— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Pistlingur - 1/11/03
Af þjófum og þrjótum

Raunir bíleiganda

Nú síðdegis þurfti ég að taka bensín. Tojótan mín er raunar sérlega nægjusöm á alla orku, rétt eins og illa haldin anorexíu fyrirsæta, en í gær blikaði lítið ljós í mælaborðinu þess merkis að kominn væri tími á bensínkaup. Þar sem ég átti hvort eð er erindi í grend við Essostöðina í Stóragerði ákvað ég að koma þar við og fylla á tankinn. Eins og hagsýnni húsmóður sæmir ákvað ég að dæla sjálf til að spara mér aurinn enda virtust svosem ekki margir bensíntittir á svæðinu hvort eð var.
Ég bar mig einkar fagmannlega að, þó ég segi sjálf frá, lagði bifreið minni í ákjósanlegri fjarlægð frá dælunni, skellti stútnum í tankinn og lét dæluna ganga. Það var stutt gaman. Dæludruslan spýtti út úr sér eldsneyti fyrir nokkrar krónur í senn og tók sér langar hvíldir á milli. Fyrr en varði fauk mitt góða skap út í veður og vind. Fátt ergir mig meira en að hokra hálfbogin við bensíndælur og reyna að kreista úr þeim þá dropa sem ég þarf til að komast leiðar minnar í umferðinni. Þessi dæla var óvenju nísk. Eftir tíu mínútur (eða heila eilífð að því er virtist) hafði mér auðnast að kría út bensín fyrir rúmar sexhundruð krónur úr dælufjandanum - og þá var þolinmæði mín á þrotum. Inni á stöð þurfti ég að bíða í langri röð meðan fólk spurði afgreiðslumanninn almæltra tíðinda, keypti sér kruðirí og sitthvað smálegt. Þegar röðin loksins kom að mér gat ég ekki á mér setið og benti afbreiðslumanninum á að dælan virkaði ekki sem skyldi. 'Settirðu stútinn bara ekki of langt inn?' sagði hann. 'Ekki lengra en ég er vön' svaraði ég kuldalega og hvessti augun á honum. 'Þetta gerist stundum, svona einu sinni til tvisvar á dag' var allt og sumt sem fulltrúi Esso hafði um málið að segja.

Hvað á svona lagað að þýða? Þessir olíugreifar hafa nú þegar stolið frá mér og samborgurum mínum stórfé. Þeir hafa neytt mig til að dæla sjálfa í öllum veðrum, með því að lofa mér smánarlega litlum afslætti fyrir að taka að mér störf bensíntitta og svo geta þeir ekki einu sinni druslast til að hafa almennilegar dælur! Hámark ósvífninnar er svo að kenna mér um að bensínið dælist ekki á bílinn eins og vera ber.

Ég ætla að gera mér ferð í Hafnarfjörð á eftir og fylla tankinn hjá Atlantsolíu. Þessir þjófar hjá Esso, Olís og Skeljungi fá ekki krónu frá mér fyrr en þeir hafa beðið þjóðina afsökunar, borgað himinháar sektir og komið sér upp dælum sem virka. Helst vildi ég sjá erki-þjófana þrjá dæla ódýru bensíni á bílinn minn í brunagaddi í janúar.

   (18 af 59)  
1/11/03 04:01

Hakuchi

Ófögur lýsing á framferði þessara illu fyrirtækja. Ég fagna því að þú munir beina viðskiptum þínum að Atlantsolíu. Þeir eru þeir einu sem eru saklausir eins og sakir standa.

Frábær pistill.

1/11/03 04:01

Mjási

'Settirðu stútinn bara ekki of langt inn?'
Ég hélt nú að það væri betra. Því lengra inn,
því betra.
Er ekki málið bara það að þeir eru farnir að spara upp í sektirnar.

1/11/03 04:01

Órækja

Það er ekki það alvitlausasta að snúa viðskiptum sínum til helsta keppinautar þjófanna, svo mikið er víst. Mínir aurar fara líklega til Atlantis í framtíðinni.

