— GESTAPÓ —
Glúmur
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 10/12/05
Kárahnjúkar

Hér hefur undanfarið borið á nokkrum einstaklingum sem virðast hafa skriðið undan steini þess vissir um að nú væri loksins óhætt að mæra Kárahnjúkastíflu. Nú veit ég ekki hvort þeir hafa rétt fyrir sér en ég mun ekki taka undir með þeim - síður en svo.

Þessi gjörningur er einhver sá al vanhuxaðasti sem við sem þjóð höfum borið ábyrgð á.
Þarna er verið að leggja loka hönd á framkvæmd sem afkomendur okkar munu ekki með nokkru móti geta skilið og munu telja til marks um hverskonar afturkreistingar og aumingjar við hljótum öll að hafa verið.

Hálendi Íslands er hrjóstrugt og ekki mikið um gróður.
Ef skoðuð er mynd af gróðri á vatnasvæði virkjunarinnar og síðan merkt inn á myndina það landsvæði sem fer undir vatn þá sést vel hvað er verið að gera þarna á svæðinu. Það er verið að þurrka út megnið af þeim fátæklega gróðri sem er að finna á þessu svæði. Mikil framför það.

Virkjunin mun ekki verða jafn langlíf og ferskvatnsvirkjanir landsins eins og Sogs virkjanirnar sem hafa malað gull í langan tíma og munu halda áfram að gera löngu eftir að Kárahnjúkavirkjun verður ónothæf.
Rafmagnið er selt á SVO lágu verði að hagnaður landsvirkjunar af þessu verður enginn.
Enginn hagnaður - eða þið skuluð eiga mig á fæti, sjáið til!

Fyrir hverja erum við þá að þessu? Fyrir amerískt stórfyrirtæki, þeir græða mest. Svo græðir sveitarfélagið og líka þeir sem verða svo lánsamir að vinna þarna, í krabbameinsvaldandi vinnuumhverfi á þunglyndisvaldandi vaktaplani.

Til að hagnast verður að færa fórnir, það er algjörlega rétt. En í þessu tilviki er hagnaðurinn svo smánarlega lítill að hann réttlætir ekki fórnina. Hver er til í að sökkva Ásbyrgi fyrir 300 manna álver? Eða ryðja Hallormsstaðaskóg fyrir 50 manna trjákvoðuverksmiðju sem myndi loka þegar skógurinn væri búinn?

Í fyrsta lagi hefði átt að hanna stífluna þannig að hægt væri að hreinsa úr lóninu með því að hleypa út vatni gegnum hliðarlúgur. Slíkt hefði lengt líftíma virkjunarinnar verulega og minnkað þverheimsku aðgerðarinnar talsvert.
Í öðru lagi hefði átt að finna iðnað sem tilbúinn er að borga hærra verð fyrir raforkuna. Eða iðnað sem skapar fleiri störf fyrir minna magn af raforku.
Fólk verður að gera sér grein fyrir hversu alfarið heimskulega mikið magn af peningum fer í þessa stífluframkvæmd. 116 milljarðar! Þarna hefur verið reist 116 milljarða skömm til að skapa nokkur hundruð ný störf.
Vitið þið hvað 116 milljarðar er mikill peningur?
Klassíska reikningsdæmið er að deila því á þjóðina 116.000.000.000/300.000 = 386.666
Sem fyrir eina þriggja manna fjölskyldu gerir 1.160.000 - Fyrir þennan pening mætti gera SKRATTI margt sem krefst þess ekki að sökkva einu af fáu áhugaverðu landsvæðunum í þessum landshluta.

Nú ætla ég að gera nokkuð sem er eftirlæti mitt en það er að leggja andstæðingum mínum orð í munn - þetta gerir þá alltaf arfavitlausa og vekur mér undantekningalaust nokkra kátínu.

En hvað þá?! Segja þeir. "Þið" gerið ekkert nema rakka niður og leggið ekkert annað til.

Svona tal er til marks um algjöra auðn sem fyrir er í hugum þeirra sem halda því fram að hér sé ekkert hægt að gera nema byggja hvert álverið á fætur öðru. Ef einhver virkilega heldur því fram að hér sé ekkert betra að gera en að bræða ál þá skal sá hinn sami vinsamlegast opinbera það með svona tali.

