— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 4/12/03
Óbærileg bið á Andarunga

Sönn frásögn frá 1. apríl

Fyrsti apríl er dapurlegur dagur í lífi sérhvers sannleikselskandi manns. Þann dag megum við hrekklausar sálirnar eiga von á alls kyns óskemmtilegum glettum og óknyttum af samborgurum okkar og engu er að treysta. Lesendum Baggalúts er þó óhætt að trúa hverju orði sem hér fer á eftir, enda hefur það aldrei verið venja okkar stallsystranna að fara með fleipur eða víkja af braut sannleikans (eða dyggðarinnar, ef því er að skipta).

Það er hvorki þurrð né endir á hörmulegri vanheilsu Mús-Líar. Leikur grunur á að hún sé komin með tæringu, enda fáir sjúkdómar sem fara fögrum konum betur. Frekar en að ráfa þrjú saman um bæinn ákváðum við hin, sem enn erum við bærilega heilsu, að kalla út allt tiltækt varalið; hinn masgefna Vaðal, geðuga skrifstofudömu sem Þöngull kannast við í gegnum viðskiptasambönd sín hérlendis og loks amerískan túrista, sem Mosa í glettni sinni fullyrti að væri gömul vinkona. Upphaflega ætluðum við að kynna hinum erlenda gesti sögu og menningu þjóðarinnar og byrja á kúgun Dana. Þótti því hæfa að snæða á smurbrauðsstofunni Jómfrúnni í Lækjargötu, sem sett var á laggirnar á sínum tíma til að minna þjóðina á valdníðslu Dana, einokunarverslunina og maðkaða mjelið sem bakað var úr á liðnum öldum. Landar vorir virðast hins vegar, alltof margir, hafa gleymt illri meðferð og undirokun, því hvert borð var þéttsetið og hvergi stól að fá. Þótti okkur þá sá kostur vænstur að fara á Ljóta andarungann (sem er jú hugarfóstur hins danska H. C. Andersen). Þar inni sáust fáir gestir, en fleiri gætu þó hafa leynst þar innan í þykku reykjarskýi sem mætti okkur. Lungnapest Vaðals (sem allt apar eftir Mús-Lí) versnaði stórlega í óheilsusamlegu andrúmsloftinu, en hvorki hann né við hin megnuðum að stika frekar um bæinn í leit að reyklausu veitingahúsi.

Afgreiðslustúlkan virtist flemtri slegin þegar hinn þokkafulli Þöngull bað hana að færa okkur matseðlana. Óljóst var hvort kom henni meira í opna skjöldu; ótrúleg fegurð augna hans, ellegar sú staðreynda að gestirnir vildu fá mat í hádeginu. Eftir allnokkra leit fundust seðlarnir bakatil í gömlu kofforti og eftir skamma stund höfðum við öll gert upp hug okkar og skýrt stúlkunni frá vali hvers og eins.

Þá tók við löng og erfið bið. Svo virtist sem hvorki eldunaraðstaða né eldunartæki hafi verið til staðar áður en við birtumst með kröfur okkar, því bláklæddir iðnaðarmenn sáust skjótast um í reykskýjinu, en ekkert bólaði á matnum. Þegar tæp klukkustund var liðin þurfti skrifstofusnótin að snúa aftur til starfa, án þess að hafa fengið aðra hressingu en eitt vatnsglas. Við hin sátum sem fastast, enda orðin máttfarin af hungri. Þegar búið var að koma upp bráðabirgðareldhúsi, ráða fólk til starfa, kaupa kvóta og gera út bát, planta grænmeti og uppskera var loksins komið að því að færa okkur matinn. Mosa frænka fékk ljómandi góða sjávarréttasúpu með gómsætu smábrauði, sem borin var fram í sérlega fallegri skál (enda hafði starfsfólki unnist tími til að sækja leirkeranámskeið meðan við biðum), Þöngull gæddi sér á lystugu lasagna með salati og salsasósu, Vaðall nartaði í grillaða samloku en Júlía fékk böku, sem hvorki var fugl né fiskur, heldur grænmeti; bragðdauft og heldur ólystugt. Ameríski túristinn vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og sötraði piparmyntute til að róa taugarnar.

Enginn sem hefur verk að vinna ætti að hætta sér í hádegismat á Ljóta andarunganum. Ellilífeyrisþegar, atvinnulausir ellegar fólk í fæðingarorlofi ættu hins vegar ekki að hika við að setjast þar inn og fá sér snæðing; maturinn er ágætur þó biðin sé óbærilega löng.

Meira síðar (ef heilsan leyfir),

Mosa frænka, Júlía, Þöngull (skósveinn) og fjölþjóðlegt varalið (ónafngreint)

   (46 af 59)  
Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.