— GESTAPÓ —
Félagsrit:
Heiðglyrnir
Fastagestur og  sagnaþulur.
Dagbók - 1/12/06
MINNING UM MÖMMU.

Tileinkað og til minningar um móður mína, hún er fyrirmynd mín og alls þess góða sem að ég trúi á í lífinu, hennar er sárt saknað.

Ég var 11 ára og þessa nótt, sem svo margar aðrar hafði Óli lokbró ekki fundið mig; en ég aftur á móti fundið mér góða bók að lesa. Lestur bóka hafði verið ástríða mín frá fjórða aldursári. Þá runnu þessi yndislegu og upplýsandi tákn saman í skiljanleg orð og setningar sem að ég gleypti í mig frá þeirri stundu, eins og engin væri morgundagurinn.
.
Allt í einu heyrði ég e-ð hljóð, Jú svei mér þá það hljómaði eins og e-r væri að gráta, ég fór strax á ról til að athuga hvaðan hljóðið kæmi. Mikið brá mér sem ungum dreng við að heyra hljóðið koma frá herbergi móður sinnar, fann hvernig stutt var í mín eigin tár, bara við að heyra hana gráta. Herti mig samt upp og bankaði laust á hurðina hennar og gékk inn í myrkvað herbergið „...Mamma...elsku mamma mín hvað er að, afhverju ertu svona sorgmædd".
.
Mömmu brá svolítið við að heyrst hefði til hennar, settist upp í rúminu, fór fram úr og við fórum saman inn í eldhús til að ræða málin . Þá kom í ljós að hún hafði miklar áhyggjur yfir því að móðir hennar (amma mín) var væntanleg í heimsókn til okkar daginn eftir og ætlaði að gista yfir helgina. „Hvað!," sagði ég „það getur ekki verið svo slæmt. Verður ekki bara gaman að fá ömmu í heimsókn." Jújú svaraði móðir mín með hálfgerðum ekka, málið er bara að við eigum ekkert frambærilegt til að bjóða henni uppá og það er svo leiðilegt fyrir mig að fá hana í heimsókn við þær aðstæður.
.
Við fjölskyldan vorum á þessu tímapunkti nýbúin að ganga í gegnum hamfarirnar í Heimaey(Eyjagosið "73). Faðir minn var á sjó og við vorum búsett upp í sveit. Ákveðið hafði verið að leigja húsnæði á jörð þar sem jarðarhlunnindi voru nýtt af næsta býli sveitarinnar. Áliðið var sumars og útgerðarfyrirtækið sem gerði út bát þann er faðir minn hafði nýlega munstrað sig á, var ekki alveg að standa við umsamdar launagreiðslur og hann úti á ballarhafi, alveg ómeðvitaður um aðstæður okkar í landi. Reikningnum í kaupfélaginu var að vonum lokað um leið og greiðslur hættu að berast og við bara hreint ekki alveg í góðum málum.
.
Móðr mín sem alltaf var svo útsjónarsöm og sterk, var þarna bara nóg boðið og gat ekki hugsað þá hugsun til enda að fá móður sína í heimsókn og eiga varla fyrir okkur neitt að borða, hvað þá e-ð frambærilegt fyrir hana.
.
Þarna seinni part nætur rétt fyrir birtingu, fórum við mamma saman yfir hvað væri til í búrinu. Jú það var til hálfur kassi af grænum eplum, stór poki af jarðeplum (Kartöflum), haframjöl, hveiti, sykur og nokkur egg. Paxo raspur og fátt eitt fleira.
.
Já nú voru góð ráð á uppsprengdu verði. Nema hvað að þarna og Þá fékk ég frábæra hugmynd, „Heyrðu! mamma ég fer bara og veiði silung í matinn og við matreiðum hann á mismunandi vegu þessa tvo daga sem amma stoppar hjá okkur." Á einhvern óútskýranlegan hátt tókst mér að sannfæra móðir mína um að þetta gæti nú hugsanlega bara alveg gengið. Sjálfur var ég alveg laus við efasemdir um þetta myndi takast og ótrúlega ákveðin.
.
Fyrsta vandamálið var að ég átti ekki veiðistöng sem eitt og sér hefði nú hugsanlega dregið úr flestum kjarkinn. En eftir að hafa bundið þetta fastmælum við móðir mína, var ekki um neina uppgjöf að ræða hjá mér í þessi máli. Fundið var til gyrni á plastspólu og nokkrir önglar sem mér höfðu áskotnast þá um sumarið, flotholt, vasahnífurinn minn góði og plastbox fyrir beituna. Stígvélaður og í stóru ljósgrænu hettuúlpuni minni með alla vasa fulla af þessum fínu græjum og eitt grænt epli í nesti. Hélt ég síðan af stað til veiðanna. Fullur af bjartsýni og eftirvæntingu. Vá hvað yrði gaman að sjá svipin á mömmu þegar ég kæmi heim með silunginn.
.
Þegar út var komið, klukkan sennilega að ganga á sex um morguninn, byrjaði ég á að leggja leið mína að gamla ónotaða fjósinu steinsnar frá bænum. Þar í gamla fjóshaugnum og í kringum hann, datt mér einna helst í hug að finna mér nokkra væna maðka í plastboxið mitt góða. Eitthvað hafði ringt um nóttina og lyktin úr blautu grasinu yfirþyrmandi þá gaf létt leikandi mystur yfir öllu leiðangrinum eftirminnilegan æfintýrablæ.
.
Flest allt sem að ég vissi um fiskveiðar á þessum tíma kom úr bókum og e-ð hafði verið veitt af marhnút og kola á hafnarbakkanum í Heimaey og litlu trébryggjunni á Patreksfirði. Eitt var ég alveg sannfærður um og það var að góð beita var afar mikilvæg. Þegar ég kom að gamla fjóshaugnum, fann ég þar gamla reku og stakk með henni út myndalegan ferhyrndan hnaus, skóflaði honum síðan upp á grasbalann og barði hann létt í sundur með flötu rekublaðinu. Fór síðan á hnéin og rótaði í hrúgunni sem hafði áður verið kúamykja en var núna orðin nánast lyktalaus gæða gróðurmold. Viti menn þarna fann ég strax 5 væna maðka sem að ég setti í plastboxið mitt góða með slatta af þessari fínu mold og mosa. Eftir tvo hnausa í viðbót voru komnir 12 - 15 maðkar í safnið og ekki eftir neinu að bíða.
.
Þá var bara að halda til veiða, Það voru aðallega tveir staðir sem í mínum unga huga komu til greina. Annarsvegar tær og fallegur hylur sem að ég hafði séð ofar í ánni fyrr um sumarið. Þar hafði ég séð silung og hins vegar grasi gróin kvísl út frá ánni inn á miðjar mýrar. Víða var alveg vaxið yfir hana en ég vissi um nokkrar álitlegar vakir. Þar hafði ég einnig séð silung og einn alveg risa stóran.

