— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Pistlingur - 4/12/03
Söngvaseiður í Smáralind

Örlögin mig hafa leitt á einmitt þennan stað

Endrum og sinnum er eins og forlögin grípi í taumana og beini manni á réttar brautir í lífinu. Slíkt henti mig, óverðuga, í gærkveldi. Skyndilega og fyrirvaralaust helltist yfir mig áköf löngun til að bregða mér út fyrir borgarmörkin og kynna mér matarmenningu Kópavogsbúa í menningarmiðstöð þeirra og markaðstorgi, Smáralind. Þar sem ég fer ógjarnan fylgdarlaus í lengri ferðir þótti mér vissara að bjóða traustri vinstúlku minni, sem er í senn áttvís og afbragðs bílstjóri, að snæða með mér. Svo heppilega vildi til að fjallmyndarlegur frændi hennar var gestkomandi í höfuðstaðnum og vildi ólmur bregða sér af bæ í fylgd eldri kvenna.

Eftir að hafa hlaðið bílinn helstu nauðsynjum, neyðarblysum og vistum til tveggja vikna létum við Landsbjörgu vita af ferðum okkar og lögðum af stað í Kópavog. Án teljandi vandræða (og með aðstoð götukorts og áttavita) fundum við hið reisulega stórhýsi, Smáralind, og stigum fæti á spegilgljáandi marmaragólf þessarar miklu byggingar. Hinn unga herramann fýsti að gæða sér á flatbökum og eins og eldri kvenna er háttur létum við umyrðalaust undan óskum hans og létum leiða okkur til sætis á veitingastaðnum Pizza Hut.

Ekki vorum við fyrr sest en við heyrðum hljómfagra raust óma í hátalarakerfum hússins. Rétt eins og engillinn forðum á Betlehemsvöllum hafði eigandi raddarinnar, hinn ágæti verktaki og þingmaður, Gunnar Birgisson, gleðifréttir að færa; Söngvaskáldið, sjálfstæðishetjan og alt-mugligt-maðurinn Árni Johnsson ætlaði að stíga á svið og flytja æstum lýðnum ómþýða söngva sína (og annarra)!

Það er erfitt að lýsa þeim margslungnu kendum sem bærðust í brjósti okkar þegar við heyrðum þrumandi raust Árna hljóma í eyrum okkar. Óumræðanleg gleði, undrun, óhugur og þakklæti komu upp í hugann og við lofuðum forsjónina hátt og í hljóði fyrir að hafa leitt okkur óafvitandi á þennan mikla list- og menningarviðburð.

Það er skemmst frá því að segja að Árni skemmti gestum Smáralindar með glaðlegum söng og gítarspili langt fram eftir kveldi, oftast einn og óstuddur, en einnig með dyggri aðstoð góðra gesta. Það er á engann hallað þó ég láti nægja að nefna hlut rokkgoðsins Rúnars Júlíussonar, sem flutti lofsöng til drottins sem var einkar vel við hæfi á Pálmasunnudegi.

Illu heilli gátum við ekki barið dýrðina augum, þar sem við sátum að snæðingi, en hins vegar heyrðum við greinilega áköf fagnaðarlæti og ánægjuköll þeirra fjölmörgu gesta sem lögðu leið sína í Kópavoginn þessa kvöldstund til að hlýða á söng Árna og félaga. Áheyrendur voru hvattir til að taka hressilega undir í söngnum, enda minntu hallandi sætaraðirnar viðstadda á fátt meira en grasi grónar brekkur Herjólfsdals, þar sem Árni hefur svo oft leitt fjöldann í fögrum söng á liðnum árum. Sjálf stóð ég mig að því að raula með þekktum dægurperlum og á stundum var erfitt að sitja kyrr undir dillandi söng og gítarslætti fjöllistamannsins. Þannig ómaði söngur kynslóðanna undir þaki Vetrargarðsins í gærkveldi, öllum viðstöddum til óblandinnar ánægju og heilsubótar.

Það er óskandi að forsvarsmenn Smáralindar haldi ótrauðir áfram á sömu braut og bjóði til sín þekktum skemmtikröftum og alþýðuhetjum til að leiða fjöldasöng á sunnudagskvöldum. Fáar skemmtanir eru þjóðlegri og fátt færir fjölskyldum landsins meiri gleði en hjartanlegur söngur á sólbjörtum kvöldum. Bravó, Árni! Bravó, Smáralind!

P.S. Þjónustan var heldur slæleg og allöng bið eftir matnum, en flatbörkurnar brögðuðust ljómandi vel.

   (44 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.