— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 2/11/02
Gott að borða á Gráum ketti

Óvissuferð um öngstræti miðborgarinnar

Já, það var nú heldur en ekki spenna og eftirvænting í hjörtum okkar stallsystranna síðasta fimmtudag, á meðan við biðum þess að skósveinninn okkar trausti kæmi til að sækja okkur í hádegisverðarsamsæti þeirrar viku. Hann hafði nefnilega boðað okkur að nú skyldi farið í óvissuferð! Hann skyldi velja staðinn og sækja okkur á eðallimmúsínu sinni (eða ígildi slíkrar) til að bæta fyrir vanræksluna vikuna á undan. Okkur leið nánast eins og við værum þáttakendur í “Piparsveininum” eða öðrum slíkum spennandi sjónvarpsþætti, enda er skósveinn okkar maður einhleypur, en þó eigulegur. Jæja, af stað var haldið og gaf bílstjórinn ekkert uppi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar til þess að veiða uppúr honum hvert ferðinni væri heitið. Þótti okkur þetta skemmtilegur leikur og ákváðum að hafa sama háttinn á í næstu skipti, þannig að hvert okkar fengi að koma hinum á óvart, að minnsta kosti einu sinni.

Í ljós kom að pilturinn hafði valið alveg hreint sérstaklega vel. Staðurinn reyndist vera hugguleg lítil kjallarahola, neðarlega á Hverfisgötu, með þá sérkennilegu nafngift Grái kötturinn. Staður þessi mun vera þekktur fyrir það helst að vera í uppáhaldi meðal leikara og annars merkilegs fólks, þar á meðal skósveins okkar, og því litum við forvitnisaugum í kringum okkur um leið við komum okkur fyrir við lítið borð úti í horni. Það var fljótgert að skanna staðinn, þar sem að hann rúmar einungis um fimm borð, þannig að við sáum strax að þarna var að minnsta kosti ein fræg persóna innanborðs. Jón Gnarr, sá þekkti spéfugl, sat nefnilega skáhalt á móti okkur. En við, háttvís og veraldarvön sem við erum, kipptum okkur ekki upp við þetta og tókum strax upp glaðlegt hjal, svona til þess að sýna hversu lítið upptekin við erum af hverskyns flaðri og flírulátum í kringum frægt fólk. Jóni tókst einnig að dylja gleði sína yfir að koma auga á okkur aðdáunarlega vel og ber það ótvírætt vitni um einstæða leikhæfileika hans.

Nú, þá að matnum. Það varð samhljóða álit okkar allra að það sem lofaði bestu af matseðlinum væri svokallaður “trukkur”, réttur sem samanstendur af beikoni, eggjum, steiktum kartöflum og amerískum pönnukökum með sírópi. Þetta fannst okkur að myndi vera kjarngóð og seðjandi máltíð. Fór svo að við biðum í drykklanga stund eftir matnum, en á meðan skiptum við um borð (það losnaði borð við hliðina á Jóni Gnarr) og virtum fyrir okkur umhverfið. Mosa frænka vakti athygli á listaverkum sem héngu á veggjum staðarins og voru einskonar grafskriftir yfir merkum köttum þar sem þeirra helstu afrek í lifandalífi voru tíunduð. Þetta þóttu okkur sérstæð verk en vel passandi staðnum. Þeir sem ekki eru í áhugaverðum félagsskap geta gluggað í bækur, en þær standa í röðum meðfram öllum veggjum staðarins og gefa honum sérlega hlýlegt og menningarlegt yfirbragð. Ákefð Mús-Líar þegar hún fann gamalt eintak af einni af bókunum um Möttu Mæju, mætti nokkru fásinni meðal borðfélaganna, svo að hún hætti við að lesa upp úr henni valda kafla og sat fýld og þögul í smá stund. (Þess ber að geta að Mús-Lí er annars hrókur alls fagnaðar og víðfræg fyrir sitt fagra sólskinsbros).

Heldur hresstist yfir mannskapnum þegar maturinn var loks borinn á borð. Höfðum við nokkrar væntingar til “trukksins”, enda hafði fararstjóri okkar borið honum vel söguna, og urðum svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Reyndist þetta hin dýrlegasta máltíð (enda við öll orðin aðframkomin af hungri) og runnu pönnukökurnar og beikonið sérstaklega ljúflega niður, enda löðrandi í feiti og sýrópi. Vorum við sammála um að rétturinn færi hreint ekki illa í maga og hrósuðum lærisveini okkar í hástert fyrir staðarvalið. Þótti okkur hann hafa bætt okkur upp að fullu þá raun sem við máttum þola, karlmannslausar, síðasta fimmtudag. Í kaupbæti bauð svo vertinn (geðþekk kona) uppá ókeypis kaffibolla, vegna þess hvað við höfðum mátt bíða lengi. Var þetta sterkt og gott kaffi og jók enn á vellíðan okkar og ánægju með staðinn. Í kveðjuskyni nikkuðum við svo létt til hins fræga fólksins á staðnum og brunuðum svo aftur í vinnuna, enda komið nærri kaffitíma.

Meira að viku liðinni.

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía og Þöngull (skósveinn)

   (57 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.