— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 7/12/03
Upp á kant í Apóteki

Af ófriði og ergelsi

Sauðir rekast misvel í hóp, en sjaldan er átakalaust að hafa tvo unga karla saman á almannafæri í fylgd fagurra kvenna. Þetta höfum við stöllur margrekið okkur á á liðnum misserum, en jafnan reynt að bera í bætifláka fyrir skjólstæðinga okkar, sem eru í eðli sínu mestu friðsemdar- og rólyndismenn. En enginn ræður við eðli sitt. Ungum karldýrum er eiginlegt að berjast um hylli kvendýranna í hjörðinni með öllum tiltækum ráðum, uns einn stendur eftir. Þetta atferli, ‘alpha-male syndrome’, höfum við mátt þola enn á ný eftir að Vest-Lingur sneri heim og gerði tilkall til ‘krúnunnar’, ef svo má að orði komast. Síðastliðinn fimmtudag fór drjúg stund í það að ákveða hvert skyldi haldið. Snemma mynduðust tvær meginfylkingar, Asks-menn annars vegar og Apótekarar hins vegar. Eftir að fé hafði skipt um hendur og gamlar syndir verið dregnar upp á yfirborðið var ljóst að Apótekið nyti viðskipta okkar og Júlía þræddi öngstræti miðborgarinnar í leit að greiðfærri götu og auðu bílastæði. Slíkar ökuþrautir eru ævinlega ávísun á erglesi og ólund og ekki bætti úr skák að á Austurvelli gekk hópurinn í flasið á æstum múg sem hafði í frammi óp og óhljóð gegn afnámi kosningaréttar. Apótekarar höfðu kynnt sér matseðil staðarins á netinu og brá því nokkuð í brún þegar úrvalið reyndist allt annað og dýrara þegar inn á staðinn var komið.

Vest-Lingur brást ókvæða við, barði sér á brjóst og krafði þjóninn skýringa, en Þöngull brosti sínu blíða brosi og horfði stórum og undurfögrum augum í kringum sig á dúkuð borð, dýrar krásir og undurfurðuleg gluggatjöld. Þegar ‘dólgslæti’ Vest-Lings virtust ætla að ná sögulegu hámarki var ákveðið að láta undan og fara yfir í reykmettað andrúmsloft kaffihússins, sem tilheyrir einnig Apótekinu. Þar voru prísar viðráðanlegri og umhverfið allt afslappaðra – en um leið heldur óvistlegra. Af einhverjum ástæðum var aðeins einn matseðill á borðinu svo Þöngull var valinn til að lesa upp fyrir okkur hin hvað í boði væri, enda víðfrægur fyrir hljómfagra raust. Upplesturinn varð síst til að létta lund Vest-Lings, sem saknaði sárlega karrírækju einnar og systra hennar, sem hann hafði lesið um á netinu og vildi ólmur kynnast af eigin raun. Þar sem þjónustufólkið gaf okkur engann gaum í fyrstu (enda vafalaust uppsigað við okkur eftir að við yfirgáfum dýrari hluta staðarins) gafst góður tími til að skoða matseðilinn og velja mat og drykk.

Mosa og Mús-Lí pöntuðu pizzu með parmaskinku og salati, karlpeningurinn fékk sér núðlur og Þórhildur Margrét féll fyrir kjúklingi. Svo mjög var af Júlíu dregið eftir barninginn við gatnakerfið, vegaframkvæmdir, stöðumæla, bílahús og blóðheita mótmælendur, að hún pantaði sumarsalat. Þeir sem til þekkja, vita að fátt freistar hennar minna en grænmeti, nema ef vera skyldi soðin ýsa.* Meðan við biðum eftir matnum og reyndum að hafa hemil á fylgdarsveinum okkar fylgdumst við með mannfjöldanum streyma eftir Austurstræti og þar á meðal mátti greina mörg fræg andlit. Mesta eftirtekt og aðdáun vakti hinn alþýðlegi stórsöngvari og ofursjarmör, tékkneska kyntröllið Tony Ztarblaster, sem gekk óáreittur innan um almúgann í góða veðrinu. Erlendar stórstjörnur hafa aldrei getað keppt á jafnréttisgrundvelli við gómsæta rétti um athygli okkar stallsystranna. Tékkneski tenórinn gleymdist því á einu augabragði þegar þjónninn bar okkur (rjúkandi) réttina.

Maturinn á Apótekinu gleður sannarlega augað. Hver diskur var eins og sjálfstætt listaverk og sérlega lystaukandi. Flatbakan féll í góðan jarðveg, þótti bragðgóð þrátt fyrir (eða kannski vegna) óhóflega olíunotkun kokksins. Núðlurnar voru vel útilátnar og ljómandi góðar, en aftur hafði örlæti kokksins borið hann ofurliði að mati Vest-Lings, sem þótti full mikið af sojasósu í réttinum. Kjúklingurinn var gómsætur, en ‘flögraði’ um á diskinum svo erfitt var að borða hann á þann siðfágaða hátt sem Þórhildi Margréti er eðlislægt. Júlía tuggði laufblöð með niðurrifnum mangó og harmaði hlutskipti sitt hátt og í hljóði.

Að máltíð lokinni þótti réttast að panta kaffi. Sú ákvörðun reyndist, þegar horft er til baka, alröng og ófarsæl í alla staði. Þjónustustúlkunni var það á að slæma hendi í hátt kaffiglas, fullu af snarpheitu mjólkurkaffi (café latte), sem flæddi yfir borðið. Eitt skelfilegt andartak leit út fyrir að hinn stolti og harðgerði ættbogi Vest-Linga dæi út með Vest-Lingnum, en jaðarsjón og ótrúleg viðbragðsflýti varð til þess að kaffið lenti á gólfinu í staðinn. Mosa frænka var hins vegar í síðkjól að vanda og er eins og sönn dama alls óvön að glenna sig á almannafæri, þannig að töluvert magn skvettist á hana, alsaklausa. Hið óvænta kaffibað dró eðlilega nokkuð úr kátínu fórnarlambanna og hópsins alls, svo mjög að aukaskammtur af súkkulaði gerði lítið til að létta lundina. Kaffið sem rataði inn fyrir varir okkar reyndist raunar prýðisgott. Þöngull var sérstaklega ánægður með expressóinn sinn, sem var nógu sterkur til að halda honum vakandi fram eftir kvöldi. Júlía (sem hafði allt á hornum sér) nöldraði yfir því að fá kaffið í glasi, en ekki bolla eins og karlmaðurinn við næsta borð, en gat ekki gert alvarlegar athugasemdir við gæði drykkjarins sjálfs.

Þegar á allt er litið var þessi miðborgarferð bæði löng og strembin. Efalaust var þar ekki aðeins við Apótekið að sakast, heldur umhverfi, aðstæður og erfðaþætti þeirra sem við sögu komu. Einfaldast er þó að skella skuldinni á ófriðarandann sem sveif yfir Austurstræti þennan sumardag – illindi og úlfúð eyðilögðu matarlystina.**

*Það verður að viðurkennast að öll þessi gagnrýni er lituð af sárum vonbrigðum, ólund og ergelsi kjötætunnar, sem verður að sætta sig við næpu í stað steikur.
** Óvenjuleg lengd þessarar rýni endurspeglar þann óratíma sem það tók að ákveða stað, nöldra, panta, bíða og borða.

   (30 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.