— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 6/12/04
Ruby á fimmtudegi

Etið með afmælisbarni

Því fer fjarri að við stöllur höfum hætt að borða og enn síður hefur ástkær skósveinn okkar látið af áti og óreglu á síðustu misserum. Hins vegar hefur okkur ekki þótt ómaksins vert að uppfræða Bagglýtinga um ferðir okkar og upplifanir á gastrónómíska sviðinu um langt skeið. En nú skín sól í heiði, vinnan vekur ekki áhuga og ekkert skárra við tímann að gera en að skrifa eitt lítið sporgöngurit. Sporgöngurit, því staðurinn sem til umræðu er ætti að vera dyggum lesendum kunnur. Í dag var venju fremur ástæða til að fagna og gjöra vel við sig í mat og drykk, því nú um stundir fagnar heimsbyggðin fæðingardegi Mús-Lí, sem prýtt hefur jarðkringluna í rúm tuttugu og tvö ár (hér er að sjálfsögðu átt við hið bagglýtíska talnakerfi, hvurs nafni ég hef gleymt). Eins og við var að búast þyrsti almenning í að gleðjast með afmælisstúlkunni og njóta nærveru hennar og komust mun færri að en vildu. Vart þarf að taka fram að skósveinn okkar Þöngull var sjálfsagður gestur í þessum óformlega fagnaði, sem og okkar roskni nemandi Vest-Lingur (sem seint og illa gengur að útskrifast), Vaðall (kjaftatífa), Vandræða-Gemsi (sjá ‘Flatbökur og frekjuköst’) og Skrifstofu-Skotta, sem til allrar lukku mun verða okkur stöllum til aðstoðar í sumar. Þegar svo margir karlmenn eru með í för skiptir miklu að velja stað við þeirra hæfi; stað sem bíður uppá einfalda, vel útilátna og óholla rétti og ungar þjónustustúlkur (þó einungis til áhorfs). Þöngull uppveðraðist þegar hann fékk veður af karlmannlegum liðsstyrk og gerði háværar kröfur um hamborgara og sjeik, en af einhverjum óútskýranlegum ástæðum þykir honum mjólkurhristingur með kjeti fjarska karlmannleg fæða. Mús-Lí, sem sjálf er þónokkuð ‘butch’ hið innra, féllst glöð í bragði á ruslfæði og ákveðið var að heimsækja Ruby Þriðjudag á Höfða aftur. Eins og elstu menn muna lentum við í villum á ferð um fjalllendi Árbæjar í svartasta skammdeginu síðastliðinn vetur og leituðum þá skjóls hjá Ruby, en aðkoman var öll önnur og betri nú í sumarhitanum. Upp til fjalla svalaði golan en óneitanlega olli hið þunna háfjallaloft okkur nokkrum öndunarörðugleikum í byrjun. Verandi öll í fjarska góðu formi, andlega ef ekki líkamlega, vorum við fljót að jafna okkur og gátum áreynslulítið beðið um borð fyrir hópinn þegar inn var komið. Glymjandi músík mætti eyrum okkar innandyra og sendi okkur í mikla rússíbanareið tilfinninga; eina stund var sungið angurvært um aðskilnað elskenda, þá næstu kvökuðu kátar söngspírur gleðióð.

Hvergi er alþjóðavæðingin og ameríkansering íslensks þjóðfélags sýnilegri en á Ruby Tuesday. Hinni fornu þjóðtungu okkar er haldið til hlés, en engilsaxneskan sett í öndvegi á matseðlum. Á sérlegum tilboðsseðli dagsins er íslenskunni að auki gerður ljótur grikkur með óteljandi aulalegum innsláttarvillum og arfaslökum prófarkalestri, en við litum framhjá því og pöntuðum mat: Mús-Lí valdi hvæsidillu og mjólkurhristing, Vandræða-Gemsi og Skrifstofu-Skotta kjúklingasalat en við hin borgara ‘og sjeik!’ (svo raust Þönguls fái nú að heyrast til tilbreytingar). Biðin eftir matnum var hæfilega löng, en hefði ekki mátt vera lengri því sætin þóttu fremur óþægileg. Vaðall kom þannig ekki upp orði alla máltíðina, svo illa fór um hann.

