— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 3/12/04
Af hvæsidillum og ekkjuhillum

Mexíkönsk matargerð í felum

Endrum og sinnum grípur mig ákafur vinnuleiði. Á slíkum stundum hef ég tamið mér að skrifa pistlinga um veitingahús borgarinnar og gagnrýna allt það sem betur má fara.* Og nú er einmitt upp runninn enn einn ótætis mánudagurinn og þó vinnuvikan sé stutt, eru verkefnin löng og leiðinleg sem leysa þarf.

Því er rétt að rifja upp kynni af matsölustaðnum TexMex, fyrrum til heimilis að Langholtsvegi, en nú með aðsetur í Listhúsinu í Laugardal. Allir þeir sem farið hafa í kvikmyndahús á liðnum árum kannast við auglýsingar frá staðnum. Glaðbeittur, íslenskur karlmaður á miðjum aldrei með röndótta svuntu um sig miðja stendur sposkur á svip með krosslagða arma fyrir utan veitingastaðinn og minnir á fátt meira en skipskokk af netabáti frá Snæfellsnesi. Tengingin við Mexíkó ellegar Texas liggur því við fyrstu sýn ekki í augum uppi, en vafalítið er hún þó einhver. Slíkur er máttur bíóauglýsinga, að við stöllur ákváðum á sólbjörtum síðvetrardegi að kynna smásveina okkar alla fyrir mexíkanskri matargerð. Þöngull var svo spenntur að hann treysti sér illa til að aka á áfangastað, öngvinn óvitlaus maður fer upp í bíl hjá Vest-Lingi og Vaðall hefur að fróðustu manna sögn ekki enn náð bílprófi, svo ekki var um annað að ræða en brúka bifreiðar okkar stallsystra af Tojóts-fjölskyldunni víðfrægu. Staðkunnugir eiga máske ekki erfitt með að rata í Listhúsið, en fyrir utansveitarmenn er leiðin í senn villugjörn og váleg, enda bæði vinstribeygjur og hringtorg á veginum. Áttvísi okkar er þó slík að við komumst á endanum á leiðarenda og freistuðum inngöngu. Okkur leið eins og Lísu litlu í Undralandi þegar inn var komið. Hvergi sáust merki þess að við værum á veitingastað, en hins vegar virtist gómsætt kaffibrauð vera í boði, flest ættað úr íslenskum bakaríum, en ekki arða af matarborðum Mexíkómanna. Piltungarnir voru orðnir rellnir, enda sársvangir; og Þöngull litli tók á sprett um húsið, annaðhvort til að auka enn á matarlystina eða til að kanna útgönguleiðir. Eftir dágóða stund vék geðug kona sér að okkur og spurði hvort við værum að leita að TexMex og játuðum við því. Kom í ljós að við vorum stödd á staðnum, sem fellur skemmtilega inn í umhverfið, rétt eins og kamelljón í felulitum. Birtist nú góðkunningi okkar bíógesta, vertinn verklegi (sem er grennri og spengilegri í eigin persónu en á hvíta tjaldinu – það er satt sem sagt er: myndavélin bætir við ófáum pundum), og bauð okkur sæti og krásir eins og hver vildi.

Allangt er síðan, en þó minnir mig að við stallsystur höfum fengið okkur hvæsidillu með kjúklingi**, sem og skósveinn okkar, en þeir Vaðall og Vest-Lingur ekkjuhillu, frekar en asna. Meðan við biðum eftir matnum lásum við bráðskemmtilegt og einkar forvitnilegt (mér liggur við að segja fróðlegt) viðtal við söngfuglinn snjalla, Önnu Mjöll Gauksdóttur, sem hefur dvalið langdvölum erlendis.*** Smám saman læddist að mér óhugur og uggur, þegar það rifjaðist upp fyrir mér að mexíkanskur matur hérlendis sem erlendis hefur æfinlega valdið mér sárum vonbrigðum. Ég var því vör um mig þegar ég bragðaði á fyrsta bitanum af hvæsidillunni, en fyrr en varði var allur ótti á bak og burt, því maturinn reyndist afbragðs góður. Að auki var hann fallega framborinn, rausnarlega útilátinn og ágætur í alla staði. Sérhver fæðuflokkur átti sinn fulltrúa og Manneldisráð hefði ekki yfir neinu að kvarta. Það höfðum við heldur ekki, kaffið var ágætt, veðrið fallegt og lærisveinar okkar voru jafnvel sjálfum sér og okkur til sóma og gleði. Það er því full ástæða til að hvetja fólk til að gera sér ferð í Listhúsið sem fyrst, því ef að líkum lætur verður líftími staðarins ekki langur þar, frekar en annarra fyrirtækja.****

*Má vera að það hafi einhver áhrif á gagnrýnina, en þó allt innan eðlilegra skekkjumarka.
**Ég legg það hvorki á mig né lesendur mína að reyna að skrifa nafnið uppá spænsku.
***Það er barasta allt gott að frétta af henni, þannig séð.
****Sú bölvun hvílir á fyrirtækjum í Listhúsinu, að þau gleymast og verða gjaldþrota innan skamms tíma. Líklegasta skýringin er sú, að yfir húsinu sé huliðshjálmur. Síðastliðinn föstudag var þó enn starfsemi í húsinu.