Þarna tók ég ákvörðun um að heimsækja fyrst hylinn ofar í ánni, hann var öllu lengra í burtu eða í um tveggja tíma göngufæri. Ferðin gékk vel og náttúran sem var að vakna upp eftir nóttina gladdi mig með ferskum fjölbreytileika sínum og yndislegu hljóðum.
.
Þegar að hylnum góða var komið var litið eftir silung; en ekki var nokkurn ugga að sjá. Ég settist samt vongóður á árbakkann og byrjaði að gera klárt til veiða. Faðir minn hafði kennt mér þá um sumarið að hnýta veiðihnút á nælongyrni og rifjaði ég það upp með góðum árangri, marg prófaði og hnútarnir mínir héltu vel. Þá var farið í maðkaboxið og sérvalinn myndalegur maðkur, hann var síðan þræddur eftir kúnstarinnar reglum á öngulinn. Úff það er ekki gott hlutskipti að vera maðkur í veiðiferð. Nú var veiðarfærið góða tilbúið en það samanstóð af flotholti og frá því langur taumur því að hylurinn var djúpur, vel beittur öngull og hinn endin á gyrninu sem að ég hafði tekið af spólunni, vafið um stutta grein sem passaði vel í lófa og gaf gott átak.
.
Þá var bara að henda út flotholtinu og þegar það flaut um í miðjum hylnum fann ég eftirvæntinguna og veiðieðlið hríslast um mig. Hér á þessu stað í sögunni væri upplagt að byggja upp spennu með lesandanum og láta vera djúpt á fyrsta fiskinum; en þá væri ekki farið rétt með. Það var bitið á áður en ég náði að setjast á bakkann. Úff eftir smá spennufall og taugaveiklun dró ég fyrsta silunginn á land. Þetta var stór feitur og fallegur fiskur. Gleði mín var takmarkalaus og veiðieðlið magnaðist. Eftir að hafa rotað og blóðgað silunginn minn, var krókurinn beittur að nýju og hent út. Flotholtið hafði varla snert vatnsflötinn þegar bitið var á aftur. Annar silungur, ef ekki bara nokkru stærri en sá fyrri var dreginn að landi. Næsta klukkutímann eða svo, voru veiddir einir 7 stórir og vænir silungar. Ég varð bara að hætta, því að ég var að verða smeykur um hvernig ég ætti að koma fengnum öllum heim í hús.
.
Þegar ég kom síðan heim með veiðina, var mamma afskaplega glöð en hún var ekkert hissa. Hún var svo sannfærð um að mér myndi takast þetta.
.
ÞAKKA ÞÉR FYRIR TRAUSTIÐ SEM AÐ ÞÚ SÝNDIR MÉR ALLTAF ELSKU BESTA MAMMA MÍN. MEÐ ÞAÐ Í FÖR VAR ALLT MÖGULEGT.
.
.
.
.
.
.
.
Töfra Stundir

   (26 af 120)  
1/12/06 20:02

Offari

Hvar er þessi hylur? í öllum skemmtilegum veiðisögum missirðu þann allra stærsta. Samt var sagan skemmtileg ó ég veit hvernig upplifun er fyrir ellef ára gutta að koma heim með björg í bú.

