— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Dagbók - 6/12/03
Flugleiðir á villigötum

Af raunum fljúgandi matgæðinga

Ólíkt mörgum Íslendingum þykir mér alltaf svolítið vænt um Flugleiði. Vissulega minnkaði sú væntumþykja verulega þegar fyrirtækið neitaði að svara sínu gamla, góða nafni og fór að kalla sig Icelandair uppá engilsaxnesku, en þrátt fyrir fordildina ber ég hlýjar kendir í brjósti til félagsins. Það er einmitt þess vegna sem ég finn mig tilneydda til að finna að við þá Flugleiðamenn, rétt eins og ströng, en ástúðleg frænka setur ofan í við baldin systkynabörn sín.
Eftir Hvítasunnuhelgina þurfti ég að fara til Kaupmannahafnar og til að spara fé og tíma valdi ég flug, frekar en skip, til að komast á áfangastað. Af gömlum vana kannaði ég fyrst hvaða verð Flugleiðir hefði að bjóða, en það reyndist vel samkeppnisfært við prísana hjá keppinautunum. Frekar en að fela mig óvissunni á vald ákvað ég að láta hjartað ráða för, sýndi Flugleiðum enn einu sinni tryggð mína og keypti farseðil hjá þeim á netinu. Netviðskipti geta verið varasöm, en öll viðskipti við vefsíðu Icelandair eru sérlega varasöm fyrir geðheilsuna, því síðan er illa hönnuð og erfið viðureignar, jafnvel fyrir glúrna tölvunotendur - en ég tel mig einmitt tilheyra þeim hópi. Verandi róleg , skapstillt og þolinmóð að eðlisfari hefur mér hingað til tekist að hafa betur í viðureignum mínum við þunglamalegt kerfi flugfélagsins, en vafalaust hefur það misst margan viðskiptavininn sem ekki hefur haft eirð í sér til að ráfa um refilstigu síðunnar.

En heimasíða Icelandair er ekki meginástæða þessara skrifa. Árum saman hef ég glaðst eins og ungi í arnarhreiðri þegar flugfreyjur félagsins hnýta á sig svuntuna og hverfa inn í undraveröld flugvélaeldhúsins, því ólíkt mörgum öðrum hefur mér alltaf þótt flugvélamatur lystugur og spennandi, jafnvel þó hann sé bragðlaus og bregði sér undantekningalítið í gervi fugla eða fiska (sem ég hef svosem ekki mikið dálæti á alla jafna). Að þessu sinni var í mér nokkur beygur, þar sem mér höfðu borist til eyrna ljótar sögur um fátæklegan og fáránlegan matseðil í Evrópufluginu, að ekki sé minnst á hryllingssögur þær er Mosa frænka hefur borið í Bagglýtinga nýlega. Ég blaðaði því áköf í flugtímaritinu Atlantica í von um að finna vísbendingar um hvers væri að vænta, en varð einskis vísari. Það var því þungu fargi af mér létt þegar hin geðþekka Þórunn Lárusdóttir, leikkona og andlit Icelandair, tilkynnti uppá útlensku að innan skamms yrði borinn fram kvöldmatur, bæði fyrir pöpulinn á almennu farrými, sem og aðalinn á Saga Class. Það voru orð að sönnu; eftir stutta stund hurfu flugfreyjurnar og hinn dásnotri flugþjónn úr sjónmáli, skark heyrðist úr eldhúskróknum og ljúfan ilm lagðu um vélina. Ég fann spenninginn hríslast um mig, setti borðið niður og bjó mig undir kræsingar í háloftunum.

Gleði mín var skammvinn. Brosmild og hýreygð flugfreyja birtist með einhvers konar pappaöskjur, ekki ósvipaðar jólakökuformi í laginu, en heldur minni. Þar í höfðu matráðar Icelandair fleygt einhverju smáræði, þó ekki svo miklu að tækist að hylja pappabotninn, sem virtist hæðast að brostnum matarvonum mínum. Fegin hefði ég nú viljað bragðlausan kjúkling eða ostfyllta fiskspyrðu sem ég hafði fitjað uppá nefið yfir í förnum flugferðum. Allt sem ég nú fékk voru tvær örsmáar kexkökur, ostbiti sem ekki hefði metta meðalstóra hagamús, brauðloka með osti (sem er dvergsmá og fátækleg frænka kjötlokunnar góðkunnu), stjúpmóðursneið af súkkulaðiköku og poki af e.k. saltkringlum (sem mér finnst heldur vondar). Blávatn gat hver fengið sér að kostnaðarlausu, en fyrir alla aðra drykki þurfti að greiða sérstaklega. Jafnvel kaffibollarnir eru minni og óvandaðri en áður. Hinir traustu og snotru plastbollar hafa fengið að fjúka, en í staðinn eru komnir einnota koppar sem varla þola ókyrrð í lofti, hvað þá þéttingsfast grip flughræddra vesalinga. Mér leið eins og vegviltri rjúpnaskyttu þar sem ég maulaði kexkökurnar mínar tvær og beit öðru hvoru örðu af ostmolanum, áfjáð í að láta hinar takmörkuðu matarbirgðir mínar endast sem lengst, óviss um hvort, eða hvenær ég kæmist aftur til mannabyggða og matsölustaða. Engin kökumylsna fór til spillis, enginn brauðmoli var óétinn; ég lét mig jafnvel hafa það að klára ansvítlans saltkringlurnar allar með tölu. Áður en ég náði að skola niður síðasta bitanum með sopa af gosi kom flugfreyjan eins og þruma úr heiðskíru lofti og tók frá mér pappaöskjuna, gosdósina sem ég hafði keypt dýrum dómum (og hún var hálffull, frekar en hálftóm) og það sem sem mest eftirsjá var að: blautþurrkuna sem ég ætlaði að þerra hendur og andlit með að fátæklegri máltíðinni lokinni.

Ég kom því kámug um hendur og kalin á hjarta til Kastrup-flugvallar, þar sem ekki var þverfótað fyrir ferðatöskum vegna nýafstaðins verkfalls flugvallarstarfsmanna. Meðan ég borðaði ‘en risted hotdog’ við pylsuvagninn í Nýhöfn seinna um kvöldið hugsaði ég með söknuði til gömlu, góðu daganna, þegar færustu kokkar Flugleiða unnu daga og nætur að því að töfra fram spennandi, þríréttaðar máltíðir til að seðja hungur og stytta stundirnar fyrir okkur flugfarþega. Nánösunum hjá Icelandair hugsaði ég hins vegar þegjandi þörfina hér í kvöldblíðunni í Kaupmannahöfn.

Hilsen frá Höfn,

Júlía

P.S. Fjarri veri mér að vanþakka súkkulaðimolann sem ég fékk með kaffinu. Hann var sérdeilis ljúffengur - hafið þökk fyrir, Flugleiðir!

   (37 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.