Ég get nefnt eitt afar freistandi dæmi um orkufrekan iðnað sem hér ætti frekar að koma upp - gagnvarpsletiarvélarapparatið Google eyðir á hverju ári um 7-14 milljörðum króna í rafmagn, þessi kostnaður mun ekkert gera nema aukast á komandi árum. Svona iðnað á að styðja við á Íslandi, hann mengar ekki, hann reiðir sig á menntað vinnuafl og hann myndi festa Ísland betur í sessi sem tæknilega leiðandi þjóð.

Annað dæmi um betri leið væri að framleiða hér VÖRUR í stað þess að vera að gefa hér rafmagn til að forvinna hráefni sem stoppar hér stutt við.
Það vantar hér stórhuga einstaklinga sem sjá framtíð Íslands í einhverju öðru heldur en að sökkva því fyrir dúsu.
Eitt dæmi um slíka vöru væri rafbílar. Ekkert land í heiminum er betur statt til að rafvæða bílaflotann! Það er heldur ekkert sem hindrar okkur í því nema okkar eigin minnimáttarkennd og skortur á stórhuga einstaklingum - en það er efni í annað rit.

En "þetta lið" skilur bara ekki HVAR PENINGARNIR VERÐA TIL" - svo ég vitni aftur í pollóða virkjunarstuðninga, sannfærða um æðri skilning á tannhjólum hagkerfisins heldur en heimskir mótmælendurnir hafa.

Þessu er auðsvarað, peningarnir verða til í verðmætasköpun. Verðmæti skapast á þrjá mismunandi vegu. Verðmæti geta verið fundin, eins og með fiskveiðum eða námagreftri. Verðmæti geta verið sköpuð eins og með landbúnaði eða hugverkum. Og að lokum geta verðmæti verið aukin með vinnslu eða þjónustu. Það sem gert er í álveri er að flutt er inn erlent hráefni, það unnið í frumstig vöru, ál, og það er síðan flutt úr landi sem verðmætari hlutur og seldur erlendum kaupahéðnum. Aukið verðmæti álsins skilar sér í launum til starfsmanna og smánarlega lágum greiðslum fyrir rafmagn. Þarna “verða peningar til" svo að skilja. Vandamálið með álver er ekki að þar “verði peningar til”, vandamálið er að þar verða ekki nærri því nógu miklir peningar til. Þarna er verið að nota glópslega mikið rafmagn í skelfilega litla verðmætasköpun. Miklu nær væri annað hvort að nýta það til að skapa meiri verðmæti hér eða til að auka meira verðmæti okkar eigin hráefna áður en varan er seld. Eitt sem gleymist líka oft er að náttúran okkar er líka hráefni, okkar eigið hráefni, það þarf ekki að flytja hana inn. Ferðamannaiðnaðurinn okkar sér svo um að breyta þessu hráefni yfir í "vöru" með þeirri þjónustu sem boðin er erlendum ferðamönnum. Hvað sem verði á áli mun líða næstu árhundruð þá er eitt hráefni sem mun ekki lækka í verði hjá komandi kynslóðum og það er óspillt náttúra. Verðmæti hennar eykst hratt og mun ekki lækka.

Ég get líka bent mönnum á hvar peningarnir verða EKKI til, peningarnir verða EKKI til með því að greiða vexti af himinháum erlendum lánum. Flest okkar hafa einhverja reynslu af því hvernig lántaka fer með peningana okkar. Og fyrst við erum að tala um vaxtagreiðslur, vitið þið af hverju þið eruð að borga 20% í yfirdráttarvexti? Það er að stórum hluta út af þessari al heimsku framkvæmd, það eitt og sér er nóg til að gera mig reiðan. Við sem samfélag njótum svo heldur ekki góðs af þeim peningum sem fer í launagreiðslur til erlends vinnuafls sem kemur hingað í takmarkaðan tíma til að safna peningum og flytja svo aftur heim með sjóðinn. Peningarnir verða ekki til með því að geta ekki selt koltvísýringskvóta samkvæmt Kyoto samkomulaginu því að við höfum fært erlendum stórfyrirtækjum þá á silfurfati. Þetta er allt ein andskotans forheimska.

En "Það er of SEINT að vera að mótmæla" kveina pollmennin.

Fyrir það fyrsta skal enginn segja mér hverju ég má mótmæla og hverju ekki - það er aldrei of seint að mótmæla, með mótmælum eru líkurnar minnkaðar á því að sambærilegir hlutir gerist aftur. Þeir sem nauða um að það sé of seint að mótmæla eyðileggingu hálendisins eru í mínum augum jafn skynsamir og ímyndaður afglapi sem myndi halda því fram að það væri of seint að mótmæla misnotkun barna - þar sem búið væri að misnota þau!

