— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 1/12/03
Ó, Borg, mín Borg!

Allsnörp ádeila á jólahlaðborð Hótel Borgar

Veraldarvanir matgæðingar eru meðvitaðir um mikilvægi þess að þjálfa líkamann upp fyrir jólin. Einn mikilvægasti þáttur þessa æfingaferlis eru jólahlaðborðin. Þar reynir verulega á þol, styrk og úthald, svo ekki sé talað um staðfestu og sigurvilja. Þeir sem lengst hafa náð í íþróttinni mæta snemma til leiks; bragða á öllum forréttum, elta uppi síldartorfur og villibráðarpaté, grafa upp sérhvern lunda, gæs og lax sem leynist á staðnum, smakka á feitu lambi jafnt sem bústnum grísum, kalkúnum og öðru kjötmeti, áður en ráðist er til atlögu við ris à l’amande og önnur sætindi. Ef vel er að verki staðið stendur eftir snautlegt borð, hlaðið hálftómum fötum. Sá sem stendur upp frá slíku borðhaldi vel mettur, en með nokkra löngun í lítinn súkkulaðimola ellegar kökubita, er reiðubúinn að takast á við skefjalaust át út alla jólahátíðina.

Við stöllur erum svosem ekki þurftarfrekar á mat, frekar en önnur lífsins gæði, en hvorki skortir okkur þol né kjark. Eftir góðan undirbúning síðustu vikna og mánaða töldum við okkur albúnar að takast á við jólahlaðborð Hótel Borgar, réttri viku fyrir hátíðina sjálfa.
Hinn lystugi og geðþekki skósveinn okkar var allt í senn ekill og kjölfesta hópsins að vanda en að þessu sinni höfðum við annan piltung í för með okkur. Sá er af kunnugum kallaður Vaðall, enda masgjarn og matgráðugur í æsku en heldur pasturslítill hinn síðari ár. Drengurinn hefur löngum verið feiminn og hjárænulegur í hópi fagurra kvenna, svo frjálsmannlegt fas hans, hnyttni og orðheppni kom skemmtilega á óvart. Mest gladdi okkur þó að sjá hversu hraustlega þeir félagar tóku til matar síns, enda augljóst að þeir höfðu búið sig undir þessa samverustund af kostgæfni með föstum, yfirbót og andvökum.

Óvönum er ráðlagt að fara að öllu með gát þegar þeir freista inngöngu í Hótel Borg. Hönnuður hússins hefur að gamni sínu komið upp nokkurskonar gestaþraut sem gestir verða að leysa áður en þeir komast inn; fallegar, en viðsjárverðar snúningsdyr. Mús-Lí, sem er snör í snúningum og lipur alla jafna, fór fyrir hópnum, en snarsnerist jafnharðan út aftur (enda vön að fara nokkra hringi á hjólum af svipaðri gerð). Þó vissulega geti verið gaman að slíku ættu forsvarsmenn staðarins að hafa í huga að síðkjólar og kjólfatalöf geta hægleg fest í þessari hringavitleysu og valdið alvarlegum slysum, þó okkar litli hópur slyppi óskaddaður að þessu sinni.

Eins og vænta mátti bað yfirþjónn staðarins okkur lengstra orða að sitja við glugga, í því augnamiði að vegfarendur á Austurvelli sæju þennan snotra hóp glaðlegra sveina og meyja. Rösk þjónustumær bar okkur jólaöl og þá var okkur ekkert að vanbúnaði að ráðast til atlögu við sjálft jólahlaðborðið. Villisveppasúpa var eins konar upphitun fyrir aðalátökin; ljómandi bragðgóð, borin fram í grunnum súpudiskum, eins og venja er. Því næst tókum við til við forréttina. Matsveinar Hótel Borgar höfðu ekki lagt mikinn metnað eða dirfsku í hlaðborðið þetta árið. Ekkert kom á óvart, á diskana rötuðu gamalkunnir smáréttir á borð við reyktan og grafinn lax, paté, síldarsalat og tilheyrandi rúgbrauð. Sama andleysið réði ríkjum í aðalréttunum, bæði köldum og heitum; hangikjöt, skinka, hamborgarhryggur og pörusteik brögðuðust ljómandi vel, en vöktu hvorki spennu né forvitni. Laufabrauðið olli verulegum vonbrigðum, brotnaði eða öllu heldur flagnaði við minnsta átak og uppfyllti enganveginn þær kröfur sem Mús-Lí, Júlía og Þöngull gerðu. Gott jólahlaðborð á að vera eins og könnunarleiðangur um ókunn lönd og álfur, þar á gesturinn að rekast á furðuskepnur og framandi jurtir í bland við gamla vini á borð við reyktan sauð og rófustöppu. Hvað eftir annað komum við að tómum skálum og fötum, en slíkt ætti aldrei að gerast á betri heimilum eða veitingastöðum. Það eina sem stóð uppúr þessari flatneskju í matargerðarlist (á sama hátt og Himmelbjerget ‘gnæfir’ yfir hæðirnar á Jótlandi) voru eftirréttirnir. Ber þar helst að nefna ágætan súkkulaðibúðing með jarðaberjasósu og sérlega ljúffenga tertu sem rann ljúflega niður með kaffinu. Þegar á allt er litið var þetta hádegi þó hið ánægjulegasta, en það ber að þakka góðum félagsskap fremur en gastrónómískum upplifunum.

Það er alltaf ógeðfellt að ræða um peninga, en illu heilli verður nú ekki hjá því komist. Fulltrúar hópsins höfðu af sinni alkunnu fyrirhyggju kannað hvaða prís veitingamenn Borgarinnar settu upp en þegar koma að því að fé skipti um hendur reyndist verðið allnokkuð hærra en nefnt var í fyrstu. Stönduga fjárfesta og fyrirtækjaeigendur munar ekki um sjöhundruð krónur, en fyrir barnmargar fjölskyldur gæti slíkur mismunur komið sér illa. Ef til vill er einhverstaðar lítil Gunna eða lítill Jón, sem ekki fékk glaðning frá foreldrum sínum þessi jól, vegna hinna gírugu verta.

En nóg um það. Megi nýja árið færa okkur öllum happ, hamingju og herlegar kræsingar.

Meira áður en langt um líður,

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía, Þöngull (skósveinn) og Vaðall (viðhald ellegar viðhengi)

   (55 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.