— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
hlewagastiR
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 6/12/08
Heitar lummur og svipaðir strengir

Öll þekkjum við dæmi um útúrsnúninga og afbakanir á orðatiltækjum sem settar eru fram í gamansömum tilgangi. Oft er þetta vel heppnað en er þó ekki til umræðu hér. Áhugasömum bendi ég á bókina „Stormur á skeri“ eftir Sverri Stormsker vilji þeir sökkva sér í þann kúltur. Hitt er lakara þegar orðatiltæki afbakast fyrir afglapahátt sem hver étur svo eftir öðrum og allir þykjast fara rétt með.

Haft er á orði að eitthvað renni út eins og heitar lummur ef eitthvað sem maður gefur eða selur fær góðar viðtökur. Líkingin vísar til þess að ef gestgjafi bakar lummur og ber fram heitar er mikið etið af þeim. Lummurnar renna út, enda lostæti mikið svona beint af pönnunni.

Hitt er svo annað að þótt þakklátir gestir hámi í sig heimabakaðar lummur er ekki þar með sagt að þær séu neitt sérstaklega góð söluvara. Þvert á móti, því að ef svo væri skyldum við búast við því að kauphéðnar væru með lummuvagna á hverju horni og að heitar lummur væru seldar á öllum matsölustöðum í stórum stíl. Ríkustu menn landsins væru lummusalar.

Samt vita allir að svona er þetta ekki. Þetta hefur eflaust verið reynt en ekki borgað sig. Heitar lummur seljast nefnilega ekkert sérstaklega vel. Þær eru til gjafa. Því er máltækið eitthvað selst eins og heitar lummur einfaldlega fáránlegt bull. Ekki klikka á þessu.

- - -

Haft er á orði að einhver taki í sama streng og einhver annar ef sá tekur undir orð hins eða segir eitthvað sem er sömu merkingar. Sé merkingin ekki alveg hin sama en þó svipuð hættir mönnum til að segja að viðkomandi hafi tekið í svipaðan streng. Það er ekki vel mælt.

Myndmál orðatiltækisins er sótt í það þegar menn toga í reipi (streng), t.d. þegar einhver bisar við að hífa upp þungan hlut. Einnig má sjá fyrir sér reiptog. Sá sem stendur í slíku ströggli hefur af því góðan liðsstyrk að aðrir komi og hjálpi honum með því að taka líka í strenginn. Hins vegar hafa menn ekkert gagn af því að aðrir taki í svipaðan streng. Jafnvel þótt strengurinn væri beinlínis alveg eins hefur slíkt athæfi hefur ekkert upp á sig og er í besta falli hlægilegt ef þetta er ekki strengurinn sem er bundinn við það sem maður er að toga í.

Því skyldu menn lýsa undirtektum á þann veg að tekið sé sama streng eða sleppa strengjatalinu bara alveg að öðrum kosti. Hafið þetta nú hugfast, rjúpurnar mínar.

   (49 af 82)  
6/12/08 03:01

Billi bilaði

<Svipast um eftir heitum pönnukökum>

6/12/08 03:01

Kífinn

Ég kýs svipaðar lummur meðan ég slæ á heita strengi.
En í hvorn flokkinn það fellur fer eftir almenningsálitinu því lýðræðið er bastarður sem gleymdist að kæfa.

6/12/08 03:01

Regína

Rétt hjá þér Kífinn. Lifi konungsveldið!

6/12/08 03:01

Jarmi

Ég las þetta félagsrit eins og heitar lummur! Svona svo ég slái nú á létta strengi.

6/12/08 03:01

hvurslags

Mýmörg önnur dæmi má sjá í blöðum og annars staðar þar sem menn leggja út af orðatiltækjum. "Þar stendur hundurinn í kúnni" o.s.frv.

6/12/08 03:01

Regína

Að svara út i hött. Ég hef alltaf séð fyrri mér mann í úlpu með hettuna uppi, og svarar með því að snúa höfðinu svo svarið lendir i hettunni. Kannski er það rangur misskilningur.
Síðan fór fólk að vera sniðugt og svaraði út i Hróa hött. Nú segir fólk allt mögulegt út í Hróa, og sleppir hettunni. Það var lengi gaman að því, en nú finnst mér það bara hallærislegt. Ekki síst á Alþingi eða í fjölmiðlum.

