— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 10/12/04
Ýsfirzk fyndni XIV.

Kæru lesendur.<br /> Stutt líður nú milli þess að ný bindi Ýsfirzkrar fyndni líta dagsins ljós. Bæði er það að þakka góðum viðtökum ykkar og einnig því að ég dvaldi stóran hluta sumars heima í Ýsufirði og urðu margir heimamenn til þess að gauka að mér sögum, bæði gömlum og nýjum. Að öllum öðrum ólöstuðum þá þakka ég ekki sízt Hásteini barnakennara fyrir að auka enn á safn mitt.<br /> Njótið vel.

Þegar Sævar frá Strönd byrjaði skólagöngu þótti móður hans tilvalið að Ægir bróðir hans byrjaði í skóla á sama tíma enda myndi það létta mjög fyrir henni. Reyndar var Ægir þá ekki nema 5 ára gamall en snemmþroska og bráðskír eftir aldri.
Kom Hafdís á Strönd nú með drenginn til Hásteins og bar upp erindið. Sá Hásteinn alla vankanta á því að taka drenginn svo ungan inn í skólann en þar sem Hafdís þrástagaðist á því hve þroskaður og ljóngáfaður drengurinn væri féllst hann á að ræða við hann og meta sjálfur gáfur hans og þroska.
Sneri hann sér nú að drengnum og sagði: “Jæja, Ægir minn, segðu mér nú eitthvað.”
Leit Ægir þá að móður sína og sagði: “Heldur þú að barnakennarinn vilji að ég tali í heilum setningum eða vill kannske hann heyra orð af handahófi?”

***********************************

Eitt sinn hafði Hásteinn barnakennari verið að kenna nemendum sínum um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, m.a. um Þjóðfundinn í Reykjavík og fleira.
Þegar svo kom að prófi þá var spurt meðal annars hvaða merkisatburðir hefðu átt sér stað árið 1811 og árið 1851.
Ægir frá Strönd er fluggáfaður drengur en ekki var hann alltaf jafn duglegur að vinna heimavinnuna sína. Hann kann þó alltaf að bjarga sér, enda svaraði hann:
“Árið 1811 fæddist Jón Sigurðsson og árið 1851 hélt hann upp á fertugsafmælið sitt.”

************************************

Hann séra Guðbjartur, sem við köllum jafnan séra Bjart, er dugnaðarforkur og góður bóndi og jafnframt nokkuð fégjarn. Hafa ófáir viljað halda því fram að honum sé búskapur og peningar hugleiknara en sálgæzla.
Séra Bjartur býr einn með móður sinni og hafa þau haldið þann góða ýsfirzka sið að bjóða kirkjugestum til kirkukaffis á prestssetrinu að lokinni messu.
Eitt sinn hafði verið mikil óþurrkatíð og séra Bjartur hafði ekki náð að sinna heyskap um nokkurn tíma. Þá gerðist það á sunnudagsmorgni að það gerði brakandi þurrk. Séra Bjartur hélt þá frekar snubbótta messu, hespaði prédikun af með örfáum orðum og dreif sig út á tún.
Lét hann svo móður sinn eftir að bjóða upp á kaffi á eftir. Hafði þá einn kirkjugesta á orði að heldur hefði messan verið stuttaraleg í þetta sinn.
“Hann Guðbjartur minn sagði nú bara “amen” um leið og hann gat komið því við,” svaraði þá móðir hans.

******************************************

Eins og lesendur vita heldur hann Kaupa-Héðinn, kaupfélagsstjóri, kött sem hann leggur mikla á ást á.
Það gerðist svo, sem ekki verður hjá komist, að kisan hans Kaupa-Héðins dó og áður en hann fegni sér nýjan kött vildi hann kveðja gömlu kisu á viðeigandi hátt.
Hann kom því að máli við séra Bjart og spurði hvort hann vildi ekki halda líkræðu yfir kettinum og moka yfir hann fyrir sig.
Fannst séra Bjarti þetta mesta vitleysa og sagðist ekki koma nálægt slíku. Kaupa-Héðinn gæti hins vegar spurt Guðbrand trúboða, eða Biblíu-Brand sem við köllum svo, hvort hann vildi tala yfir kettinum. Það væri aldrei að vita hvað þetta sértrúarflokksfólk væri tilbúið að gera.
Þakkaði Kaupa-Héðinn fyrir ábendinguna en nefndi í leiðinn að hann væri nú ekki vanur að biðja fólk um slíkt og vissi ekki hvað væri viðeigandi að borga fyrir slíka þjónustu. Spurði hann séra Bjart hvort hann héldi að Biblíu-Brandur myndi gera sig ánægðan með 150.000,- krónur.
“Fyrirgefðu, Héðinn minn,” sagði þá séra Bjartur, “eigum við ekki að athuga hvort kötturinn þinn hafi ekki bara verið í þjóðkirkjunni eftir allt saman og þá skal ég með ánægju jarða hann fyrir þig.”

   (34 af 55)  
10/12/04 02:01

Litla Laufblaðið

[Veltist um af hlátri] O fólkið í Ýsufirði eru sannkölluð yndi.

10/12/04 02:01

Prins Arutha

Þetta rit lífgar vissulega upp á þenna rigningardag hér norðan heiða. hafðu þökk fyrir Sundlaugur minn.

10/12/04 02:01

Mjákvikindi

Algjör snilld. Ert þú líka sextugur í dag?

10/12/04 02:01

Skabbi skrumari

Þetta er snilld að venju... salút Sundlaugur minn

10/12/04 02:01

Heiðglyrnir

Okkar maður frá Ýsufirðinum góða á réttu róli. Hafðu þakkir fyrir það, Sundlaugur minn. Amen.

10/12/04 02:01

Golíat

Nei ýsfirsku sögurnar klikka ekki. Vonandi er meira messuvín á belgjunum.

10/12/04 03:00

Vímus

Ég legg til að stofnað verði heilsuhæli fyrir þunglyndissjúklinga í Ýsufirði. Ef þeir ná ekki heilsu þar eru þeir vonlausir.
(Mér gengur ekkert að ná sambandi við Ljósbjörgu)

10/12/04 03:01

Sundlaugur Vatne

Það er alltaf gaman að fá línu frá lesendum. Þakka ykkur kærlega fyrir.
Hafi Mjákvikindi fyllt sextíu ár þann 26. óska ég því til hamingju. Sjálfur er ég ekki orðinn sextugur er það styttist í það.
Vímus minn, ég þakka þér góða uppástungu. Komum við henni í verk mun það auka mjög á viðgang byggðarinnar. Ljósbjörg hefur verið í vitjun norður í Viðvíkurhreppi. Hafir þú skilið eftir skilaboð hjá Sif í símstöðinni er ég viss um að hún hefur samband. Annars er einfaldast að skella sér bara með strandfararskipinu. Hún Ljóbjörg vísar þér örugglega ekki á dyr ef þú bankar upp á og næturgisting er vís hjá henni.

31/10/04 01:02

Z. Natan Ó. Jónatanz

Kvitta hérmeð fyrir lesturinn, vinarkveðja til þín & þinna.
---------------------
Mikið að þrettánda hlutanum hló,
hlaut af því andnauð & næstumþví dó,
las síðan fjórtánda, fæ aldrei nóg
af fólkinu Ýsfirzka vestur með sjó.

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.