1/11/03 04:02

Mikill Hákon

Neinei, Júlía.
Ég lenti í sama vandamáli um daginn, bensíndælan höktandin bara eins og vitleysingur!
Málið er að setja hana bara þarna inn og ekki halda henni uppi, heldur láta hana bara hanga sjálfa og svo ýta takkanum upp og voilá! Það virkar!

1/11/03 04:02

krumpa

Ehemm...frábærlega skrifaður pistill og einkar skemmtileg lesning.

Sem fyrrverandi...uhu...yfirmaður hjá Olíufyrirtæki verð ég þó að mótmæla nokkrum af staðhæfingum þínum.

Í fyrsta lagi er harla ólíklegt að viðkomandi starfsmaður hafi eitthvað grætt á því að féfletta einn eða neinn.

Í öðru lagi reikna ég ekki með að útistarfsmenn sem vinna frá því fyrir sjö á morgnanna fyrir um það bil hundrað þúsund krónur á mánuði séu sérlega hrifnir af því að vera opinberlega kallaðir ,,bensíntittir."

Í þriðja lagi (og hér á ég ekki við þig; er viss um að það á ekki við í þessu tilviki, þú ert væntanlega eins og færasti fagmaður við dælingar og stútainnsetningar) koma inn á hverja bensínstöð á höfuðborgarsvæðinu 30-40 reiðir viðskiptavinir á dag ; þeir eru að kvarta yfir því að það komi ekkert bensín, dælan slái ekki af, teljarinn sé vitlaus, byssan núlli sig ekki o.s.frv. Í 99 % tilvika er um klaufaskap að ræða , því miður. Ég veit það því ég sá alltaf um að láta kanna grundvöllinn fyrir svona kvörtunum.

Í fjórða lagi er það nokkur misskilningur að olíuglæponarnir hafi fyrst og fremst verið að stela úr vasa taujótueigenda - mestu peningarnir voru í því að hafa samráð um stærri útboð : þú færð Strætó og ég tek Reykjavíkurborg... Hefði slíkt samráð ekki verið haft má reikna með að glæparisarnir hefðu keppst við að undirbjóða hvern annan, tapað á útboðunum og það leitt til enn hærra verðs til hins almenna taujótuneytanda. Bara pæling sko...

Í fimmta lagi þá virðist þetta ekki hafa verið sérlega góður dagur hjá þér eða hvað ?

Bara varð að koma að smágagnrýni á þetta, ekki meint í illu. Frábær pistill annars !

1/11/03 04:02

Skabbi skrumari

úff, ég hélt þegar ég var að lesa fyrstu línurnar að þú hefðir gripið vitlausa dælu og verið að dæla dísel á tojótann litla... þá rúlla krónurnar ansi hægt... ég get sagt þér að það gerir maður bara einu sinni á ævinni (7,9,13)...

1/11/03 05:00

Fíflagangur

Sammála Krumpu um allt utan þetta með bensíntittina. Hvað í ósköpunum á að kalla bensíntitti annað en bensíntitti?
Furðuleg hugmynd...

1/11/03 05:00

Frelsishetjan

1. Krumpa talar um útboð til stórfyrirtækja. Málið er að ef eitt fyrirtæki sem starfar í virkri samkeppni myndi tapa á útboði til strætó að þá yrði það að halda í við hin félögin varðandi söl á bensíni til almennings. Það segir sig nú sjálft að þeir fá ekki mikla sölu ef þeir eru með 6 krónum hærra verð en samkeppnisstöðvarnar.

2. Þú átt að gera eftirfarandi.
Láttu byssuna í gatið og láttu hana rétt hanga. Þ.e.a.s. að byssan sé sem minnst í tanknum en dettur samt ekki úr honum.

látta svo bensínlokið í gikkinn á byssunni. Láttu svo hendurnar í vasann og bíddu þar til að byssan slær út. Þá getur potað og potað smá bensíni í senn og stútfyllt bílinn. En varðandi að stútfylla bílinn, að þá máttu ekki alveg stútfylla hann vegna þess að það verður að vera rúm fyrir loft, öndun. því annars fer allt þetta umfram bensin í yfirfallið.

