— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Pistlingur - 2/11/02
Cappuccino í Kaupinhöfn

Raunir kaffiþyrstra

Sumir eru svo lánsamir að fá að ferðast um framandi lönd og álfur á fullum dagpeningum. Ég er ein af þeim. Þessa dagana dvel ég, starfsins vegna, í ríki Margrétar Þórhildar og fjölskyldu. Þar sem krónprinsinn er nú lofaður þótti ekki við hæfi að ég gisti í höllinni að þessu sinni en dvalarstaður minn er í þægilegu göngufæri við slotið og stutta að skreppa yfir í kaffi ef svo ber undir.

Kaffi er einmitt aðalefni þessa pistlings. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er enginn kaffitími á mínum núverandi vinnustað, heldur lepja menn tesull sér til ‘hressingar’ um þrjúleitið, þegar líkaminn þarfnast koffíns hvað mest. Þessi leiði ósiður er mér enganveginn að skapi. Fyrsta daginn tókst mér að finna örlítinn kaffisopa, líklega frá því snemma í síðustu viku, sem eðli málsins samkvæmt var rétt við stofuhita og kólnaði enn þegar léttmjólkin danska bættist við. Danir trúa því að menn fríkki mjög af því að drekka kalt kaffi og ef til vill er það rétt, í það minnsta virðist þjóðin samanstanda af fríðleiksfólki. Sjálf kýs ég þó að nota önnur fegurðarmeðöl og drekka mitt kaffi snarpheitt.
Á öðrum degi var allt kaffi á þrotum, svo ég varð að brjóta odd af oflæti mínu og dreypa á teinu. Dreypa segi ég, því drykkurinn er algjörlega ódrekkanlegur, enda ekkert annað en óhreint vatn. Á eftir leið mér eins og föðrulandssvikara því árum saman hef ég fordæmt tedrykkjumenn og hæðst að þeim hátt og í hljóði en hafði nú sjálf orðið tebölinu að bráð, þó í litlu væri.
Á þriðja degi var mjög dregið úr starfsorku minni og lífsgleði sökum langvarandi koffínskorts. Eftir óvenju stuttan vinnudag ráfaði ég stefnulaust um stræti borgarinnar, villtist í þoku og myrkri, fetaði drungaleg öngstræti og óttaðist um líf mitt og heilsu. Á slíkum stundum verður aðeins eitt til bjargar. Sánkti Mikael (sérlegur konfektgerðarmeistari dönsku hirðarinnar) hefur útibú víða um borgina og í einu slíku, sem ég rakst á, bauð hann upp á dísæta negrakossa sem fylltu mig orku svo mér auðnaðist að rata til mannheima á ný – í þessu tilfelli á Vesterbrogade.

Þegar hér var komið sögu var orðið mjög áliðið dags og rúmar sex stundir liðnar frá því líkami minn hafði síðast fengið skammt af koffíni. Þeir sem hafa klifið Ana Purna og Everest kannast við hversu erfitt er að halda fullri athygli og einbeitingu þegar líkaminn má þola óeðlilega áreynslu í langan tíma. Það gengur því kraftaverki næst að ég skyldi hafa rænu á að fara inn á kaffihúsið Baresso (alls ótengt Esso-veldinu) neðarlega á Vesterbrogade. Að utan lætur það lítið yfir sér og sama látleysið mætir gestum innan dyra. Tileygð, en geðþekk þjónustustúlka bauðst til að binda enda á þjáningar mínar og færa mér kaffi að eigin vali. Á ferðum mínum hef ég komist að því að cappuccino er sú tegund kaffis, sem best þýðist og bað því um bolla af því. Þegar ég var búin að koma mér vel fyrir í þægilegum sófa með blöðin í seilingarfjarlægð, var kaffið mitt tilbúið.

Engin orð nægja til að lýsa því. Cappuccino á Baresso er einfaldlega fullkomið. Það er svo gott, að ég er að hugsa um að leggja aftur á mig áþekka píslargöngu á morgun og jafnvel alla aðra daga sem eftir lifir dvalarinnar. Kannski ég færi Mosu, Mús-Lí og Þöngli bolla. Kaffið verður að vísu orðið kalt, en hver veit nema þau fríkki þá enn?

Kveðjur frá Köben,
Júlía

   (58 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.