1/12/06 20:02

Nermal

Virkilega falleg saga.

1/12/06 20:02

Lopi

Já ég kannast líka við þetta, frábær saga sem minnir mig á gömlu góðu silungsveiðiárin þegar ég var barn og unglingur.

1/12/06 20:02

krossgata

Falleg minning full af birtu.

1/12/06 20:02

Carrie

Fallegt

1/12/06 21:00

Kondensatorinn

Þetta er falleg minning og takk fyrir að deila henni með okkur í skammdeginu.

1/12/06 21:00

Salka

Sammála Kondensatori.

Hugljúf minning með sorglegu og sögulegu ívafi.

1/12/06 21:01

Heiðglyrnir

Fyrir 11 ára polla var þetta allt að því yfirnáttúruleg reynsla. Þakka þeim sem hafa gefið sér tíma til að líta hér inn og láta vita af sér.

1/12/06 21:01

Þarfagreinir

Hugljúf saga. Vonandi hefur síðan fljótlega ræst úr peningavandræðum ykkar móður þinnar ...

1/12/06 21:01

Heiðglyrnir

Jamm Þarfi minn, þetta var svolítið erfitt tímabil þarna hjá okkur; en hjá vertíðafólki á þessum tíma var aurinn yfirleitt annað hvort í ökla eða eyra. Þakka innlitið minn kæri.

1/12/06 21:01

Billi bilaði

Flottur.
Og hvernig hefur svo veiðiskapurinn gengið síðan? Ertu almennileg veiðikló?

1/12/06 21:01

krumpa

Yndisleg saga

1/12/06 21:01

Anna Panna

Þetta er hugljúft, móðurástin er meira virði en allt annað í þessum heimi held ég.

1/12/06 21:01

B. Ewing

Tek undir með hinum. Þetta er falleg saga.

1/12/06 21:01

U K Kekkonen

Ah, ljómandi saga. Þverskorinn soðin silungur er með því berta sem maður fær, sérstaklega 11 ára og hefur veit þá sjálfur.

1/12/06 21:02

Ívar Sívertsen

Falleg minning. Það gleður ávallt foreldra þegar börnin draga björg í bú.

1/12/06 21:02

Furðuvera

Yndisleg, yndisleg saga, vona að þú skrifir meira svona í framtíðinni elsku riddarinn minn.

1/12/06 21:02

Heiðglyrnir

Æi krúttin mín, maður fær bara ryk í bæði augun sko. Þið eruð yndisleg. Þakka innlitið.

1/12/06 22:00

Ívar Sívertsen

[fer að ryksuga] Rosalega kemur alltaf mikið ryk þegar þú ert að skrifa... augun á þér þola þetta greinilega ekki...

1/12/06 22:00

Heiðglyrnir

[Brosir í gegnum rykið]

1/12/06 22:01

Sæmi Fróði

Falleg saga, Heiðglyrnir kæri vinur.

1/12/06 22:01

Jóakim Aðalönd

Skál fyrir minningu móður þinnar riddari sæll!

1/12/06 22:01

Skabbi skrumari

Ljómandi... alltaf gaman af svona sögum... Skál

1/12/06 22:01

Hvæsi

Alveg svona líka sérdeilis prýðileg saga.

Skál minn kæri.

2/12/06 00:02

Hexia de Trix

Þetta var skemmtilegur og hugljúfur lestur. Þú hefur verið dugnaðar drengur og stolt móður þinnar.

Heiðglyrnir:
  • Fæðing hér: 19/11/04 19:46
  • Síðast á ferli: 1/12/23 10:38
  • Innlegg: 451
Eðli:
Riddaramennska er lífsstíll.
Fræðasvið:
Hugmyndaflug-maður og ímyndunarafl-raunamaður. Náttúrunnar glímutök, svo og glasalyftingar. cult, (minnihluta sérhópa áhugamál) og s ART&ECONOMY
Æviágrip:
Riddarinn sem er fyrsti og eini riddari Baggalútíu, var sleginn til riddara og gefið nýtt nafn af konungi vorum. Ber frá þeim degi nafnbótina og nafnið SIR. Heiðglyrnir Hinn Hugdjarfi. Þar af leiðandi, eftir öllum reglum í hinum þekkta heimi er hann aðalsmaður (þó ekki grænn). Riddarinn hefur ekki farið varhluta af flökkueðli riddara, hefur farið sínar eigin krossferðir, búið meira og minna um allt Ísland og víða erlendis t.d. Bretlandi, Brasilíu, Eistlandi og farið víða um lönd og strönd.