1/11/03 05:00

Barbie

Fínasti pistill Júlía. Í mínum huga hafa olíuglæponarnir stolið af mér. Mér er alveg sama þó ég eigi ekkert í strætó eða Reykjavíkurborg, ég hef verið viðskiptavinur strætó og greitt óheyrilegar fjárhæðir fyrir tímafrekar ferðir og ALLT sem svikið er út úr ríkinu, sveitafélögum, borg og bæ kemur á endanum úr vösum okkar skattgreiðandanna - eða í það minnsta verður til þess að seilst er lengra ofan í þá. Ég mun aldrei framar skipta við þessa menn hafi ég kost á öðru. Svona svik eru óþolandi. Ég vil minna fólk á bensínáskorun þar sem allir voru hvattir til að kaupa eingöngu bensín á bensínstöðvum. Að auki ætti að koma lögum yfir þessa menn og þeir sjá sóma sinn í því að endurgreiða sína skuld - bæði í fangavist og beinhörðum peningum. En það þarf víst að stela oststykki úr Hagkaupum til að dúsa inni í 4 mánuði - það er ekki fyrr en þú stelur svimandi upphæðum sem þú getur látið allt fyrnast. Hvernig er það, er ekki hægt að taka út þessi fyrningarákvæði?

1/11/03 05:01

krumpa

Betra orð yfir bensíntitti er t.a.m. slöngutemjarar sem er mun virðulegra heiti... Hvað fyrningarákvæðin varðar þá hafa þau nú verið við lýði frá örófi alda - hins vegar er hægt að komast framhjá fyrsningaráhrifum með því að líta á brot sem framhaldsbrot og þá byrjar fyrning ekki fyrr en eftir að síðasta brot er framið - þetta er t.a.m. tíðkað í málum er varða kynferðisbrot gagnvart börnum. Hins vegar yrði það dómstóla en ekki stjórnvalda að ákvarða hvort það á við hér. Það eru ýmis skilyrði fyrir því að það sé hægt svo að það verður bara að koma í ljós...

1/11/03 05:01

Júlía

Ég er alfarið á móti því að laga starfsheiti að einhverri 'rétthugsun' (góður pistill hjá þér þar, krumpa). Ég kalla fóstrur fóstrur, skúringarkonur skúringakonur og bensíntitti bensíntitti. Að auki var sú stétt á mínum heimaslóðum ævinlega skipuð ungmennum undir tvítugu, ekki eldri körlum.
Ég gerði mér fyllilega grein fyri rþví að afgreiðslumaðurinn í Stóragerðinu hefur ekki stolið einum eyri frá mér, enda var ég fremur almennileg og kurteis við hann, en vissulega reyndi ég að koma gremju minni til skila með hárfínum raddblæ. Ég bæði brosti og þakkaði fyrir mig (fyrir þessa 5 lítra) í kveðjuskyni.
Hinu er ekki hægt að horfa framhjá að forstjórar olíufélaganna stálu blákalt frá neytendum ótrúlegum upphæðum. Þessir menn mega skammast sín og þá á að sækja til saka.

1/11/03 05:01

Barbie

Ég spyr nú bara hvort menn séu eitthvað minna sekir þó langt sé um liðið? Held að morð fyrnist seint eða aldrei. Af hverju fyrnist milljónastuldur en ostaþjófur situr sína 4 mánuði í steininum? Ekki það að ég mæli þjófnaði bót en fáránleikinn er slíkur að það er erfitt að horfa upp á þetta. Sammála Júlíu - þessir menn eiga að svara fyrir gerðir sínar.

1/11/03 05:01

Urmull_Ergis

-Ríkið hagnaðist mest á samráðinu, hvar er sök þess?

1/11/03 06:01

Tigra

Tjah.. ég hef oftast kallað "bensíntittina" bíldælinga :)
Eflaust væru einhverjir ættaðir úr Bíldudal ósáttir með það

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.