6/12/08 03:01

Heimskautafroskur

Nú er ég eiginlega á báðum áttum.
Því annars vegar fer verulega í taugarnar á mér svona rökleysur eins og nefndar eru í félagsritinu og taka sér smám saman fastan sess í málinu og eins þegar til verða á nokkrum vikum orðmyndir sem ekki voru til áður. Nefni sem dæmi þegar undir miðbik níunda áratugarins varð til orðskrípið hundruðir sem aldrei hafði heyrt eða sést fyrr, og varð algilt á örstuttum tíma.
Hins vegar er ég hlynntur eðlilegri þróun og breytingu tungumálsins – sé hún ekki til staðar er málið dautt og ekki í takt við tímans tönn...

6/12/08 03:01

Huxi

Þetta er allt satt og rétt hjá þér eins og vanalega hlebbI minn.

6/12/08 03:01

hlewagastiR

Froskur: Jákvætt dæmi um þróun málsins er að nú tala menn yfirleitt um að hjakka í sama farinu en áður sögðu menn fremur hjakka í sama farið.
Skýringin er sú að myndlíkingin hefur breyst. Í gamla daga var þetta lýsing á aðförum sláttumanns með orf og ljá. Hann hjakkaði (=hjó) sífellt í sama farið en ekkert gekk.
Nú sjáum við fyrir okkur bíl sem er fastur í snjó eða leðju og hjakkar fram og til baka í sama farinu. Skemmtilegt.
Huxi: Æ, mikið ertu nú alltaf elskulegur við mig. Mér er strax farin að batna sinnisveikin.

6/12/08 03:02

Blöndungur

Mig langar að benda á það til gamans að orðtakið að ,,koma einsog þjófur úr heiðskýru lofti" (sem er jú samsláttur tveggja orðtaka,) sá ég í hinni geysivinsælu þýðingu Karls Ísfelds á Góða dátanum Svejk - þetta voru orð Svejks sjálfs, og virðist hafa verið persónueinkenni hans að nota svona ambögur; hann talaði líka á einum stað að hafa séð eitthvað með eigin eyrum.
Svona ambögur sýnast mér alltaf hafa verið stundaðar, og misjafnt hvað fólki hefur þótt þær fyndnar. Sumar hafa svo endað sem nokkuð viðurkennt mál. Regína bendir á Hróa hött, sem er núna orðinn mjög þreyttur brandari, og furðulegt að þingmenn skuli láta þetta útúr sér. (hvað þá aðrir.)
Eitt sinn var norskur vinnumaður hjá afa mínum og ömmu, sem lýsti því einhverntíman mikilfenglega að ,,kettirnir hefði migið utan á mélpokann allir saman í kór." Varla mun rétt að segja að það sé hægt að gera eitthvað annað en að tala eða syngja í kór, en ömmu fannst þetta svo skondið, að hún segir stundum eitthvað þessu líkt. Ég veit það af eigin köldu hyggjuviti, að ég hika varla við að segja eitthvað svipað, þó að ég hafi að öðru leiti sæmilega óspillta máltilfinningu.
En þetta er kannski dæmi ekki alveg á sömu línu og dæmi hlégestaR; varla hefur fólki þótt gríðarlega fyndið þegar einhver sagði í fyrsta skipti að eitthvað seljist einsog heitar lummur eða að einhver tæki í svipaðan streng.

6/12/08 03:02

Ullargoði

Sammála þessu.
Orðatiltæki eru skemmtileg. Og leiðinlegt þegar fólk fer ekki rétt með, og afbakar þau jafnvel.

Heitar lummur,strengur,strjál,
stuðull, knipli, greina.
Íslenskan er indælt mál,
ekki er því að leyna.

6/12/08 04:00

Ívar Sívertsen

Þarna stendur hundurinn grafinn liggjandi í kúnni. Ambögur málsins eru oftar en ekki þjóðþekktu fólki að kenna. Sverrir Hermannsson var frægur fyrir þjófinn úr heiðskýra loftinu sem og kálfinn sem sjaldan launar ofbeldið.

6/12/08 04:00

Jarmi

Fólki finnst mjög gaman að berja svona útúrsnúninga augum.

6/12/08 05:01

krossgata

Var einmitt að velta lummunum fyrir mér um daginn, það varð hið mesta bull, en skemmti mér um stund.

Ég man eftir að hafa heyrt að eitthvað sé af "svipuðum toga". Ætli gildi sama um togann og strenginn?

6/12/08 06:00

Einstein

Þeir sletta hundunum sem eiga þá og þar lá skyrið grafið.

Þúsundir er líka orð sem má missa sín. Þúsund er hvorugkynsnafnorð og beygist sem slíkt.

hlewagastiR:
  • Fæðing hér: 2/11/03 22:29
  • Síðast á ferli: 17/2/19 16:40
  • Innlegg: 3684