— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 1/11/06
Ýsfirzk fyndni XIX

Kæru lesendur. Fyrir skömmu freistaðist ég til þess, eftir nokkurt hlé, að gefa út enn eitt bindi í þessari ritröð minni og verð ég að segja viðtökur fóru fram úr mínum beztu vonum. Óraði mig ekki fyrir því að þessar sögur nytu enn slíkra vinsælda. Fyrsta upplag seldist upp á öðrum degi frá útgáfu og önnur prentun er nú að verða uppseld. Í ljósi þessara gífurlega góðu undirtekta leyfi ég mér því bjóða ykkur 19. bindið og vona ég að viðtökur verði ekki síðri.

Honum Votleifi móðurbróður mínum þótti sopinn góður og var foreldrum mínum, sem bæði voru bindindisfrömuðir, mikill ami að drykkjuskap hans.
Eitt sinn tókst þeim þó með fortölum og umvöndunum að fá hann til þess að ganga í bindindishreyfinguna og sverja bindindisheit.
Nokkru síðar hittust þeir Votleifur frændi og Ragnar á Brimslæk á förnum vegi og varð Ragnari þá að orði: “Það þýðir víst ekki bjóða þér í glas lengur, Votleifur minn, fyrst þú ert orðinn yfirlýstur bindindismaður.”
“O, jæja,” svaraði Votleifur þá, “maður er nú ekki fanatískur”.

******************************

Eins og áður hefur komið fram í sögum mínum þá er blómlegt félagslíf á Ýsufirði og þar er meðal annars starfandi leikfélag.
Eitt sinn var settur upp gamanleikurinn “Sådan behandler man ikke damer”, eftir Olsen og Bing, og fór Héðinn kaupfélagsstjóri, sem við köllum gjarnan Kaupa-Héðinn, með hlutverk Samsonar stúdents.
Var leikritið sýnt fyrir fullu húsi í ein fjögur skipti og á einni sýningunni tókst Héðni ekki betur til en svo að hann hrasaði og féll fram af sviðinu ofan á áhorfendur á fyrsta bekk.
Mikill hlátur glumdi við í salnum þegar Héðinn reyndi að príla aftur upp á sviðið og sneri hann sér þá við og sagði höstuglega: “Hvað eruð þið að hlæja? Þetta átti að vera svona”

******************************

Oft hefur verið þröngt í búi hjá þeim barnmörgu hjónum Hafdísi og Sæmundi á Strönd og oft hefur það bjargað málum að “láta skrifa”, eins og það er kallað, hjá Kaupfélaginu.
Eitt sinn, rétt fyrir hvítasunnu, kom Hafdís í kaupfélagsbúðina og spurði Héðinn hvort hann gæti “skrifað” hjá sér ákveðna úttekt.
Var Héðni ákaflega illa við það þar sem skuld þeirra Strandarfólks var orðin nokkuð há og minnti hann Hafdísi á að hún hefði lofað sér að greiða eldri skuld fyrir páska.
“Vertu nú ekki að hafa áhyggjur af því, Héðinn,” sagði Hafdís þá, “það koma nú aftur páskar.”

******************************

Skafti heitir maður ættaður úr Sóldal en býr núna á Ýsufirði. Hann hefur unnið ýmis störf fyrir Kaupfélagið en mest verið þar við skipaafgreiðsluna.
Eitt sinn kom kand. fíl. Engilbjartur Sóldal þangað og lá honum mikið á að koma sendingu til höfuðborgarinnar. Spurði hann hvenær næsta strandafararskip færi suður.
“Næsta skip suður var nú bara að fara fyrir tæpum 4 klukkutímum”, svaraði Skafti þá.

   (25 af 55)  
1/11/06 08:01

Billi bilaði

MEIRA <klapp klapp klapp> MEIRA <klapp klapp klapp> MEIRA <klapp klapp klapp...>

1/11/06 08:01

Regína

Þetta er alltaf jafn skemmtilegt.

1/11/06 08:01

krossgata

Það er mikilvægt að vera ekki fanatísk(ur). Skál fyrir því!

1/11/06 08:01

Anna Panna

[Kemur 19. bindinu haganlega fyrir í bókahillunni]
Þessi ritröð ætti að fá einhvers konar bókmenntaverðlaun. Bókmenntaverðlaun Baggalúts!

1/11/06 08:01

B. Ewing

Alveg fantagóðar sögur, bindi eftir bindi. [Klappar með Billa]

1/11/06 08:01

Útvarpsstjóri

Bravó [kaupir allt upplagið]

1/11/06 08:01

Galdrameistarinn

Tær snilld og missi ekki af einu einasta bindi.
Meira af þessu takk.

1/11/06 08:01

Skabbi skrumari

Snilld að venju... Skál...

1/11/06 08:01

Offari

Hvað heita foreldrar þínir ég hef grun um að þú lumir ágagnlegum upplýsingum fyrir þorpsbúa Ákabæjar. Þakka þer fyrir þessar skemmtilegu sögur fá Ýsufirði mig er farið að dauðlanga til þess að heimsækja fjörðinn.

1/11/06 08:01

Tigra

Ég legg til að sumarskrall Gestapó verði haldið á Ýsufirði.
Mig dauðlangar að hitta þetta kostuga fólk!

1/11/06 08:01

blóðugt

Það er bara kraftur í þér Sundlaugur!

1/11/06 08:01

Jarmi

Magnificentó túttí frúttí multi bene grasías!

Takk fyrir sögurnar.

1/11/06 09:00

Jóakim Aðalönd

Hva, er Ýsufjörður til í alvörunni?

Sögurnar hjá þér sundlaugur eru samt perlur. PERLUR FYRIR SVÍN SEGI ÉG!

1/11/06 09:00

Andþór

Þessi rit þín eru gullsígildi!

1/11/06 09:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Frábært ,enn & aftur.

----------------

Of oft kveðin aldrei góð er vísa.
Skemmtisögur skínandi
skammdegið upp lýsa.

Góðan dreng til dáða vil ég hvetja.
Frásagnir úr firðinum
fleiri má hér setja.

1/11/06 09:00

Huxi

Þetta kætir í skammdeginu. En getur verið að þú eigir nokkuð ritsafn Gunnars Sigurðssonar frá Selalæk?

1/11/06 09:00

Sjöleitið

Spruðlandi fyndið, setlaugin þín.

1/11/06 09:00

Mjákvikindi

Loksins og alltaf jafn skemmtilegt. Takk takk og aftur takk.

1/11/06 09:02

Vladimir Fuckov

Stórskemmtilegt að vanda. Skál !

1/11/06 10:01

Golíat

Tek undir allt framansagt, nema ef vera skildi and-svarið.

1/11/06 10:02

Leiri

Með leyfi að spyrja (with licence to ask): Hvers lags krummaskuð er þetta eiginlega? Maður gæti haldið að þetta væri Ísafjörður.

1/11/06 11:00

Vímus

Ég tek undir orð Önnu Pönnu um bókmenntaverðlaun Baggalúts.
En hún Ljósbjörg sem sér um lyfjagjafir Ýsufirðinga hverfur ekki úr huga mínum. Gætir þú ekki kæri Sundlaugur skilað kveðju til hennar og sagt henni smábrot af þeim mannkostum sem ég bý yfir.

1/11/06 11:01

Heiðglyrnir

Við erum svo heppin að eiga Sundlaug. Riddarakveðja.

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.