— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 6/12/08
Tilgangur lífsins

Smá tittlingaskítur

Þessu atriði hafa ýmsir velt fyrir sér; tilgangi lífsins.

Áður en hægt er að leggjast í að svara spurningunni um hver tilgangur lífins sé er hins vegar nauðsynlegt að átta sig á merkingu spurningarinnar.

Venjulega þegar spurt er hver tilgangur einhvers sé, þá er undirliggjandi merkingin sú hvað annað vinnst með því - þá annað hvort með því að 'fylgja með pakkanum' jafnóðum, eða þá sem niðurstaða sem er hluti af langtímaplani (eða jafnvel hvort tveggja).

Þannig má svara spurningunni um hver tilgangurinn með fallhlífarstökki sé á þá vegu að hann sé að upplifa ákveðna spennutilfinningu sem fylgir athöfninni - og langtímaplanið (ef eitthvað er þá) gæti verið að öðlast reynslu sem hefur djúptæk og varanleg áhrif á sálarlífið. Spurningunni með hver tilgangurinn með því að sitja sjálfviljugur á skólabekk sé má síðan svara með því að hann sé að öðlast þekkingu sem nýtist t.d. úti á vinnumarkaðnum, eða þá bara hreinlega að njóta þess að læra eitthvað nýtt (það gæti líka átt við sem skammtímaupplifun, frekar en langtímaplan).

Grunnpunkturinn er sá að til að svara því hver er tilgangur einhvers þarf alltaf að vísa í eitthvað annað; eitthvað sem er fyrir utan það sem spurt er um.

Hver er þá raunverulega merking spurningarinnar „Hver er tilgangur lífsins?“

Með ofangreint í huga mætti jafnvel orða spurninguna svona: „Hverju öðru skilar það, til lengri eða skemmri tíma, að lifa lífinu og gera það sem maður gerir á meðan maður lifir?“

Ljóst er að aðeins þeir sem eru trúaðir á áframhaldandi tilvist eftir að þessari jarðnensku tilvist lýkur, þar sem næsta tilvist er háð þessari samkvæmt einhverju orsakasamhengi, geta svarað þessari spurningu með vitrænum hætti (þá með að útskýra hvað þarf að gera í þessari tilvist til að tryggja betri tilvist í þeim vistarverum sem taka við þegar henni lýkur).

Fyrir öðrum er hún merkingarlaus með öllu, þar sem fyrir þeim stendur lífið eitt og sér; tilgangur í sjálfu sér. Í þessu felst mikil fegurð, það sem þetta þýðir að engin eiginleg takmörk eru fyrir því hvað hver og einn kýs að gera úr sínu lífi. Þessi staðreynd er þörf áminning til handa þeim sem missa sig út í að velta sér upp úr meintu tilgangsleysi tilverunnar. Hugarfarið eitt veldur því að fólk lítur þannig á tilveruna - aðeins þarf að opna augun fyrir hinum aragúa möguleika sem okkur býðst, hverju og einu, til að rífa sig upp úr slíkum barlómi.

Þar með er ekki sagt að öllum reynist auðvelt sé að tileinka sér hið rétta hugarfar; bara að fræðilega séð er hugarfarið það eina sem skiptir máli. Þegar fólk hefur tileiknað sér það er valkvíði helsta vandamálið sem blasir við því. Það er þó líklega efni í annað, og enn sem komið er óskrifað félagsrit.

   (6 af 49)  
6/12/08 00:02

hvurslags

Síðan má bæta við þetta: Ef það er einhver tilgangur með lífinu, hver ákvað þann tilgang? Og hvaða markmiðum á tilgangurinn að þjóna? Ég man ekki eftir að hafa kvittað undir neitt. [glottir eins og fífl]

6/12/08 00:02

Hóras

Hvers vegna ætti nokkur að vilja vita tilgang lífsins? Eftir að svar fæst þá er öll spennan og óvissan horfin

6/12/08 00:02

hlewagastiR

Spurningunni um tilgang lífsins hafa okkur vísari menn svarað fyrir löngu, nánar tiltekið fyrir 25 árum. Svarið er á þessa leið í þýðingu minni:
Tilgangur lífsins? Jæja, það er reyndar ekkert sérstakt. Reynið að vera vingjarnleg við annað fólk, forðist feitan mat, lesið góða bók annað slagið, skreppið í göngutúr og reynið að lifa saman í friði og sátt, óháð trúarbrögðum og þjóðerni.

6/12/08 00:02

Villimey Kalebsdóttir

Tilgangur lífsins er að leika sér og hafa gaman. Talandi um það, þá langar mig svolítið að prófa að fara í fallhlífarstökk.. svona afþví að þú minntist á það. [Ljómar Upp]

6/12/08 00:02

Lopi

TIlgangur lífsins er einmitt að upplifa spennu og spennufall til skiptis. Annað er ekki í boði.

6/12/08 00:02

Grýta

Tilgangur lífsins er að njóta þess, því þetta er okkar eigið og eina líf.

6/12/08 00:02

Offari

Var það ekki 42?

6/12/08 01:00

Dula

Hvað er tilgangur?

6/12/08 01:01

krossgata

[Gengur til Dulu]

6/12/08 01:01

U K Kekkonen

Náttúran hefur séð til þess að þeir sem á ögurstundu fara að velta fyrir sér tilgangi lífs síns, verða fljótlega lausir við hvorutveggja.

