— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 8/12/03
50 Cent

Löng lofræða um ógleymanlega upplifun

Eins og allir sem til mín þekkja vita er ég ægilegur gangster inn við beinið, á yfir höfði mér sekt vegna hraðaksturs, hjálpa aldrei gömlum konum yfir götu (enda alltaf á ofsahraða) og er beinlínis fúl og ókurteis ef ég er vakin af værum blundi. Það ætti því ekki að koma á óvart að ég lagði leið mína í Laugardagshöll fyrir réttri viku til að hlýða á hinn geðþekka gangster og brotamann, 50 Cent, eða Curtis Jackson eins og hann heitir réttu nafni (Curtis gæti útlegst Kurteis uppá norræna tungu). Ráðsettir vinir og kunningjar, sem aldrei hafa komist í kast við lögin, hæddust að einlægri gleði minni og tilhlökkun, en fimmtán ára frændi bestu vinkonu minnar* miskunnaði sig yfir mig og féllst fúslega á að koma með mér á tónleikana. Þar sem fæstir tónleikagestir höfðu aldur til að hjóla án hjálpardekkja, hvað þá aka bifreið, var hægur vandi að finna bílastæði þegar við skötuhjúin mættum á staðinn rétt uppúr átta. Þá þegar var mikill fjöldi æskufólks saman kominn utandyra og innan. Gleði og eftirvænting skein af hverju andliti, rétt eins og blessuð jólin væru komin með tilheyrandi gjafaflóði. Vegna hitabylgjunnar miklu gat ég ekki annað en klæðst eins og roskin ‘ho’, en var þó beinlínis kappklædd miðað við barnungar kynsystur mínar í Laugardalshöllinni, sem beruðu hold sitt ótæpilega. Það var sannarlega vit okkar meira, því hitinn var mikill og fór vaxandi þegar leið á kvöldið. Unglingsstrákunum varð svo um allt þetta mikla útsýni á hálfbera kvenmannskroppa, að einhverjir ýttu hárlubbanum frá augunum til að sjá sem mest og best. Verandi sjóndöpur og ögn farin að tapa heyrn (enda fjörgömul) ákvað ég að að ryðja mér braut í fremstu víglínu, nálægt sviðinu. Pasturslítil ungmennin voru lítil fyrirstaða og fyrr en varði vorum við fylgdarsveinn minn komin þétt að sviðinu, svo nálægt að við sáum greinilega að í stað íturvaxinna blökkumanna voru náfölir og axlasignir mörlendingar að skoppa um sviðið. Við nánari athugun kom í ljós að þar voru á ferð strákhvolparnir í XXX Rottweilerhundum. Spangól þeirra tók drjúglangan tíma, svo langan, að helst mátti ætla að óprúttnir tónleikahaldarar hefðu talið þeim trú um að þeir væru aðalnúmer kvöldsins. Ég er svosem öngvinn sérfræðingur í tónlist Hundanna, en heldur virtist mér þeim hafa farið aftur frá því þeir stóðu á hátindi frægðar sinnar, enda skildist mér að þeir hefðu ekki komið saman í alllangan tíma. Þegar hópurinn loksins fór af sviðinu fór kurr um áhorfendaskarann, smástelpurnar tróðust sem aldrei fyrr fram að sviðinu, skræktu og veinuðu af spenningi og sjálf fann ég hjartað slá örar en venjulega - allt til einskis. Næsta sveit á svið var annaðhvort Quarasi eða þá breiðfylking Rottweilerhunda, vina og vandamanna – ég hreinlega man ekki hvort var. Þar sem Quarasimenn spiluðu bæði lengur og betur dugir að nefna stórsveitina í forbyfarten, þar bar helst til tíðinda að lagleg og lagviss stúlka söng með og setti skemmtilegan svip á sveitina, sem aðeins flutti eitt lag, heldur tilþrifalítið (ef frá er talinn söngur fyrrnefndrar snótar). Önnur bylgja eftirvæntingar fór um salinn áður en Quarasi stigu á svið. Sjálf veinaði ég eins og stunginn gríslingur, greip þéttingsfast í fylgdarmann minn og varð mér til skammar þegar ég þóttist sjá sjálft kyntröllið Curtis meðal áhorfenda. Svo reyndist þó ekki vera, heldur var þetta alsaklaus og löghlýðinn maður, dökkur á hörund og ekki óáþekkur goðinu. Atvikið varð til þess að ég styrktist í þeim ásetningi mínum að fá mér sterkari gleraugu við fyrsta tækifæri.
Piltarnir í Quarasi kunna sitt fag og náðu upp rífandi stemmingu. Ég saknaði þess þó að heyra ekki smelli á borð við ‘Mess it up’ en þóttist hins vegar heyra ‘Stick’em up’, sem var í áttina. Ég hreifst sérstaklega af bjartri og skærri drengjaraust, en sá ekki hvort þar var á ferð hinn ágæti söngvari Tiny, eða einhver annar, en lítill var hann og kvikur í hreyfingum. Quarasi hefði að ósekju mátt spila lengur á kostnað Rotweilerhunda, en þegar klukkan var orðin tíu þögnuðu þeir og hurfu af sviðinu. Þá birtist sérlega illilegur maður á sviðinu, sem var svo stór og svartur að hann virtist af ætt hinna hávöxnu Núbíumanna.** Hljóðmennirnir og aðrir minni spámenn þustu um sviðið og hlýddu hverri hans bendingu til að vekja ekki reiði hans og sjálf reyndi ég að láta lítið á mér bera í mannþrönginni, því mér þótti sem ískalt augnaráð hans boraði sig inn í sál sérhvers tónleikagests. Þegar allt var klárt voru ljósin deyfð, salurinn allur æpti upp yfir sig (ef frá eru taldir þessir örfáu foreldrar og fílupúkar sem stóðu aftast og þóttust ekki skemmta sér) og Young Buck og Lloyd Banks stigu fram úr rökkrinu. Skömmu síðar bættist 50 Cent í hópinn og gamnið hófst fyrir alvöru. Þeir félagar nota svokallaða 3-1 uppstillingu; skífuþeytarinn heldur sig til hlés í skugga, en aðalstjörnurnar þar fyrir framan. Lloyd var að öllu jöfnu á vinstri kanti (frá mér séð), 50 fyrir miðju og Young honum á hægri hlið (enn og aftur frá mér séð), en sú uppröðun var alls ekki niðurnjörvuð, því þeir voru á þönum fram og aftur um sviðið og eiga mikið lof skilið fyrir sérlega líflega og skemmtilega framkomu. Kurteis varð snemma heitt í hamsi og fór úr svarta G-Unit bolnum strax í fyrsta lagi. Hvíti hlýrabolurinn, sem fór honum fádæma vel, fékk að fjúka í öðru lagi, sérhverju kvenmannshjarta til óblandinnar ánægju. 