— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 2/12/04
Ýsfirzk fyndni VI.

Enn fáið þið lesendur góðir frekari gamansögur frá Ýsufirði sem sanna enn að þar býr gamansamt fólk og skemmtilegt.<br /> Ég þakka enn og aftur lesendabréf sem mér hafa borizt. Einn béfritara, Vímus að nafni, hefur áhuga á að flytja til Ýsufjarðar og myndum við fagna honum ef af yrði. Hann spyr hvort apótek sé á staðnum og er því til að svara að þar er heilsugæsla sem Ljósbjörg ljósmóðir mannar og hefur hún einnig á hendi afgreiðslu hinna ýmsu lyfja. Læknir vitjar svo vikulega og skrifar upp á frekari lyf.<br /> Vona ég svo að þið njótið þeirra gamansagna sem hér er að finna.

Hann Lárus frá Polli hefur oft frá ýmsu skondnu að segja þegar hann kemur úr póstferðum enda ber hann póst um alla Norðursýsluna frá Ýsufirði til Viðvíkurhrepps. Það kemur fyrir að hann þarf að leita sér gistingar þegar tíðin er slæm og er öllum ljúft og skylt að hýsa hann.
Fyrir skömmu gisti hann á bænum Fæti í Viðvíkum þar sem búa saman roskin systkin þau Gróa, Halldór og Guðmundur. Sagðist Lárusi svo frá:
“Það gekk mikið á á Fæti um daginn þegar hann Guðmundur á Fæti barði hann Halldór á Fæti með borðfæti. En þá kom Gróa á Fæti og sagði “ef þú Guðmundur á Fæti hættir ekki að berja hann Halldór á Fæti með borðfæti skaltu sko eiga mig á fæti.””

******************************************************

Eitt sinn þegar Hafdís á Strönd gekk með enn eitt barnið las hún sér til skemmtunar ævisögu flugkappans Lindberghs sem fyrstur flaug í einni lotu yfir Atlantshafið.
Svo hrifin var hún af kappanum að hún var ákveðin í láta nýja barnið heita Lindberg. Þegar til kom eignuðust þau stúlku en Hafdís bjargaði málinu og hún var látin heita Berglind.

********************************************************

Einn sonur Hafdísar og Sæmundar heitir Ægir. Hann er mikill íþróttamaður og vel greindur en að sama skapi frakkur og orðhvatur.
Eitt sinn þegar Ægir var lítill drengur var hann með ólæti við matarborðið heima hjá sér og sinnti engu umvöndunum móður sinnar. Varð henni þá á að segja:
“Hvað heldur þú að hann Hásteinn barnakennari segði ef þú létir svona í skólanum?”
“Hann myndi nú bara segja “heldur þú að þú sért heima hjá þér, drengur?”” svaraði sá stutti.

***************************************************

Þannig háttar til í Barna- og unglingaskóla Ýsufjarðar að í prófum í unglingadeildinni leyfist nemendum að hafa með sér eitthvað sælgæti svo sem piparmyntur, ópal og þess háttar. Þeim er þó stranglega bannað að ganga um og bjóða öðrum unglingum með sér, eins og gefur að skilja.
Eitt sinn þegar Ægir á Strönd var í unglingadeild skólans kom hann með ópal með sér í próf. Lét hann allar reglur lönd og leið og gekk á milli borða og bauð ópal til beggja handa.
Þetta mislíkaði Hásteini barnakennara, sem von var, og gekk hann ákveðnum skrefum til Ægis og horfði á hann með reiðisvip. Þegar Ægir verður svo var við Hástein lítur hann upp segir óhræddur. “Það má víst ekki bjóða barnakennaranum ópal?”
Þó Hásteinn sé enginn skapofsamaður misbauð honum svo frekja drengsins að hann varð orðlaus og sló ópalpakkann úr hendi hans svo ópalið dreifðist um allt gólf.
Lét Ægir sér hvergi bregða en beygði sig niður til að tína upp ópalið sitt um leið og hann tautaði svo allir heyrðu: “Er það nú uppeldi.”

   (42 af 55)  
2/12/04 17:01

Herbjörn Hafralóns

Fínar sögur eins og endranær. Áfram með smérið hr. Vatne.

2/12/04 18:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Springur út með speki, vit,
& spaug frá Ýsufirði.
Vatne gefur lífi lit
& ljær því aukið virði.

2/12/04 18:00

Mjákvikindi

Alltaf jafn frábært. Bíð spennt eftir næstu sögu.

2/12/04 18:00

Heiðglyrnir

Herra Sundlaugur Vatne, þér eruð sko engin Sóldælingur, Ýsufjörður lifi..! hiphip húrra

2/12/04 18:01

Órækja

Frábærar sögur að vanda herra Vatne, það er augljóst að það er gott að búa á Ýsufirði.

2/12/04 19:00

Vímus

Ég hef alltaf jafn gaman af þessum sögum frá Ýsufirði. Segðu mér eitt! Er hún Ljósbjörg nokkuð á lausu? Bara spurði.

2/12/04 19:00

Hermir

Að þjónustu reiðubúinn.

[Hneygir sig]

2/12/04 19:01

s1ndr1

Bravú! Bravú!

[Klappar ákaft, og fleygir virðingalegum blómabúkk upp á lestrarsviðið]

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.