Góður rómur var gerður að matnum, skammtarnir voru svo stórir að jaðraði við ofrausn en stærstur galli var hversu ískaldur mjólkurhristingurinn var. Væri verðugt verkefni fyrir vísindamenn að finna lausn á þeim hvimleiða vanda. Undir borðum fræddi Vandræða-Gemsi okkur um fánýti langhlaupa en honum reiknaðist til að við þyrftum öll að hlaupa hálft maraþon til að máltíðin hefði sem skemmsta viðdvöl á kroppum okkar. Sjálfur hefur hann nú vart staðið kyrr í rúmt misseri og er orðinn stæltur eins og grískt goð eftir því sem best varð séð undir þykkum lögum af peysum og skyrtum. Hinn spengilegi Þöngull ræktar einnig kropp sinn af kappi, sem og skegg sitt, og er fyrir vikið fegurri og karlmannlegri en nokkru sinni – og kæru stúlkur, enn einhleypur!
Það varð því sjónarsviptir að okkar snotra hóp þegar við yfirgáfum staðinn eftir að hafa borgað reikninginn, ólíkt miðaldra hjónunum sem voru á eftir okkur í röðinni og létu sig hverfa að því er best var séð, án þess að borga krónu fyrir viðurgjörningin (svei ykkur!).

Það er því ekki síðra að heimsækja Höfðann í sumri og sól en í svartnætti vetrarins, matur og þjónusta eru ágæt, músíkin fjölbreytileg og veggskrautið alltaf skemmtilegt, en plaststyttan af erninum mætti sannarlega missa sín.

Góðar stundir,

Mús-Lí, Júlía, Þöngull, Vest-Lingur, vinir og vandamenn.

   (7 af 59)  
6/12/04 02:01

Skabbi skrumari

Vest-Lingur? Er búið að finna bakkupp fyrir Mosu? Þakkir fyrir þessa gagnrýni Júlía mín... gagnleg að venju...

6/12/04 02:01

Júlía

Vest-Lingur er svosem öngvin uppbót fyrir Mosu, en ágætur til síns brúks þannig séð. Hann hefur verið viðloðandi um alllangt skeið og vísast verið minnst á hann áður.

6/12/04 02:01

Hakuchi

Ah. Það er liðinn allt of langur frá síðustu gagnrýni. Frábært að fá aftur gagnrýnispistil. Ég held þú hafir tryggt áframhaldandi rekstur Ruby Tuesday næstu mánuðina.

6/12/04 02:01

Þarfagreinir

Lítersmargaríturnar á Rúbín Þriðjudegi eru ótrúlega góðar og svalandi.

Og já, það er víst hægt að fá eitthvert dót til að narta í þar líka.

6/12/04 03:01

Texi Everto

Ameríkaníseríng er fín. Mér líst vel á staðinn.

Yeeeeehaaaaaawwww!

6/12/04 03:01

Vladimir Fuckov

Að venju stórskemmtileg gagnrýni en Vest-Lingur kemur örugglega alls ekki í stað Mosu.

En vegna ummæla um þunnt háfjallaloft þarna uppfrá veltum vjer fyrir oss hvernig á því standi að engum hafi dottið í hug að stofna neðansjávarveitingastað við höfnina því þar er þetta eigi vandamál [Íhugar að stofna slíkan stað í forsetahöllinni til að fjármagna ýmsan lúxus en minnist þess svo að höllin er langt inni í landi]

6/12/04 03:02

Heiðglyrnir

Drottningin okkar hún Júlía, bregst ekki frekar en fyrri daginn, glæsileg og vönduð gagnrýni.

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.