Í kvöld verður Reykjavík myrkvuð og er það vel. Þið getið bölvað ykkur upp á það að ég mun sitja í myrkrinu í kvöld og bölva þeim lítilmennum sem komið hafa nálægt því að lítilminka okkur öll með því að selja íslenska náttúru svona ódýrt. Fjallkonan okkar fríða hefur af þessu fávísa fólki verið gerð að stóriðjuskækju og engu öðru. Megi þau öll verða jörðuð í aurum Hálslóns þegar þeirra tími er upp urinn.

   (13 af 24)  
10/12/05 04:01

Haraldur Austmann

Ég lýsi mig hjartanlega sammála hverju orði.

10/12/05 04:01

B. Ewing

[Fellur í stafi. Prílar upp úr stafahrúginni aftur] Ertu að semja bók? Er hægt að kaupa eitt eintak?

10/12/05 04:01

Þarfagreinir

Bravó. Hér kemur ýmislegt fram sem ég hafði velt fyrir mér í sambandi við þessa ömurlegu virkjun, og fleira til. Kostnaðinn á hvert mannsbarn á Íslandi reiknaði ég til að mynda einu sinni líka. Hvernig í andskotanum er hægt að réttlæta hann, þegar gróðinn er jafn lítill og raun ber vitni, og svo stóru landsvæði sökkt að auki?

Á meðan er ekki rassgat að gerast til að mynda í þeim iðnaði sem þú nefnir og ég stafa við, upplýsingatækniiðnaðinum. Fyrst að stjórnvöld líta á það sem sitt hlutverk að byggja upp atvinnulífið hér á landi og 'bjarga' öllum fjáranum (sem ég er sjálfur efins um að sé í raun þeirra hlutverk), af hverju er ekki meira gert á þessu sviði? Írland ætti að geta verið okkur góð fyrirmynd ... það eitt sinn fátæka land er núna Mekka tölvunördisma.

En nei ... álver skal það vera. Það er það eina sem getur 'bjargað okkur'. Helst eins mörg og komast fyrir á skerinu.

Hafðu þakkir fyrir þetta rit ... bara ef fleiri hugsuðu eins og þú, Glúmur.

10/12/05 04:01

Offari

Þetta var ekki svo svakalega orðljótt hjá þér. Ég get skilið mótmæli þeirra sem fara um þetta svæði en fólk sem mótmæliir hvarfi á landi sem það hefur aldrei séð og hefði hvort eð er aldrei ætlað að sjá er mér óskiljanlegt þeir sem hafa lagt sér leið þarna uppeftir til að missa ekki af þessari dásamlegu náttúru sem á að sökkva verða flestir fyrir vonbrigðum því þessar perlur eru ekki eins æðislegar og látið er af.

10/12/05 04:01

Grámann í Garðshorni

Þrefalt húrra fyrir þessum skrifum. Þetta þyrfti helst að skrifa með gyllingu og hengja upp í Alþingishúsinu.

10/12/05 04:01

Haraldur Austmann

Til eru þeir sem segja landið ljóta eyðimörk og því allt í lagi að sökkva því en hafa þó aldrei komið þangað.

10/12/05 04:01

Anna Panna

Jahá. Ég hef bara engu við þetta að bæta, þetta er nákvæmlega það sem er að þessari framkvæmd, það er verið að fórna of miklu fyrir of lítið. Takk fyrir að setja þetta svona vel upp, þetta er með betri skrifum sem ég hef séð um þetta efni.

10/12/05 04:01

Afturhaldskommatittur

Gjörsamlega brilliant skrif.

P.S. Í dag er svartur dagur.

