— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
hlewagastiR
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 1/11/08
Gagnrýni á gagnrýni (nei, ekki ofan)

Leikarar og rithöfundar (jú og líklega stjórnmálamenn líka) þurfa einir starfsstétta að þola það að störf þeirra séu gagnrýnd í fjölmiðlum og það jafvel á óvæginn hátt. Hvernig væri nú að láta eitt yfir alla ganga í þessum efnum?

Hreingerningaþjónusta Halldórs frumsýndi á föstudaginn verkið Skúrað í Skipholti undir verkstjórn Hallveigar Fróðadóttur. hlewagastiR holtijaR, ræstingagagnrýnandi Gestapó, fjallar um verkið:

Það standa reykbólstrar upp úr skúringarfötu í Skipholtinu, það rýkur úr henni; kemísk efnin dansa ægilegan hrunadans og vegfarendur á leið í skrifstofur á efri hæðum hússins staðnæmast og horfa undrandi á fólkið sem stendur með nefið ofan í hreingerningarfötunni.

Sannarlega táknrænt upphaf á verki þar sem þrífa þarf ótrúlega drulluga samegin í skifstofuhúsnæði fyrir smáborgara. Þrátt fyrir vitneskju um að úti sé súrasta hlandveður og að húsið sé opið gestum og gangandi á skítugum skóm hika Hallveig og og þjónar hennar hvergi við að leggja til atlögu við skítinn - með hræðilegum afleiðingum. Engir karlmenn virðast koma nálægt þessu verki, a.m.k. að svo stöddu, ef frá er talin tælensk skúlka, Mali Plaichumpol, sem karlmaður hefur augljóslega komið býsna fyrir ríflega átta mánuðum eða svo. Það aftrar Hallveigu ekki frá því að láta stúlkuna rogast með níðþung þrifaáhöld úr ryðguðum Peugeot flutningabíl hreingerningarþjónstunnar í gegnum slagviðrið að húsinu og upp flughálan stigann.

Dæmileikur er það, gamansamur, húmorinn svartur og ógnvekjandi. Eiturgufurnar minna áhorfandann á uppgang og glæpi nasista; varganna sem byrjuðu feril sinn á því að kveikja í þinghúsinu í Berlín og voru ekki stöðvaðir fyrr en stærsti hluti Evrópu stóð í ljósum logum.

Til að byrja með er stigagangurinn svið atburðanna ásamt ræstingarkompu á efstu hæð - en ekki á hverri hæð eins og eðlilegt mætti teljast. Þessi gerviveröld minnir á nútíma útrýmingarbúðir þar sem hvít kona drottnar yfir hinum lituðu, hinum óæðra erlenda „vinnuafli“, utanveltu hópnum, vesalingunum, ofbýður þeim líkamlega, arðrænir, smánar og kvelur yfir eiturgufum kemískra hreinsiefna.

Út um hliðarglugga gnæfa svo háhýsi yfir smáhúsum og gætu verið úr hryllingsmynd. Litlir svartir fuglar flögra allt í einu yfir, loftbelgur stígur, sólir ganga rangsælis; allt gerist þetta á nánast leyndardómsfullan hátt og athygli mín er allan tímann öðrum þræði á þessari felumynd. Hef ég e.t.v. orðið fyrir kemískum heilaskemmdum líka?

Í leikmunum og búningum eru vísanir í ýmsar áttir, frú Hallveig er einsog stigin út úr ameríska sjötta áratugnum, skúringaþrælarnir minna á Kinski, Michael Jackson, Grease, Gullna hliðið.

Hvað sjálfan árangurinn varðar verður hann að teljast sorglegur. Þegar Hallveig og útlendingahersveitin hafa yfirgefið svæðið verður ekki betur séð en að þær hafi helst fært skítinn úr stað. Víða eru helgidagar á nýskúruðum gólfunum og minnir á málverk eftir Svavar Guðnason. Gluggar eru ópússaðir. Drullunni sem gestir báru með sér í húsið hefur verið smurt um gólfið en tæplega fjarlægð. Gætið ykkar að renna ekki í leðjunni.

Vinnubrögðum er ábótavant. E.t.v. ekki að furða því að Hallveig hvorki tekur þátt í störfunum sjálf né leiðbeinir. Hún lætur nægja að reykja vindlinga niðri við útidyr. Það er reyndar bannað. Stubbana skilur hún eftir á gólfinu við brottför. Starfsliðið er ekki björgulegt og er þetta ekki sagt af fyrirlitningu í garð innflytjenda. Hinu er þó ekki að neita að auk vanfæru stúlkunnar, sem fyrr var getið, samanstendur hópurinn af Canuckistanian Psyche, eldri konu sem er svo akfeit að undrum sætir að hún geti staðið í fæturna, hvað þá unnið; Ngai Thi Hang, miðaldra konu sem lítur út fyrir að vera með deleríum tremens og loks Amölu og Kamölu Talibali, örvhentum síamstvíburasystrum sem augljóslega hata hvor aðra svo mjög að þær reyna í sifellu að slá hvor annarri pústur en gengur illa þar sem samvöxtur þeirra er bak í bak. Allar eru konurnar greinilega ölvaðar, nema Hallveig.

Niðurstaða: Þetta er ekki eins hnökralaus ræstingarvinna og síðasta sýning Hallveigar Fróðadóttur: Þrifið í Þönglabakka en vitnar um hugmyndaríki og þekkingu sem við eigum kröfu á þegar ræsingar eru annars vegar. Textinn höfðaði ekki til mín enda skildi ég ekki tungumálið, nú eða -málin.

Hver áhorfandi les auðvitað myndheim sviðsins saman við textann á sinn hátt. Einn sagði við mig: Hér er ekki verið að fjalla um heimskuna sem leiddi til nasismans, hér er ekki verið að fjalla um hrunið, hér er verið að fjalla um okkar innri drullu. Sástu ekki að það logaði upp úr þakinu þegar þú komst? Og hvert hurfu konurnar? Og hvar var þessi Halldór sem hreingerningaþjónustan er kennd við?

   (26 af 82)  
1/11/08 09:01

Huxi

Er hægt að kaupa miða á MIði .is?

1/11/08 09:01

hlewagastiR

Óþarfi, Huxi, þú bara skimar eftir Pusjónum og veður svo inn á sviðið á skítugum bomsunum.

1/11/08 09:01

Einn gamall en nettur

Tímamótaverk!

1/11/08 09:01

Huxi

Ó, ég skil. Er skaffaður skítur til að setja á bomsurnar?

1/11/08 09:01

Regína

Ég á ekki bomsur.

1/11/08 09:01

Jarmi

Er þetta einhverskonar háð?

1/11/08 09:01

hlewagastiR

Huxi: það er ekki þverfótandi fyrir skít og drullu á þessu volaða landi voru, einkum núna.
Regína: þú mátt fá mínar lánaðar.
Jarmi: Nei, meira svona paródía.

1/11/08 09:02

Regína

Nei, ég vil ekki þínar. Þær eru of stórar og festast í skítnum svo ég stend allt í einu á sokkaleistunum í drullunni.

1/11/08 11:02

Grýta

Gott rit, svo langt sem það nær.
Ég skora á þig að gagnrýna femínista næst..... eða bara einhverja aðra.

1/11/08 15:00

Jóakim Aðalönd

Stórskemmtilegt. Hafðu þökk fyrir þetta Hlebbi!

hlewagastiR:
  • Fæðing hér: 2/11/03 22:29
  • Síðast á ferli: 17/2/19 16:40
  • Innlegg: 3684