— GESTAPÓ —
Mosa frænka
Óbreyttur gestur.
Gagnrýni - 1/12/03
Shalimar

Stjörnuleit í Austurstræti?

Það var dimmur og stormviðrasamur fimmtudagur í nóvember.

Í daufri skímunni frá götuljósunum lögðum við af stað í enn eina óvissuferð, þrjú saman og ekki lítið svöng. Júlía okkar var enn úti í Danaveldi, og var sjálfsagt í kaffileiðangri á Strikinu á sama tíma og við fórum í hádegismat. Þöngull hinn trausti en örlítið heimski skósveinn okkar skutlaði okkur niður í miðbæ, þó hann sé auðvitað ekki með ökuréttindi, en hlutverki hans lauk um leið um við stigum úr bílnum við rönd Tjarnarinnar, enda erfitt að eiga við hann gáfulegar samræður. Mús-Lí var leiðtogi vikunnar, Mosa og Þöngull aðeins fylgdarmenn og samsnæðendur, og með þá vel skilgreindu verkaskiptingu hraðaði þrenningin sér í átt að áfangastað sínum.

Í Fógetagarðinum, sem svo er nefndur eftir að Skúli fógeti var hálshöggvinn þar, snéri Mús-Lí sér í nokkra óvissuhringi, eins og snotur Óðinshani á heiðarvatni, til að auka á spennuna hjá hinum og einnig til að sýna síðkjólinn í sínu besta ljósi. Ákveðnari í fasi (ef til vil vegna áhrífa hins góða Skúla, sem leit niður á ferð okkur með strangan en þolinmóðan látúnssvip) stefndi hún milli húsanna, yfir Ingólfstorg að Austurstræti.

Shalimar hét áfangastaður okkar, austurlenskt veitingahús. Hádegistilboð var á tvennskonar karríréttum, öðrum með grænmeti og hinum með kjúklingi, bornum fram með hrísgrjónum og örlítlum bletti af raita. Dömurnar héldu sér við grænmetið en skósveinn þeirra, verandi karlmaður með þeirri þörf á keti sem því fylgir, pantaði blöndu beggja rétta. Setið var og borðað.

Mosa kvað matinn ekki sem verstan, en viðurkenndi að hún hefði hvort eð er ekki búist við upplifun á borð við kvöldverð á Austur-Indíafélaginu. Mús-Lí og Þöngull, sem tekið skal fram að dvalist hafa í því landi þar sem allra bestur indverskur matur fæst, Englandi, urðu raunar fyrir vonbrigðum og töluðu lágstilltum rómi um andleysi í matargerðinni.

Staðurinn sjálfur er ekki óhuggulegur. Smæð hans telst ekki löstur í sjálfu sér, en nefna má að á vetrardegi eins og þeim sem hér um ræðir, verður dulítið napurt á jarðhæð. Okkur var boðið borð á efri hæð, en af fyrri reynslu kusum við að halda okkur fjarri reykingadeildinni þar. Kulda vegna, að hluta til, yfirgáfum við Shalimar í leit að kaffibolla á öðrum stað. Hann fengum við á Café París, því góða kaffhúsi, og sæmilega ánægð við hádegisverðinn í heild fórum við aftur út og upp í bíl Þönguls, lífhræddar en saddar.

[Hinn lítilláti skósveinn okkar fékk að þessu sinni að luma nokkrum orðum að í gagnrýninni. Niðrandi athugasemir um gáfnafar hans (eða öllu heldur sárlegan skort á því) eru alfarið frá honum runnar. Það að hann gerir sér nú grein fyrir takmörkum sínum sýnir að kennsla okkar og þjálfun er nú loksins farin að skila sér. Væntum við mikils af honum í framtíðinni, ef fram heldur sem horfir.]

   (24 af 28)  
Mosa frænka:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:13
  • Síðast á ferli: 18/11/10 19:12
  • Innlegg: 91
Eðli:
Af fixlensku bergi brotin. Hasarmálaráðherra og forsetafrú Baggalútíu.
Fræðasvið:
Drengskapur
Æviágrip:
Fædd á Fixlandi. Rænt að heiman 15 ára samkvæmt Annálum Fixlendensis. Birtist aftur í heimildum á Útröst í Norður-Noregi 2-3 árum seinna. Fær far með saltfisksskip suður og fer aftur á latínuskóla í Þrándheimi, verður stúdent og fer í nám í Köben. Skiptinemi í Estitotilandi í eitt ár. Lykur prófinu með lokaritgerð um viðtengingarhátt í basnesku og atlensku. Nú í útlegð. Starfar við fornleifafölsun. Hefur aldrei losnað við fixlenskan hreim.