10/12/05 04:01

Golíat

Ógaman að lesa moksturinn úr skítahaugum sálar þinnar Glúmur. Það er að skemmta skrattanum að vera að elta ólar við bullið í þér en samt, hvenær er honum nógu skemmt?
Það gróðurlendi sem fer undir Hálslón er sára-, sáralítið. Miðað við það sem er verið að græða upp á Hólssandi, Mývatnsöræfum og víðar þá er það peanuts. Í hinum margfræga Kringilsárrana td er mjög lítill hluti af grónu landi á förum undir vatn. Langstærsti hluti þess ofbeitta og útskitna skika verður ósnertur nema af gæsaplágunni, sem bæ the vei ætti að veiða niður um ca 60-70% til að minnka áníðslu hennar á viðkvæmu gróðurlendi á hálendinu. Það er ömurlegt að sjá hvernig heiðagæsin rífur stráin upp með rótum og eyðileggur þannig þá grasbletti sem hún bítur á meðan sauðkindin kroppar grasið en lætur ræturnar í friði. Endilega segið Herdísi Þorvaldsdóttur og félögum frá því, Glúmur þú ert áreiðanlega á kaffíhúsarölti með þessu liði, stútfullur af hroka og menningu.
Haraldur, til eru þeir sem dásama svæðið en hafa aldrei komið þangað, éta það eftir lýðskrumurum og sögufölsurum eins og Andra Snæ og Ómari sem telja sjálfa sig yfir náttúruvernd og lög hafna. Ómar með sín vélknúnu ökutæki friðlandi þar sem hann ætlar að sökkva því, væntanlega með rafgeymi olíum og öðru.
Glúmur, það er hámarks ósvífni og móðgun við okkur Austfirðinga að halda því fram að helstu náttúruperlur svæðisins séu á leið undir Hálslón. Augljóst að þú hefur þína vitneskju frá fölsurunum. Þér til uppfræðslu get ég bent þér á eftirfarandi:
Snæfell fer ekki undir.
Minnstur hluti Kringilsárrana fer undir - ekki Hraukarnir.
Laugavellir fara ekki undir.
Minnstur hluti Hafrahvammagljúfurs fer undir, þvert á móti verður mun auðveldara og skemmtilegra að njóta þess.
Kverkfjöll fara ekki undir.
Heimskan fer því miður ekki undir, enda uppspretta hennar ansi langt frá stíflustæðinu.
Varðandi það að farið sé að bera á nokkrum einstaklingum sem telja að óhætt sé að mæra þessa mestu framkvæmd Íslandssögunnar, þá segji ég heyr á endemi, inn í hvaða grængolandi fílabeinsturni sjálfumgleðinnar og heimskunnar hefur þú verið?
Er þér ekki ljóst að þrátt fyrir gríðalega stærð framkvæmdarinnar og þrátt fyrir að við séum að fórna þarna hluta af náttúru lands okkar þá hefur ótrúlegur einhugur ríkt á Austurlandi um málið og fólk verið alls óhrætt við að sýna stuðning í verki. Þeir sem mótmælt hafa virkjuninni og álverinu á svæðinu hafa verið innfluttir atvinnumótmælendur sem lognir hafa verið fullir um eðli framkvæmdarinnar og afstöðu heimamanna. Lognir fullir af fólki sem einskis svífst til að koma höggi á þá sem á undan fara við að byggja upp efnahag og atvinnulíf landsins. Virkjunin og álverið er fyrsta alvöruátakið sem gert er til að styðja við byggð á Austurlandi og kemur til með að verða sterkt mótvægi við segulinn á suðvesturhorninu sem að því er kominn sporðreisa landinu. Ef heimskan og hrokinn væru mælanleg á vog þá væri höfuðborgin því miður undir vatni, söltu.
Bestu kveðjur í bæinn.

10/12/05 04:01

Nermal

Byggðastuðningurinn ernú ansi takmarkaður af þessari frammhvæmd. Íslendingum hefur FÆKKAÐ á Austurlandi. Í stað þeirra koma útlendingar sem sennilegast borga flestir skatta í sínu heimalandi. Arðseminn af virkjuninni er nánast núll.. enda lét Valgerður Sverris og stjórnarmenn Landsvirkjunnar álmógúlana taka sig feitt í ósmurðann analinn. Þetta félagsrit er snilld !!

10/12/05 04:02

Hrani

Ég segi: Húrra!!!
Fágætlega frábært fjelagsrit.

10/12/05 05:00

Hakuchi

Þetta er aldeilis smellin grein, uppfull af heilagri reiði en þó að mestu vel rökstudd.

Persónulega hefur mér verið merkilega sama um þetta mál. Ég ríf ekki úr mér hárið yfir landinu sem fer undir vatn og dagurinn í dag var ágætur. Þetta verður að mestu gleymt eftir nokkur ár.

Mér hefur hins vegar aldrei líkað framkvæmdin en það er heldur út af þeim ríkisstalínistafnyk sem henni fylgir sem og gríðarlegu álagi sem hún hefur á hagkerfið í heild með tilheyrandi ruðningsáhrifum og vaxtabyrðum og verðbólgum. Svo er verðmætasköpunin, eins og Glúmur bendir á, hverfandi lítil miðað við fyrirhöfnina.