50 Cent er lifandi dæmi um það að heilsusamlegt líferni, þrotlausar æfingar og aðhald í mataræði margborgar sig. Magavöðvarnir minna á tilhogginn, svartan marmara, upphandleggirnir eru ævintýri líkastir og bakið nógu breitt til að bera allar heimsins áhyggjur. Ég var því allt að því með tárin í augunum af hrifingnu þegar þrenningin hóf upp raust sína í laginu ’21 Questions’. Það verður að viðurkennast að fínni blæbrigði þess njóta sín betur á skífu en í smekkfullri Höll af æpandi ungmeyjum, en þar sem ég þekki texta lagsins vel gat ég tekið undir fullum hálsi og spurt grundvallarspurninga á borð við ‘Now would you leave me if you're father found out I was thuggin'?’ og ‘If I got locked up and sentenced to a quarter century, Could I count on you to be there to support me mentally?’***
Inn á milli laga ávarpaði 50 Cent áheyrendur, en illu heilli er hann nokkuð óskýrmæltur (að ég segi nú ekki þvoglumæltur) svo erfitt var að greina orðaskil á stundum, en hitt olli þó meiru um slæleg viðbrögð áheyrenda, að stór hópur þeirra hafði enn ekki öðlast skilning á enskri tungu, enda vart af barnsaldri. Þó þóttist ég skilja, að Curtis kynni vel að meta undur Íslands, sér í lagi hreifst hann af íslenska illgresinu (‘weed’). Af þeim orðum réð ég að hann hefði brugðið sér í göngutúr eftir Ægissíðunni og þótt mikið koma til njólans, ætihvannarinnar og blessaðra fíflanna, sem flestir garðeigendur telja argasta illgresi. Strax á eftir fluttu þeir kumpánarnir hið bráðskemmtilega lag ‘High All the Time’, sem fjallar um taðreykingar og gleðina sem þeim fylgir - nokkuð sem allir sannir Íslendingar geta óhikað tekið undir, því hvað yrði um mývetsku bleikjuna ef ekki væri blessað taðið, að ekki sé minnst á jólahald, ef ekki væri taðreykt hangikjet? Nei, það var augljóst að 50 Cent hafði unnið heimavinnuna sína vel, kynnt sér menningu og siði íslensku þjóðarinnar og lagað söngva sína að þeim. Ekki kæmi mér á óvart þó hann hefði lengi alið þá ósk í blökku brjósti sínu að fá að líta landið í norði, því ‘High All the Time’ er samið í Vesturheimi (hann skyldi þó aldrei vera Vestur-Íslendingur?), þó það falli fullkomlega að íslenskum aðstæðum.
Milli laga kváðu gjarnan við hvell byssuskot, sem er vísun í hina skelfilegu lífsreynslu sem Curtis varð fyrir þegar hann var skotinn níu skotum á vordögum árið 2000. Skothvellirnir minntu hina áhyggjulaus æsku landsins á hverfulleik lífsins og urðu viðstöddum hvatning til að njóta hverrar mínútu til hins ítrasta.
Þegar leið á tónleikana virtist sem áhugi ungmeyja og smásveina dvínaði nokkuð, eða þá að allnokkuð var liðið fram yfir venjulegan háttatíma þeirra, því smám saman þynntist mannþröngin upp við sviðið svo betra rúm gafst til að láta velþóknun sína í ljós með viðeigandi handahreyfingum. Framan af lét ég nægja að kinka kolli í takt við lögin, en þegar á leið hlýddi ég snarlega öllum tilmælum kappanna um að ‘put your motherfucking hands in the air’ (sem þýða mætti ‘lyftið upp ansvítlans höndunum’). Svitinn bogaði af öllum og hitinn nálgaðist að vera óbærilegur, en við fylgdarmaður minn hvikuðum hvergi frá fremstu víglínu, enda í beinni sjónlínu við stórstjörnuna. En ekki voru allir svo vel í sveit settir. Börnin sem náðu mér rétt í mittishæð hafa sjálfsagt nefnt 50 Cent í kvöldbænum sínum þetta kvöld með miklu þakklæti, því í laginu ‘Many Men (Death Wish)’ (sem minnir um margt á andblæ ‘Heyr, himna smiður’ eftir Kolbein Tumason) gerði hann sér lítið fyrir og stökk fimlega uppá hátalarastæðu, svo allir Hallargestir gátu óhindrað virt hann fyrir sér frá hvirfli til ilja. Það var fögur sjón. Breið (en ótrúlega smekkleg) demantsarmbönd prýða úlnliðina, látlaus gullkross hangir á keðju um hálsinn, demantssylgja dregur athyglina að grönnu mittinu og glitrandi demantshringur er á baugfingri hægri handar. Illu heilli virtist Curtis klæja rétt sunnan við nafla, því hann reyndi að klóra sér þar syðra svo lítið bæri á, en óhjákvæmilega fangaði ljósbrot demantshringsins augað svo jafnvel frómustu piparmeyjar gátu ekki annað en gjóað auga á hans ‘prívat’ parta - sem að sjálfsögðu voru þó vel faldir bakvið gerðarlega brók og snotrar trekvart-buxur.
Öll gleði tekur enda. Þegar klukkan sló ellefu fóru 50 og félagar að ókyrrast, enda þurftu þeir að vera komnir í hús fyrir miðnætti eins og Öskubuska forðum til að ná góðum nætursvefni fyrir flugið morguninn eftir. Áður en leiðir skildust fleygði 50 flunkunýjum og svo að segja ónotuðum skóm sínum til þakklátra aðdáenda (stelpan sem stóð rétt hjá mér náði öðrum – bölvuð!), þar næst fékk derhúfan að fjúka og því næst skuplan hvíta, sem hingað til hefur virst gróin á höfuð hans. Mér til mikillar furðu og ánægju reyndist 50 Cent hafa dásnoturt hár, vel og snyrtilega klippt og fór á allan hátt sérlega vel, jafnvel eftir langa vist undir húfu og skuplu. Hann er beinlínis enn glæsilegri berhöfðaður en ella og ætti að gera meira af því að koma fram án höfuðfats. Hins vegar hreifst fylgdarmaður minn ekki jafn mikið og þótti hetjan óþekkjanleg án pottloksins og dulunnar.
Þegar síðasti tónninn dó út héldum við tónleikagestir höndum á lofti í þögn um stund, til að votta flytjendunum virðingu og aðdáun. Fáeinir (gamlingjarnir, líklega) klöppuðu kurteislega og ráku upp hrifningarhróp, eins og gjarnan tíðkast meðal eldri áheyrenda, en ég og ungmennin létum þögult látbragð og líkamstjáningu tala.

