveldis. Ég lýsa ekki lokaatriðinu nánara heldur en með því, að segja að það hafi dugið svo illa sem sameiningar- og uppgerðarmóment, að það hafi farið vantrúarhrollur um salinn allan.

Öðrum orðum sagt eru söguþráðurinn og allt sem tengist myndinni komin svo langt frá öllu sem maður þekkir og veit um Artúr, hvort sem átt er við sagnir eða sögu, og á svo ósannfærandi hátt, að betra hefði verið að sleppa honum karlgreyinu og riddarunum og láta hugmyndaflúgið ráða veginum alveg.

Hvað ég sakna mynda eins og Conan og (svei mér) The Beastmaster. Nei, í alvöru talað. Því maður pældi aldrei í hvort hlutirnir gengu upp við raunveruleikann, og ekki heldur bókmenntir, því sagan var frumsamin og þurfti aðeins og samsvara sjálfri sér. Og það var skemmtilegt að púsla saman skáldsögulega heiminum sem höfundurinn hafði búið til. Ef hasarinn var á sínum stað og sagan var góð, var alltaf gaman af slíkum myndum.

Gamla Excalibur myndin var miklu betri Artúr-mynd, því hún leyfði manni að njóta þess að það var Artúr-mynd. Tónlist eftir Wagner sakaði ekki. Hún var stemningsrík mynd og missti sig ekki í ofdýrkun þess ekta.

Ef kvikmyndaframleiðendur vilja endilega gæla við -loksins, hin sanna saga bak við sögnina komin á tjáldið!!!-fíflaháttinn, verður að bjóða upp á sögu og tengsl sem smella saman með hvelli. Hvort sem um sanna sögu sé að ræða, verður áhorfendum að finnast þeir hafa lokins náð því ... einhverju, reyndar hverju sem er ... þannig að allt sé komið í nýtt og sannfæranda samhengi. En það gerist ekki í þessari mynd. Hún smellur nefnilega ekki saman og er enn meira ófullnægjandi í heild en hasaratriðin í henni: aldrei sést járn bíta hold.

Ég skal enda í jákvæðum dúr: Gunnvör (Kiera Knightly) er nú meiri beib, blámáluð og brjáluð (þó að brjósthaldarinn hennar líti alls ekki út fyrir að vera þægilegur). Dagonet (Ray Stevenson) er ekkert smá kynþokkafullur. Dökkhærðar fornsagnahetjur almennt eru sérlega vel þegnar í þessa bíódaga — og hér með viðurkenni ég eigin niðurbælda þrá eftir því ekta—þegar forngrikkir eru leiknir af ljóskum á borð við Brad Pitt.

   (16 af 28)  
Mosa frænka:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:13
  • Síðast á ferli: 18/11/10 19:12
  • Innlegg: 91
Eðli:
Af fixlensku bergi brotin. Hasarmálaráðherra og forsetafrú Baggalútíu.
Fræðasvið:
Drengskapur
Æviágrip:
Fædd á Fixlandi. Rænt að heiman 15 ára samkvæmt Annálum Fixlendensis. Birtist aftur í heimildum á Útröst í Norður-Noregi 2-3 árum seinna. Fær far með saltfisksskip suður og fer aftur á latínuskóla í Þrándheimi, verður stúdent og fer í nám í Köben. Skiptinemi í Estitotilandi í eitt ár. Lykur prófinu með lokaritgerð um viðtengingarhátt í basnesku og atlensku. Nú í útlegð. Starfar við fornleifafölsun. Hefur aldrei losnað við fixlenskan hreim.