Þetta er fyrst og fremst ríkisstutt byggðarþróunarverkefni. Raforkan (þaðan sem alvöru peningurinn á að koma) var mjög líklega seld fyrir slikk. Þó ég stórefist um að Landsvirkjunarmenn séu svo vitlausir að tapa á henni. Ég held hins vegar að þeir þori ekki að segja frá því hversu lágt verðið er af því þeir hafa líklega samið skammarlega frá sér. Mig grunar nefninlega að Landsvirkjunarmenn hafi farið í algert panikk þegar Norsk Hydró hætti við þátttöku á sínum tíma og þeir hóruðu sig því allt of lágt frammi fyrir þeim næsta í röðinni (Alkóa).

Það sem mér líkar hvað verst er einmitt leyndin í þessu máli. Ekkert má vita. Ekkert um verð. Ekki sá ég mikið um vandaðar greiningar á heildaráhrifum fyrir þjóðarbúskapinn (vaxtaáhrif á hagkerfið í heild, umhverfiskostnað, ábati af auknum útflutningi, staðbundin velferðaraukning á Austurlandi etc.). Svona bjánaskapur gengur ekki lengur. Í Noregi hafa menn þó skömm til að gefa upp verðin sín á raforku.

Umræðan sjálf hefur verið pirrandi og farið hálfa leið með að breyta mér, borgarbarni dauðans, í argasta borgarhatara. Sjálfsuppksafna klisjulistapakkið hefur farið einstaklega í taugarnar á mér með sínum málflutningi (sem þeir hafa fullan rétt á að flytja og ég er ekki að tala um alla sem eru á móti virkjun, þið vitið hverja ég á við) og hef ég oftar verið nálægt því að æla út af hrokanum sem vellur upp úr slíku fólki gagnvart Austfirðingum. Þar sem þetta er byggðarpólitík og snýst að mestu um að halda lífi í deyjandi byggðarlögum hef ég ekki heyrt eina einustu nothæfu hugmynd um hvað eigi að gera í staðinn. Nei, nei, Austfirðingar eiga bara að hætta að vera hræddir og nota ímyndunaraflið. Það á að mennta sig því allir vilja einmitt og geta fengið sér mastersgráðu í hugbúnaðarverkfræði og fengið stórkostlegar hugmyndir. Ímyndunarafl þeirra sem standa frammi fyrir deyjandi byggðarlagi, hverfandi vinnu sem áður gaf vel (sjór) fyrir fólk án háskólagráðu virkar nefninlega mjög vel. Ímyndunaraflið leiðir það í Grafarvoginn. Það er eina vitið.

Það gleymist líka að þessi fáu störf sem skapast eru mjög vel launuð störf og ekki þarf að vera með háskólagráðu til að fá þau. Slík störf eru að hverfa af landinu og umfram allt landsbyggðinni. þess vegna skil ég afar vel að Austfirðingar vilji ólmir störfin og virkjunina. Ég held að klisjupakkið skilji það ekki alveg. Það eru bara ekki allir í heiminum sem vilja eða eru í kringumstæðum til læra eitthvað skelfilega fínt í háskóla svo það geti notað 'mannauðinn' til að skapa eitthvað skelfilega frumlegt (flestir enda hjá ríkinu grunar mig í ofborguðum sérfræðistörfum)

Kárahnjúkar og álverið er ríkisstyrkt framkvæmd til að skapa hátt launuð störf sem krefjast ekki ótrúlegrar menntunar. Kostnaðurinn er hins vegar of mikill. Fyrst ríkið hefur styrkt þetta (sem það gerir í gegnum Landsvirkjun) hefði það miklu heldur átt að fara aðrar leiðir. Ekki kasta peningum eins og áður í glataða byggðaþróun heldur laða að erlenda fjárfestingu (verksmiðjur) með gulrótum og skattaívilnunum á landsbyggðinni. Gera t.d. eins og Írar hafa gert. Þar hafa mörg hátæknifyrirtæki og önnur framleiðslufyrirtæki samsetningarverksmiðjur sem er lokastopp fyrir Evrópumarkað. Fullt af góðum störfum (ekki fyrir listapakkið heldur alvöru fólk) án of mikillar mengunnar og vesens. írland er betur sett út af ES aðild en Ísland er betur sett en önnur lönd út af EES. Það ætti að vera hægt að plata þó ekki væri nema eina Tójóta verksmiðju hingað til lands. Það gæti bjargað einum fjórðungi (en bílaverkamannsstörf eru vel launuð).

Afsakið samhengislausa ræpuna.

10/12/05 05:00

Kondensatorinn

Vel mælt.

