— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 5/12/03
Heimilismatur við höfnina

Maður lifir víst á brauði og kökum einu saman

Síðastliðinn fimmtudag gerðum við enn og aftur heiðarlega tilraun til að leggja blessun okkar yfir brasaða borgara Hamborgarabúllunnar í Geirsgötu. Það tókst ekki, frekar en fyrri daginn, og höfðum við þó sýnt þá fyrirhyggju að kalla út hinn herðabreiða Vaðal til að ryðja brautina fyrir okkur hin sem erum heldur pastursminni.
Júlía keyrði hvern hringinn á eftir öðrum um miðborgina, uns hinn ráðagóði Þöngull stakk upp á því að við blönduðum geði við hetjur hafsins á Kaffivagninum á Granda.

Fátt er ánægjulegra en að snæða með mönnum sem vinna erfiðisvinnu og afla tekna í þjóðarbúið (þess vegna kunnum við svo vel að meta samvistir við Þöngul). Fáir slíkir voru staddir á Kaffivagninum þegar okkur bar að garði, enda nokkuð áliðið og allir almennilegir menn búnir að borða og farnir að vinna aftur. Þeir sem eftir sátu buðu af sér ágætan þokka. Á einu borði sat hópur erlendra ferðamanna sem kvökuðu og tístu glaðlega eins og frændur þeirra farfuglarnir, en einhverjir túristabæklingar mæla einmitt með því að erlendir gestir skoði innfædda í náttúrulegu umhverfi á þessum stað. Víða mátti sjá köflóttar vinnuskyrtur, uppbrettar ermar og stælta handleggi og ef vel var að gáð sást dauf glóð vindla og vindlinga. Reykur var þó hvergi til baga, þó leyfilegt væri að reykja á öllum borðum að því er virtist.

Þöngull fór í fararbroddi að afgreiðsluborðinu og greip í fljótheitum væna samloku og límónaði og gaf með því tóninn fyrir okkur hin. Mús-Lí valdi einnig samloku, en Mosa og Júlía létu freistast af girnilegu ‘smörrebrödi’ af þeirri gerð sem fæst í öllum betri þjóðvegasjoppum. Vaðall sló tvær flugur í einu höggi og fékk sér bæði aðal- og eftirrétt; brauð og tvær vænar pönnukökur með sykri. Brauðmetið bragðaðist prýðilega og sérstaklega gladdist Júlía og kransæðar hennar yfir ótæpilegum skammti majóness sem veitti baununum selskap í salatinu. Kaffið olli hins vegar verulegum vonbrigðum, en það var varla yfir líkamshita (að viðbættum dálitlum mjólkurdreitli) og augljóslega ekki nýtt.
Þegar við höfðum gert aðalréttinum góð skil gafst enn rúmur tími til skrafs og eftirréttaáts og því fórum við stöllur kátar í kjölfar Þönguls að skenknum til að velja girnilega kökusneið. Vaðall gaf pönnukökunum ekki ágætiseinkunn, enda voru þær alltof þykkar og löðrandi í sírópskenndri sykurdrullu (afsakið orðbragðið), svo athyglin beindist að öðru bakkelsi. Þöngull fór úttroðnar slóðir og fékk sér ameríska muffu, uppfulla af rotvarnarefnum, Júlía keypti rígvæna sneið af marmaraköku en Mús-Lí féll algjörlega fyrir kökufjórðungi með bleikum glassúr*. Örlæti þeirra sem skera kökusneiðarnar í Kaffivagninum er slíkt, að undrun sætir. Ein sneið gæti dugað fimm manna fjölskyldu til framfærslu í tvo daga (svo fremi hún hafi eitthvað annað að narta í líka) og er alltof stór fyrir Mús-Lí eina, svo Mosa miskunnaði sig yfir hana og féllst á að borða helminginn á móti henni. Undir bleika kreminu leyndist e.k. lagkaka með sultu, sem féll þeim stöllum vel í geð og kom ánægjulega á óvart, enda minnti hún á gamaldags ömmubakstur. Ábótin á kaffið var sýnu betri en ‘originalinn’, en þó er varla hægt að segja að Kaffivagninn standi fyllilega undir nafni.

Við nánari athugun kom í ljós að hægt var að fá alvöru heimilismat, steiktan fisk og graut á eftir, en í óðagotinu yfirsást okkur sá möguleiki. Engu að síður var heimsókn okkar í alla staði hin ánægjulegasta. Sólin glampaði á sjónum utan við gluggann og innan dyra var heimilislegt andrúmsloft. Staðurinn er vistlegur og sérlega þrifalegur og hvergi blett að sjá. Heimilislegir skrautmunir og geðug, miðaldra afgreiðslukonan gerðu það að verkum að okkur fannst við vera í heimsókn hjá elskulegri móðursystur eða góðri húsmóður af gamla skólanum. Þeir sem vilja afslappað umhverfi, létt snarl eða heimilismat ættu að leggja leið sína út á Granda – en verið viðbúin því að greiða vel fyrir herlegheitin. Prísarnir eru sniðnir að svellþykkum seðlaveskjum sjóaar, frekar en fátækra verka- eða námsmanna.

Meira fyrr en varir,

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía, Þöngull (skósveinn) og Vaðall (viðhengi ellegar viðhald)

*Dálæti Mús-Líar á bleikum matvælum er efni í viðamikla rannsókn. Vísindaráð Evrópusambandsins hefur nú þegar sýnt verkefninu umtalsverðan áhuga og er niðurstöðunnar beðið með eftirvæntingu víða um heim.

   (39 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.