— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 8/12/04
Ýsfirzk fyndni XII.

Loksins lítur nýtt bindi Ýsfirzkrar fyndni dagsins ljós eftir alllangt hlé. Vona ég kæru lesendur að þið hafið ekki gefizt upp á biðinni og að gamanmál þessi úr heimsveit minni megi gleðja ykkur enn.

Hann Ægir frá Strönd hefur í gegnum tíðina þótt nokkuð fjölþreifinn til kvenna og ekki fáar sem hafa kennt honum barn.
Eitt sinn höfðaði stúlka nokkur mál á hendur Ægi og vildi lýsa hann föður að barni sínu. Var réttur settur á Ýsufirði og fékk sýslumaður kand. fíl. Engilbjart Sóldal til að gegna starfi réttarritara.
Við yfirheyrzlur kom fram hjá stúlkunni að samdráttur þeirra Ægis hefði átt sér stað snemma morguns í stigagangi í húsi þar sem hún var gestkomandi ásamt unnusta sínum. Tók hún það fram að þegar leikar voru farnir að æsast hjá þeim hafi hún varað Ægi við því að unnusti hennar væri í næsta herbergi og gæti komið fram á hverri stundu.
Gerði sýslumaður hér hlé á frásögn stúlkunnar og spurði hana hvort Ægir hefði þá ekki viljað hætta við eða fara varlegar í sakirnar.
“Nei, það var nú örðu nær”, svaraði stúlkan, “þetta hafði engin áhrif á atlot hans.”
Þegar hér var komið sögu gat kand. fíl. Engilbjartur Sóldal ekki lengur haldið aftur af tilfinningum sínum. Hann lagði frá sér pennann og sagði klökkum rómi: “Já, mikill garpur er hann Ægir Sæmundsson frá Strönd.”

******************************

Eitt sinn kom Börkur gamli frá Víðidal í Viðvíkuhreppi í heimsókn til sóknarprestsins okkar, hans séra Guðbjarts, sem reyndar er aldrei kallaður annað en séra Bjartur.
Þar sem þeir sátu inni í stofu prestsins verður Berki litið á kristsmynd á litlu borði í stofunni og spurði hann prest hver þessi maður væri.
“Þú hlýtur nú að þekkja þennan, Börkur minn”, svaraði prestur, “þetta er hann Jesú”
“Jú ég held ég kannist nú við hann”, svararði Börkur þá, “vinnur hann ekki í sláturhúsinu?”

************************************

Að lokum eru hér tvær sögur sem ég hef eftir Hásteini barnakennara:

Þegar Njörður frá Strönd var í barnaskóla kvartaði hann eitt sinn yfir því við móður sína að Hásteinn barnakennari væri að níðast á sér. Þótti Hafdísi þetta versta mál og mælti sér mót við Hástein strax daginn eftir. Mætti hún síðan í skólann á tilteknum tíma og hafði Njörð litla með sér.
Bar hún það nú upp á Hástein að hann væri að níðast á drengnum hennar.
Hásteinn svaraði því til að það væri fjarri lagi. Reyndar væri þessi fundur þeirra löngu tímabær því svo væri farið, vægt frá sagt, að hann Njörður væri satt að segja ekki sérlega vel gefinn ætti erfitt með að læra.
Máli sínu til stuðnings spurði hann nú Njörð: “Njörður minn, hvað eru tveir plús tveir?”
Þá sneri Njörður sér að móður sinni og vældi: “Sjáðu, mamma, hann er enn að níðast á mér”.

******************************

Eitt sinn þegar við bræður vorum í unglingadeild skólans og Hásteinn barnakennari var nýkominn til starfa, ungur og óreyndur, lét hann okkur skrifa ritgerð sem átti að fjalla um heimilið okkar.
Eitthvað var hann Vatnar Blauti, bróðir minn seinn til að skila sinni og þegar Hásteinn hafði lesið hana yfir kom hann að mái við Vatnar Blauta og sagði: “Mér þykir það sérstakt að þegar þú loksins skilar inn rigerðinni þinni þá er hún orðrétt eins og rigerðin hans Sundlaugs bróður þíns.”
“Það þarf nú engan að undra”, svaraði bróðir minn þá, “við komum frá sama heimili.”

   (36 af 55)  
8/12/04 15:01

Barbapabbi

Miklar gersemar eru þessar gamansögur.

8/12/04 15:01

Hakuchi

Bráðskemmtilegt.

8/12/04 15:01

Enter

Æði.

8/12/04 15:01

Litla Laufblaðið

Frábært að vanda Sundlaugur minn.

8/12/04 15:01

Heiðglyrnir

Stórkostlegtð tímalaust skopskyn, umm, nú er maður loksins komin heim á Gestapó.

8/12/04 15:01

dordingull

Snilld! Ég brosti ekki allan lesturinn.

8/12/04 16:01

Pangúr Ban

Forkunnarspélegt, alveg hreint.

8/12/04 16:01

Mjákvikindi

Alltaf góður.

8/12/04 16:01

Nafni

Þér eruð algjör snilli herra Sundlaugur. Takk.

8/12/04 16:02

Vladimir Fuckov

Stórskemmtilegt eins og alltaf.

8/12/04 18:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Ég óska höfundinum/skrásetjaranum Sundlaugi,
sem & öllum unnendum Ýsfirzkrar fyndni, gleðilegs hausts :
----------------
Eftir sumarfrísins frið
fyndni yðar þráðum við.
Loksins! Eftir langa bið.
lestrar- bryð ég -sælgætið.

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.