— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 4/12/04
Ýsfirzk fyndni XI

Langt er orðið síðan nokkuð hefur komið um ýsfirzka fyndni hér á þessum síðum. Helzt er um að kenna annríki mínu vegna félagsstarfa ýmisskonar. Allan síðasta mánuð höfum við bræður verið á Ýsufirði því nú er ekki nema ár til næstu hreppsnefndarkosninga og við í Bændaflokknum ætlum að hefja baráttuna snemma og freista þess að endurheimta hreinan meirihluta okkar í nefndinni.<br /> Núna sitja í hreppsnefnd frá okkur þau Vatnar Blauti, bróðir minn, og hún Hafdís á Strönd og eru þau í meirihlutasamstarfi við Ragnar á Brimslæk, sem er fulltrúi Íhaldsflokksins og er hann jafnframt oddviti hreppsnefndar. Í minnihluta eru svo hún Sif á símstöðinni fyrir Óháða listann og Hásteinn barnakennari fyrir Framfarafélagið. Það verður spennandi að sjá hvernig valdastaðan verður eftir kosningar að ári. Á Ýsufirði er aldrei lognmolla í pólitíkinni.<br /> Þetta bindi ýsfirzkrar fyndni verður með nokkuð öðru móti er hin fyrri því hér er meginviðfangsefnið kveðskaparlistin.<br />

Á Ýsufirði eru margir hagyrðingar og oft fjör á hagyrðingakvöldum. Fremstur í ljóðlistinn er líklega Ragnar á Brimslæk en fast á hæla honum fara Hafdís á Strönd og Hásteinn barnakennari. Svo þykjum við bræður einnig liðtækir.
Þessa dagana er Ljósbjörg ljósmóðir í fríi fyrir sunnan að heimsæka símavininn sem hún hefur nýlega eignast og er staddur hér ungur læknir, ættaður úr Dölunum, sem leysir hana af á heilsugæzlunni. Hann hefur hrifist mjög af kvæðahefðinni hér á Ýsufirði og um daginn sýndi hann Ragnari á Brimslæk nokkrar vísur sam hann hafði hnoðað saman.
Þegar Ragnar hafði lesið yfir skáldskapinn sagði hann: “Ég vissi að þú værir skáld, Ófeigur læknir.”
“Ég geri þetta nú bara til að drepa tímann”, svaraði læknirinn.
“Nú,” sagði Ragnar þá, “hefur þú ekki nóg að sjúklingum?”

****************************************

Eitt sinn fyrir alllöngu varð bróðir minn fyrir því að skónum hans var stolið einn góðviðrisdaginn meðan hann var í sundi. Var nú ekki annað fyrir hann að gera en að labba berfættur niður í Kaupfélag og verða sér út um nýja skó.
Þar sem kaupfélagsbúðin stendur er lítið torg sem afmarkast af búðinni með vöruhúsunum og byggjunni, hreppskrifstofunni með símstöðinni og heilsugæzlunni og svo barna- og unglingaskólanum. Þegar þetta gerðist var Torgið, eins og við köllum það, malarborið.
Þar sem bróðir minn fetaði sig nú berfættur yfir mölina verður honum litið í til búðarinnar og sér hann þá ekki Sólbjörtu hina fögru Glóbjartsdóttur úr Sóldal kom gangandi út úr búðinni í átt jeppa föður síns með maltflösku í hendi og saup kæruleysislega á.
Nú erum við Ýsfirðingar ekki vanir að viðurkenna það að eitthvað gott eða fagurt geti frá Sóldal komið en bróðir minn varð svo heillaður af þessari sjón að hann gat ekki orða bundizt og kastaði fram eftirfarandi:

Oddhent ljóð, þú ljúfa fljóð,
leyf mér þér að færa.
Baugatróðan blíð og góð,
bragur mun þig mæra

Þú ert svöl og sötrar öl,
sólbrún draumavera.
Það er kvöl að þramm’ á möl
þreytir fætur bera

Bráðinn er ég eins og smér,
á mig rennur æði,
sama er mér hvað sagt er hér,
Sólbjört þiggðu kvæði.

   (37 af 55)  
4/12/04 16:01

Skabbi skrumari

Snilld Sundlaugur minn... skál...
Afhverju mætir bróðir þinn ekki á Kveðist á?

4/12/04 16:01

Heiðglyrnir

Herra Sundlaugur minn, endurkomu yðar og ritsnilld er tekið fagnandi af hálfu Riddarans. Hafðu þökk fyrir.
.
P.s. Ekki er kvennseminni uppá hann Vatnar bróðir þinn logið Sundlaugur minn, svo mikið er víst.

4/12/04 16:01

Vímus

Ýsfirska fyndnin klikkar ekki. Það virðist vera nokkuð bjart yfir konum staðarins, eftir nöfnum þeirra að dæma. Ljósbjörg og Sólbjört frá Sóldal.
Eru þær með netföng?

4/12/04 16:01

Vatnar Blauti Vatne

Ég er ekki viss hvort ég kann þér neinar þakkir fyrir það, kæri bróðir, að þú sért að henda inn svona sögum af mér á veraldarvefinn.
Það þykir nú ekki til fyrirmyndar, allavega ekki heima á Ýsufirði, að láta stela af sér skónum meðan maður er í sundi.
Hvað Sólbjörtu varðar þá myndi ég glaður ljóða á hana oftar. Að mínu mati er hún er einn glæsilegasti fulltrúi kynsystra sinna og ég fyrirverð mig ekki fyrir hrifninu mína á henni þó hún sé úr Sóldalnum.

4/12/04 19:00

Sundlaugur Vatne

Enga viðkvæmni, kæri bróðir.
Þakka hlý orð í minn garð. Ég hélt satt að segja að Ljósbjörg væri í heimsókn hjá þér, kæri Vímus. Kannske lætur þú bara sem ekkert sé en þetta er almælt heima á Ýsufirð.
Annars hef ég nú haft fyrir því að verða mér út um netföng þessara kvenna og treysti því að ekki verði ljóstrað upp að ég hafi komið þeim áleiðis.
Þau eru: "fröken_sóldal@sóldal.ýs" og "ljósbjörg@heilsugæzlan.ýs"

6/12/04 05:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Les ég nú Vatne, þann vizkunnar kólf,
sem vandlega kímninnnar uppfyllir hólf.
Ellefu komnar, nú geng ég um gólf,
& geri mér vonir um bók númer tólf...

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.