10/12/05 05:00

Bölverkur

<i>Þessi gjörningur er einhver sá al vanhuxaðasti sem við sem þjóð höfum borið ábyrgð á.</i>
Afsakið, við erum ekki þjóð, heldur ríki. Æskilegast væri þó að hér væri samfélag.

10/12/05 05:00

Golíat

Þetta eru allt saman bollaleggingar um raforkuverðið, vegna þess að því hefur verið haldið leyndu. Það sem einkennir andmælendur framkvæmdarinnar og ekki síst vinstri græna er afstaðan; allir eru illa meinandi eða amk fífl þangað til annað kemur í ljós. Fólk eins og Valgerður sem hefur unnið í þessu máli af heilindum og í þökk stórs meirihluta þjóðarinnar er ausin aur og svívirðingum.
Það er hins vegar ekki allt stórkostlegt við þessa framkvæmd, raflínurnar eru frekar ljótar og mikið áberandi, sérstaklega í Reyðarfirði.
Hins vegar fylgir þessu margt sem er ansi hreint jákvætt; knattspyrnuhöll á Reyðarfirði, bíó á Reyðarfirði, sundlaug á Eskifirði (fræg), stórbættar samgöngur milli byggðarlaga td Fáskrúðsfjarðargöng, góðir vegir um hálendið norðan jökuls, fasteignamarkaður, atvinnumarkaður, sameining sveitarfélaga, bjartsýni, ungt fólk og barneignir.
Varðandi íbúaþróunina Nermal, hvernig hefði hún hún verið ef framkvæmdirnar væru ekki í gangi?
Nú á meðan á framkvæmdunum stendur er hér gríðarlegur fjöldi erlendra verkamanna sem flytur lögheimili sitt hingað og borgar hér skatta og skyldur. Íslendingar sem hér eru á vertíð flytja hins vegar ekki lögheimili sitt. Þegar álverið tekur til starfa hættir vertíðarstemmningin fljótlega og starfsmennirnir flytja búferlum, þe þeir sem ekki koma af svæðinu.
Bölverkur, hér á Austurlandi er samfélag, meira að segja gott samfélag. Að auki lifum við mörg hver hérna í nánu og góðu sambandi við náttúruna og þurfum ekki að friðþægja með mótmælum og múgæsingu gegn skynsamlegri nýtingu náttúrugæða.
Að lokum legg ég til að hvalveiðar verði hafnar strax í haust, leyfilegt verði að skjóta álft og heiðargæs og hreindýrum verði fækkað stórlega.
Góðar stundir.

10/12/05 05:00

Gvendur Skrítni

Það hefði auðvitað bara átt að byggja kjarnorkuver

10/12/05 05:01

Grútur Loðfjörð

Frábært félagsrit.
En svo fór eins og við var að búast að einhverjir myndu andmæla ritinu. Að sjálfsögðu var það gert eins og við var að búast, með gífuryrðum, skítkasti og hroka. Sannleikanum er hver sárreiðastur.
Að láta það út úr sér að enginn megi vera á móti drekkingu landsins nema hafa komið þangað er álíka vel hugsað og segja að það megi ekki vera á móti misnotkun á börnum nema þekkja þau.
Og að halda því fram að það sé lýðskrum og sögufölsun að sýna Íslendingum myndir af landinu sem hverfur eru rökþrot sem dæma sig sjálf og ekki síst þann sem skrifar slíkt.
Og áfram heldur barnaskapurinn hjá Golíat: Snæfell fer ekki undir lónið! Kverkfjöll fara ekki undir lónið! Hvað segirðu maður? Af hverju hélstu ekki áfram og skrifaðir t.d. að Öræfajökull færi ekki undir lónið? Hvílík þrot!
Minnstur hluti Kringilsárrana fer undir segir Davíð.... nei afsakið Golíat. Það má kalla 1/4 minnsta hluta ef menn vilja. Mér finnst það mikið.
Það virðist vera dæmigert fyrir svona gasprara að hafa ekki kynnt sér það sem þeir skrifa um. Gott dæmi er dýrafræðikunnáttan. Golíat minn: Gæsir rífa gróður ekki upp með rótum og auk þess eru þær ekki friðaðar.
Ég er kominn miklu lengra en ég ætlaði, en ég ætlaði bara að hrósa vel skrifuðu og vel hugsuðu félagsriti, en missti mig svo aðeins útfyrir það.
Eitt var reyndar rétt hjá Golíatinum, en það er að heimskan fer ekki undir vatn. Þykir mér það miður, því þá slyppum við við að sjá fleiri pistla eins og þann sem Golíat skrifaði. Heimskan er hins vegar augljóslega nær Kárahnjúkum en Golíat gerir sér grein fyrir.
Það er sorglegt að þetta virðist vera mentalítetið sem við Íslendingar erum að púkka undir þar eystra.
Skrif Golíats eru grunsamlega lík skrifum Eskfirðings nokkurs í Moggann um sama málefni, en hann endaði kjánalega grein sína með orðunum: Og Smári Geirsson syngur betur en Björk!
Afsakið lengdina.

