— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 4/12/03
Burtflognir kjúklingar á Café Bleu

Raunarleg máltíð í reykjarkófi

Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir hefur lítið sem ekkert heyrst frá okkur stöllum undanfarið. Þó höfum við ekki með öllu afneitað lífsins lystisemdum; ljúffengum krásum, svalandi drykkjum og aðdáun sauðtryggra karlmanna, heldur hafa vanheilsa og fjarverur sett nokkrar hömlur á samverustundir okkar á fimmtudögum undanfarið.

Á síðastliðnu vísatímabili urðu þau merku tíðindi í sögu Kringlunnar að okkar litli hópur ákvað að blanda geði við kaupþyrstann almúgann og snæða hádegisverð á veitingastaðnum Café Bleu, sem eins og nafnið bendir til, gefur sig einnig út fyrir að vera kaffihús. Staðarvalið kom ekki til af góðu. Okkar hjartkæra Mús-Lí hafði náð sér í illvíga veirusýkingu sem olli því að hún var vart mönnum sinnandi, kom ekki upp orði og því síður niður matarbita. Meðan færustu læknar austan hafs og vestan reyndu að finna lækningu þótti okkur hinum rétt að huga að sálarheill hennar og finna góða bók sem gæti glatt hana í einangruninni. Það er skemmst frá því að segja að hinn ágæti bókhöndlari Penninn Eymundsson (óvenjulegt nafn, en sérlega vel við hæfi) átti fjöldann allan af læsilegum og fróðlegum skruddum sem hæfðu tilefninu fullkomlega og eftir skamma stund röltum við létt í skapi með bók í hönd að Tregakaffinu.

Þar innandyra var allmargt um manninn, en leiðinlegt var að horfa upp á hversu margir vesalingar eru þrælar níkótínsins. Hinn ágæti skósveinn okkar skipaði þjónustustúlkunni valdsmannslegri röddu að finna okkur borð fjarri hinum skaðlega tóbaksreyk, sem hún og gerði að vissu leyti. Of fáir vertar virðast gera sér grein fyrir þeirri einföldu staðreynd að reykur er eins og bannvænar pestir; hann virðir engin landamæri. Ímynduð lína í veitingasal er hreint engin fyrirstaða, eins og við fengum að reyna á ‘reyklausa’ borðinu okkar. Sökum tímaskorts ákváðum við að gera ekki veður út af því, heldur panta okkur hressingu sem fyrst. Þöngull hafði augastað á kjúklingasamloku, enda nokkuð fyrir hænsnfugla á þessum árstíma, en Júlía og Mosa frænka völdu samloku með beikoni og grænmeti. Löng stund leið áður en brauðmeti skilaði sér; svo löng að helst mátti ætla að bakaradrengurinn hefði farið utan til náms áður en hann kom brauðlengjum okkar í hendur smurbrauðsdömunnar, stöllu sinnar. Þegar við vorum öll orðin þónokkuð eldri og gráhærðari kom þjónustustúlkan loks með heljarinnar langlokur til okkar. Kjúklingi Þönguls virtist hafa leiðst þófið og flogið burt, því þrátt fyrir ítarlega leit fannst ekki nema örlítil arða af honum í samlokunni. Beikonbrauðið stóð betur undir nafni og bragðaðist ágætlega - og kjúklingalausa samlokan svosem líka. Hins vegar er ekki mikill matur í brauðmeti einu saman, nema það sé því betur útilátið, en sú var ekki rauninn hér. Álegg var allt heldur skorið við nögl svo að að máltíð lokinni fundum við fyrir ákveðinni tómleikatilfinningu og nokkrum vonbrigðum. Til að styrkja okkur fyrir átök dagsins fórum við því yfir í hinn enda Kringunnar og fengum okkur rótsterkt og hressandi kaffi hjá Suðurnesjaveldinu Kaffitári. Það var hverrar krónu virði.

Meira ef guð lofar.

Mosa frænka, Júlía og Þöngull (skósveinn)

   (48 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.