6/12/08 01:01

Hvæsi

Við þessari spurningu er einfalt svar.
Ég held það sé við hæfi að við brestum í söng einsog í teiknimyndunum.

<Tekur upp krumpað og illa skrifað blað>

<Syngur>
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag
Við erum gestir og hótel okkar er Gestapó

hótelinu má líkja við hlaðborð, þú tekur það sem þig langar í, ef þú sækir það ekki sjálfur, þá tekur einhver annar það og á endanum klárast það.

Svo má enda á einni mögnuðustu textalínu ever...

<Syngur aftur>
You can checkout any time you like,
But you can never leave!

6/12/08 01:01

Vladimir Fuckov

Vjer höfum nokkuð lengi haft efasemdir um að í raun sje einhver tilgangur með lífinu (nema þá einhver tilgangur sem maður ákveður sjálfur). En lífið þarf samt alls ekki að vera verra fyrir því. Valkvíði eins og minnst er á aftast í fjelagsritinu gerir þó stundum vart við sig.

6/12/08 01:01

Jarmi

"Life's what happens when you're busy making other plans."

6/12/08 01:01

Regína

Tilgangur míns lífs er að vera á Gestapó. Ég hélt að þið hin væruð eins? Eða eruð þið komin á snjáldurskinnu?

6/12/08 01:01

Vladimir Fuckov

Við hin erum auðvitað eins en vandmálið þar er m.a. eftirfarandi: Í hvaða tilgangi er það tilgangur lífsins að vera á Gestapó ?

6/12/08 01:02

Heimskautafroskur

Hmmmm. Það þarf nú ekki að horfa mjög lengi í kringum sig til á átta sig á að tilgangurinn með lífi hvaða lífsforms sem er, er að halda lífi (hæfilega lengi) og viðhalda stofninum. Að komast af og bera efrðaefnið áfram. Þetta er augljóst.

6/12/08 01:02

Garbo

Jamm, sammála froskinum. En hver tilgangurinn með því er síðan ... það er ég ekki eins viss um.

6/12/08 01:02

Þarfagreinir

Hingað hafa borist góðir orðabelgir, uppfullir af skemmtilegum vinklum.

Ég tek undir með Garbo; þó það kunni að vera hárrétt að tilgangurinn með tilvist einstakra lífvera er að þær haldi áfram að fjölga sér, þá segir sú staðreynd ekkert um tilgang lífsins sem slíks. Það er þó mjög áhugaverð pæling - en svörin við henni eru hins vegar ekki beinlínis á reiðum höndum.

6/12/08 01:02

Vladimir Fuckov

Því má bæta við að vjer getum eiginlega ekki ímyndað oss að nokkurntíma muni verða alveg ótvírætt ljóst fyrir hvern einasta mann hver hinn raunverulegi tilgangur lífs okkar allra er - ef hann er einhver. En ef það gerist væri það líklega stærsti viðburður mannkynssögunnar.

Spurning er svo hvort það hvað þetta er ólíklegt sje ekki nánast sönnun þess að það sje enginn sjerstakur 'æðri' tilgangur með lífinu (og þar með væri þá líka komin sönnun fyrir því að það sem vjer sögðum hjer kl. 14:26 væri staðreynd).

6/12/08 01:02

Regína

Iss, ef einhver myndi finna út hver tilgangur lífsins raunverlulega er, þá myndu bara sumir trúa henni/honum.

6/12/08 02:02

Villimey Kalebsdóttir

Æjj nei, lífið er eiginlega frekar tilgangslaust.

6/12/08 04:02

Garbo

Nei, nei Villimey...etum , drekkum og verum glaðir!

6/12/08 01:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Ekki skal ég fullyrða um tilgang sjálfs l í f s i n s – enda hef ég litla þekkingu á innviðum þess. Oft & margsinnis hefur mér afturámóti orðið hugleikinn tilgangur annars fyrirbæris – t i l v e r u n n a r sem slíkrar. Það hygg ég, fyrstu sýn, að gæti verið öllu einfaldari pæling, enda lít ég á þetta tvennt sem tvennt ólíkt & tiltölulega aðskilda hluti. (Vel má hugsa sér líf án tilveru, en örðugt gæti verið að hugsa sér tilveru án lífs...)

Í mínum augum er tilgangur tilverunnar einfaldlega að fylla uppí það tóm sem hún lætur okkur í té. Aðferðir við slíka upp-fyllingu geta verið jafnmargar & einstaklingarnir sem tilveran skorar á með þessum hætti, en tilgangurinn er ævinlega sá sami – að fylla uppí tómið. Vitaskuld tekst þetta misvel einsog gengur, en það breytir þó öngvu um hinn ótvíræða tilgang tilverunnar.

Þegar betur er að gáð... ætli tilgangur lífsins sé þá ekki fyrstogfremst að knýja áfram tilveruna ?

6/12/08 01:02

Þarfagreinir

Já, þetta er þörf ábending - líf og tilvera er ekki alveg það sama. Líklegast er réttast að segja að í pistlinum hafi ég verið að fjalla um tilgang tilverunnar, enda notaðist ég við það orð inn á milli. Forsetinn færði umræðuna hins vegar yfir í tilgang lífsins sem slíks - og það má vel vera rétt að þess helsti eða jafnvel eini tilgangur sé að knýja áfram tilveruna.

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.