— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Þarfagreinir
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Dagbók - 8/12/04
Símaraunir

Víti til varnaðar

Eins og þeim sem slysast til að lesa pistlasafn mitt á alnetinu er kunnugt, þá stend ég um þessar mundir í því stórvægilega verkefni að flytja inn í hið fyrsta húsnæði sem ég get kallað mitt eigið. Því fylgja alls kyns vandamál og erfiðleikar, sem oftar en ekki geta verið afar pirrandi.

Eitt að því sem hefur valdið mér töluverðum höfuðverk er að reyna að fá símalínu í blessað kotið. Nú á ég farsíma eins og flestir Íslendingar, og sé enga sérstaka ástæðu til að hafa heimasíma líka. Slíkir geta líka verið einstaklega varasamir, eins og fram kemur í einum af mínum eldri pistlingum. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa slíka línu til þess að geta nýtt sér undur svokallaðs ADSL, en það er tækni sem nota má til þess að tengjast áðurnefndu alneti. Þar sem ég er einstaklega fíkinn í allt sem við kemur þessu neti, þá er það algjört forgangsatriði að slíkt sé til staðar áður en ég flyt mig um set.

Miklar voru því raunir mínar þegar ég tengdi nýja nettengibúnaðinn minn við símadós í slotinu, án nokkurs árangurs. Ég prófaði aðra dós, en allt kom fyrir ekki. Liðu síðan nokkrir angistarfullir dagar þar sem ég prófaði ýmis úrræði. Ég kom með síma annars staðar frá og tengdi í dósirnar, en fékk engan són. Ég hringdi í Landsímann og kvartaði. Ég skrifaði þeim fyrirspurn. Það eina sem ég fékk að heyra frá mönnum þar var að eftir því sem þeir sæju best, þá væri allt í stakasta lagi - tengingin væri góð og vel nothæf.

Ég var því orðinn frekar úrkula vonar þegar ég mætti í kvöld með enn eitt símtækið, í þeirri veiku von að það virkaði betur en önnur þau tæki sem ég hafði prófað að tengja hingað til. Bölvandi vanhæfu ösnunum hjá símafyrirtækinu í sand og ösku steig ég enn og aftur inn í nýju íbúðina og hófst handa við að tengja það í dósir og reyna að fá són. Ekkert gekk.

Þegar ég var í þann mund að grípa til ofbeldis gegn þeim fáu húsgögnum sem eru komin á staðinn, þá var eins og ég fengi vitrun að ofan. Í húsinu var þriðja símadósin - sem ég hafði aldrei prófað! Ég ákvað að ég hefði engu að tapa og tengdi símtækið í þessa þriðju dós. Hallelúja! Ég heyrði þann ljúfasta són sem ég hef á ævinni heyrt.

'Hvert var þá vandamálið?', spyrja lesendur þá væntanlega. Ef þeir gera það ekki, þá varpa ég þeirri spurningu fram sjálfur og svara henni um hæl. Svarið kann að koma mörgum á óvart:

Þriðja dósin, sú sem ég var aldrei búin að prófa áður, er sú eina sem er tengd við símalínu. Hinar tvær eru tengdar saman, en ekki við þessa þriðju. Úr þriðju dósinni liggur snúra sem eitt sinn tengdist annarri hinna, en hún hefur dottið úr sambandi á meðan á málningarvinnu stóð.

Þar hafið þið það, lesendur góðir. Takið ykkur þetta til fyrirmyndar. Næst þegar þið bölvið vanhæfni og trassaskap annarra, lítið ykkur nær. Svarið gæti vel mögulega verið sáraeinfalt - og pínlegt.

   (37 af 49)  
8/12/04 17:00

albin

Bara óheppni, en svekkjandi...

8/12/04 17:00

Ívar Sívertsen

Nei, þetta er allt eitt stórt samsæri! Síminn stendur fyrir þessu! Líka Landsvirkjun og Bústaðakirkja!

8/12/04 17:00

Steinríkur

Blindur er netlaus maður

8/12/04 17:00

feministi

Netvitið verður ekki í askana látið.

8/12/04 17:01

Skoffín

Það er eins og það sé ekki hægt að gera neitt svona án þess að það sé vesen. Ég verð bara þreytt á því að lesa þetta, svei mér þá.

8/12/04 17:01

Isak Dinesen

Bella símamær er víst á lausu.

8/12/04 17:01

Sverfill Bergmann

Hún er nú lauslætisdrós.

8/12/04 17:01

Lopi

En þetta hafa sko ekki verið lauslætisdósir.

8/12/04 17:02

Vatnar Blauti Vatne

Bella er engin lauslætisdrós. Hún er siðprúð miðaldra kona sem bakar betri lummur en nokkur önnur.

8/12/04 18:00

Þarfagreinir

Nei, þetta voru ekki lauslætisdósir. Þær héldu sig alveg út af fyrir sig.

Þarfagreinir:
  • Fæðing hér: 5/10/04 00:11
  • Síðast á ferli: 13/12/20 16:11
  • Innlegg: 13121
Eðli:
Ég er Þarfagreinir. Ég hef mikið yndi af því að þarfagreina. Ef ykkur vantar mann til að sjá um þarfagreiningarþarfir ykkar, þá er ég sá maður.
Fræðasvið:
Þarfagreining fyrst og fremst. Einnig etanólrannsóknir, orðkynngi, algrím, og listfræði.
Æviágrip:
Ég var eitt sinn týndur og sótti Menntaskólann í Reykjavík. Síðan gerðist ég tossi og fór í Fjölbraut í Breiðholti og hóf etanólneyslu. En það var ekki fyrr en í Háskóla Íslands að ég fann mína sönnu hillu í lífinu, en það er auðvitað hið merka fræðasvið er þarfagreining nefnist. Fyrir áhugasama um þarfagreiningu þá er það fyrst að nefna hún kennd innan tölvunarfræðinnar. Reyndar er ýmislegt fleira gagnslaust rusl kennt þar; mín skoðun er sú að fella mætti allt slíkt niður og kenna þarfagreiningu eingöngu, enda er það göfugasta fræðasvið þessa heims, sem og allra annarra.

Nú í dag stunda ég fræði mín við virðulega stofnun í höfuðstað Íslands. Samhliða því eyði ég óhemju miklum tíma í rannsóknarvinnu ýmis konar á Alnetunum. Miðar þetta allt að því að ég uppfylli mitt æðsta markmið, sem er að verða Yfirþarfagreinir alheimsins.