10/12/05 05:01

Golíat

Ég er ekki sammála þessum Eskfirðingi sem þú minnist á, Björk syngur ágætlega og betur en Smári. En heldur hefur ferillinn hennar blessunarinnar verið niður á við síðan hún söng með Guðmundi Steingrímssyni.
Það er rétt hjá þér Grútur að heiðagæsina má skjóta frá 20. ágúst - 31. marz - en það sem ég vildi sagt hafa er að það er full þörf á að veiða hana niður. Tek það reyndar ekki að mér sjálfur. Þú hefur ekki gengið mikið um hálendi Íslands ef þú hefur ekki séð hvernig heiðagæsin fer með gróðurinn.
Þegar ég tala um lýðskrum og falsanir á ég við þegar menn td sýna myndir af náttúrufyrirbrigðum sem ekki eru lengur til eins og steindrangur nokkur í Jöklu sem hvarf fyrir hennar tilverknað fyrir meira en 2 árum og síðan láta menn eins og sökkva eigi fyrirbærinu, Þannig hefur verið látið með Hafrahvammagljúfur. Síðan er tvískinnungurinn hjá þessu liði; Ómari leyfist það sem sauðsvörtum almúganum mundi aldregi líðast. hvernig gekk ekki mótmælaliðið um náttúruna þar sem þau voru með tjaldbúðir sínar í sumar - skildi allt eftir í drasli. Sama gildir um draumalandsbullukollinn þar sem hann slær niður sínum tjöldum.
Grútur, með upptalningu minni á náttúrufyrirbærum sem ekki fara undir þá beitti ég kunnu stílbragði, svokallaðri kaldhæðni, e. ironia. Það er etv ekki von á að svona uppskrúfuð mannvitsbrekka hafi skilning á því.
Það er alveg merkilegt annars hvað menn eru sammála þvælunni í Glúm hérna, sennilega er mikið til í því að Glúmur sé allir nema etv við Hakuchi.
En Grútur - ég er þó ánægður með eitt í þínu fari, það er ekkert m í seinna nafninu, mér hefði þótt frekar sorglegt ef þú hefðir kennt þig við þann fallega fjörð Loðmundarfjörð (Loðmfirðingar koma þaðan, þó ég geri ekki ráð fyrir að lið með þitt mentalitet viti það).
Afsakið að ég nenni ekki að elta frekari ólar við vitleysuna í bili.
Sjáumst á föstudaginn!

10/12/05 05:01

Skabbi skrumari

Mjög skemmtileg umræða... (ekki sagt í kaldhæðni)... ég hef lesið þetta allt saman og mér finnst mest allt komið fram... mikið til er ég sammála Glúmi, en einnig kemur Golíat með góða punkta, þó ég sé minna sammála honum... skál félagar og góða helgi...

10/12/05 05:01

Haraldur Austmann

Ég lýsi mig hjartanlega sammála hverju orði Golíats.

10/12/05 05:01

Hörgull Eystan

Heyr, heyr! Ég er alfarið sammála.

31/10/05 01:01

Hexia de Trix

Takk Glúmur, frábært félagsrit!

Framan af átti ég erfitt með að gera upp hug minn varðandi þessa framkvæmd. Það helgaðist aðallega af því að mig vantaði upplýsingar um málið. Meinið er nefnilega þetta: Stór hluti Íslendinga fékk litlar sem engar upplýsingar um framkvæmdina og forsendurnar.
Þann 13. september 2001 vissum við miklu meira um hryðjuverkaárásina á NY heldur en við vitum núna - mörgum árum seinna - um framkvæmdir og forsendur fyrir virkjun og álveri á Austurlandi. Hvers vegna í grængolandi golþorskum voru og eru ekki allir fjölmiðlar uppfullir af kortum og teikningum og súluritum sem gátu hjálpað almenningi að skilja stærð málsins? Hvar eru allar klisjukenndu viðmiðunarmyndirnar eins og Hallgrímskirkja fótósjoppuð inn í tilvonandi lón? Ha?