Þessir tónleikar voru sannarlega hverrar krónu virði. Ef ekki væri fyrir óskemmtilegar upphitunarhljómsveitirnar hefði ég gefið söngskemmtun þessari fullt hús stjarna, í stað fjögurra. 50 Cent hefur enn vaxið í áliti hjá mér eftir þessa ógleymanlegu kvöldstund. Ég ætla svo sannarlega að sjá hann aftur, ef tækifæri býðst. Gott ef ég fæ mér ekki G-Unit bol fyrir veturinn.

*Sá hinn sami og hlýddi á söngskemmtun Árna Johnsen með mér í Smáralind í vetur, sællrar minningar. Við það tækifæri ákváðum við einmitt að fara saman á 50 Cent, ef svo ólíklega vildi til að hann kæmi til Íslands. Augljóslega kunnum við sérlega vel að meta tónsköpun afbrotamanna, hérlendra sem erlendra.
**Þessi sómamaður var sláandi líkur þeim sem lék ættbálkshöfðingjann í Jewel of the Nile sem Michael Douglas vann með brögðum og prettum.
***Þar sem ég hef enn ekkert heyrt frá lögreglunni vegna hraðakstursins er þessi spurning mér ofarlega í huga um þessar mundir.

   (26 af 59)  
3/12/04 23:01

~*Gelgjan*~

50 cent er mesta æði í heimmi hann erso sætur o sexy

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.