— GESTAPÓ —
Sundlaugur Vatne
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Saga - 2/12/04
Ýsfirzk fyndni VII.

Enn birtist nýtt bindi af Ýsfirzkri fyndni og ekki degi of snemma ef marka má þær viðtökur sem þessi ritröð hefur fengið.<br /> Ég þakka enn þau bréf sem hafa borizt mér frá ánægðum lesendum og hvet ykkur til að láta í ykkur heyra.<br /> Einn lesandi spyr hvort ljóðmóðirin okkar, hún Ljósbjörg, sé á lausu. Ég held því verði best svarað með því að segja að á Ýsufirði gengur Ljósbjörg gjarnan undir nafninu "Káta ekkjan".

Ægir frá Strönd er einn sonur þeirra Hafdísar og Sæmundar. Hann er vel greindur ungur maður en frakkur og oft ófyrirleitinn. Hann tók upp á þeim ósóma, sem unglingur, að reykja sígarettur í laumi.
Eitt sinn laumaðist Ægir bak við vöruhús Kaupfélags Ýsufjarðar til að reykja. Sá Ólína skólaráðskona til hans og grunaði hvað til stæði. Elti hún hann og kom að honum reykjandi. Varð henn þá að orði:
“Hvað er að sjá til þín, drengur? Veit hún móðir þín að þú reykir?”
Leit Ægir þá upp og sagði: “Veit maðurinn þinn að þú ert að eltast við karlmenn á bak við vöruhúsið?”

***************************************************

Móðurbróðir minn Votleifur Vatnsdal var skemmtilegur karl og mikið góðmenni. Hann hafði þó þann leiða galla að vera ákaflega drykkfelldur. Þótti foreldrum mínum, sem bæði voru bindisfrömuðir, þetta ákaflega miður og reyndu oft að snúa Votleifi til betri vegar.
Eitt sinn var móðir mín að tala um fyrir bróður sínum og sagði að hann yrði að fara að minnka drykkjuna. Sagði þá Votleifur: “Hvurslags, Systa, ég sem smakkaði ekki dropa í heila 3 mánuði í fyrra.”
“Ekki man ég það nú, Votleifur minn,” sagði móðir mín, “hvenær skyldi það hafa verið?”
“Jú, það var í ágúst,” svaraði Votleifur.

**************************************************

Eitt sinn var kand. fíl. Engilbjartur Sóldal á leið ríðandi frá Ýsufirði til Sóldals. Reið hann um hlað á Brimslæk þar sem Ragnar bóndi og oddviti hreppsnefndar var að leggja á hest.
Tóku þeir tal saman og spurði Engilbjartur hvert Ragnar væri að fara og svaraði hann því að ætti erindi norður í Viðvíkur.
Þar sem leiðin í Viðvíkur liggur um Sóldal spurði Engilbjartur hvort það væri ekki skemmtilegra ef þeir yrðu samferða.
“Það yrði allavega skemmtilegra fyrir hestana,” svaraði Ragnar þá.

*****************************************************

Ragnar á Brimslæk er mikill hestamaður og fer ferða sinna gjarnan ríðandi. Er Ragnari ákaflega annt um hesta sína.
Eitt sinn sem oftar gisti Guðbrandur, kallaður Biblíu-Brandur, á Brimslæk og ætlaði ná stradferðaskipi til Reykjavíkur daginn eftir. Eitthvað tafðist bíllinn sem átti að sækja Guðbrand og var fyrirsjáanlegt að hann myndi missa af skipinu ef hann ekki legði þegar af stað en bifreið Ragnars var í ólagi.
Hvöttu nú Sigríður, kona Ragnars, og systir hans, sem var þarna gestkomandi, Ragnar til að lána hest undir Guðbrand svo hann næði skipinu.
Var Ragnar ákaflega tregur til og sagði að hann vildi ekki að hestum sínum yrði riðið of hratt auk þess sem hann treysti engum til geyma fyrir sig hestinn niðri í þorpi. Varð þó úr að Guðbrandi var lánaður hesturinn gegn því að ríða ekki hraðar en þyrfti til og var maður sendur með honum, einnig ríðandi, til að koma hestinum heim.
Nú þurfti Guðbrandur að fara hratt til að ná skipinu og svo fór sem Ragnar óttaðist að þegar vinnumaður hans kom aftur með hestana voru þeir löðursveittir og móðir.
Sneri Ragnar sér þá að eiginkonu sinni og systur og sagði reiðilega: “Vilduð þið kannske að ykkur væri riðið svona?”

   (41 af 55)  
2/12/04 23:01

Heiðglyrnir

Guðs laun, Herra Sundlaugur Vatne fyrir þetta gæða lesefni.

2/12/04 23:02

Skabbi skrumari

Já, maður fær ekki nóg af þessum frábæru sögum... það er spurning að gefa þetta út fyrir jól... Salút

3/12/04 00:00

Mjákvikindi

Alltaf jafn frábært! Takk.

3/12/04 00:00

Mjákvikindi

Alltaf jafn frábært! Takk.

3/12/04 01:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Gleðjast aftur mega menn !
Mig af hlátri skekur
ýsufirzka fyndnin enn,
fögnuð hjartans vekur.

Sundlaugur Vatne:
  • Fæðing hér: 14/12/04 10:28
  • Síðast á ferli: 18/3/24 21:27
  • Innlegg: 4373
Eðli:
Sundkennari og ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar í Ýsufirði.
Fræðasvið:
Sund og blautlegar vísur
Æviágrip:
Eg heiti Sundlaugur Vatne. Eg er sundkennari við Vatnsveituna í Reykjavík og er fæddur og uppalinn á Ýsufirði. Faðir minn var Hundblautur Vatne, hafnsögumaður, vitavörður, sundkappi og stofnandi og fyrsti formaður Ungmennafélagsins Andspyrnunnar. Móðir mín var Sundlaug Vatnsdal, sunddrottning, húsmæðrakennari og gjaldkeri Kvenfélagsins Vonar.Eg stundaði nám við íþróttaskólann í Usselröd og tók sundkennarapróf í Sundhöllinni í Árósum.Eg er afkomandi Votkels í Lækjarbotnum, landnámsmanns í Ýsufirði enbý ásamt fjölskyldu minni í Reykjavík að Séstvallagötu 16 1/2 og ek bifreið Volvo Amazon.Helstu áhugamál mín eru íþróttir og þá helst sund og glíma og ungmennafélagsstarfið, enda er eg ritari Ungmennafélagsins Andspyrnunnar, Ýsufirði, og einnig hef eg allnokkurn áhuga á blautlegum vísum.