Er nema von að almenningur hafi verið svona seinn að taka við sér.

Og þegar ég meina almenningur, þá á ég við þann stóra hluta Íslendinga sem ekki eru:
a) tilvonandi starfsmenn virkjunar og álvers
b) ráðamenn þjóðarinnar
c) "kaffihúsahangandi listamenn"

1/12/07 20:00

Jóakim Aðalönd

Jæja, er þetta mál ekki flestum gleymt? Þetta er alla vega ágætis laumupúkaþráður...

4/12/07 13:01

hvurslags

Nei þetta er mér ofarlega í huga og alltaf jafn gaman að endurnýja kynnin við félagsritið þótt virkjunin sjálf verði alltaf jafn döpur.

9/12/09 07:01

Texi Everto

Jámm, ég er alltaf að reyna að smala beljunum mínum yfir Hálslón, en þær sökkva bara. Landsvirkjun er alveg brjál, þeir segja að beljur skemmi hverflana

Glúmur:
  • Fæðing hér: 8/8/03 13:32
  • Síðast á ferli: 23/6/16 16:18
  • Innlegg: 45
Eðli:
Ég er Glúmur Angan verzlunar- og múgæsingamaður. Vertu hjartanlega velkomin(n) á þessa lítilfjörlegu síðu mína og endilega fáðu þér kaffibolla og lummu af borðinu.
Fræðasvið:
Verzlunar- og múgæsingamaður
Æviágrip:
Glúmur Angan er fæddur og uppalinn að Hálsakoti í Háadal. Ungur að árum var Glúmur fljótur upp á lag með að gera gys að jafnöldrum sínum og þótti honum þeir tregir. Varð þetta til þess að jafnaldrar Glúms forðuðust hann og óskuðu enskis frekar en að verða ekki fyrir háðslegum skætingi og níðvísum hans er síst varði, varð Glúmur fljótt vinalaus með öllu utan prestinn á Síðu sem Glúmur heimsótti oft og ræddu þeir jafnan saman heilu dægrin.Glúmur þótti duglegur til verks og þá sérstaklega höfuðverks en hann bar því tíðum við að hann gæti eigi farið út á engi eða sinnt gegningum sökum höfuðverks. Glúmur átti eigi í vandræðum með að útskíra höfuðverkinn og sagði hann vegna þess að slíkar gáfur hefði hann að hann hreinlega verkjaði í höfuðið ef hann mætti eigi huxa um eitthvað gáfulegt. Þessu trúði enginn nema presturinn á Síðu sem tæmdi safnaðarsjóðinn til þess að hægt væri að senda Glúm til náms í Lærðaskólanum. Því er skemmst frá að segja að Glúm þótti ekki mikið koma til gáfnafars kennaranna í Lærðaskólanum og sótti því enga tíma, sem varð til þess að Glúmur var rekinn úr skólanum strax á haustmánuðum. Tók þá Glúmur sér allrahanda hluti fyrir hendur og tók stefnuna á þá braut sem hann fylgdi æ síðan sem verzlunar- og múgæsingamaður.Meðal þeirra hluta sem hann var hvað frægastur fyrir var að æsa fyrrverandi bekkjarfélaga sína til að æpa "Pereat" út um alla Reykjavík þó svo að enginn þeirra vissi hvað það þýddi, slíkir vanvitar sem þeir voru, hló þá Glúmur og nuddaði saman höndunum eins og hann gerði svo oft er hann var eitthvað að bralla.Glúmur fór snemma að stunda verzlun og var fljótt farinn að standa í útflutningi. Glúmur var snjall í viðskiptum, ef ekki viðsjárverður, og varð fljótt ríkur af viðskiptum sínum þó stundum orkuðu þau tvímælis. Danska krúnan varð til dæmis að grípa fram fyrir verzlun Glúms í Danmörku þegar hann varð uppvís af því að hafa selt reyðinnar býsn af mjöli til Dana sem síðar kom í ljós að var ekkert annað en vikur og jafnvel alvarlegra var hversu margir veiktust eftir að Glúmur seldi Dönum móköggla sem þrumara. Enn þann dag í dag eru verzlunarsvik Glúms kennd í grunnskólum í Danmörku og á hann væntanlega stóran þátt í því hversu mjög Danir eru kvekktir og varir um sig í návist Íslendinga.Glúmur var í seinni tíð virtur galdrabrennu forkólfur og "ÚltraKóbalt" veldi hans var stórt í sniðum.