   (13 af 59)  
3/12/04 21:01

Heiðglyrnir

Já, þessi álög sem hvíla á listhúsinu eru mögnuð. Frábær pistill, hafðu þökk fyrir

3/12/04 21:01

Hakuchi

Magnaður og fróðlegur pistill. Ég er sammála því að Texmex er eini skyndibitastaðurinn sem býður upp á almennilegan mexíkanskan mat. Þeir sem ég hef prófað hér á landi, og þeir eru nokkrir, eru flestir ekki upp á marga fiska. Verðinu á Texmex er líka stillt í hóf og er það gott.

Ég vona að fólk flykkist á staðinn og styrki hann. Sýna líka þolinmæði, staðurinn er nýfluttur og verið að fínpússa staðinn.

3/12/04 21:01

Vladimir Fuckov

Mjög góður pistlingur að vanda. En varðandi staðsetninguna (er minnst er á) hefur oss af einhverjum ástæðum ávallt fundist húsaþyrping þessi mjög úr alfaraleið þó staðsetningin sje í raun tiltölulega miðsvæðis, leiðin er ótrúlega löng og krókótt miðað við hvað hún er stutt sje miðað við beina loftlínu. Eigi er hún þó vandrötuð.

3/12/04 21:01

Órækja

Merkilegri og eldri eru nú þau álög sem liggja á matsölustöðum sem reknir eru á þeim stað á Langholtsveginum þar sem TexMex var. Síðan ég flutti í nágrenni við þann stað fyrir um 20 árum hefur engin staður lifað þar lengi, en alltaf opnar nýr matsöllustaður fljótlega aftur.

3/12/04 21:01

Hakuchi

Rétt hjá Órækju, ég þekki jafnvel enn lengra aftur í tímann og líftímabil þessara staða er með ólíkindum stutt. TexMex var þarna þó einna lengst, þeir hljóta að hafa slegið met í útihaldi.

Það væri kaldhæðni örlaganna ef Texmex fer á hausinn fyrst eftir að hafa tórað svo lengi í þessu ólánshúsi.

3/12/04 21:02

Lómagnúpur

Vitleysa. Þarna var heillengi starfrækt fatahreinsun, auk þess sem verslunin Holtskjör var þarna til margra ára. Hún gekk raunar svo vel að þeir stækkuðu húsið. Nú, svo kom hamborgarabyltingin, Holtskjör og Matvælabúðin voru sameinaðar og fluttu inn í Gnoðarvog, og Eiki tók við húsinu. Hann stofnaði þar einn merkilegasta hamborgarastað síðari tíma, Eikagrill. Eikagrill dugði vel og lengi og varð að ákaflega farsælum stað. Fór ekki að dala þar fyrr en það flutti inn í Gnoðarvog líka. Þannig er það.

3/12/04 22:00

Hilmar Harðjaxl

Gaman að fá almennilega gagnrýni frá Júlíu. Heimilislegt einhvernveginn...

3/12/04 22:00

Tina St.Sebastian

Quesadilla? Er það erfitt? "Asni" er væntanlega burrito, en hvað í ósköpunum er ekkjuhilla? Málfræðiímyndunaraflið er ekki upp á sitt besta akkúrat núna...

3/12/04 22:01

Barbie

Er það ekki bara enchilada eða eitthvað svoleiðis? Þrælerfitt að stafa þetta. Frábær lestur engu að síður. Kannski við smellum okkur einhvern tíma. Hafðu kæra þökk fyrir Júlía mín.

3/12/04 22:01

Júlía

Hárrétt Barbie mín - ég get ómögulega lagt á mig að læra spænsku bara til að getað skrifað skammlaust um mat.

Legg ég til að hin ómþýðu orð ekkjuhilla og hvæsidilla verði tekin upp í íslenska tungu.

3/12/04 22:01

Tina St.Sebastian

¡Barbie, querido! El español es una lengua tan beutiful y atractiva. Le ayudará indudablemente a aparecer sofisticado y fascinador.

3/12/04 22:01

Hakuchi

Besserviss.

3/12/04 23:00

Gvendur Skrítni

Donde est el bíbliotek?

3/12/04 23:00

Tina St.Sebastian

La biblioteca está ausente lejano. Es un lugar peligroso.

31/10/05 20:02

Hvæsi

(Sest niður og hugsar um texmex)

Ahhh, þarna var nú gott að vera.

Blessuð sé minning Texmex og skál fyrir kokknum sem var þar.

(starir þegjandi útí loftið)

1/11/05 09:01

Anna Panna

Skál Hvæsi minn!

5/12/07 01:01

Álfelgur

Jamm... skál!

1/11/07 15:01

Hvæsi

<Skálar við Önnu & Álfelg>

Já þarna var nú ágætt að vera.

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.