— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 8/12/03
Að leiðarlokum á Lækjarbrekku

Að gleðjast með góðum vinum

Með tár á hvarmi, trega í hjarta og talsvert sein fyrir tiplaði ég á háu hælunum um bakstræti borgarinnar í gærkveldi til fundar við stöllur mínar og sauðtrygga skósveina á veitingahúsinu Lækjarbrekku. Að öllu jöfnu veldur tilhugsunin um ljúffenga máltíð í góðra vina hópi mér hvorki sorg né kvíða, en að þessu sinni var tilhlökkunin trega blandin. Okkar hjartkæra Mosa frænka hverfur nú af landi brott til fræðistarfa í Berklabæ, þar sem hún hyggst fullnema sig í fornfræðum og mannviti (og er þó ærið mikið fyrir). Ábyrgðin á uppfræðslu og umönnun okkar knáa skósveins mun því næstu misserin hvíla einvörðungu á veikburða herðum okkar Mús-Líar, sem er í sjálfu sér ærið áhyggjuefni, jafn baldinn og drengurinn enn er. Hitt er þó sýnu verra, að missa góða vinkonu yfir hafið og verða að þreyja þorra og góu án hennar ágæta félagsskapar.

Svo undarlega vildi til að undirrituð mætti seinust allra (að öllu jöfnu er það Mús-Lí sem mætir ‘fashionably late’ á samkomur hópsins), þannig að þau hin höfðu lesið matseðilinn spjaldanna á milli, kynnst öðrum gestum á staðnum lauslega, hæðst að framandi háttarlagi þeirra, velt fyrir sér áhrifum franskra sjóhunda og baskneskra bakkalá-fiskara á gengamengi Íslendinga og leyst að mestu gátuna um tilgang lífsins þegar ég mætti loks á staðinn. Eins og svo oft áður höfðum við sýnt þá fyrirhyggju að kynna okkur lauslega hvað í boði væri á heimasíðu Lækjarbrekku. Myndin af þriggja rétta sælkeramatseðli var því sem greipt í huga minn og hjarta þannig að þegar elskuleg og fagmannleg þjónustustúlkan birtist hrópði ég stundarhátt ‘Sælkeramatseðilinn – fyrir alla muni, færðu mér sælkeramatseðilinn!’ Ekki veit ég hvort upphrópunin, ellegar angurværð og aðhaldssemi olli því að þau hin létu sér nægja að panta einungis aðalrétt. Ekki drukkum við annað en kóla drykki, blávatn og brimsölt tár, en þrátt fyrir að þjónustuliðinu yrði þar strax ljóst að eyðsla hópsins yrði með minna móti var í engu slakað á gæðum. Eftir stutta stund bar stúlkan góða okkur lítinn smárétt til að stytta biðina eftir þeim krásum sem við höfðum pantað. Listakokkar Lækjarbrekku sendu okkur ljúffenga laxatartar með piparrótarsósu; fallega fram borið og sérlega ljúffengt munngæti sem gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi. Þegar því hafði verið gerð góð skil vorum við öll léttari í lund og enn léttist brúnin þegar forréttir sælkeramatseðilsins birtust. Þar gafst færi á að bragða á fjórum forréttum: kálfa ‘carpaccio’, gröfnu lambi með berjasósu, rækju og risahörpudiski á spjóti og humarsúpu. Allt var þetta borið fram á ílöngum diski, hver réttur með viðeigandi meðlæti, sérlega gómsætu salati, sósum og balsamik-ediki (ef bragðskynið brást mér ekki). Súpan vakti mikla lukku, þar sem hún var í glerstaupi, ekki ósvipuðu skot-glösum og mæltist Þöngull til þess að hennar yrði neytt í samræmi við það. Þær Mús-Lí og Mosa brögðuðu einnig á réttunum og lýstu yfir velþóknun sinni og jafnvel Vest-Lingur fékk að narta í lítinn bita. Þöngull sparaði sig fyrir aðalréttinn.

Allar innréttingar og aðstæður á Lækjarbrekku minna á betri heimili frá fyrstu árum liðinnar aldar, gleðja augað og ylja gestum inn að hjartarótum. Veggirnir eru málaðir í hlýjum og róandi litum, sætin eru þægileg, borðin hæfilega stór, myndir prýða veggi og tónlistin ómar í bakgrunninum. Þjónustufólkið er alúðlegt og sérlega elskulegt, laust við uppgerð og átroðning. Hópurinn var því orðinn nokkuð sjálfum sér líkur (þ.e. sæll og sáttur) þegar aðalréttirnir birtust. Mús-Lí kaus sér pastarétt með grilluðum humarhölum, Vest-Lingur valdi fisk dagsins, sem var grillaður koli á risotto-beði, Mosa nartaði í þorskhnakka, vafinn í serrano-skinku og við Þöngull gæddum okkur á pönnusteiktum kálfahryggsvöðva með kantellusveppum. Allt bragðaðist þetta dásamlega, sérhver munnbiti gældi við bragðlaukana og gerði samverustundina enn ánægjulegri og eftirminnilegra en ella. Hið eina sem varpaði örlitlum skugga á gleðina var óheppilegt lag diskanna sem fiskréttirnir voru bornir fram á, en þeir voru ferkantaðir. Það er engin tilviljun að mannkynið hefur í aldanna rás notast við kringlótta diska, því eins og Vest-Lingur fékk að reyna margoft vilja hnífapör renna niður í sósusvað, ef ýtrustu varkárni er ekki gætt í hvívetna. Að öðru leyti var allt til stakrar fyrirmyndar, matur, þjónusta og sessunautar.

Engin máltíð stendur undir nafni án eftirrétta. Mosu og Þöngli var öllum lokið eftir aðalréttinn, en Mús-Lí og Vest-Lingur vildu gjarnan bragða á heimagerðum ís með ávaxtasalati og sjálf hafði ég hlakkað til að sökkva mér ofan í súkkulaðibolla, svamla í shake og veltast um í vanilluís (allt í óeiginlegri merkingu, auðvitað). ‘Alsæla’ er eina orðið sem nær að lýsa dásemdum þessarar súkkulaðiveislu. Að henni lokinni var ég kát eins og spörfugl og pakksödd, eins og félagar mínir (sem voru þó sýnu minna södd, enda léttari á fóðrum og hófsamari). Eftir matinn fengum við okkur kaffi. Enn tókst starfsfólki staðarins að koma okkur þægilega á óvart með því að færa okkur öllum, alls óumbeðið, púrtvínsstaup, þannig að við gátum skálað fyrir Mosu og þakkað henni ótal ánægjulegar samverustundir á liðnum árum.

Allir þeir sem vilja gera sér dagamun og eiga góða stund með góðum vinum ættu hiklaust að leggja leið sína á Lækjarbrekku. Þar er allt til fyrirmyndar og allt gert til að láta gestum líða vel. Starfsfólkið allt fær fullt hús stjarna fyrir frábæra þjónustu og mat.

Mús-Lí, Vest-Lingur, Þöngull og Mosa: Hjartans þakkir fyrir ógleymanlega kvöldstund!

   (27 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.